Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 32

Þjónum Guði í hógværð og auðmýkt

Þjónum Guði í hógværð og auðmýkt

,Þjónaðu Guði í hógværð.‘ – MÍKA 6:8.

SÖNGUR 31 Göngum með Guði

YFIRLIT *

1. Hvað sagði Davíð um auðmýkt Jehóva?

ER JEHÓVA virkilega auðmjúkur? Já, hann er það. Davíð skrifaði eitt sinn: „Þú gafst mér skjöld hjálpræðis þíns, og lítillæti þitt gjörði mig mikinn.“ (2. Sam. 22:36, Biblían 1981; Sálm. 18:36) Þegar Davíð skrifaði þetta hugsaði hann kannski til dagsins þegar Samúel spámaður kom heim til föður hans til að smyrja næsta konung Ísraels. Davíð var yngstur af átta bræðrum en var samt sá sem Jehóva valdi til að verða konungur í stað Sáls. – 1. Sam. 16:1, 10–13.

2. Hvað ræðum við í þessari grein?

2 Davíð myndi örugglega taka undir með sálmaritaranum sem sagði um Jehóva: „[Hann] horfir djúpt. Hver er sem hann á himni og á jörðu? Hann reisir lítilmagnann úr duftinu ... og leiðir hann til sætis hjá tignarmönnum.“ (Sálm. 113:5–8) Í þessari grein byrjum við á því að skoða hvernig Jehóva hefur sýnt auðmýkt og hvaða mikilvæga lærdóm við getum dregið af því. Síðan ræðum við það sem við getum lært um hógværð af fordæmi þeirra Sáls konungs, Daníels spámanns og Jesú.

HVAÐ GETUM VIÐ LÆRT AF FORDÆMI JEHÓVA?

3. Hvernig eru samskipti Jehóva við okkur og hvað sýnir það?

3 Jehóva sýnir auðmýkt í samskiptum sínum við ófullkomna menn. Hann hefur ekki aðeins velþóknun á tilbeiðslu okkar heldur lítur hann líka á okkur sem vini sína. (Orðskv. 3:32) Jehóva tók frumkvæðið og fórnaði syni sínum til að við gætum eignast vináttusamband við sig. Hvílík miskunn og hvílík samúð sem hann hefur sýnt okkur!

4. Hvað hefur Jehóva gefið okkur og hvers vegna?

4 Skoðum annað dæmi um auðmýkt Jehóva. Sem skapari okkar hefði hann getað gert okkur þannig úr garði að við gætum ekki valið sjálf hvernig við lifum lífinu. En það gerði hann ekki. Hann skapaði okkur í sinni mynd og gaf okkur frjálsan vilja. Það skiptir Jehóva máli hvað við veljum að gera þótt við séum lítilfjörleg og veikburða í samanburði við hann. Hann vill að við kjósum að þjóna sér vegna þess að við elskum hann og erum sannfærð um að það sé okkur til góðs að hlýða honum. (5. Mós. 10:12; Jes. 48:17, 18) Við ættum að vera innilega þakklát fyrir að Jehóva skuli vera svona auðmjúkur.

Mynd sem sýnir Jesú á himnum. Hjá honum eru sumir meðstjórnenda hans. Þeir horfa á stóran hóp engla. Sumir englanna eru að fara til jarðar til að sinna verkefnum sínum. Jehóva hefur falið öllum á myndinni vald. (Sjá 5. grein.)

5. Hvernig kennir Jehóva okkur að vera auðmjúk? (Sjá mynd á forsíðu.)

5 Jehóva kennir okkur að vera auðmjúk með því hvernig hann kemur fram við okkur. Hann er vitrasta persóna alheims. Samt er hann tilbúinn að hlusta á tillögur annarra. Hann leyfði til dæmis syni sínum að aðstoða sig við að skapa alla hluti. (Orðskv. 8:27–30; Kól. 1:15, 16) Og hann felur öðrum ábyrgð, jafnvel þótt hann sé almáttugur. Hann fól Jesú að vera konungur Guðsríkis og felur 144.000 körlum og konum að ríkja með honum. (Lúk. 12:32) Jehóva bjó Jesú auðvitað undir það að verða konungur og æðstiprestur. (Hebr. 5:8, 9) Hann þjálfar líka meðstjórnendur hans. En hann felur þeim ekki verkefni og reynir síðan að stjórna því algerlega hvernig þeir inna það af hendi. Hann treystir að þeir geri vilja hans. – Opinb. 5:10.

Við líkjum eftir Jehóva þegar við þjálfum aðra og felum þeim ábyrgð. (Sjá 6. og 7. grein.) *

6, 7. Hvað getum við lært af himneskum föður okkar um það að fela öðrum ábyrgð?

6 Fyrst himneskur faðir okkar, sem þarf ekki á hjálp annarra að halda, felur öðrum ábyrgð, hversu miklu fremur ættum við þá ekki að gera það! Ert þú höfuð fjölskyldu eða öldungur í söfnuðinum? Þá skaltu fylgja fordæmi Jehóva með því að fela öðrum ábyrgð og forðast þá tilhneigingu að stjórna því um of hvernig þeir vinna verkið. Þegar þú líkir eftir Jehóva er ekki aðeins hægt að ljúka verkinu heldur þjálfarðu um leið aðra og styrkir sjálfstraust þeirra. (Jes. 41:10) Hvað fleira geta þeir sem fara með visst vald lært af Jehóva?

7 Biblían sýnir að Jehóva hefur áhuga á skoðunum englasona sinna. (1. Kon. 22:19–22) Hvernig getið þið foreldrar líkt eftir Jehóva? Ef við á skuluð þið spyrja börnin ykkar hvernig ætti að vinna ákveðið verk. Farið síðan eftir tillögum þeirra ef það er við hæfi.

8. Hvernig sýndi Jehóva Abraham og Söru þolinmæði?

8 Jehóva sýnir líka auðmýkt með því að vera þolinmóður. Hann sýnir til dæmis þolinmæði þegar þjónar hans spyrja hann með virðingu út í ákvarðanir hans. Hann hlustaði þegar Abraham tjáði áhyggjur sínar af ákvörðun hans um að eyða Sódómu og Gómorru. (1. Mós. 18:22–33) Og við munum hvernig Jehóva kom fram við Söru eiginkonu Abrahams. Hann móðgaðist hvorki né varð reiður þegar hún hló af loforði hans um að hún yrði barnshafandi á gamals aldri. (1. Mós. 18:10–14) Þess í stað kom hann fram við hana af virðingu.

9. Hvað geta foreldrar og öldungar lært af Jehóva?

9 Ert þú foreldri eða öldungur? Hvað geturðu þá lært af fordæmi Jehóva? Hugleiddu hvernig þú bregst við þegar börnin þín eða einhver í söfnuðinum er ósammála ákvörðunum þínum. Ferðu strax að verja ákvarðanir þínar eða reynirðu að skilja sjónarmið þeirra? Fjölskyldur og söfnuðir njóta góðs af því þegar þeir sem fara með visst vald líkja eftir Jehóva. Hingað til höfum við rætt það sem við getum lært um auðmýkt af fordæmi Jehóva. Snúum okkur nú að því sem við getum lært um hógværð af öðrum dæmum í Biblíunni.

HVAÐ GETUM VIÐ LÆRT AF FORDÆMI ANNARRA?

10. Hvernig notar Jehóva fordæmi annarra til að kenna okkur?

10 Jehóva er „lærifaðir“ okkar og notar frásögur í orði sínu til að kenna okkur. (Jes. 30:20, 21) Við lærum með því að hugleiða frásögur af fólki sem sýndi eiginleika honum að skapi, þar á meðal hógværð. Við getum líka dregið lærdóm af frásögum af þeim sem sýndu ekki slíka eiginleika. – Sálm. 37:37; 1. Kor. 10:11.

11. Hvaða lærdóm getum við dregið af slæmu fordæmi Sáls?

11 Hugleiðum hvernig fór fyrir Sál konungi. Hann byrjaði vel sem ungur og hógvær maður. Hann var meðvitaður um takmörk sín og hikaði jafnvel við að taka á sig meiri ábyrgð. (1. Sam. 9:21; 10:20–22) En með tímanum varð Sál hrokafullur. Það kom í ljós fljótlega eftir að hann varð konungur. Einu sinni varð hann óþolinmóður þegar hann beið eftir Samúel spámanni. Hann bar fram brennifórn þótt hann hefði ekki leyfi til þess í stað þess að sýna hógværð og treysta að Jehóva kæmi þjóð sinni til aðstoðar. Fyrir vikið glataði Sál velþóknun Jehóva og honum var síðan hafnað sem konungi. (1. Sam. 13:8–14) Það er viturlegt af okkur að draga lærdóm af þessu og forðast að fara út fyrir valdsvið okkar.

12. Hvernig sýndi Daníel hógværð?

12 Veltum nú fyrir okkur fordæmi Daníels spámanns en hann hann var ólíkur Sál. Daníel þjónaði Jehóva í auðmýkt og hógværð alla ævi og leitaði ávallt leiðsagnar hans. Daníel eignaði sér til dæmis ekki heiðurinn af því þegar hann var verkfæri í höndum Jehóva og réði draum Nebúkadnesars. Þess í stað gaf hann Jehóva allan heiðurinn. (Dan. 2:26–28) Hvað lærum við af þessu? Ef trúsystkini okkar kunna að meta ræður okkar eða okkur gengur vel í boðuninni ættum við að muna að gefa Jehóva allan heiðurinn. Okkur ætti að vera ljóst að við gætum ekki gert þetta nema með hjálp hans. (Fil. 4:13) Við líkjum einnig eftir Jesú þegar við höfum þetta viðhorf. Hvernig?

13. Hvað lærum við um Jesú í Jóhannesi 5:19, 30?

13 Þótt Jesús væri fullkominn sonur Guðs reiddi hann sig á himneskan föður sinn. (Lestu Jóhannes 5:19, 30.) Hann reyndi aldrei að taka af honum völdin. Í Filippíbréfinu 2:6 segir um hann: „[Það] hvarflaði ekki að honum að hrifsa til sín völd til að verða jafn Guði.“ Jesús gerði sér grein fyrir takmörkum sínum og virti vald föður síns.

Jesús vissi hvert valdsvið sitt var og fór ekki út fyrir það. (Sjá 14. grein.)

14. Hvernig brást Jesús við þegar hann var beðinn að gera eitthvað sem hann hafði ekki vald til?

14 Sjáum hvernig Jesús brást við þegar lærisveinarnir Jakob og Jóhannes komu ásamt móður sinni til hans til að biðja um stöðu sem hann hafði ekki vald til að veita. Jesús svaraði um hæl að aðeins himneskur faðir sinn gæti ákveðið hver sæti sér til hægri handar og til vinstri handar í Guðsríki. (Matt. 20:20–23) Jesús sýndi að hann virti takmörk sín. Hann var hógvær. Hann fór aldrei út fyrir það vald sem Jehóva hafði falið honum. (Jóh. 12:49) Hvernig getum við líkt eftir góðu fordæmi Jesú?

Hvernig getum við líkt eftir hógværð Jesú? (Sjá 15. og 16. grein.) *

15, 16. Hvernig getum við farið eftir leiðbeiningum Biblíunnar í 1. Korintubréfi 4:6?

15 Við líkjum eftir fordæmi Jesú þegar við förum eftir því sem segir í 1. Korintubréfi 4:6. Þar er okkur sagt: „Gangið ekki lengra en skrifað er.“ Þegar við erum beðin um ráð viljum við þess vegna ekki koma eigin skoðunum á framfæri eða segja einfaldlega það fyrsta sem okkur dettur í hug. Öllu heldur ættum við að beina athyglinni að leiðbeiningum sem er að finna í Biblíunni og ritunum okkar. Þannig sýnum við að við virðum takmörk okkar. Þá erum við hógvær og sýnum að við treystum ,réttlátum úrskurðum‘ hins almáttuga. – Opinb. 15:3, 4.

16 Við heiðrum Jehóva þegar við erum hógvær. En við höfum fleiri ástæður til að sýna þennan eiginleika. Við skoðum nú hvernig auðmýkt og hógværð getur stuðlað að gleði okkar og hjálpað okkur að eiga góð samskipti við aðra.

HVERNIG ER ÞAÐ OKKUR TIL GÓÐS AÐ VERA AUÐMJÚK OG HÓGVÆR?

17. Hvers vegna er auðmjúkt og hógvært fólk ánægt?

17 Sá sem er auðmjúkur og hógvær er líklegri til að vera glaður. Hvers vegna? Þegar við gerum okkur grein fyrir takmörkum okkar erum við þakklát og ánægð með alla þá hjálp sem við fáum. Tökum sem dæmi það sem gerðist þegar Jesús læknaði tíu holdsveika menn. Aðeins einn þeirra sneri aftur til að þakka Jesú fyrir að lækna sig af þessum hræðilega sjúkdómi – eitthvað sem maðurinn hefði aldrei getað gert sjálfur. Þessi auðmjúki og hógværi maður var þakklátur fyrir hjálpina sem hann fékk og lofaði Guð. – Lúk. 17:11–19.

18. Hvernig hjálpar auðmýkt og hógværð okkur að eiga góð samskipti við aðra? (Rómverjabréfið 12:10)

18 Þeim sem eru auðmjúkir og hógværir kemur yfirleitt vel saman við aðra og þeir eru líklegri en stolt fólk til að eiga nána vini. Hvers vegna? Vegna þess að þeim finnst sjálfsagt að viðurkenna að aðrir hafi góða eiginleika og þeir bera traust til þeirra. Þeir sem eru auðmjúkir og hógværir eru ánægðir þegar öðrum gengur vel í verkefnum sínum og þeir hika ekki við að hrósa þeim og sýna þeim virðingu. – Lestu Rómverjabréfið 12:10.

19. Hvers vegna ættum við að forðast stolt?

19 Þeir sem eru stoltir eiga hins vegar erfitt með að hrósa öðrum og vilja helst sjálfir fá lof. Þeir eru líklegri til að bera sig saman við aðra og reyna að skara fram úr öðrum. Í stað þess að þjálfa aðra og fela þeim ábyrgð eru meiri líkur á að þeir segi: „Ef maður vill að hlutirnir séu rétt gerðir“ – það er að segja eftir þeirra höfði – „þá verður maður að gera þá sjálfur.“ Þeir sem eru stoltir eru oft metnaðargjarnir og öfunda aðra. (Gal. 5:26) Þeir bindast sjaldan öðrum varanlegum vináttuböndum. Ef við finnum að stolt gerir vart við sig hjá okkur ættum við að biðja Jehóva einlæglega um hjálp til að „endurnýja hugarfarið“ svo að þessi slæmi eiginleiki festi ekki rætur í okkur. – Rómv. 12:2.

20. Hvers vegna ættum við að vera auðmjúk og hógvær?

20 Erum við ekki innilega þakklát að Jehóva skuli setja okkur svona gott fordæmi? Við sjáum auðmýkt hans birtast í samskiptum hans við þjóna sína og við viljum líkja eftir honum. Við viljum sömuleiðis líkja eftir þeim sem hafa þjónað Jehóva í hógværð. Megum við alltaf gefa Jehóva þann heiður og dýrð sem hann á skilið. (Opinb. 4:11) Þá getum við verið vinir hans að eilífu því að hann elskar auðmjúkt og hógvært fólk.

SÖNGUR 123 Verum hlýðin skipan Guðs

^ gr. 5 Sá sem er auðmjúkur sýnir öðrum miskunn og samúð. Við getum því réttilega sagt að Jehóva er auðmjúkur. Í greininni skoðum við hvernig við getum lært auðmýkt af Jehóva. Við kynnum okkur líka það sem við getum lært um hógværð af Sál konungi, Daníel spámanni og Jesú.

^ gr. 58 MYND: Öldungur tekur sér tíma til að þjálfa ungan bróður til að sjá um starfssvæði safnaðarins. Öldungurinn reynir síðan ekki að stjórna um of hvernig bróðirinn sinnir verkefninu heldur leyfir honum að annast það sjálfur.

^ gr. 62 MYND: Systir spyr öldung hvort það sé viðeigandi að þiggja boð í brúðkaup sem verður haldið í kirkju. Öldungurinn segir ekki skoðun sína heldur les með henni nokkrar meginreglur Biblíunnar.