Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Leitaðu að verðmætum sem eru miklu betri en gull

Leitaðu að verðmætum sem eru miklu betri en gull

Hefurðu einhvern tíma fundið gullmola? Mjög fáir hafa gert það. En milljónir manna hafa fundið verðmæti sem eru miklu betri en gull. Það er viskan frá Guði sem ,fæst ekki fyrir skíragull.‘ – Job. 28:12, 15.

BIBLÍUNEMENDUR eru að sumu leyti eins og gullgrafarar. Þeir þurfa að leggja heilmikið á sig og leita jafnt og þétt að ómetanlegri visku í Biblíunni. En hvað geta biblíunemendur lært af gullleitarmönnum? Lítum á þrennt.

ÞÚ FINNUR GULLMOLA

Ímyndaðu þér að þú sért að ganga með fram á og sjáir glampa á eitthvað í sólinni. Þú beygir þig niður og uppgötvar að þú hefur fundið gullmola. Þú ert himinlifandi. Molinn er minni en eldspýtuhaus og sjaldgæfari en fyrsta flokks demantur. Þú lítur auðvitað í kringum þig eftir fleiri gullmolum.

Vera má að þú hafir upplifað eitthvað sambærilegt þegar vottur Jehóva bankaði hjá þér til að ræða um vonina sem er að finna í Biblíunni. Þú manst kannski vel eftir því þegar þú fannst fyrsta andlega gullmolann, ef svo má að orði komast. Kannski var það þegar þú sást nafn Guðs, Jehóva, í fyrsta skipti í Biblíunni. (2. Mós. 6:3, neðanmáls) Eða var það þegar þú lærðir að þú gætir orðið vinur Jehóva? (Jak. 2:23) Þú vissir strax að þú hefðir fundið verðmæti sem eru betri en gull. Og þér var sennilega mikið í mun að finna fleiri andlega gullmola.

ÞÚ FINNUR FLEIRI GULLMOLA

Gullkorn og gullflögur safnast stundum fyrir í ám og lækjum. Iðinn gullleitarmaður getur fundið nokkur kíló á slíkum stöðum ef hann er að í nokkra mánuði, og andvirðið getur hlaupið á milljónum króna.

Þegar þú fórst að kynna þér Biblíuna með hjálp votta Jehóva var þér kannski innanbrjósts eins og gullleitarmanni sem finnur fullt af gullmolum í árseti. Þú hugleiddir hvert biblíuversið á fætur öðru og bættir við þekkingarsjóð þinn. Það auðgaði þig andlega. Þegar þú meðtókst þessi dýrmætu biblíusannindi lærðirðu hvernig þú gætir eignast náið samband við Jehóva, látið kærleika hans varðveita þig og hlotið eilíft líf. – Jak. 4:8; Júd. 20, 21.

Ertu eins og iðinn gullgrafari þegar þú leitar að verðmætum biblíusannindum?

Þú varst eflaust iðinn við að leita eftir andlegum verðmætum, rétt eins maður sem leitar af kappi að gullmolum í árseti. Eftir að hafa lært grundvallarsannindi Biblíunnar fannstu þig trúlega knúinn til að vígja Jehóva líf þitt og skírast. – Matt. 28:19, 20.

HALTU LEITINNI ÁFRAM

Gullleitarmaður finnur stundum gull í örlitlu magni í storkubergi. Sums staðar í berginu er nægilega mikið af gulli til að það borgi sig að mala það og vinna gullið úr því. Við fyrstu sýn virðist kannski ekki vera neitt gull í berginu. Hvers vegna? Vegna þess að berg er talið ríkt af gulli þó ekki séu nema 10 grömm af því í tonni af grjóti. En fyrir gullleitarmann er samt vel þess virði að vinna það.

Maður þarf að halda áfram að leggja sig fram eftir að „byrjendafræðslunni um Krist“ lýkur. (Hebr. 6:1, 2) Þú þarft að leitast við að læra eitthvað nýtt af biblíunámi þínu og vinna úr efninu. Hvað geturðu gert til að biblíunám þitt skili árangri, jafnvel þótt þú hafir verið biblíunemandi árum saman?

Vertu námfús. Vertu vakandi fyrir smáatriðum. Leggðu þig stöðugt fram og þá finnurðu verðmæt gullkorn í Biblíunni. (Rómv. 11:33) Notaðu öll leitarverkfæri sem eru í boði á þínu tungumáli til að grafa eftir visku og leiðsögn Guðs. Leitaðu þolinmóður að þeirri leiðsögn sem þú þarfnast og svörum við spurningum þínum. Spyrðu aðra hvaða ritningarstaðir og greinar hafi hvatt þá og hjálpað þeim sérstaklega. Segðu öðrum frá því sem þú hefur uppgötvað í biblíunámi þínu og fundist áhugavert.

Markmið þitt er að sjálfsögðu ekki eingöngu að viða að þér þekkingu. „Þekkingin blæs menn upp,“ sagði Páll postuli. (1. Kor. 8:1) Þess vegna skaltu gera allt sem þú getur til að vera auðmjúkur og viðhalda sterkri trú. Reglulegt sjálfsnám og biblíunám í fjölskyldunni hjálpar þér að lifa eins og Jehóva vill og er þér hvatning til að aðstoða aðra. Síðast en ekki síst geturðu glaðst yfir því að hafa fundið verðmæti sem eru miklu betri en gull. – Orðskv. 3:13, 14.