Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ertu fús til að bíða þolinmóður?

Ertu fús til að bíða þolinmóður?

„Verið þið einnig þolinmóð.“ – JAK. 5:8.

SÖNGVAR: 114, 79

1, 2. (a) Hvað gæti orðið til þess að við spyrðum: „Hversu lengi?“ (b) Hvers vegna getur fordæmi trúfastra þjóna Guðs til forna verið okkur til uppörvunar?

„HVERSU lengi?“ Trúföstu spámennirnir Jesaja og Habakkuk spurðu þessarar spurningar. (Jes. 6:11; Hab. 1:2) Þegar Davíð konungur orti 13. sálminn spurði hann líka fjórum sinnum: „Hve lengi?“ (Sálm. 13:2, 3) Drottinn okkar, Jesús Kristur, spurði jafnvel þessarar spurningar þegar fólk í kringum hann sýndi af sér mikið trúleysi. (Matt. 17:17) Það ætti því ekki að koma okkur á óvart ef við veltum stundum þessari sömu spurningu fyrir okkur.

2 Hvað gæti orðið til þess að við spyrðum: „Hversu lengi?“ Kannski höfum við orðið fyrir einhvers konar óréttlæti. Eða kannski þurfum við að takast á við háan aldur og veikindi eða álagið sem fylgir lífinu á þessum ,örðugu tíðum‘. (2. Tím. 3:1) Það gæti líka verið að röng viðhorf fólks í kringum okkur séu að gera út af við okkur. Hver sem ástæðan fyrir spurningunni kann að vera er hughreystandi að vita að trúir þjónar Jehóva til forna spurðu þessarar sömu spurningar og voru ekki dæmdir fyrir það.

3. Hvað getur hjálpað okkur þegar við erum í erfiðum aðstæðum?

3 En hvað getur hjálpað okkur í erfiðum aðstæðum sem þessum? Lærisveininum Jakobi, hálfbróður Jesú, var innblásið að skrifa: „Þreyið því, systkin, þangað til Drottinn kemur.“ (Jak. 5:7) Já, við þurfum öll að vera þolinmóð. En hvað er fólgið í þessum göfuga eiginleika?

HVAÐ ER ÞOLINMÆÐI?

4, 5. (a) Hvað felst í því að vera þolinmóður? (b) Hvernig lýsir lærisveinninn Jakob einni hlið þolinmæðinnar? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

4 Í Biblíunni kemur fram að heilagur andi gefi okkur þolinmæði og að ófullkomnir menn geti ekki sýnt hana í þeim mæli sem þeir þurfa nema fyrir hjálp Guðs. Þolinmæði er gjöf frá Guði og að vera þolinmóð er mikilvæg leið til að sýna að við elskum hann. Við sýnum líka að við elskum aðra með því að vera þolinmóð. Ef við erum stöðugt óþolinmóð dregur það úr kærleikanum en þolinmæði ýtir undir kærleika. (1. Kor. 13:4; Gal. 5:22) Þolinmæði felur í sér marga aðra mikilvæga eiginleika. Hún er til dæmis nátengd þolgæði en það gerir okkur kleift að halda út í erfiðum aðstæðum með jákvæðu hugarfari. (Kól. 1:11; Jak. 1:3, 4) Að vera þolinmóður getur líka falið í sér að þola þjáningar án þess að gjalda í sömu mynt og vera staðfastur í hvaða erfiðleikum sem kunna að koma upp. Biblían hvetur okkur auk þess til að gera okkur grein fyrir að við þurfum að bíða og gera það af fúsu geði. Þessi hlið þolinmæðinnar kemur vel fram í Jakobsbréfinu 5:7, 8. (Lestu.)

5 Hvers vegna er mikilvægt að við séum sátt við að þurfa að bíða eftir að Jehóva grípi í taumana? Jakob líkir aðstæðum okkar við aðstæður bónda. Bóndinn vinnur hörðum höndum við að sá í akur sinn en hefur samt enga stjórn á veðrinu né á vexti þess sem hann sáir. Hann getur ekki flýtt tímanum. Hann sættir sig við að þurfa að bíða þolinmóður eftir „hinum dýrmæta ávexti jarðarinnar“. Á svipaðan hátt er margt sem við höfum enga stjórn á meðan við bíðum eftir að loforð Jehóva rætist. (Mark. 13:32, 33; Post. 1:7) Við þurfum að bíða þolinmóð rétt eins og bóndinn.

6. Hvað getum við lært af fordæmi Míka spámanns?

6 Aðstæðum okkar svipar til ástandsins sem ríkti á dögum Míka spámanns. Hann var uppi í stjórnartíð hins illa konungs Akasar, á tíma sem spilling af öllu tagi var útbreidd. Fólk var orðið leikið í að fremja illskuverk. (Lestu Míka 7:1-3.) Míka vissi að sjálfur gat hann ekkert gert til að breyta ástandinu. En hvað gat hann þá gert? Hann segir: „Ég mæni í von til Drottins, bíð eftir Guði hjálpræðis míns. Guð minn mun heyra til mín.“ (Míka 7:7) Við þurfum líka að sýna biðlund rétt eins og Míka.

7. Hvers vegna er ekki nóg að við bíðum bara eftir að Jehóva uppfylli loforð sín?

7 Ef við höfum trú eins og Míka bíðum við fúslega eftir Jehóva. Við erum ekki í sömu sporum og fangi sem bíður í klefanum sínum eftir að vera tekinn af lífi. Hann neyðist til að bíða og hlakkar ekki til þess sem er í vændum. Við erum í allt annarri stöðu. Við bíðum fús eftir Jehóva því að við vitum að hann uppfyllir loforð sitt um að veita okkur eilíft líf á hárréttum tíma, á besta tímanum til þess. Þess vegna höldum við þolgóð út með gleði. (Kól. 1:11, 12) Ef við gerðum það ekki – heldur kvörtuðum og kveinuðum yfir því að Jehóva gripi ekki nógu fljótt í taumana – væri það honum til ama. – Kól. 3:12.

TRÚFASTIR ÞJÓNAR GUÐS SEM SÝNDU ÞOLINMÆÐI

8. Hvað þurfum við að minna okkur á þegar við hugleiðum fordæmi trúfastra karla og kvenna til forna?

8 Við verðum fúsari til að bíða ef við hugsum um trúfasta karla og konur til forna sem biðu þolinmóð eftir að Jehóva uppfyllti loforð sín. (Rómv. 15:4) Þegar við hugleiðum fordæmi þeirra er gott að minna sig á hversu lengi þau þurftu að bíða, hvers vegna þau voru fús til þess og hvaða blessun þau hlutu fyrir að vera þolinmóð.

Abraham þurfti að bíða í mörg ár eftir að Esaú og Jakob, sonarsynir hans, fæddust. (Sjá 9. og 10. grein.)

9, 10. Hve lengi þurftu Abraham og Sara að bíða eftir Jehóva?

9 Lítum á Abraham og Söru sem dæmi. Þau eru í hópi þeirra „sem trúa og eru stöðuglynd [þolinmóð, NW] og erfa það sem Guð hefur heitið“. Jehóva hafði lofað að blessa Abraham og gefa honum fjölda afkomenda. Í Biblíunni segir að ,Abraham hafi öðlast það sem Guð hafði heitið honum er hann hafði beðið þess með stöðuglyndi‘. (Hebr. 6:12, 15) Hvers vegna þurfti Abraham að vera þolinmóður? Einfaldlega vegna þess að það tók tíma að uppfylla loforðið. Sáttmálinn, sem Jehóva gerði við Abraham, gekk í gildi 14. nísan 1943 f.Kr. þegar þau Sara fóru yfir ána Efrat ásamt heimilisfólki sínu og gengu inn í fyrirheitna landið. Eftir það þurfti Abraham að bíða í 25 ár eftir að Ísak, sonur hans, fæddist árið 1918 f.Kr. og síðan í 60 ár til viðbótar eftir að sonarsynir hans, Esaú og Jakob, fæddust árið 1858 f.Kr. – Hebr. 11:9.

10 Hve mikið land fékk Abraham frá Jehóva? Okkur er sagt: „Ekki gaf hann [Jehóva] honum [Abraham] óðal hér, ekki eitt þverfet. En hann hét honum að gefa honum landið til eignar og niðjum hans eftir hann þótt hann væri enn barnlaus.“ (Post. 7:5) Það var ekki fyrr en 430 árum eftir að Abraham fór yfir ána Efrat að afkomendur hans urðu skipulögð þjóð sem átti eftir að leggja undir sig landið. – 2. Mós. 12:40-42; Gal. 3:17.

11. Hvers vegna var Abraham fús til að bíða eftir Jehóva og hvaða blessun hefur þolinmæði hans í för með sér?

11 Abraham beið fúslega því að þolinmæði hans byggðist á trú á Jehóva. (Lestu Hebreabréfið 11:8-12.) Hann var sáttur við að bíða þó að hann fengi ekki að sjá loforð Jehóva rætast að öllu leyti á sínu æviskeiði. En hugsaðu þér hve glaður hann verður þegar hann rís upp í paradís á jörð. Það mun koma honum á óvart að sjá hve stór hluti Biblíunnar fjallar um líf hans og afkomenda hans. * Ímyndaðu þér hve ánægður hann verður þegar hann skilur í fyrsta sinn hve mikilvægu hlutverki hann gegndi í því að fyrirætlun Jehóva um fyrirheitna niðjann næði fram að ganga. Honum á eflaust eftir að finnast þessi langa bið hafa verið vel þess virði.

12, 13. Hvers vegna þurfti Jósef að vera þolinmóður og hvaða hugarfar sýndi hann?

12 Jósef, sonarsonarsonur Abrahams, var líka fús til að sýna þolinmæði. Hann þurfti að þola hræðilegt óréttlæti. Bræður hans seldu hann í þrældóm þegar hann var um 17 ára. Síðar var hann ranglega sakaður um að hafa reynt að nauðga konu húsbónda síns og var varpað í fangelsi þar sem hann var bundinn í fjötra. (1. Mós. 39:11-20; Sálm. 105:17, 18) Það leit út fyrir að hann hefði frekar hlotið refsingu en blessun fyrir að þjóna Guði trúfastur. En 13 árum síðar breyttust aðstæður hans skyndilega. Jósef var látinn laus úr fangelsinu og gerður að næstæðsta valdhafa Egyptalands. – 1. Mós. 41:14, 37-43; Post. 7:9, 10.

13 Varð Jósef bitur út af óréttlætinu? Hætti hann að treysta á Jehóva, Guð sinn? Nei. Hvað hjálpaði Jósef að bíða þolinmóður? Það var trú hans á Jehóva. Hann sá að Jehóva hafði stjórn á því sem gerðist. Tökum eftir hvernig hugarfar hans endurspeglast í því sem hann sagði við bræður sína: „Óttist ekki því að ekki kem ég í Guðs stað. Þið ætluðuð að gera mér illt en Guð sneri því til góðs. Hann vildi gera það sem nú er orðið og þannig varðveita líf margra manna.“ (1. Mós. 50:19, 20) Jósef varð ljóst að biðin var vel þess virði.

14, 15. (a) Hvers vegna má segja að Davíð hafi sýnt einstaka þolinmæði? (b) Hvað hjálpaði Davíð að bíða þolinmóður?

14 Davíð konungur þurfti einnig að þola mikið óréttlæti. Hann var ungur að árum þegar Jehóva smurði hann til að verða framtíðarkonungur Ísraels en hann þurfti þó að bíða um 15 ár eftir að hljóta konungdóm, og þá aðeins yfir sinni eigin ættkvísl. (2. Sam. 2:3, 4) Hluta af þessum tíma elti hinn ótrúi Sál konungur hann og leitaðist við að drepa hann. * Davíð þurfti því að vera á flótta og flúði stundum til annars lands eða hafðist við í hellum í óbyggðunum. Sál féll að lokum í bardaga en jafnvel eftir það þurfti Davíð að bíða í sjö ár eftir að hljóta konungdóm yfir allri Ísraelsþjóðinni. – 2. Sam. 5:4, 5.

15 Hvers vegna var Davíð fús til að bíða þolinmóður? Hann svarar því í sama sálmi og hann spyr fjórum sinnum: „Hve lengi?“ Hann segir: „Ég treysti gæsku þinni, hjarta mitt gleðst yfir hjálp þinni. Ég vil syngja Drottni lof því að hann hefur gert vel til mín.“ (Sálm. 13:6) Davíð treysti á gæsku Jehóva. Hann vænti þess með gleði að hljóta frelsun og hugleiddi hvernig Jehóva hafði þegar hjálpað honum. Já, Davíð var viss um að það væri þess virði að bíða.

Jehóva ætlast til að við séum þolinmóð.

16, 17. Hvernig hafa bæði Jehóva Guð og Jesús Kristur sett okkur einstakt fordæmi um að vera fús til að bíða?

16 Jehóva ætlast til að við séum þolinmóð. En hann ætlast ekki til að við gerum nokkuð sem hann vill ekki gera sjálfur. Hann hefur sett okkur besta fordæmið um að vera fús til að bíða. (Lestu 2. Pétursbréf 3:9.) Jehóva hefur beðið þolinmóður um þúsundir ára eftir að hægt verði að útkljá fyrir fullt og allt siðferðilegu deilumálin sem upp komu í Edengarðinum. Hann bíður þolinmóður og fullur eftirvæntingar þess tíma þegar nafn hans verður helgað að öllu leyti. Þeir sem vona á Jehóva og bíða spenntir eftir honum hljóta þá ólýsanlega blessun. – Jes. 30:18.

17 Jesús hefur einnig verið fús til að bíða. Þó að hann hafi reynst trúfastur allt til dauða hér á jörð og borið fram andvirði lausnarfórnar sinnar árið 33 þurfti hann að bíða með að taka við völdum til ársins 1914. (Post. 2:33-35; Hebr. 10:12, 13) Það verður ekki fyrr en við lok þúsund ára stjórnar Jesú að allir óvinir hans verða gerðir að engu. (1. Kor. 15:25) Hann mun þá hafa beðið mjög lengi en við megum vera viss um að biðin verði þess virði.

HVAÐ GETUR HJÁLPAÐ OKKUR?

18, 19. Hvað getur hjálpað okkur að vera fús til að bíða þolinmóð?

18 Við þurfum því greinilega, hvert og eitt okkar, að vera þolinmóð og fús til að bíða. En hvað getur hjálpað okkur til þess? Biðjum um anda Guðs. Munum að langlyndi eða þolinmæði er hluti af ávexti andans. (Ef. 3:16; 6:18; 1. Þess. 5:17-19) Biðjum Jehóva innilega að hjálpa okkur að halda þolinmóð út.

19 Munum líka hvað hjálpaði Abraham, Jósef og Davíð að bíða þolinmóðir eftir að loforð Jehóva uppfylltust. Þeir trúðu á Jehóva og treystu að hann hefði stjórn á því sem gerðist. Þeir einblíndu ekki á sjálfa sig og eigin þægindi. Þegar við hugsum um hve vel þeim vegnaði fáum við hvatningu til að bíða þolinmóð.

20. Hvað ættum við að vera ákveðin í að gera?

20 Þó að erfiðleikar og prófraunir verði á vegi okkar erum við því ákveðin í að bíða þolinmóð. Kannski spyrjum við stundum Jehóva: „Hversu lengi?“ (Jes. 6:11) En hann styrkir okkur hvert og eitt með heilögum anda sínum og því getum við tekið undir með Jeremía spámanni sem sagði: „Drottinn er hlutdeild mín ... þess vegna vona ég á hann.“ – Harmlj. 3:21, 24.

^ gr. 11 Í 1. Mósebók eru heilir fimmtán kaflar sem geyma frásöguna af Abraham. Auk þess nefna ritarar Grísku ritninganna Abraham meira en 70 sinnum.

^ gr. 14 Jehóva hafnaði Sál eftir að hann hafði ríkt í rétt rúmlega tvö ár en hann leyfði honum samt að ríkja áfram í 38 ár áður en hann dó. – 1. Sam. 13:1, Biblían 1981; Post. 13:21.