Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jóhannes skírari – fordæmi hans kennir okkur að varðveita gleðina

Jóhannes skírari – fordæmi hans kennir okkur að varðveita gleðina

ER EITTHVERT verkefni í þjónustu Jehóva sem þú brennur í skinninu að fá að sinna en aðstæður leyfa það ekki? Kannski er það í umsjón einhvers annars eða kannski er það þjónustuverkefni sem þú hafðir áður. Vera má að aldur, slæm heilsa, fjárhagserfiðleikar eða fjölskylduábyrgð takmarki það sem þú getur gert. Það gæti líka verið að vegna breytinga innan safnaðarins hafirðu þurft að láta af hendi verkefni sem þú hafðir sinnt lengi. Sama hver ástæðan er gæti þér fundist þú ekki gera eins mikið og þú vildir í þjónustu Jehóva. Þá gætirðu skiljanlega stundum verið svekktur. Hvernig geturðu komið í veg fyrir að neikvæðar tilfinningar, eins og depurð, biturð eða gremja, festi rætur? Hvernig geturðu varðveitt gleðina?

Við getum dregið mikilvægan lærdóm af Jóhannesi skírara um það að varðveita gleðina. Verkefni Jóhannesar var einstakt en hann sá líklega ekki fyrir hvernig líf sitt í þjónustu Jehóva yrði. Það hafði örugglega ekki hvarflað að honum að hann yrði lengur í fangelsi en í þjónustunni. En Jóhannes var eftir sem áður glaður og hann varðveitti þessa gleði allt til enda. Hvernig gat hann gert það? Og hvernig getum við varðveitt gleðina þótt við verðum fyrir vonbrigðum?

ÁNÆGJULEGT VERKEFNI

Vorið 29 hóf Jóhannes verkefni sitt sem fyrirrennari Messíasar. „Takið sinnaskiptum, himnaríki er í nánd,“ sagði hann. (Matt. 3:2; Lúk. 1:12–17) Margir brugðust vel við. Fólk streymdi að úr órafjarlægð til að hlusta á boðskap hans og margir iðruðust og létu skírast. Jóhannes varaði líka sjálfumglaða trúarleiðtogana við dóminum sem biði þeirra ef þeir iðruðust ekki. (Matt. 3:5–12) Hápunktur þjónustu hans var síðan þegar hann skírði Jesú haustið 29. Þaðan í frá hvatti Jóhannes aðra til að fylgja Jesú, hinum fyrirheitna Messíasi. – Jóh. 1:32–37.

Í ljósi þess einstaka hlutverks sem Jóhannes gegndi gat Jesús sagt: „Enginn er sá af konu fæddur sem meiri sé en Jóhannes skírari.“ (Matt. 11:11) Jóhannes hefur án efa glaðst yfir þeirri blessun sem hann hlaut. Nú til dags njóta einnig margir ríkulegrar blessunar. Tökum bróður að nafni Terry sem dæmi. Hann og Sandra konan hans hafa þjónað Jehóva í fullu starfi í meira en 50 ár. „Ég hef fengið mörg ánægjuleg verkefni,“ segir Terry. „Ég hef verið brautryðjandi, Betelíti, sérbrautryðjandi, farandhirðir, umdæmishirðir og nú er ég sérbrautryðjandi á ný.“ Það er ánægjulegt að fá verkefni í þjónustu Jehóva en eins og við munum sjá af dæmi Jóhannesar þurfum við að hafa fyrir því að varðveita gleðina þegar aðstæður okkar breytast.

VERUM ÞAKKLÁT

Jóhannes skírari varðveitti gleðina vegna þess að hann var þakklátur fyrir þau þjónustuverkefni sem hann hafði. Tökum dæmi. Eftir skírn Jesú fór fylgjendum Jóhannesar fækkandi en fylgjendum Jesú fjölgaði. Lærisveinar Jóhannesar höfðu áhyggjur af því og sögðu við hann: „Rabbí, sá sem var hjá þér handan Jórdanar ... hann er að skíra og allir koma til hans.“ (Jóh. 3:26) Jóhannes svaraði: „Sá er brúðguminn sem á brúðina en vinur brúðgumans, sem stendur hjá og hlýðir á hann, gleðst mjög við rödd hans. Þessi gleði er nú mín að fullu.“ (Jóh. 3:29) Jóhannes keppti ekki við Jesú og honum fannst verkefni sitt ekki hafa minna gildi þó að verkefni Jesú væri mikilvægara. Jóhannes varðveitti gleðina vegna þess að hann mat það mikils að vera „vinur brúðgumans“.

Hugarfar Jóhannesar gerði honum kleift að vera ánægður þótt verkefni hans hafi ekki verið auðvelt. Hann var til dæmis nasírei frá fæðingu og mátti því ekki drekka vín. (Lúk. 1:15) „Jóhannes ... át hvorki né drakk,“ sagði Jesús um einfaldan lífsstíl hans. Jesús og lærisveinar hans voru hins vegar ekki háðir slíkum hömlum heldur lifðu þeir hefðbundnara lífi. (Matt. 11:18, 19) Jóhannes vann ekki heldur nein kraftaverk en hann vissi að lærisveinar Jesú höfðu fengið vald til þess, þar á meðal sumir sem höfðu áður fylgt honum. (Matt. 10:1; Jóh. 10:41) En Jóhannes lét ekki stöðu annarra trufla sig heldur sinnti kappsamur verkefni sínu sem hann hafði fengið frá Jehóva.

Við getum líka varðveitt gleðina ef við erum þakklát fyrir það verkefni sem við höfum núna í þjónustu Jehóva. Terry, sem áður var minnst á, segir: „Ég einbeitti mér að hverju verkefni sem mér var falið.“ Þegar hann lítur yfir farinn veg í þjónustunni í fullu starfi segir hann: „Ég hef enga eftirsjá, aðeins dásamlegar minningar.“

Við getum orðið enn glaðari með því að hugleiða hvað gefur öllum verkefnum í þjónustu Guðs raunverulegt gildi. Það er sá heiður að fá að vera „samverkamenn Guðs“. (1. Kor. 3:9) Með því að hugleiða hve mikill heiður það er að þjóna Jehóva getum við komið í veg fyrir að rangt hugarfar ræni okkur gleðinni, rétt eins og við getum viðhaldið gljáanum á dýrmætum erfðagrip með því að fægja hann. Þá föllum við ekki í þá gryfju að bera fórnir okkar saman við fórnir annarra. Og okkur mun ekki finnast verkefni okkar hafa minna gildi en verkefni annarra. – Gal. 6:4.

EINBEITUM OKKUR AÐ ÞVÍ SEM ER MIKILVÆGT Í AUGUM JEHÓVA

Jóhannes vissi ef til vill að þjónusta sín tæki enda en hann hefur kannski ekki áttað sig á hve skyndilega það yrði. (Jóh. 3:30) Árið 30, hálfu ári eftir að Jóhannes hafði skírt Jesú, lét Heródes konungur varpa honum í fangelsi. Samt sem áður gerði Jóhannes allt sem hann gat til að halda áfram að boða trúna. (Mark. 6:17–20) Hvað hjálpaði honum að vera glaður þrátt fyrir þessar breytingar? Hann einbeitti sér að því sem var mikilvægt í augum Jehóva.

Meðan Jóhannes var í fangelsi fékk hann fréttir af þjónustu Jesú. (Matt. 11:2; Lúk. 7:18) Hann var sannfærður um að Jesús væri Messías en kannski velti hann fyrir sér hvernig Jesús myndi uppfylla allt sem Ritningarnar spáðu fyrir um hann. Fyrst Messías átti að hljóta konungdóm, átti Jesús þá fljótlega eftir að verða konungur? Þýddi það að Jóhannes yrði leystur úr haldi? Hann vildi fá betri skilning á hlutverki Jesú og sendi því tvo af lærisveinum sínum til að spyrja Jesú spurningar: „Ert þú sá sem koma skal eða eigum við að vænta annars?“ (Lúk. 7:19) Jóhannes hlýtur að hafa hlustað hugfanginn á þá þegar þeir sneru aftur og sögðu frá því hvernig Jesús læknaði fólk fyrir kraftaverk. Jesús hafði beðið þá að segja honum: „Blindir fá sýn, haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp og fátækum er flutt fagnaðarerindi.“ – Lúk. 7:20–22.

Þessar fréttir hafa án efa styrkt Jóhannes. Þær staðfestu að Jesús væri að uppfylla spádómana um Messías. Þótt Jesús myndi ekki leysa Jóhannes úr fangelsi vissi Jóhannes að þjónusta sín hefði ekki verið til einskis. Hann hafði ástæðu til að vera glaður þrátt fyrir aðstæður sínar.

Að einbeita sér að jákvæðum fréttum af boðuninni um heim allan getur hjálpað okkur að varðveita gleðina.

Ef við líkjum eftir Jóhannesi og einbeitum okkur að því sem er mikilvægt í augum Jehóva getum við haldið út með gleði og þolinmæði. (Kól. 1:9–11) Það gerum við með því að lesa í Biblíunni og hugleiða það sem við lesum því að það minnir okkur á að það sem við gerum fyrir Guð er aldrei til einskis. (1. Kor. 15:58) Sandra segir: „Það hefur styrkt samband mitt við Jehóva að lesa kafla í Biblíunni á hverjum degi. Það hjálpar mér að beina athyglinni að honum en ekki sjálfri mér.“ Við getum einnig einbeitt okkur að fréttum af því sem trúsystkini okkar gera fyrir Jehóva, en það getur hjálpað okkur að einblína ekki aðeins á eigin aðstæður heldur á það sem Jehóva áorkar. „Þegar við horfum á mánaðarþættina í Sjónvarpi Votta Jehóva finnst okkur við vera nánari alheimsbræðralaginu,“ segir Sandra, „og það hjálpar okkur að varðveita gleðina í þjónustunni.“

Jóhannes skírari sinnti þjónustu sinni „í anda og krafti Elía“ þótt hún hafi ekki varað lengi. Og líkt og Elía var hann „maður eins og við“. (Lúk. 1:17; Jak. 5:17) Ef við líkjum eftir honum með því að vera þakklát og einbeita okkur að því sem er mikilvægt í augum Jehóva getum við líka verið glöð í þjónustunni, óháð aðstæðum.