Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 34

Þú hefur hlutverki að gegna í söfnuði Jehóva

Þú hefur hlutverki að gegna í söfnuði Jehóva

„Líkaminn er einn en hefur marga limi og allir limirnir mynda einn líkama þótt margir séu. Þannig er líka Kristur.“ – 1. KOR. 12:12.

SÖNGUR 101 Störfum saman í einingu

YFIRLIT *

1. Hvaða heiðurs njótum við?

ÞAÐ er mikill heiður að mega tilheyra söfnuði Jehóva. Við erum í andlegri paradís, en þar er fjöldinn allur af friðsömu og hamingjusömu fólki. Hvert er þitt hlutverk í söfnuðinum?

2. Hvaða líkingu notaði Páll í nokkrum innblásinna bréfa sinna?

2 Við getum lært margt af líkingu sem Páll postuli notaði í nokkrum innblásinna bréfa sinna. Í þessum bréfum líkti hann söfnuðinum við mannslíkamann. Hann líkti einnig öllum í söfnuðinum við líkamshluta. – Rómv. 12:4–8; 1. Kor. 12:12–27; Ef. 4:16.

3. Hvað þrennt skoðum við í þessari grein?

3 Í greininni skoðum við þrennt mikilvægt sem við getum lært af líkingu Páls. Í fyrsta lagi lærum við að hvert og eitt okkar hefur hlutverki * að gegna í söfnuði Jehóva. Í öðru lagi ræðum við hvað við getum gert ef okkur finnst erfitt að skilja hvert hlutverk okkar er. Og í þriðja lagi skoðum við hvers vegna við þurfum að vera önnum kafin við að sinna því hlutverki sem Jehóva hefur falið okkur.

VIÐ HÖFUM ÖLL HLUTVERKI AÐ GEGNA Í SÖFNUÐI JEHÓVA

4. Hvað lærum við af Rómverjabréfinu 12:4, 5?

4 Það fyrsta sem við getum lært af líkingu Páls er að allir í fjölskyldu Jehóva skipta máli. Páll byrjar líkinguna á því að segja: „Á einum líkama eru margir limir en þeir hafa ekki allir sama hlutverk. Eins er með okkur: Þó að við séum mörg erum við einn líkami sem er sameinaður Kristi. En hvert og eitt erum við limir sem eru háðir hver öðrum.“ (Rómv. 12:4, 5) Hvað átti Páll við? Við höfum mismunandi hlutverki að gegna í söfnuðinum en við erum öll verðmæt.

Við höfum mismunandi hlutverki að gegna í söfnuðinum en við erum hvert og eitt dýrmæt. (Sjá 5.–12. grein.) *

5. Hvaða „gjöf“ hefur Jehóva gefið söfnuðinum?

5 Þegar þú hugsar um það að hafa hlutverki að gegna í söfnuðinum kemur þér kannski fyrst í hug þeir sem fara með forystuna. (1. Þess. 5:12; Hebr. 13:17) Það er alveg rétt að Jehóva hefur gefið söfnuði sínum „menn að gjöf“ fyrir milligöngu Krists. (Ef. 4:8) Þessi gjöf eru menn eins og bræður í stjórnandi ráði, útnefndir aðstoðarmenn hins stjórnandi ráðs, bræður í deildarnefndum, farandhirðar, kennarar við skóla á vegum safnaðarins, öldungar og safnaðarþjónar. Allir þessir bræður eru útnefndir af heilögum anda til að annast dýrmæta sauði Jehóva og styrkja söfnuðinn. – 1. Pét. 5:2, 3.

6. Hvað leggja bræður sem eru útnefndir af heilögum anda sig í líma við að gera, samanber 1. Þessaloníkubréf 2:6–8?

6 Heilagur andi útnefnir bræður til að sinna ýmsum ábyrgðarverkefnum. Þessir bræður leggja hart að sér í þágu alls safnaðarins rétt eins og ólíkir líkamshlutar, eins og hendur og fætur, starfa öllum líkamanum til góðs. Bræðurnir sækjast ekki eftir heiðri frá öðrum. Þess í stað leitast þeir við að byggja upp og styrkja bræður sína og systur. (Lestu 1. Þessaloníkubréf 2:6–8.) Við þökkum Jehóva fyrir þessa hæfu bræður sem taka þarfir annarra fram yfir sínar eigin.

7. Hvaða blessunar njóta margir sem þjóna í fullu starfi?

7 Sumir í söfnuðinum eru ef til vill útnefndir trúboðar, sérbrautryðjendur eða brautryðjendur. Reyndar hafa bræður og systur víða um heim tekið þá ákvörðun að þjóna í fullu starfi við að boða trúna og gera fólk að lærisveinum. Þau hafa hjálpað mörgum að gerast lærisveinar Jesú Krists. Mörg þeirra eiga ekki margt og hafa lítið milli handanna en Jehóva hefur umbunað þeim ríkulega. (Mark. 10:29, 30) Við metum mikils þessa dýrmætu bræður og systur og erum þakklát að þau skuli vera í söfnuðinum.

8. Hvers vegna eru allir boðberar dýrmætir í augum Jehóva?

8 Eru útnefndir bræður og þeir sem þjóna í fullu starfi þeir einu sem hafa hlutverki að gegna í söfnuðinum? Alls ekki! Allir boðberar fagnaðarboðskaparins skipta Guð og söfnuðinn miklu máli. (Rómv. 10:15; 1. Kor. 3:6–9) Það er vegna þess að eitt mikilvægasta markmið safnaðarins er að gera fólk að lærisveinum Drottins okkar Jesú Krists. (Matt. 28:19, 20; 1. Tím. 2:4) Allir sem taka þátt í boðuninni, bæði skírðir og óskírðir boðberar, leggja sig fram um að láta hana hafa forgang í lífi sínu. – Matt. 24:14.

9. Hvers vegna metum við mikils systur okkar í söfnuðinum?

9 Jehóva heiðrar systur með því að fela þeim mikilvægt hlutverk í söfnuðinum. Hann metur að verðleikum þessar eiginkonur, mæður, ekkjur og einhleypu systur sem þjóna honum trúfastar. Biblían nefnir margar konur sem voru Guði velþóknanlegar. Þær fá hrós fyrir að sýna visku, trú, kappsemi, hugrekki, örlæti og fyrir góð verk, og þær eru góðar fyrirmyndir. (Lúk. 8:2, 3; Post. 16:14, 15; Rómv. 16:3, 6; Fil. 4:3; Hebr. 11:11, 31, 35) Við erum Jehóva innilega þakklát að það skuli vera systur í söfnuðinum sem hafa til að bera þessa sömu fallegu eiginleika!

10. Hvers vegna finnst okkur eldri boðberar vera dýrmætir?

10 Við kunnum líka að meta að hafa marga eldri boðbera meðal okkar. Í sumum söfnuðum eru rosknir bræður og systur sem hafa þjónað Jehóva trúfastlega allt sitt líf. Aðrir hafa kynnst sannleikanum nýlega. Hvort heldur er glíma mörg þeirra við heilsuvandamál vegna aldurs. Það gæti takmarkað það sem þau geta gert í söfnuðinum og í boðuninni. Þau gera það sem þau geta við að boða trúna og nota alla sína krafta til að uppörva og þjálfa aðra. Og við njótum góðs af reynslu þeirra. Þau eru falleg í augum Jehóva og okkar. – Orðskv. 16:31, NW.

11, 12. Hvernig hefur unga fólkið í söfnuðinum þínum verið þér hvatning?

11 Snúum okkur nú að unga fólkinu okkar. Það þarf að takast á við margt vegna þess að það elst upp í heimi sem er undir stjórn Satans Djöfulsins og heldur slæmum viðhorfum hans á lofti. (1. Jóh. 5:19) En það er hvetjandi að sjá unga fólkið okkar svara á samkomum, taka þátt í boðuninni og heyra af því hvernig það ver trú sína af hugrekki. Þið unga fólkið hafið mikilvægu hlutverki að gegna í söfnuði Jehóva! – Sálm. 8:3.

12 En sumum trúsystkinum okkar finnst erfitt að trúa því að þau séu verðmæt fyrir söfnuðinn. Hvað getur hjálpað okkur öllum að vera sannfærð um að við höfum hlutverki að gegna í söfnuðinum? Skoðum málið.

VERTU SANNFÆRÐUR UM AÐ ÞÚ SÉRT VERÐMÆTUR FYRIR SÖFNUÐINN

13, 14. Hvers vegna gæti sumum fundist þeir ekki skipta máli í söfnuðinum?

13 Tökum eftir öðru sem við getum lært af líkingu Páls. Hann vekur athygli á vandamáli sem margir glíma við: Þeim finnst erfitt að trúa því að þeir séu verðmætir fyrir söfnuðinn. Páll segir: „Ef fóturinn segði: ,Fyrst ég er ekki hönd tilheyri ég ekki líkamanum,‘ þá þýddi það ekki að hann væri ekki hluti af líkamanum. Og þótt eyrað segði: ,Fyrst ég er ekki auga tilheyri ég ekki líkamanum,‘ þá væri það samt hluti af líkamanum.“ (1. Kor. 12:15, 16) Hverju vildi Páll koma á framfæri?

14 Ef þú berð þig saman við aðra í söfnuðinum gætirðu átt erfitt með að sjá að þú ert verðmætur fyrir söfnuðinn. Sumir í söfnuðinum eru kannski færir kennarar, snjallir skipuleggjendur eða góðir hirðar. Þér finnst þú kannski ekki búa yfir þessum hæfileikum í sama mæli og þeir. Það sýnir að þú ert auðmjúkur. (Fil. 2:3) En þú þarft að gæta þín. Ef þú berð þig sífellt saman við þá sem hafa framúrskarandi hæfileika verðurðu óánægður með sjálfan þig. Þér gæti jafnvel, eins og Páll talaði um, fundist þú ekki skipta neinu máli í söfnuðinum. Hvað getur hjálpað þér að vinna bug á slíkum tilfinningum?

15. Hverju þurfum við að gera okkur grein fyrir varðandi hæfileika sem við kunnum að hafa, samanber 1. Korintubréf 12:4–11?

15 Hugleiddu eftirfarandi: Jehóva gaf sumum kristnum mönnum á fyrstu öld gjafir heilags anda fyrir kraftaverk en það fengu ekki allir sömu gjafirnar. (Lestu 1. Korintubréf 12:4–11.) Jehóva gaf þeim mismunandi hæfileika og gjafir en þeir voru allir dýrmætir. Nú á dögum fáum við ekki gjafir heilags anda fyrir kraftaverk. En sama frumreglan gildir enn. Við búum kannski ekki öll yfir sömu hæfileikum en við erum öll dýrmæt í augum Jehóva.

16. Hvaða leiðbeiningum Páls postula þurfum við að fara eftir?

16 Í stað þess að bera okkur saman við aðra þurfum við að fara eftir innblásnum leiðbeiningum Páls postula: „En hver og einn ætti að rannsaka eigin verk án þess að bera sig saman við aðra. Þá hefur hann ástæðu til að gleðjast yfir því sem hann gerir sjálfur.“ – Gal. 6:4.

17. Hvaða gagn höfum við af því að fara eftir leiðbeiningum Páls?

17 Ef við förum eftir innblásnum leiðbeiningum Páls og rannsökum eigin verk gætum við farið að átta okkur á að við búum yfir hæfileikum sem aðrir hafa ekki. Öldungur er kannski ekki mjög góður ræðumaður en honum gæti gengið mjög vel að gera fólk að lærisveinum. Eða kannski er hann ekki jafn vel skipulagður og einhverjir aðrir öldungar í söfnuði hans en er vingjarnlegur og kærleiksríkur og boðberum finnst gott að leita til hans til að fá leiðsögn byggða á Biblíunni. Eða hann gæti verið þekktur fyrir að vera gestrisinn. (Hebr. 13:2, 16) Þegar við gerum okkur grein fyrir eigin styrkleika og hæfileikum getum við verið ánægð með það sem við höfum fram að færa í söfnuðinum. Og við öfundum síður trúsystkini okkar sem hafa aðra hæfileika en við.

18. Hvernig getum við ræktað hæfileika okkar?

18 Óháð því hvaða hlutverki við gegnum í söfnuðinum ætti okkur öll að langa til að bæta okkur í þjónustunni og rækta hæfileika okkar. Fyrir milligöngu safnaðarins sér Jehóva okkur fyrir frábærri þjálfun til að hjálpa okkar að taka framförum. Á samkomunni í miðri viku lærum við til dæmis hvernig við getum náð betri árangri í boðuninni. Nýturðu þér þessa þjálfun til fulls?

19. Hvernig geturðu náð því markmiði að sækja Skólann fyrir boðbera Guðsríkis?

19 Skólinn fyrir boðbera Guðsríkis veitir líka afbragðsgóða þjálfun. Hann er í boði fyrir bræður og systur sem þjóna í fullu starfi og eru á aldrinum 23 til 65 ára. Þér finnst kannski ekki á þínu færi að sækja þennan skóla. En í stað þess að telja upp ástæður fyrir því að þú getir ekki sótt skólann skaltu telja upp ástæður fyrir því að þú viljir sækja hann. Gerðu síðan áætlun um hvernig þú getur náð að uppfylla hæfniskröfurnar. Með hjálp Jehóva og með því að leggja hart að þér má vera að það sem virtist ómögulegt verði að veruleika.

NOTAÐU HÆFILEIKA ÞÍNA TIL AÐ BYGGJA UPP SÖFNUÐINN

20. Hvað getum við lært af Rómverjabréfinu 12:6–8?

20 Þriðja lærdóminn sem við getum dregið af líkingu Páls er að finna í Rómverjabréfinu 12:6–8. (Lestu.) Páll sýnir aftur fram á að þeir sem eru í söfnuðinum hafa mismunandi hæfileika. En hér leggur hann áherslu á að hverjir sem hæfileikarnir eru ættum við að nota þá til að byggja upp og styrkja söfnuðinn.

21, 22. Hvaða lærdóm getum við dregið af reynslu Róberts og Felice?

21 Hugleiðum reynslu bróður sem við skulum kalla Róbert. Eftir að hafa þjónað í öðru landi var hann beðinn að starfa á Betel í heimalandi sínu. Bræðurnir fullvissuðu hann um að þessi breyting á verkefni stafaði ekki af því að hann hefði ekki staðið sig í stykkinu. En samt sagði hann: „Í marga mánuði fannst mér ég vera misheppnaður. Það kom fyrir að mig langaði til að hætta á Betel.“ Hvernig endurheimti hann gleði sína? Samöldungur hans minnti hann á að Jehóva þjálfar okkur í verkefni okkar til að við getum komið að meira gagni í því næsta. Róbert gerði sér grein fyrir að hann þurfti að hætta að hugsa um hið liðna og einbeita sér að því sem hann gat gert núna.

22 Bróðir Felice Episcopo hefur svipaða reynslu. Hann og konan hans útskrifuðust úr Gíleaðskólanum árið 1956 og voru í farandstarfi í Bólivíu. Árið 1964 eignuðust þau son. Felice segir: „Það var erfitt að segja skilið við verkefni okkar. Ég viðurkenni að ég sóaði heilu ári í að vorkenna sjálfum mér. En með hjálp Jehóva breytti ég viðhorfi mínu og einbeitti mér að þeirri ábyrgð að vera faðir.“ Geturðu sett þig í spor Róberts eða Felice? Dregur það úr þér kjark að þú skulir ekki hafa sama verkefni og þú hafðir áður? Þú verður ánægðari ef þú hættir að einblína á fyrri verkefni og einbeitir þér að því sem þú getur gert núna til að þjóna Jehóva og hjálpa trúsystkinum þínum. Þú verður glaður þegar þú ert önnum kafinn og notar hæfileika þína til að hjálpa öðrum og byggja upp söfnuðinn.

23. Hvað ættum við að taka okkur tíma til að gera og hvað ræðum við í næstu grein?

23 Við erum öll dýrmæt í augum Jehóva. Hann vill að við finnum að við tilheyrum fjölskyldu hans. Okkur líður síður eins og við tilheyrum ekki söfnuðinum ef við tökum okkur tíma til að hugleiða hvað við getum gert til að byggja upp bræður okkar og systur og leggja okkur síðan fram um að gera það. En hvernig lítum við á aðra í söfnuðinum? Hvernig getum við sýnt að við metum þá að verðleikum? Við ræðum þessar mikilvægu spurningar í næstu grein.

SÖNGUR 24 Göngum á fjall Jehóva

^ gr. 5 Við viljum öll finna að við séum verðmæt í augum Jehóva. En stundum veltum við kannski fyrir okkur hvort við komum að gagni í söfnuði hans. Þessi grein hjálpar okkur að skilja að við höfum, hvert og eitt okkar, mikilvægu hlutverki að gegna í söfnuðinum.

^ gr. 3 ORÐASKÝRING: Hlutverk okkar í söfnuði Jehóva vísar til þess þáttar sem við eigum í að byggja upp og styrkja söfnuðinn. Það ræðst ekki af kynþætti okkar, ætterni, fjárhagsstöðu, samfélagsstöðu, menntun eða menningarlegum bakgrunni.

^ gr. 62 MYND: Myndirnar þrjár sýna það sem gerist fyrir og eftir samkomu og meðan á henni stendur. Mynd 1: Öldungur tekur vel á móti gesti, ungur bróðir gerir hljóðkerfið tilbúið og systir talar við eldri systur. Mynd 2: Ungir sem aldnir rétta upp hönd í Varðturnsnáminu. Mynd 3: Hjón hjálpa til við að þrífa ríkissalinn. Móðir hjálpar barninu sínu að setja peninga í framlagabaukinn. Ungur bróðir sér um ritadeildina og bróðir uppörvar eldri systur.