Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 31

Við gefumst ekki upp

Við gefumst ekki upp

„Fyrir því læt ég ekki hugfallast.“ – 2. KOR. 4:16.

SÖNGUR 128 Verum þolgóð allt til enda

YFIRLIT *

1. Hvað þurfa þjónar Guðs að gera til að ljúka kapphlaupinu um lífið?

ÞJÓNAR Guðs eru í kapphlaupi um lífið. Hvort sem við erum nýbyrjuð að hlaupa eða höfum gert það árum saman þurfum við að halda áfram að hlaupa þangað til við náum í mark. Ráð Páls postula til kristinna manna í Filippí geta hvatt okkur til að klára hlaupið. Sumir í söfnuðinum höfðu þjónað Jehóva í mörg ár þegar þeir fengu bréfið frá Páli. Þeir stóðu sig vel en Páll minnti þá á að þeir þyrftu að vera þolgóðir í hlaupinu. Hann vildi að þeir fylgdu fordæmi sínu og héldu áfram að ,keppa að markinu‘. – Fil. 3:14.

2. Hvers vegna komu ráð Páls á réttum tíma?

2 Ráð Páls til Filippímanna komu á réttum tíma. Söfnuðurinn mátti þola fjandskap allt frá upphafi. Það byrjaði allt þegar Páll og Sílas komu til Filippí um árið 50, eftir að Guð hafði beðið þá um að ,koma yfir til Makedóníu‘. (Post. 16:9) Þar hittu þeir konu sem hét Lýdía. Hún hlustaði á þá og Jehóva ,opnaði hjarta hennar‘ fyrir fagnaðarerindinu. (Post. 16:14) Fljótlega lét hún skírast ásamt heimilisfólki sínu. En Satan var ekki lengi að láta til sín taka. Borgarbúar drógu Pál og Sílas fyrir ráðamenn borgarinnar og sökuðu þá ranglega um að efna til óspekta. Tvímenningarnir voru barðir, fangelsaðir og síðan beðnir að yfirgefa borgina. (Post. 16:16–40) Gáfust þeir upp? Síður en svo! En hvað með bræðurna og systurnar í hinum nýstofnaða söfnuði? Þau voru líka þolgóð. Fordæmi Páls og Sílasar hefur án efa verið þeim mikil hvatning.

3. Hvað vissi Páll og hvaða spurningar ætlum við að ræða?

3 Páll var staðráðinn í að gefast ekki upp. (2. Kor. 4:16) En hann vissi að til að klára hlaupið þyrfti hann að einbeita sér að endamarkinu. Hvað getum við lært af Páli? Hvaða dæmi um trúfasta þjóna Guðs nú á dögum sýna fram á að við getum verið þolgóð þrátt fyrir erfiðleika? Og hvernig getur framtíðarvonin gert okkur enn ákveðnari í að gefast aldrei upp?

HVAÐ GETUM VIÐ LÆRT AF PÁLI?

4. Hvernig hélt Páll sér uppteknum þrátt fyrir aðstæður sínar?

4 Hugsum um það sem Páll lagði á sig á þeim tíma sem hann skrifaði bréfið til Filippímanna. Hann var í stofufangelsi í Róm. Frelsi hans til að boða trúna var verulega skert. Engu að síður var hann önnum kafinn við að vitna fyrir gestum sínum og skrifa bréf til fjarlægra safnaða. Margir þjónar Guðs sem eiga ekki heimangengt nú á dögum nýta hvert tækifæri til að koma fagnaðarerindinu á framfæri við þá sem heimsækja þá. Þeir skrifa líka hvetjandi bréf til þeirra sem erfitt er að hitta heima.

5. Hvað hjálpaði Páli að einbeita sér að markinu, miðað við það sem hann segir í Filippíbréfinu 3:12–14?

5 Páll lét hvorki fyrri afrek né fyrri mistök verða til þess að hann missti einbeitinguna í þjónustunni. Hann sagði reyndar að hann þyrfti að ,gleyma því sem var að baki‘ til að geta ,seilst eftir því sem var fram undan‘, það er að segja klárað hlaupið. (Lestu Filippíbréfið 3:12–14.) Hvað hefði getað orðið til þess að Páll missti einbeitinguna? Í fyrsta lagi hafði hann notið mikillar velgengni innan gyðingdómsins. En hann mat það sem eintómt „sorp“. (Fil. 3:3–8) Í öðru lagi lét hann ekki lamast af sektarkennd vegna þess að hann hafði ofsótt kristna menn. Og í þriðja lagi hugsaði hann ekki sem svo að hann hefði þegar gert nóg fyrir Jehóva. Páll áorkaði miklu í þjónustunni þrátt fyrir að hafa verið fangelsaður, barinn, grýttur og beðið skipbrot, auk þess að skorta fæði og klæði. (2. Kor. 11:23–27) En Páll vissi að hann yrði að halda áfram óháð því sem hann hafði áorkað eða þurft að þola. Það á líka við um okkur.

6. Hverju gætum við þurft að gleyma ,sem er að baki‘?

6 Hvernig getum við líkt eftir Páli og ,gleymt því sem er að baki‘? Sum okkar gætu þurft að sigrast á sektarkennd vegna fyrri synda. Ef það á við um þig, hvernig væri þá að skoða vandlega lausnarfórn Krists í sjálfsnámi þínu? Ef við tökum þetta uppbyggjandi efni fyrir í sjálfsnámi okkar, hugleiðum það og gerum það að bænarefni gæti það hjálpað okkur að draga úr óþarfri sektarkennd. Við gætum jafnvel hætt að refsa sjálfum okkur fyrir syndir sem Jehóva hefur fyrirgefið. Hugsum um annað sem við getum lært af Páli. Sumir hafa sagt skilið við eftirsótta vinnu til að geta gert meira í þjónustunni við Jehóva. Á það við um þig? Geturðu þá gleymt því sem er að baki með því að sjá ekki eftir efnislegum gæðum sem þú hefur sagt skilið við? (4. Mós. 11:4–6; Préd. 7:10) ,Það sem er að baki‘ gæti jafnvel verið eitthvað sem við höfum gert í þjónustu Jehóva eða raunir sem við höfum gengið í gegnum. Auðvitað getur það styrkt sambandið við Jehóva að hugsa til þess hvernig hann hefur blessað okkur og stutt á liðnum árum. En við viljum aldrei vera það ánægð með sjálf okkur að við hugsum sem svo að verki okkar sé lokið. – 1. Kor. 15:58.

Í kapphlaupinu um lífið verðum við að einbeita okkur að endamarkinu og megum ekki láta neitt trufla okkur. (Sjá 7. grein.)

7. (a) Hvað verðum við að gera til að sigra í kapphlaupinu um lífið, samanber 1. Korintubréf 9:24–27? Lýstu með dæmi.

7 Páll skildi vel hvað Jesús átti við þegar hann hvatti okkur til að leggja hart að okkur. (Lúk. 13:23, 24) Páll vissi að hann þyrfti að leggja sig allan fram allt til enda, rétt eins og Kristur. Þess vegna líkti hann æviskeiði kristins manns við kapphlaup. (Lestu 1. Korintubréf 9:24–27.) Hlaupari í kapphlaupi hefur endamarkið stöðugt í huga og lætur ekkert trufla einbeitinguna. Þegar kapphlaup eru haldin innanbæjar gætu þátttakendur til dæmis þurft að leggja leið sína fram hjá fyrirtækjum og öðru sem gæti truflað þá. Finnst þér líklegt að hlaupari myndi stoppa til að skoða vörur í búðarglugga? Ekki ef hann vill vinna. Eins verðum við að forðast það sem gæti truflað einbeitingu okkar í kapphlaupinu um lífið. Ef við einbeitum okkur að markinu og leggjum hart að okkur eins og Páll hljótum við sigurlaunin.

AÐ TAKAST Á VIÐ TRÚARPRÓFRAUNIR

8. Hvaða þrjár prófraunir ætlum við að skoða?

8 Skoðum nú þrjár prófraunir sem geta orðið til þess að við hægjum á okkur, en þær eru óuppfylltar væntingar, dvínandi þróttur og langvinnir erfiðleikar. Það getur verið gagnlegt að sjá hvernig aðrir hafa tekist á við slíkar aðstæður. – Fil. 3:17.

9. Hvaða áhrif getur það haft á okkur ef væntingar okkar rætast ekki þegar við búumst við því?

9 Óuppfylltar væntingar. Það er eðlilegt að við þráum að sjá það góða sem Jehóva hefur lofað. Jehóva sagði til dæmis Habakkuk spámanni að bíða með eftirvæntingu þegar Habakkuk sagðist þrá að sjá Jehóva binda enda á illskuna í Júda. (Hab. 2:3) En þegar væntingar dragast á langinn gæti ákafi okkar dvínað og okkur gæti jafnvel fallist hendur. (Orðskv. 13:12) Tökum sem dæmi nokkuð sem gerðist snemma á 20. öld. Margir andasmurðir þjónar Guðs bjuggust við að hljóta laun sín á himni árið 1914. Hvernig brugðust þeir við þegar væntingar þeirra rættust ekki á þeim tíma?

Vonir Royals og Pearl Spatz rættust ekki árið 1914 en þau voru áfram trúföst áratugum saman. (Sjá 10. grein.)

10. Hvernig tókust hjón nokkur á við vonbrigði?

10 Tökum sem dæmi tvo trúfasta þjóna Guðs sem sigruðust á slíkum vonbrigðum. Bróðir Royal Spatz skírðist árið 1908, tvítugur að aldri. Hann var svo sannfærður um að hann myndi fljótlega hljóta laun sín að þegar hann bað systur að nafni Pearl að giftast sér sagði hann: „Þú veist hvað gerist árið 1914. Ef við ætlum að giftast er það ekki seinna vænna!“ Gáfust þessi hjón upp í kapphlaupinu um lífið þegar þau fengu ekki himnesk laun sín árið 1914? Nei, af því að aðalmarkmið þeirra var að þjóna Jehóva af trúfesti, ekki að hljóta launin. Þau voru ákveðin í að vera þolgóð í hlaupinu. Royal og Pearl voru ötul og trúföst þar til þau luku lífi sínu hér á jörð áratugum síðar. Þú þráir án efa að sjá Jehóva helga nafn sitt, sanna að hann sé réttmætur drottinn alheims og uppfylla öll loforð sín. Þú mátt vera viss um að það verði að veruleika á þeim tíma sem Jehóva hefur ákveðið. Þangað til skulum við vera önnum kafin við að þjóna Guði okkar og aldrei leyfa vonbrigðum að hægja á okkur.

Arthur Secord var ákveðinn í að gera sitt besta þrátt fyrir háan aldur. (Sjá 11. grein.)

11, 12. Hvers vegna getum við haldið áfram að þjóna Jehóva trúfastlega þó að þróttur okkar hafi dvínað? Nefndu dæmi.

11 Dvínandi þróttur. Hlaupari þarf að vera þróttmikill til að geta keppt í kapphlaupi. Við þurfum hins vegar ekki að vera líkamlega sterk til að styrkja okkar andlega mann. Margir þeirra sem eru orðnir veikburða eru enn harðákveðnir í að halda áfram að gefa Jehóva sitt besta. (2. Kor. 4:16) Lítum á dæmi. Bróðir Arthur Secord * var 88 ára og orðinn heilsuveill, en hann hafði starfað á Betel í 55 ár. Hjúkrunarkona kom að rúminu hans til að hjúkra honum. Hún leit á hann og sagði hlýlega: „Bróðir Secord, þessi líkami hefur ferðast marga kílómetra í þjónustu Jehóva.“ Arthur lifði hins vegar ekki í fortíðinni. Hann horfði í augu hennar og svaraði: „Já, satt er það. En það sem við höfum gert er ekki aðalatriðið. Það er það sem við gerum héðan í frá sem skiptir máli.“

12 Ef til vill hefurðu þjónað Jehóva árum saman en nú aftrar heilsan þér frá því að gera eins mikið og áður. Misstu þá ekki móðinn. Þú mátt vera viss um að Jehóva kann að meta trúfasta þjónustu þína á liðnum árum. (Hebr. 6:10) Og mundu að trúfesti okkar og kærleikur til Jehóva er ekki metinn eftir því hve mikið við gerum fyrir hann. Við sýnum hve heitt við elskum Jehóva með því að vera jákvæð og gera allt sem við getum. (Kól. 3:23) Hann skilur takmörk okkar og ætlast ekki til að við gerum meira en við getum. – Mark. 12:43, 44.

Anatolíj og Lídíja Melník gáfust ekki upp þrátt fyrir margar raunir. (Sjá 13. grein.)

13. Hvað upplifðu Anatolíj og Lídíja og hvernig er fordæmi þeirra okkur hvatning til að halda áfram að þjóna Jehóva þrátt fyrir margar raunir?

13 Langvinnir erfiðleikar. Sumir þjónar Jehóva hafa þurft að þola erfiðleika og ofsóknir um áratugaskeið. Anatolíj Melník * var aðeins 12 ára þegar faðir hans var handtekinn, fangelsaður og sendur í útlegð til Síberíu, meira en 7.000 kílómetra frá fjölskyldu sinni í Moldóvu. Ári síðar voru Anatolíj, móðir hans og afi og amma líka send í útlegð til Síberíu. Með tímanum gátu þau sótt samkomur í öðru þorpi en til að komast þangað þurftu þau að ganga 30 kílómetra í snjó og fimbulkulda. Síðar meir sat bróðir Melník þrjú ár í fangelsi, fjarri Lídíju eiginkonu sinni og ársgamalli dóttur þeirra. Anatolíj og fjölskylda hans héldu áfram að þjóna Jehóva af trúfesti þrátt fyrir áralangar raunir. Nú er Anatolíj 82 ára og er í deildarnefnd í Mið-Asíu. Líkt og Anatolíj og Lídíja skulum við gera allt sem við getum í þjónustu Jehóva og halda áfram að vera þolgóð eins og áður fyrr. – Gal. 6:9.

FRAMTÍÐARVONIN HVETUR OKKUR ÁFRAM

14. Hvað vissi Páll að hann þyrfti að gera til að ná markmiði sínu?

14 Páll var sannfærður um að hann myndi klára hlaupið og ná markmiði sínu. Þar sem hann var andasmurður hlakkaði hann til að hljóta ,verðlaunin á himnum sem Guð hafði kallað hann til‘. En hann vissi að til að ná því marki yrði hann stöðugt að ,keppa að því‘. (Fil. 3:14) Páll notaði athyglisverða líkingu til að hvetja Filippímenn til að einbeita sér að markmiði sínu.

15. Hvernig notaði Páll líkinguna um ríkisborgararétt til að hvetja Filippímenn til að keppa stöðugt að markinu?

15 Páll minnti Filippímenn á að ríkisfang þeirra væri á himnum. (Fil. 3:20) Hvers vegna skipti það máli? Í þá daga var rómverskur ríkisborgararéttur mjög eftirsóttur. * En andasmurðir kristnir menn höfðu langtum betra ríkisfang, ríkisfang sem hafði mun meiri ávinning í för með sér. Rómverskur ríkisborgararéttur stóðst engan veginn samanburð. Þess vegna hvatti Páll Filippímenn: „Hegðið ykkur eins og samboðið er fagnaðarerindinu um Krist.“ (Fil. 1:27) Orðin „hegðið ykkur“ merkja í þessu versi: ,Hegðið ykkur sem ríkisborgarar‘. Andasmurðir kristnir menn nú á dögum sýna gott fordæmi með því að keppa að marki sínu, eilífu lífi á himni.

16. Hvað verðum við stöðugt að gera samkvæmt Filippíbréfinu 4:6, 7, hvort sem við vonumst til að lifa að á himni eða jörð?

16 Hvort sem við vonumst til að lifa að eilífu á himni eða í paradís á jörð verðum við stöðugt að keppa að því marki. Óháð því hverjar aðstæður okkar eru megum við hvorki líta til baka né leyfa nokkru að koma í veg fyrir að við þjónum Jehóva. (Fil. 3:16) Kannski höfum við beðið lengi eftir að sjá loforð Jehóva rætast eða höfum ekki eins mikinn þrótt og áður. Ef til vill höfum við þurft að þola erfiðleika eða ofsóknir í mörg ár. Hverjar sem aðstæður okkar eru skulum við ,ekki vera hugsjúk um neitt‘. Segjum heldur Guði frá öllu sem okkur liggur á hjarta. Þá veitir hann okkur frið sem er meiri en við getum ímyndað okkur. – Lestu Filippíbréfið 4:6, 7.

17. Um hvað er rætt í næstu grein?

17 Rétt eins og hlaupari gefur ekkert eftir á lokasprettinum megum við ekki láta neitt verða til þess að við missum sjónar á markmiði okkar, að klára kapphlaupið um lífið. Gerum allt sem við getum eftir því sem kraftar okkar og aðstæður leyfa og keppum eftir þeirri dásamlegu framtíð sem bíður okkar. Hvað þurfum við að gera til að halda áfram á réttri braut og á þeim hraða sem gerir okkur kleift að halda út? Næsta grein hjálpar okkur að forgangsraða rétt og ,meta þá hluti rétt sem máli skipta‘. – Fil. 1:9, 10.

SÖNGUR 79 Kennum þeim að vera staðfastir

^ gr. 5 Óháð því hve lengi við höfum þjónað Jehóva viljum við halda áfram að þroskast í trúnni og taka framförum sem kristnir menn. Páll postuli hvatti trúsystkini sín til að gefast aldrei upp. Bréf hans til Filippímanna hvetur okkur til að vera þolgóð í kapphlaupinu um lífið. Í þessari grein skoðum við hvernig við getum farið eftir innblásnum orðum Páls.

^ gr. 11 Ævisaga bróður Secords, „My Part in Advancing Right Worship“, birtist í Varðturninum á ensku 15. júní 1965.

^ gr. 13 Ævisaga Bróður Melníks, „Taught From Childhood to Love God“, birtist í Vaknið! á ensku 22. október 2004.

^ gr. 15 Þar sem Filippí var rómversk nýlenda nutu Filippímenn vissra réttinda sem fylgdu rómverskum ríkisborgararétti. Trúsystkinin þar hafa því skilið líkingu Páls vel.