Spurningar frá lesendum
Hvers vegna er munur á frásögum Matteusar og Lúkasar af fyrstu æviárum Jesú?
Frásaga Matteusar af fæðingu Jesú og æskuárum er að sumu leyti ólík frásögu Lúkasar vegna þess að guðspjallaritararnir sögðu frá atburðunum frá mismunandi sjónarhóli.
Í frásögu Matteusar er athyglinni beint að atburðum sem sneru að Jósef. Þar er sagt frá fyrstu viðbrögðum hans við því að María væri barnshafandi, frá draumi hans þar sem engill útskýrði málið og frá því hvernig hann fór eftir leiðbeiningum engilsins. (Matt. 1:19-25) Matteus lýsir því líka þegar engill birtist Jósef í draumi og segir honum að flýja til Egyptalands. Hann segir frá flótta hans með fjölskylduna, draumnum þar sem engill sagði honum að snúa aftur til Ísraelslands, ferðinni til baka og ákvörðun hans að setjast að í Nasaret. (Matt. 2:13, 14, 19-23) Í fyrstu köflum Matteusarguðspjalls er Jósef nefndur á nafn níu sinnum en María aðeins fjórum sinnum.
Frásaga Lúkasar beinir athyglinni hins vegar miklu meira að Maríu. Þar er sagt frá því þegar engillinn Gabríel heimsækir hana, frá heimsókn hennar til Elísabetar, frænku sinnar, og frá því þegar hún lofar Jehóva. (Lúk. 1:26-56) Lúkas nefnir líka það sem Símeon sagði við Maríu um þjáningarnar sem Jesús átti eftir að þola. Og í frásögn hans af ferð fjölskyldunnar til musterisins þegar Jesús var 12 ára vitnar hann í orð Maríu en ekki Jósefs og segir einnig frá því að þessi atburður hafi haft mikil áhrif á hana. (Lúk. 2:19, 34, 35, 48, 51) Í tveim fyrstu köflum Lúkasarguðspjalls er María nefnd á nafn 13 sinnum en Jósef aðeins þrisvar. Matteus leggur sem sagt áherslu á það sem Jósef hugsaði og gerði en Lúkas talar meira um hlutverk Maríu og það sem hún upplifði.
Það er líka munur á ættartölunum sem er að finna í guðspjöllunum tveim. Matteus rekur ætt Jósefs og sýnir fram á að Jesús hafi verið lögmætur erfingi að konungdómi Davíðs þar sem hann var fóstursonur Jósefs, en Jósef var afkomandi Davíðs konungs í ætt Salómons, sonar hans. (Matt. 1:6, 16) Lúkas virðist hins vegar rekja ætt Maríu og sýnir fram á að Jesús hafi verið réttmætur erfingi að konungdómi Davíðs vegna bókstaflegra ættartengsla þar sem hann var „fæddur af kyni Davíðs“. (Rómv. 1:3) María var afkomandi Davíðs konungs í ætt Natans, sonar hans. (Lúk. 3:31) En af hverju skráir Lúkas ekki Maríu sem dóttur Elí, föður hennar, í ættartölu sinni? Af því að alla jafna voru aðeins karlmenn skráðir í opinberum ættartölum. Þegar Lúkas segir að Jósef hafi verið sonur Elí skildu menn það því svo að hann hafi verið tengdasonur hans. – Lúk. 3:23.
Ættartölurnar í guðspjöllum Matteusar og Lúkasar staðfesta greinilega að Jesús hafi verið hinn fyrirheitni Messías. Sú staðreynd að Jesús var afkomandi Davíðs konungs var vel þekkt. Farísear og saddúkear gátu ekki einu sinni véfengt það. Ættartölurnar í Matteusi og Lúkasi eru enn þá eitt af því sem myndar grundvöll trúar okkar og vitna um að loforð Guðs séu algerlega örugg.