Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 33

Upprisan endurspeglar kærleika Guðs, visku hans og þolinmæði

Upprisan endurspeglar kærleika Guðs, visku hans og þolinmæði

,Guð mun reisa upp bæði réttláta og rangláta.‘ – POST. 24:15.

SÖNGUR 151 Hann mun kalla

YFIRLIT *

1. Hvers vegna skapaði Jehóva líf?

EINU sinni var Jehóva aleinn. Samt var hann ekki einmana. Hann var sjálfum sér nógur á allan hátt. En hann vildi líka að aðrir nytu lífs og hamingju. Knúinn af kærleika byrjaði Jehóva að skapa. – Sálm. 36:10; 1. Jóh. 4:19.

2. Hvernig var Jesú og englunum innanbrjósts þegar Jehóva skapaði allt annað?

2 Fyrst skapaði Jehóva Jesú, son sinn. Síðan skapaði hann allt annað með hjálp sonar síns, þar á meðal milljónir vitiborinna andavera. (Kól. 1:16) Jesús gladdist yfir að mega vinna með föður sínum. (Orðskv. 8:30) Og englasynir Guðs höfðu líka ástæðu til að gleðjast. Þeir fylgdust með frá fremsta bekk ef svo má að orði komast þegar Jehóva skapaði himinn og jörð og Jesús var með í ráðum. Hvernig brugðust englarnir við? „Allir synir Guðs fögnuðu“ þegar jörðin var mynduð. Og þeir hafa án efa fagnað yfir öllu sem Jehóva skapaði eftir það, þar á meðal mönnunum, síðasta meistaraverki hans. (Job. 38:7; Orðskv. 8:31) Allt sem Jehóva skapaði endurspeglar kærleika hans og visku. – Sálm. 104:24; Rómv. 1:20.

3. Hvaða möguleika opnar lausnarfórn Jesú eins og sjá má af 1. Korintubréfi 15:21, 22?

3 Það var ætlun Jehóva að mennirnir lifðu að eilífu á fallegu plánetunni sem hann hafði skapað. En þegar Adam og Eva gerðu uppreisn gegn kærleiksríkum föður sínum varpaði synd og dauði skugga yfir jörðina. (Rómv. 5:12) Hvernig brást Jehóva við? Hann lét strax í ljós hvernig hann ætlaði að bjarga mannkyninu. (1. Mós. 3:15) Jehóva ákvað að sjá fyrir lausnargjaldi sem myndi gera afkomendum Adams og Evu kleift að losna undan synd og dauða. Þannig gæti hann leyft hverjum og einum að velja að þjóna sér og hljóta eilíft líf. – Jóh. 3:16; Rómv. 6:23; lestu 1. Korintubréf 15:21, 22.

4. Hvaða spurningar ætlum við að ræða í þessari grein?

4 Loforð Guðs um að reisa upp þá sem eru dánir gæti vakið upp margar spurningar. Hvernig mun til dæmis upprisan líklega fara fram? Munum við þekkja ástvini okkar þegar þeir fá líf á ný? Hvers vegna mun upprisan veita okkur gleði? Og hvernig getur það að hugleiða upprisuna gert okkur enn þakklátari fyrir kærleika Jehóva, visku hans og þolinmæði? Skoðum hverja spurningu fyrir sig.

HVERNIG MUN UPPRISAN LÍKLEGA FARA FRAM?

5. Hvers vegna má ætla að upprisan fari skipulega fram og stig af stigi?

5 Þegar Jehóva reisir upp milljónir manna fyrir atbeina sonar síns megum við gera ráð fyrir að það fái ekki allir upprisu á sama tíma. Hvers vegna? Vegna þess að skyndileg fólksfjölgun myndi að öllum líkindum skapa ringulreið. Og ekkert sem Jehóva gerir einkennist af óreiðu eða skipulagsleysi. Hann veit að gott skipulag er forsenda þess að fólk geti búið við frið. (1. Kor. 14:33) Jehóva Guð sýndi visku og þolinmæði þegar hann vann með Jesú að því að búa jörðina stig af stigi undir komu mannsins. Jesús sýnir þessa sömu eiginleika í þúsundáraríkinu þegar hann vinnur með þeim sem lifa af Harmagedón við að undirbúa komu þeirra sem verða reistir upp til lífs á ný.

Þeir sem lifa af Harmagedón munu fræða þá sem fá upprisu um ríki Guðs og kröfur hans. (Sjá 6. grein.) *

6. Hverjir verða meðal þeirra sem fá upprisu samkvæmt Postulasögunni 24:15?

6 Þeir sem lifa af Harmagedón hafa þó ekkert mikilvægara verkefni en að fræða þá sem fá upprisu um ríki Guðs og kröfur hans. Hvers vegna? Vegna þess að meirihluti þeirra sem fá líf á ný verða í hópi ,ranglátra‘. (Lestu Postulasöguna 24:15.) Þeir þurfa að gera margar breytingar til að geta notið góðs af lausnarfórn Krists. Hugsum okkur alla þá vinnu sem felst í því að fræða milljónir manna sem hafa enga þekkingu á Jehóva Guði. Fær hver og einn sinn einkakennara líkt og þeir sem fá biblíukennslu nú á dögum? Verða þeir skipaðir í söfnuði þar sem þeir fá þjálfun í að kenna þeim sem verða reistir upp á eftir þeim? Það verður að koma í ljós. Við vitum hins vegar að í lok þúsundáraríkis Krists verður öll jörðin ,full af þekkingu á Jehóva‘. (Jes. 11:9) Þessi þúsund ár verða vissulega annasöm en ánægjuleg.

7. Hvers vegna mun fólk Jehóva sýna þeim samkennd sem verða reistir upp til lífs á ný?

7 Í þúsundáraríki Krists þurfa öll jarðnesk börn Jehóva að gera breytingar til að vera velþóknanleg í augum hans. Allir munu því geta sýnt skilning og samkennd þegar þeir hjálpa þeim sem fá upprisu að vinna bug á syndugum tilhneigingum sínum og lifa eftir meginreglum Jehóva. (1. Pét. 3:8) Þeir sem fá líf á ný munu án efa laðast að auðmjúku fólki Jehóva, sem mun sjálft vera að ,vinna að björgun sinni‘. – Fil. 2:12.

MUNUM VIÐ ÞEKKJA ÞÁ SEM FÁ UPPRISU?

8. Hvers vegna getum við gert ráð fyrir því að þeir sem taka á móti ástvinum sínum í upprisunni muni þekkja þá?

8 Við getum gert ráð fyrir því að þeir sem taka á móti ástvinum sínum í upprisunni muni þekkja þá. Fyrir því eru nokkrar ástæður. Það lítur til dæmis út fyrir að Jehóva muni endurskapa fólk þannig að útlit þess, tal og hugsun verði eins og það var rétt áður en fólkið dó því að sú var raunin þegar hann reisti upp fólk til forna. Munum að Jesús líkti dauðanum við svefn og upprisunni við það að vera vakinn af svefni. (Matt. 9:18, 24; Jóh. 11:11–13) Þegar fólk vaknar af svefni lítur það eins út og talar eins og áður en það fór að sofa og það hefur sömu minningar. Tökum Lasarus sem dæmi. Hann hafði verið dáinn í fjóra daga svo að líkami hans hefur verið byrjaður að rotna. Samt þekktu María og Marta Lasarus strax þegar Jesús reisti hann upp og Lasarus mundi auðvitað eftir þeim. – Jóh. 11:38–44; 12:1, 2.

9. Hvers vegna rís fólk ekki upp fullkomið á huga og líkama?

9 Jehóva lofar að í paradís muni enginn segja: „Ég er veikur.“ (Jes. 33:24; Rómv. 6:7) Þess vegna er rökrétt að Jehóva gefi þeim sem hann reisir upp frá dauðum heilbrigðan líkama. En þeir verða ekki fullkomnir þegar í stað. Ef svo væri gætu ástvinir þeirra átt erfitt með að þekkja þá. Það lítur því út fyrir að mannkynið verði fullkomið smám saman undir þúsund ára stjórn Krists. Það er fyrst í lok þúsundáraríkisins sem Jesús afhendir föður sínum ríkið. Ríkið hefur þá lokið verkefni sínu sem fólst meðal annars í því að hjálpa mannkyninu að öðlast fullkomleika. – 1. Kor. 15:24–28; Opinb. 20:1–3.

HVERS VEGNA MUN UPPRISAN VEITA OKKUR GLEÐI?

10. Hvaða áhrif mun upprisan hafa á þig?

10 Ímyndaðu þér hvernig það verður að sjá ástvini þína á ný. Muntu hlægja eða gráta af gleði? Verður gleði þín svo mikil að þú ferð að lofsyngja Jehóva? Eitt er víst, þú átt eftir að finna fyrir ákaflega miklum kærleika í garð þíns umhyggjusama föður og ástríks sonar hans vegna þeirrar dásamlegu gjafar sem upprisan er.

11. Hvert verður hlutskipti þeirra sem lifa í samræmi við réttlátar meginreglur Guðs samkvæmt því sem Jesús segir í Jóhannesi 5:28, 29?

11 Hugsaðu þér gleðina sem hinir upprisnu upplifa þegar þeir afklæðast sínum gamla persónuleika og lifa í samræmi við réttlátar meginreglur Guðs. Þeir sem gera þessar breytingar fá að lifa að eilífu. Hins vegar leyfir Jehóva ekki þeim sem gera uppreisn gegn sér að lifa áfram og raska friðinum í paradís. – Jes. 65:20; lestu Jóhannes 5:28, 29.

12. Hvernig mun Jehóva blessa alla sem búa á jörðinni?

12 Undir stjórn Guðsríkis upplifa allir þjónar Guðs það sem segir í Orðskviðunum 10:22: „Blessun Jehóva auðgar og hann lætur enga kvöl fylgja henni.“ (NW) Með hjálp heilags anda Jehóva verða þjónar hans andlega ríkir, það er að segja sífellt líkari Kristi, og með tímanum verða þeir fullkomnir. (Jóh. 13:15–17; Ef. 4:23, 24) Þeir styrkjast líkamlega með hverjum deginum og verða betri einstaklingar. Þá verður ánægjulegt að lifa! (Job. 33:25) En hvernig getur það að hugleiða upprisuna hjálpað þér núna?

VERUM ÞAKKLÁT FYRIR KÆRLEIKA JEHÓVA

13. Hvernig mun upprisan leiða í ljós hversu vel Jehóva þekkir okkur, samanber Sálm 139:1–4?

13 Eins og við höfum rætt mun fólk sem Jehóva reisir upp hafa sömu minningar og persónuleika og það hafði áður. Hugleiðum hvað það felur í sér. Jehóva elskar þig svo mikið að hann tekur eftir og man allt sem þú hugsar, segir og gerir og hvernig þér líður. Ef hann þyrfti að reisa þig upp frá dauðum myndi hann auðveldlega geta endurskapað þig nákvæmlega eins og þú varst. Davíð konungur vissi vel hversu mikinn áhuga Jehóva hefur á hverju og einu okkar. (Lestu Sálm 139:1–4.) Hvaða áhrif getur það haft á okkur að skilja hversu vel Jehóva þekkir okkur?

14. Hvaða áhrif ætti það að hafa á okkur að hugleiða hversu vel Jehóva þekkir okkur?

14 Það ætti ekki að valda okkur áhyggjum að hugleiða hversu vel Jehóva þekkir okkur. Hvers vegna? Munum að Jehóva er innilega annt um okkur. Hann kann að meta þau persónueinkenni sem gera okkur sérstök. Hann tekur eftir öllu sem hefur mótað okkur á lífsleiðinni. Það er mjög hughreystandi! Okkur ætti aldrei að finnast við vera ein. Jehóva er við hlið okkar allar stundir alla daga og tilbúinn að hjálpa okkur. – 2. Kron. 16:9.

VERUM ÞAKKLÁT FYRIR VISKU JEHÓVA

15. Hvernig er upprisan merki um visku Jehóva?

15 Ótti við dauðann er öflugt vopn. Þeir sem eru undir áhrifum Satans nota þennan ótta til að þvinga fólk til að snúa baki við vinum sínum eða hvika frá sannfæringu sinni. En þessi ótti hefur engin tök á okkur. Við vitum að Jehóva reisir okkur upp til lífs á ný ef óvinir okkar drepa okkur. (Opinb. 2:10) Við erum sannfærð um að ekkert sem þeir gera geti gert okkur viðskila við Jehóva. (Rómv. 8:35–39) Jehóva hefur sýnt einstaka visku með því að gefa okkur upprisuvonina. Með henni slær hann eitt mikilvægasta vopn Satans úr höndum hans og færir okkur um leið í hendur það vopn sem óbilandi hugrekki er.

Sýna ákvarðanir okkar að við treystum loforði Jehóva um að hann sjái fyrir efnislegum þörfum okkar? (Sjá 16. grein.) *

16. Hvaða spurninga þarftu að spyrja þig og hvernig getur svarið við þeim hjálpað þér að vita hversu vel þú treystir Jehóva?

16 Munt þú treysta Jehóva fyrir lífi þínu ef óvinir hans hóta að drepa þig? Hvernig geturðu vitað það? Þú ættir að spyrja þig: Bera þær ákvarðanir sem ég tek dags daglega í minni háttar málum þess merki að ég treysti Jehóva? (Lúk. 16:10) Önnur spurning gæti verið: Lifi ég lífinu þannig að það er augljóst að ég treysti loforði Jehóva um að hann sjái fyrir efnislegum þörfum mínum ef ég einbeiti mér fyrst og fremst að ríki hans? (Matt. 6:31–33) Ef þú getur svarað þessum spurningum játandi sýnirðu að þú treystir Jehóva og að þú ert tilbúinn að takast á við hvaða prófraun sem þú kannt að mæta. – Orðskv. 3:5, 6.

VERUM ÞAKKLÁT FYRIR ÞOLINMÆÐI JEHÓVA

17. (a) Hvernig endurspeglar upprisan þolinmæði Jehóva? (b) Hvernig getum við sýnt að við erum þakklát fyrir þolinmæði Jehóva?

17 Jehóva hefur ákveðið daginn og stundina sem hann ætlar að binda enda á þennan illa heim. (Matt. 24:36) Hann verður ekki óþolinmóður og tekur ekki í taumana fyrir þann tíma. Hann þráir að reisa upp þá sem eru dánir, en hann er þolinmóður. (Job. 14:14, 15) Hann bíður eftir réttu stundinni til að gefa þeim líf á ný. (Jóh. 5:28) Við höfum ærna ástæðu til að vera þakklát fyrir þolinmæði Jehóva. Hugleiddu eftirfarandi: Þar sem Jehóva er þolinmóður hafa margir, þar á meðal við, haft tíma til að iðrast. (2. Pét. 3:9) Jehóva vill að sem flestir fái tækifæri til að öðlast eilíft líf. Við skulum því sýna að við erum þakklát fyrir þolinmæði hans. Hvernig? Með því að leggja okkur einlæglega fram um að finna þá sem ,hafa það hugarfar sem þarf til að hljóta eilíft líf‘ og kenna þeim að elska Jehóva og þjóna honum. (Post. 13:48) Þá njóta þeir góðs af þolinmæði hans rétt eins og við höfum gert.

18. Hvers vegna ættum við að sýna öðrum þolinmæði?

18 Jehóva býst ekki við fullkomleika af okkur fyrr en í lok þúsundáraríkisins. En fram að því sýnir hann okkur þolinmæði og er fús til að fyrirgefa syndir okkar. Við ættum því að líkja eftir honum og leitast við að sjá það góða í fari annarra og sýna þeim þolinmæði. Tökum sem dæmi systur eina, en maðurinn hennar byrjaði að fá alvarleg kvíðaköst og hætti að sækja samkomur. „Þetta olli mér miklum sársauka,“ segir hún. „Framtíðaráætlun okkar sem fjölskylda varð að engu.“ En þessi ástríka eiginkona hélt áfram að sýna manninum sínum þolinmæði. Hún treysti á Jehóva og gafst aldrei upp. Hún líkti eftir honum og einblíndi ekki á vandann heldur á það góða í fari eiginmanns síns. Hún segir: „Maðurinn minn hefur dásamlega eiginleika og hann er að vinna í því að ná bata, skref fyrir skref.“ Það er afar mikilægt að við séum þolinmóð við þá sem eru í fjölskyldu okkar eða söfnuði og eru að reyna að yfirstíga erfið vandamál.

19. Hvað ættum við að vera staðráðin í að gera?

19 Jesús og englarnir glöddust þegar jörðin var mynduð. En ímyndaðu þér gleðina þegar þeir sjá jörðina fulla af fullkomnu fólki sem elskar Jehóva og þjónar honum. Hugsaðu þér gleði þeirra sem voru kallaðir til himna til að ríkja með Kristi þegar þeir sjá að mannkynið nýtur góðs af starfi þeirra. (Opinb. 4:4, 9–11; 5:9, 10) Og ímyndaðu þér hvernig lífið verður þegar gleðitár koma í stað sorgartára og þegar veikindi, sorg og dauði er úr sögunni fyrir fullt og allt. (Opinb. 21:4) Vertu staðráðinn þangað til í að líkja eftir kærleiksríkum, vitrum og þolinmóðum föður þínum. Þannig viðheldurðu gleðinni, sama hvaða erfiðleikum þú mætir. (Jak. 1:2–4) Við getum verið innilega þakklát að Jehóva skuli hafa lofað að „reisa upp bæði réttláta og rangláta“. – Post. 24:15.

SÖNGUR 141 Lífið er kraftaverk

^ gr. 5 Jehóva er kærleiksríkur, vitur og þolinmóður faðir. Við getum séð þessa eiginleika af því hvernig hann hefur skapað allt og af loforði hans um að reisa upp þá sem eru dánir. Í þessari grein ræðum við nokkrar spurningar sem við gætum haft varðandi upprisuna. Við beinum einnig athyglinni að því hvernig við getum sýnt þakklæti fyrir kærleika Jehóva, visku hans og þolinmæði.

^ gr. 59 MYND: Frumbyggi Ameríku sem dó fyrir mörgum öldum fær upprisu undir þúsund ára stjórn Krists. Bróðir sem lifði af Harmagedón hefur ánægju af að fræða hann um það sem þarf að gera til að njóta góðs af lausnarfórn Krists.

^ gr. 61 MYND: Bróðir segir vinnuveitanda sínum að það séu nokkur kvöld í viku sem hann geti ekki unnið yfirvinnu. Hann útskýrir að þessi kvöld séu frátekin fyrir tilbeiðsluna á Jehóva. Hins vegar er hann fús til að vinna yfirvinnu á öðrum tímum ef það er mjög brýnt.