Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 33

Finndu gleði í verkefnum þínum

Finndu gleði í verkefnum þínum

„Betri er sjón augnanna en reik girndarinnar.“ – PRÉD. 6:9, Biblían 1981.

SÖNGUR 111 Gleðjumst og fögnum

YFIRLIT *

1. Hvernig leggja margir sig fram um að gera meira í þjónustu Jehóva?

 VIÐ höfum mikið að gera nú á allra síðustu dögum þessa heimskerfis. (Matt. 24:14; Lúk. 10:2; 1. Pét. 5:2) Við viljum öll gera okkar allra besta í þjónustunni við Jehóva. Margir eru að auka þjónustu sína. Sumir vonast til að geta orðið brautryðjendur. Aðra langar til að þjóna á Betel eða taka þátt í byggingarvinnu á vegum safnaðarins. Og margir bræður vinna að því að verða hæfir til að þjóna sem safnaðarþjónar eða öldungar. (1. Tím. 3:1, 8) Það hlýtur að gleðja Jehóva mjög að sjá þennan fúsleika hjá þjónum sínum. – Sálm. 110:3; Jes. 6:8.

2. Hvernig gæti okkur liðið ef við náum ekki markmiðum okkar í þjónustunni við Jehóva?

2 Það getur dregið úr okkur kjark ef okkur hefur ekki tekist að ná einhverjum markmiðum okkar þó að við höfum unnið að þeim um töluverðan tíma. Við gætum líka orðið niðurdregin ef sum verkefni standa okkur ekki til boða vegna aldurs eða annarra aðstæðna. (Orðskv. 13:12) Það á við um Melissu. * Hún myndi gjarnan vilja þjóna á Betel eða sækja Skólann fyrir boðbera Guðsríkis, en hún segir: „Ég er of gömul til að sækja um þessi verkefni og það gerir mig stundum niðurdregna.“

3. Hvað gætu sumir þurft að gera til að verða hæfir til að taka á sig aukna ábyrgð?

3 Sumir sem eru ungir og hraustir gætu þurft að þroskast og rækta með sér ákveðna eiginleika áður er þeir geta tekið á sig aukna ábyrgð. Þeir eru kannski greindir, ákafir og eiga auðvelt með að taka ákvarðanir en gætu þurft að læra að vera þolinmóðari, nákvæmari og sýna meiri virðingu. Ef þú leggur þig fram um að þroska þá eiginleika sem þú þarft að bæta gæti þér verið falið ábyrgðarverkefni áður en þú veist af. Tökum Nick sem dæmi. Þegar hann var tvítugur var hann mjög vonsvikinn yfir að hafa ekki verið útnefndur safnaðarþjónn. Hann segir: „Ég hugsaði að það hlyti að vera eitthvað að hjá mér.“ En Nick gafst ekki upp. Hann sinnti þeim verkefnum sem hann hafði eins vel og hann gat. Núna situr hann í deildarnefnd.

4. Hvað skoðum við í þessari grein?

4 Ertu niðurdreginn vegna þess að þú hefur ekki náð ákveðnu markmiði í þjónustu Jehóva? Þá skaltu biðja til hans og segja honum hvernig þér líður. (Sálm. 37:5–7) Biddu auk þess þroskaða bræður að gefa þér tillögur um hvernig þú getur tekið framförum í þjónustunni og gerðu svo þitt besta til að fara eftir leiðbeiningum þeirra. Þá má vera að þú náir markmiði þínu. En kannski er verkefnið sem þú sækist eftir utan seilingar eins og er, rétt eins og hjá Melissu sem minnst var á áður. Hvað geturðu þá gert til að viðhalda gleðinni? Þessi grein svarar því með því að ræða (1) hvar við getum fundið gleði, (2) hvernig við getum aukið gleðina og (3) hvers konar markmið við getum sett okkur til að auka gleðina.

HVAR GETUM VIÐ FUNDIÐ GLEÐI?

5. Að hverju ættum við að einbeita okkur til að vera glöð? (Prédikarinn 6:9)

5 Eins og fram kemur í Prédikaranum 6:9 getum við fundið gleði með því að leita eftir henni á réttum stað. (Lestu.) Sá sem nýtur þess sem ber fyrir „sjón augnanna“ kann að meta það sem hann hefur, svo sem aðstæður sínar hér og nú. En sá sem lætur „reik girndarinnar“ stjórna sér óskar stöðugt eftir því sem hann getur ekki eignast. (Biblían 1981) Hvað lærum við af því? Til að finna gleði skulum við einbeita okkur að því sem við höfum og því sem er raunhæft að vonast eftir.

6. Hvaða dæmisögu ætlum við að skoða og að hverju beinum við athyglinni?

6 Er hægt að vera ánægður með þau verkefni sem maður hefur nú þegar? Með tímanum leitumst við eðlilega eftir því að takast á við eitthvað nýtt. En það er hægt að vera ánægður með það sem maður hefur. Hvernig? Til að svara því skulum við skoða dæmisögu Jesú um talenturnar í Matteusi 25:14–30. Við beinum athyglinni að því sem hún kennir okkur um það hvernig við getum haft gleði í núverandi aðstæðum og jafnvel aukið gleðina.

HVERNIG GETUM VIÐ AUKIÐ GLEÐINA?

7. Segðu í stuttu máli frá dæmisögu Jesú um talenturnar.

7 Maðurinn í dæmisögunni var að fara í ferðalag. Áður en hann fór kallaði hann á þjóna sína og gaf hverjum þeirra talentur til að versla með. * Hann tók tillit til hæfni þjónanna og gaf einum þeirra fimm talentur, öðrum tvær og þeim þriðja eina. Fyrstu tveir þjónarnir lögðu sig fram um að afla meiri peninga fyrir húsbónda sinn. En þriðji þjónninn gerði ekkert við peningana sem hann fékk og húsbóndinn rak hann úr þjónustu sinni.

8. Hvers vegna hafði fyrsti þjónninn í dæmisögunni ástæðu til að vera glaður?

8 Fyrsti þjónninn hlýtur að hafa verið ánægður að húsbóndi hans skyldi treysta honum fyrir fimm talentum. Þetta var heilmikill peningur og gaf til kynna hversu vel húsbóndinn treysti honum. En hvað með annan þjóninn? Hann hefði getað orðið vonsvikinn vegna þess að hann fékk ekki jafn margar talentur og fyrsti þjónninn. En hvernig brást hann við?

Hvað lærum við af öðrum þjóninum af þremur í dæmisögu Jesú? (1) Hann fékk tvær talentur frá húsbónda sínum. (2) Hann lagði hart að sér til að þéna meira fyrir húsbóndann. (3) Hann tvöfaldaði talentur húsbóndans. (Sjá 9.–11. grein.)

9. Hvað sagði Jesús ekki um annan þjónninn í dæmisögunni? (Matteus 25:22, 23)

9 Lestu Matteus 25:22, 23. Jesús sagði ekki að annar þjónninn hefði móðgast eða orðið reiður vegna þess að hann fékk aðeins tvær talentur. Og hann sagði ekki heldur að þjónninn hefði kvartað og sagt: „Er þetta allt sem ég fæ? Ég er alveg jafn hæfur og sá sem fékk fimm talenturnar! Ef húsbóndi minn kann ekki að meta mig get ég alveg eins grafið þessar tvær talentur og unnið fyrir sjálfan mig.“

10. Hvað gerði annar þjónninn við talenturnar sem honum voru gefnar?

10 Annar þjónninn tók ábyrgð sína alvarlega, rétt eins og sá fyrsti. Hann lagði sig allan fram við að þjóna húsbónda sínum og tvöfaldaði talentur hans. Þjóninum var umbunað ríkulega fyrir færni sína og dugnað. Húsbóndinn gladdist og treysti honum fyrir enn meiri ábyrgð.

11. Hvernig getum við aukið gleðina?

11 Eins getum við aukið gleði okkar með því að sökkva okkur niður í hvaða verkefni sem okkur er gefið í þjónustu Jehóva. Leggðu þig allan fram í boðuninni og taktu fullan þátt í starfsemi safnaðarins. (Post. 18:5; Hebr. 10:24, 25) Undirbúðu þig vel fyrir samkomurnar svo að þú getir gefið uppbyggjandi svör. Taktu alvarlega hvaða nemendaverkefni sem þú færð fyrir samkomuna í miðri viku. Vertu stundvís og áreiðanlegur ef þú ert beðinn um að hjálpa til við áveðið verkefni í söfnuðinum. Líttu ekki á neitt verkefni eins og það sé ekki þess virði að verja tíma í það. Leggðu þig fram um að verða færari í því sem þú gerir. (Orðskv. 22:29) Þegar þú sekkur þér niður í verkefni þín í þjónustunni tekurðu skjótari framförum og verður glaðari. (Gal. 6:4) Þá áttu líka auðveldara með að samgleðjast öðrum þegar þeir fá verkefni sem þú hefðir gjarnan viljað fá. – Rómv. 12:15; Gal. 5:26.

12. Hvað gerðu Melissa og Nick til að auka gleði sína?

12 Manstu eftir Melissu, systurinni sem sagði að hana langaði til að þjóna á Betel eða sækja Skólann fyrir boðbera Guðsríkis? Þó að það stæði henni ekki til boða segir hún: „Ég reyni að gera mitt besta í brautryðjendastarfinu og prófa allar hliðar boðunarinnar. Það hefur veitt mér mikla gleði.“ Og hvernig tókst Nick á við vonbrigðin yfir að vera ekki útnefndur safnaðarþjónn? „Ég einbeitti mér að því sem stóð mér til boða – að taka þátt í boðuninni og gefa hvetjandi svör á samkomum. Ég sótti líka um að starfa á Betel og umsóknin var samþykkt strax næsta ár.“

13. Hvað hlýst af því að sökkva sér niður í núverandi verkefni? (Prédikarinn 2:24)

13 Færðu aukna ábyrgð seinna ef þú sekkur þér niður í núverandi verkefni? Það gæti gerst, eins og hjá Nick. En ef ekki, eins og hjá Melissu, eykurðu samt gleðina og verður ánægður með það sem þú gerir fyrir Jehóva. (Lestu Prédikarann 2:24.) Auk þess finnurðu eflaust til gleði af því að vita að húsbóndi okkar, Jesús Kristur, er ánægður með það sem þú leggur á þig.

MARKMIÐ SEM AUKA GLEÐINA

14. Hvað ættum við að hafa í huga í sambandi við markmið okkar?

14 Ættum við að hætta að leita leiða til að gera meira í þjónustunni við Jehóva ef við erum nú þegar að gera okkar besta? Alls ekki. Við bæði getum og ættum að setja okkur markmið til að verða færari í boðuninni og hjálplegri við bræður okkar og systur. Við náum árangri ef við sýnum visku og hógværð og einbeitum okkur að því að þjóna öðrum í stað þess að hugsa aðeins um sjálf okkur. – Orðskv. 11:2; Post. 20:35.

15. Hvaða markmið geta aukið gleði þína?

15 Hvaða markmið geturðu sett þér? Biddu Jehóva að hjálpa þér að koma auga á raunhæf markmið. (Orðskv. 16:3; Jak. 1:5) Gætirðu sett þér eitt af markmiðunum sem nefnd eru í  grein eitt – að verða aðstoðarbrautryðjandi eða brautryðjandi, vinna á Betel eða taka þátt í byggingarvinnu á vegum safnaðarins? Eða kannski gætirðu lært nýtt tungumál til að boða fagnaðarboðskapinn á eða jafnvel boðað trúna á öðru svæði. Þú getur kynnt þér nánar sum af þessum markmiðum í 10. kafla bókarinnar Söfnuður skipulagður til að gera vilja Jehóva og með því að tala við öldunga í söfnuðinum þínum. * Framför þín verður augljós og gleði þín eykst þegar þú vinnur að slíkum markmiðum.

16. Hvað geturðu gert ef ákveðin markmið eru utan seilingar fyrir þig eins og er?

16 En hvað ef þú ert ekki fær um að ná neinum af markmiðunum sem fjallað hefur verið um? Reyndu þá að setja þér önnur markmið sem eru raunhæf fyrir þig. Skoðum nokkrar tillögur.

Hvaða markmiði gætir þú náð? (Sjá 17. grein.) *

17. Hvernig getur bróðir unnið að því að verða betri kennari, samanber 1. Tímóteusarbréf 4:13, 15?

17 Lestu 1. Tímóteusarbréf 4:13, 15. Ef þú ert skírður bróðir gætirðu unnið að því að verða betri ræðumaður og kennari. Það er áheyrendum þínum til góðs ef þú leggur þig fram um að verða góður í að lesa, flytja ræður og kenna. Settu þér það markmið að lesa og nýta þér hvern þjálfunarlið í bæklingnum Leggðu þig fram við að lesa og kenna. Farðu yfir einn þjálfunarlið í einu, æfðu þig vel heima og leggðu þig fram við að nota það sem þú hefur lært þegar þú flytur ræður. Biddu um ráð hjá aðstoðarleiðbeinandanum eða öðrum öldungum „sem leggja hart að sér við að fræða og kenna“. * (1. Tím. 5:17) Einbeittu þér ekki aðeins að þjálfunarliðnum heldur einnig að því að hjálpa áheyrendum þínum að styrkja trú sína og hvetja þá til að fara eftir því sem þeir læra. Þannig eykurðu bæði gleði þína og þeirra.

Hvaða markmiði gætir þú náð? (Sjá 18. grein.) *

18. Hvað hjálpar okkur að ná markmiðum í boðuninni?

18 Við höfum öll það verkefni að boða trúna og gera fólk að lærisveinum. (Matt. 28:19, 20; Rómv. 10:14) Langar þig að verða færari í þessu mikilvæga verkefni? Farðu vel yfir Kennslubæklinginn og settu þér markmið sem hjálpa þér að nota það sem þú lærir. Þú getur fengið fleiri gagnlegar tillögur í Líf okkar og boðun vinnubók fyrir samkomur og kynningarmyndböndunum sem sýnd eru á samkomunni í miðri viku. Prófaðu ýmsar tillögur til að finna út hvað passar best. Ef þú notar þessar tillögur muntu án efa finna fyrir þeirri óviðjafnanlegu gleði sem hlýst af því að verða fær biblíukennari. – 2. Tím. 4:5.

Hvaða markmiði gætir þú náð? (Sjá 19. grein.) *

19. Hvernig geturðu ræktað með þér kristna eiginleika?

19 Þegar þú setur þér markmið skaltu ekki gleyma því sem er einna mikilvægast – að rækta með sér kristna eiginleika. (Gal. 5:22, 23; Kól. 3:12; 2. Pét. 1:5–8) Hvað geturðu gert til að ná því marki? Segjum til dæmis að þú viljir rækta með þér sterkari trú. Þú gætir lesið greinar í ritum okkar sem gefa hagnýt ráð um það hvernig við getum styrkt trú okkar. Og þú hefur örugglega gagn af því að horfa á þætti í Sjónvarpi Votta Jehóva sem segja frá bræðrum og systrum sem hafa sýnt einstaka trú í ýmsum erfiðleikum. Hugleiddu síðan hvernig þú getur líkt eftir trú þeirra í þínu lífi.

20. Hvernig getum við aukið gleði okkar og dregið úr vonbrigðum?

20 Við myndum eflaust öll vilja geta gert meira fyrir Jehóva en aðstæður okkar leyfa núna. Í nýja heiminum getum við þjónað honum fullkomlega. Ef við sinnum verkefnum okkar eins vel og við getum þangað til getum við aukið gleði okkar og dregið úr vonbrigðum. Og það sem skiptir meira máli er að við heiðrum og lofum Jehóva, ,hinn hamingjusama Guð‘. (1. Tím. 1:11) Finnum gleði í verkefnum okkar!

SÖNGUR 82 Látið ljós ykkar lýsa

^ gr. 5 Við elskum Jehóva heitt og viljum þjóna honum eins vel og við getum. Okkur getur þess vegna langað til að auka þjónustu okkar eða verða hæf til að taka að okkur fleiri verkefni í söfnuðinum. En hvað ef við getum ekki náð einhverjum markmiðum okkar þó að við reynum okkar besta? Hvernig getum við haldið áfram að vera upptekin í þjónustu Jehóva og viðhaldið gleðinni? Dæmisaga Jesú um talenturnar svarar því.

^ gr. 2 Sumum nöfnum er breytt.

^ gr. 7 ORÐASKÝRING: Talenta samsvaraði um 20 ára launum venjulegs verkamanns.

^ gr. 15 Skírðir bræður eru hvattir til að vinna að því að verða safnaðarþjónar og öldungar. Rætt er um hæfniskröfurnar í 5. og 6. kafla bókarinnar Söfnuður skipulagður til að gera vilja Jehóva.

^ gr. 17 ORÐASKÝRING: Aðstoðarleiðbeinandi er öldungur sem hefur verið falið að leiðbeina einslega og eftir þörfum þeim öldungum og safnaðarþjónum sem eru með verkefni á sviðinu.

^ gr. 64 MYND: Bróðir leitar upplýsinga í ritum okkar til að ná markmiði sínu að verða betri kennari.

^ gr. 66 MYND: Systir gefur þjónustustúlku nafnspjald eftir að hafa sett sér það markmið að boða trúna óformlega.

^ gr. 68 MYND: Systur langar að sýna kristna eiginleika og kemur annarri systur á óvart með gjöf.