Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 35

Berum virðingu fyrir öllum í söfnuði Jehóva

Berum virðingu fyrir öllum í söfnuði Jehóva

„Augað getur ekki sagt við höndina: ,Ég þarf ekki á þér að halda,‘ eða þá höfuðið við fæturna: ,Ég þarf ekki á ykkur að halda.‘“ – 1. KOR. 12:21.

SÖNGUR 124 Sýnum tryggð

YFIRLIT *

1. Hvað hefur Jehóva falið öllum trúföstum þjónum sínum?

JEHÓVA hefur í kærleika sínum falið öllum trúföstum þjónum sínum hlutverk í söfnuðinum. Þó að hlutverk okkar séu ólík erum við öll dýrmæt og þurfum hvert á öðru að halda. Páll postuli hjálpar okkur að skilja þessi mikilvægu sannindi. Hvernig?

2. Hvers vegna þurfum við að meta hvert annað að verðleikum og vinna saman, samanber Efesusbréfið 4:16?

2 Í versinu sem heiti greinarinnar er byggt á leggur Páll áherslu á að enginn má segja um annan þjón Jehóva: „Ég þarf ekki á þér að halda.“ (1. Kor. 12:21) Ef það á að ríkja friður innan safnaðarins verðum við að meta hvert annað að verðleikum og vinna saman. (Lestu Efesusbréfið 4:16.) Söfnuðurinn verður sterkur og öllum í honum finnst þeir elskaðir þegar við vinnum saman í einingu.

3. Hvað verður til umræðu í þessari grein?

3 Hvernig getum við sýnt öðrum í söfnuðinum virðingu? Í þessari grein skoðum við hvernig öldungar geta sýnt samöldungum sínum virðingu. Síðan ræðum við hvernig við getum öll sýnt að við kunnum að meta bræður og systur sem eru einhleyp. Og að lokum skoðum við hvernig við getum sýnt þeim virðingu sem tala ekki málið reiprennandi.

SÝNIÐ SAMÖLDUNGUM YKKAR VIRÐINGU

4. Hvaða leiðbeiningum Páls í Rómverjabréfinu 12:10 ættu öldungar að fylgja?

4 Allir öldungar safnaðarins eru útnefndir af heilögum anda Jehóva. En þeir hafa allir mismunandi hæfileika. (1. Kor. 12:17, 18) Sumir eru kannski nýorðnir öldungar og hafa tiltölulega litla reynslu. Aðrir eru ef til vill takmörkum háðir vegna aldurs og heilsu. En allir öldungar hafa mikilvægu hlutverki að gegna. Engum öldungi ætti því að finnast aðrir öldungar koma að litlu gagni. Öllu heldur ættu allir öldungar að fylgja leiðbeiningum Páls í Rómverjabréfinu 12:10. – Lestu.

Öldungar sýna hver öðrum virðingu með því að hlusta vandlega hver á annan. (Sjá 5. og 6. grein.)

5. Hvernig sýnir öldungur samöldungum sínum virðingu og hvers vegna er það mikilvægt?

5 Öldungur sýnir samöldungum sínum virðingu með því að hlusta vandlega á þá. Það er sérstaklega mikilvægt þegar öldungaráðið kemur saman til að ræða alvarleg mál. Hvers vegna? Í Varðturninum 1. október 1988 segir: „Öldungarnir munu gera sér ljóst að Kristur getur beitt heilögum anda til að leiðbeina huga hvaða öldungs sem er í öldungaráðinu til að benda á þá meginreglu Biblíunnar sem þarf til að mæta sérhverjum aðstæðum eða til að taka þýðingarmiklar ákvarðanir. (Post. 15:6–15) Enginn einn öldungur innan ráðsins hefur einkarétt á anda Guðs.“

6. Hvernig geta öldungar unnið saman í einingu og hvernig er það söfnuðinum til góðs þegar þeir gera það?

6 Öldungur sem ber virðingu fyrir samöldungum sínum reynir ekki alltaf að vera sá fyrsti til að tjá sig á öldungafundum. Hann yfirgnæfir ekki aðra í umræðum og honum finnst sín skoðun ekki alltaf sú rétta. Aftur á móti tjáir hann hug sinn af auðmýkt. Hann hlustar vandlega þegar aðrir tjá sig. Og það sem meira máli skiptir er að honum er mikið í mun að ræða meginreglur Biblíunnar og fylgja leiðbeiningum ,hins trúa og skynsama þjóns‘. (Matt. 24:45–47) Ef öldungar sýna hver öðrum kærleika og virðingu þegar þeir ræða málin verður heilagur andi Guðs til staðar og hjálpar þeim að taka ákvarðanir sem styrkja söfnuðinn. – Jak. 3:17, 18.

SÝNUM EINHLEYPUM TRÚSYSTKINUM OKKAR VIRÐINGU

7. Hvernig leit Jesús á einhleypt fólk?

7 Í söfnuði Jehóva eru hjón og sum þeirra eiga börn. En í honum eru líka mörg einhleyp trúsystkini. Hvaða augum ættum við að líta þau sem eru ekki gift? Við ættum að líta þau sömu augum og Jesús. Hann gekk ekki í hjónaband meðan hann þjónaði hér á jörð. Hann var einhleypur og notaði allan tíma sinn og krafta til að sinna verkefni sínu. Hann kenndi aldrei að það væri krafa að annaðhvort giftast eða vera einhleypur. Hann sagði hins vegar að sumir kristnir menn kysu að ganga ekki í hjónaband. (Matt. 19:11, 12) Jesús virti einhleypa. Hann leit ekki svo á að einhleypt fólk væri verr sett en gift fólk á einhvern hátt.

8. Hvað hvatti Páll kristna menn til að hugleiða samkvæmt 1. Korintubréfi 7:7–9?

8 Líkt og Jesús þjónaði Páll postuli Jehóva einhleypur. Hann kenndi aldrei að það væri rangt að giftast. Hann vissi að það væri persónuleg ákvörðun hvort kristinn maður giftist eða ekki. Páll hvatti þó kristna menn til að hugleiða þann möguleika að þjóna Jehóva einhleypir. (Lestu 1. Korintubréf 7:7–9.) Það er augljóst að Páll leit ekki niður á einhleypa. Reyndar fól hann Tímóteusi, ungum og einhleypum bróður, að annast mikilvæg verkefni. * (Fil. 2:19–22) Það fer því ekki á milli mála að það er rangt að meta hæfni bróður eftir því hvort hann er giftur eða ekki. – 1. Kor. 7:32–35, 38.

9. Hvað getum við sagt um hjónaband og einhleypi?

9 Hvorki Jesús né Páll kenndi að kristnir menn þyrftu að giftast eða að þeir þyrftu að vera einhleypir. Hvað getum við þá sagt um hjónaband og einhleypi? Því er vel lýst í Varðturninum 1. október 2012 á ensku. Þar kemur fram að hjónaband og einhleypi sé hvort tveggja gjöf frá Jehóva Guði og að hann líti ekki á einhleypi sem ástæðu til að skammast sín eða að vera miður sín. Við verðum því að virða hlutverk einhleypra bræðra og systra í söfnuðinum.

Hvað ættum við að forðast til að sýna einhleypum trúsystkinum okkar virðingu? (Sjá 10. grein.)

10. Hvernig getum við sýnt einhleypum bræðrum og systrum tillitssemi?

10 Hvernig getum við tekið tillit til tilfinninga og aðstæðna einhleypra trúsystkina okkar og sýnt þeim þannig virðingu? Við verðum að hafa í huga að sum þeirra hafa ákveðið að ganga ekki í hjónaband. Sum myndu vilja giftast en hafa einfaldlega ekki fundið réttu manneskjuna. Enn önnur trúsystkini hafa misst maka sinn í dauðann. En hvað sem því líður, er þá viðeigandi að aðrir í söfnuðinum spyrji þau hvers vegna þau séu ekki gift eða bjóðist til að hjálpa þeim að finna maka? Sum einhleyp trúsystkini gætu vissulega beðið um slíka aðstoð. En hvernig myndi þeim líða ef þeim yrði boðin aðstoð án þess að hafa beðið um hana? (1. Þess. 4:11; 1. Tím. 5:13) Hugleiðum það sem nokkur trúföst einhleyp trúsystkini hafa sagt.

11, 12. Hvað gæti verið letjandi fyrir þá sem eru einhleypir?

11 Farandhirði nokkrum, sem annast verkefni sitt mjög vel, finnst margir kostir við að vera ógiftur. En hann segir að það geti verið letjandi þegar bræður og systur sem vilja vel spyrja hann: „Hvers vegna ertu ekki giftur?“ Einhleypur bróðir sem þjónar við deildarskrifstofu segir: „Ég tek stundum eftir því að sumum bræðrum og systrum finnst þau þurfa vorkenna þeim sem eru ekki í hjónabandi. Einhleypi gæti þess vegna litið út fyrir að vera byrði frekar en gjöf.“

12 Einhleyp systir sem þjónar á Betel segir: „Sumir boðberar gera ráð fyrir að allt einhleypt fólk sé að leita sér að maka eða að það líti á það sem tækifæri til að finna sér maka í hvert sinn sem fólk kemur saman. Eitt sinn átti ég að sinna verkefni á vegum Betel í öðrum landshluta og kom á áfangastað á samkomukvöldi. Systirin sem ég gisti hjá sagði mér að í söfnuðinum væru tveir bræður á mínum aldri. Hún fullvissaði mig um að hún væri ekki að reyna að finna maka fyrir mig. Við vorum samt ekki fyrr komnar inn í ríkissalinn en hún kynnti mig fyrir bræðrunum tveim. Það er óhætt að segja að þetta var mjög vandræðalegt fyrir okkur öll þrjú.“

13. Hverjir voru einhleypri systur hvatning?

13 Önnur einhleyp systir á Betel segir: „Ég þekki brautryðjendur sem hafa verið einhleypir í langan tíma og sýna gott jafnvægi, hafa skýr markmið, eru fúsir til að hjálpa öðrum og ánægðir í þjónustu sinni. Þeir gera mikið gagn í söfnuðinum. Þeir sjá einhleypi sitt í réttu ljósi og þeim finnst þeir hvorki betri en aðrir vegna þess að þeir eru einhleypir né að þeir geti ekki verið hamingjusamir vegna þess að þeir eiga ekki maka og börn.“ Það er ánægjulegt að vera í söfnuði þar sem allir virða og meta hver annan. Þá er engum vorkennt og enginn öfundaður, enginn er sniðgenginn né talinn betri en aðrir. Allir finna að þeir eru elskaðir.

14. Hvernig getum við sýnt einhleypum trúsystkinum okkar virðingu?

14 Einhleyp trúsystkini okkar verða þakklát ef við metum þau vegna góðra eiginleika en ekki vegna hjúskaparstöðu. Í stað þess að vorkenna þeim ættum við að vera þakklát fyrir trúfesti þeirra. Þá fá þau aldrei á tilfinninguna að við segjum við þau: „Ég þarf ekki á ykkur að halda.“ (1. Kor. 12:21) Og þau finna að við virðum þau og kunnum að meta hlutverk þeirra í söfnuðinum.

SÝNUM ÞEIM VIRÐINGU SEM TALA EKKI MÁLIÐ REIPRENNANDI

15. Hvað hafa sumir gert til að geta gert meira í þjónustunni?

15 Á síðustu árum hafa margir boðberar gert það að markmiði sínu að læra nýtt tungumál til að geta gert meira í þjónustunni. Þeir hafa þess vegna þurft að gera breytingar á lífi sínu. Þessir bræður og systur hafa flust úr söfnuði þar sem móðurmál þeirra er talað í söfnuð þar sem annað tungumál er talað og meiri þörf er fyrir boðbera. (Post. 16:9) Þau hafa tekið þessa ákvörðun til að geta gert enn meira í þjónustunni við Jehóva. Þau áorka miklu þó að það taki þau kannski mörg ár að ná góðum tökum á málinu. Þau búa yfir góðum eiginleikum og reynslu og eru því söfnuðinum stuðningur og styrkur. Við kunnum sannarlega að meta þessa bræður og systur!

16. Hvaða kröfur þarf bróðir að uppfylla til að verða öldungur eða safnaðarþjónn?

16 Öldungaráð ætti ekki að hika við að mæla með bróður sem öldungi eða safnaðarþjóni einfaldlega vegna þess að hann hefur ekki náð góðum tökum á málinu sem talað er í söfnuðinum. Öldungarnir byggja mat sitt á hæfniskröfum Biblíunnar til öldunga og safnaðarþjóna en ekki á því hversu vel bróðirinn talar málið. – 1. Tím. 3:1–10, 12, 13; Tít. 1:5–9.

17. Hvað þurfa foreldrar að ákveða þegar fjölskyldan flytur til annars lands?

17 Sumar fjölskyldur hafa flust til annars land til að leita hælis eða finna vinnu. Börnin fara kannski í skóla þar sem kennslan fer fram á máli heimamanna. Foreldrarnir gætu líka þurft að læra málið til að fá vinnu. En hvað nú ef þar er hópur eða söfnuður þar sem móðurmál þeirra er talað? Hvaða söfnuð ætti fjölskyldan að velja? Ætti að velja söfnuð þar sem mál heimamanna er talað eða söfnuð þar sem móðurmál fjölskyldunnar er talað?

18. Hvernig getum við sýnt að við virðum ákvörðunina sem höfuð fjölskyldunnar tekur, samanber Galatabréfið 6:5?

18 Höfuð fjölskyldunnar verður að ákveða hvaða söfnuð fjölskyldan eigi að tilheyra eftir að hafa metið hvað sé best fyrir hana. (Lestu Galatabréfið 6:5.) Við verðum að virða ákvörðunina því að það er á ábyrgð höfuðs fjölskyldunnar að taka hana. Við getum sýnt að við gerum það með því að taka vel á móti fjölskyldunni og hjálpa henni að líða vel í söfnuðinum. – Rómv. 15:7.

Hvernig getum við sýnt að við kunnum að meta þá sem eru að læra nýtt tungumál? (Sjá 20. grein.)

19. Hvað ætti höfuð fjölskyldunnar að hugleiða í bænarhug?

19 Sumar fjölskyldur tilheyra ef til vill söfnuði þar sem móðurmál foreldranna er talað en börnin tala það kannski ekki reiprennandi. Ef söfnuðurinn er á svæði þar sem mál heimamanna er talað má vera að börnin eigi í basli með að skilja það sem fer fram á samkomum og taki ekki framförum í trúnni. Hvers vegna? Vegna þess að börnin sækja sennilega skóla þar sem mál heimamanna er talað en ekki móðurmál foreldranna. Ef svo er ætti höfuð fjölskyldunnar að hugleiða málið vandlega og biðja Jehóva um visku til að geta hjálpað börnunum að styrkja sambandið við hann og þjóna hans. Foreldrarnir verða annaðhvort að hjálpa börnum sínum að ná góðum tökum á móðurmáli sínu eða íhuga hvort fjölskyldan eigi að flytja í söfnuð þar sem talað er tungumál sem börnin skilja. Hvað sem höfuð fjölskyldunnar ákveður að gera ætti söfnuðurinn sem hann kýs að tilheyra að sýna honum og fjölskyldu hans virðingu og meta þau að verðleikum.

20. Hvernig getum við sýnt að við berum virðingu fyrir trúsystkinum sem eru að læra nýtt tungumál?

20 Af því sem við höfum rætt er ljóst að í mörgum söfnuðum eru bræður og systur sem glíma við að læra nýtt tungumál. Þeim gæti fundist erfitt að tjá hugsanir sínar í orðum. En ef við horfum fram hjá því hvernig þau tala sjáum við að þau elska Jehóva og vilja þjóna honum. Ef við gefum gaum að fallegum eiginleikum þeirra munum við virða þessi trúsystkini og meta þau mikils. Þá hugsum við ekki: „Ég þarf ekki á ykkur að halda,“ einfaldlega út af því að þau hafa ekki náð góðum tökum á málinu.

VIÐ ERUM DÝRMÆT Í AUGUM JEHÓVA

21, 22. Hvaða mikla heiður höfum við hlotið?

21 Jehóva hefur veitt okkur þann mikla heiður að hafa hlutverki að gegna í söfnuði hans. Við erum öll dýrmæt í augum hans og í augum hvers annars, hvort sem við erum karlar eða konur, einhleyp eða gift, ung eða gömul eða hvort sem við tölum málið vel eða höfum mjög takmarkaða kunnáttu í því. – Rómv. 12:4, 5; Kól. 3:10, 11.

22 Við skulum nýta okkur þann dýrmæta lærdóm sem draga má af líkingu Páls um mannslíkamann. Það mun hjálpa okkur að meta enn betur hlutverk okkar og hlutverk annarra í söfnuði Jehóva.

SÖNGUR 90 Gefum gætur hvert að öðru

^ gr. 5 Þjónar Jehóva hafa mismunandi bakgrunn og gegna ólíku hlutverki innan safnaðarins. Í þessari grein skoðum við hvers vegna það er mikilvægt að við virðum hvern og einn í söfnuði Jehóva.

^ gr. 8 Við getum ekki sagt fyrir víst að Tímóteus hafi aldrei gengið í hjónaband.