Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 32

Þið unga fólk – haldið áfram að taka framförum eftir skírnina

Þið unga fólk – haldið áfram að taka framförum eftir skírnina

,Sýnum kærleika en þannig getum við þroskast á allan hátt.‘ – EF. 4:15.

SÖNGUR 56 Trúin verður þín

YFIRLIT a

1. Hvað hafa margir ungir þjónar Jehóva þegar gert?

 ÁR HVERT láta þúsundir ungra þjóna Jehóva skírast. Ert þú búinn að stíga þetta skref? Ef svo er gleður það bæði Jehóva og trúsystkini þín. (Orðskv. 27:11) Hugleiddu það sem þú hefur gert hingað til. Þú hefur rannsakað Biblíuna rækilega, kannski í nokkur ár. Þú hefur sannfærst um að hún sé orð Guðs. Og það sem meira er, þú hefur kynnst höfundi hennar og lært að elska hann. Og nú ertu orðinn vígður og skírður þjónn Jehóva. Það er frábært!

2. Hvað ræðum við í þessari námsgrein?

 2 Trú þín hefur örugglega verið reynd á ýmsan hátt meðan þú varst að sækja fram til skírnar. En þú átt eftir að verða fyrir fleiri prófraunum. Satan reynir að veikja kærleika þinn til Jehóva og draga þig frá honum. (Ef. 4:14) Ekki leyfa honum það. Hvað getur hjálpað þér að vera trúfastur og standa við vígsluheit þitt? Þú verður að halda áfram að taka framförum, að „sækja fram til þroska“. (Hebr. 6:1) Hvernig geturðu gert það?

HVERNIG GETURÐU SÓTT FRAM TIL ÞROSKA SEM ÞJÓNN JEHÓVA?

3. Hvaða framförum þurfa allir þjónar Guðs að taka eftir skírnina?

3 Allir þurfa að sækja fram eftir skírnina. Páll hvatti kristna menn í Efesus til að verða ,fullorðnir‘. (Ef. 4:13) Hann var í raun að segja að þeir þyrftu að halda áfram að taka framförum. Við getum skilið hvað Páll átti við þegar hann líkti andlegum vexti kristins manns við líkamlegt þroskaferli barns. Nýfætt barn er gleði og stolt foreldra sinna. En með tímanum þarf barnið að taka út þroska og ,segja skilið við einkenni barnsins‘. (1. Kor. 13:11) Á svipaðan hátt þurfa þjónar Jehóva að halda áfram að taka framförum eftir skírnina. Skoðum hvað getur hjálpað okkur til að gera það.

4. Hvaða eiginleiki getur hjálpað þér að taka andlegum framförum? Skýrðu svarið. (Filippíbréfið 1:9)

4 Láttu kærleika þinn til Jehóva vaxa. Þú elskar Jehóva heitt nú þegar. En kærleikur þinn getur vaxið. Hvernig? Páll postuli benti á eina leið í Filippíbréfinu 1:9. (Lestu.) Hann bað til Jehóva að kærleikur Filippímanna myndi ,vaxa jafnt og þétt‘. Við getum því vaxið í kærleika. Við getum gert það með því að öðlast ,nákvæma þekkingu og góða dómgreind‘. Því betur sem við kynnumst Jehóva þeim mun meira elskum við hann. Við förum að meta persónuleika hans enn betur og það hvernig hann gerir hlutina. Okkur verður meira í mun að þóknast honum og gera ekkert sem veldur honum vonbrigðum. Við leggjum okkur fram um að skilja hver vilji hans er og fara eftir honum.

5, 6. Hvernig getum við styrkt kærleika okkar til Jehóva? Skýrðu svarið.

5 Við förum að elska Jehóva heitar þegar við kynnumst Jesú betur. Hann endurspeglar persónuleika Jehóva fullkomlega. (Hebr. 1:3) Besta leiðin til að kynnast Jesú er að rannsaka guðspjöllin fjögur. Það er góð venja að lesa í Biblíunni daglega. Ef það er ekki þegar orðið að venju hjá þér, hvernig væri að byrja núna? Þegar þú lest frásögur af Jesú skaltu sérstaklega taka eftir eiginleikum hans. Það var auðvelt að nálgast hann. Hann tók lítil börn í fangið. (Mark. 10:13–16) Lærisveinarnir voru afslappaðir í návist hans. Þeim fannst þeir geta tjáð sig frjálslega. (Matt. 16:22) Jesús líkti eftir föður sínum á himnum að þessu leyti. Það er auðvelt að nálgast Jehóva líka. Við getum leitað til hans í bæn. Við getum úthellt hjarta okkar og verið sannfærð um að hann fordæmir okkur ekki. Hann elskar okkur og ber umhyggju fyrir okkur. – 1. Pét. 5:7.

6 Jesús hafði samúð með fólki. Postulinn Matteus sagði: „Þegar hann sá mannfjöldann kenndi hann í brjósti um fólkið því að það var hrjáð og hrakið eins og sauðir án hirðis.“ (Matt. 9:36) Og hvernig er Jehóva innanbrjósts? Jesús sagði: „Faðir minn á himnum vill ekki heldur að einn einasti þessara minnstu glatist.“ (Matt. 18:14) Þetta er hlýleg tilhugsun. Eftir því sem við kynnumst Jesú betur þykir okkur vænna um Jehóva.

7. Hvernig getur félagsskapur við þroskuð trúsystkini hjálpað þér?

7 Þú getur sótt fram til þroska og vaxið í kærleika með því að kynnast þroskuðum trúsystkinum í söfnuðinum. Taktu eftir því hve ánægð þau eru í þjónustu Jehóva. Þau sjá ekki eftir þeirri ákvörðun að þjóna honum. Biddu þau að segja þér frá því sem þau hafa upplifað í þjónustunni. Leitaðu ráða hjá þeim þegar þú þarft að taka mikilvægar ákvarðanir. Gleymdu ekki að „allt fer vel ef ráðgjafarnir eru margir“. – Orðskv. 11:14.

Hvernig geturðu verið undir það búinn að ræða um þróunarkenninguna í skólanum? (Sjá 8. og 9. grein.)

8. Hvað geturðu gert ef þú færð efasemdir um það sem Biblían segir?

8 Sigrastu á efasemdum. Í  2. tölugrein var nefnt að Satan reynir að koma í veg fyrir að þú takir framförum í trúnni. Ein leið sem hann notar til þess er að reyna að sá efasemdum hjá þér um kenningar Biblíunnar. Þú átt til dæmis fyrr eða síðar eftir að rekast á þróunarkenninguna – kenningu sem vanvirðir Guð. Þegar þú varst yngri leiddirðu kannski ekki hugann að þessu. En nemendur læra gjarnan meira um hana á efri skólastigum. Kennararnir koma kannski með rök fyrir þróun sem virðast sannfærandi. En þeir hafa kannski ekki skoðað af alvöru rökin fyrir því að til sé skapari. Orðskviðirnir 18:17 segja: „Sá sem flytur mál sitt fyrstur virðist hafa á réttu að standa þar til andstæðingurinn kemur og spyr hann út úr.“ Ekki samþykkja í blindni þær hugmyndir sem þú heyrir í skólanum. Rannsakaðu Biblíuna og biblíutengd rit vandlega. Talaðu við bræður og systur sem trúðu einu sinni á þróunarkenninguna. Biddu þau að segja þér frá því hvað sannfærði þau um að til sé skapari sem elskar okkur. Slíkar umræður geta hjálpað þér að styrkja trú þína á því að til sé skapari.

9. Hvað lærum við af Melissu?

9 Systir að nafni Melissa hafði mikið gagn af því að rannsaka rökin fyrir sköpun. b Hún segir: „Rökin sem eru sett fram í skólanum fyrir þróunarkenningunni virðast mjög sannfærandi. Í fyrstu var ég hrædd að takast á við efasemdirnar. Ég óttaðist að trú mín myndi ekki standast nánari skoðun. En þá hugleiddi ég að Jehóva vill ekki að við trúum á sig í blindni. Ég ákvað því að takast á við efasemdirnar. Ég las bókina Er til skapari sem er annt um okkur? og bæklingana Var lífið skapað? og The Origin of Life – Five Questions Worth Asking. Þetta var nákvæmlega það sem ég þurfti. Ég vildi að ég hefði gert það fyrr.“

10, 11. Hvað getur hjálpað þér að halda þér siðferðilega hreinum? (1. Þessaloníkubréf 4:3, 4)

10 Hafnaðu rangri hegðun. Kynhvötin verður oft sterk á unglingsárunum. Þú getur orðið fyrir þrýstingi til að fremja kynferðislegt siðleysi. Satan vill að þú látir undan. Hvernig geturðu haldið þér siðferðilega hreinum? (Lestu 1. Þessaloníkubréf 4:3, 4.) Þú getur gert það með því að biðja til Jehóva og segja honum hvernig þér líður. Úthelltu hjarta þínu fyrir honum og biddu hann að gefa þér kraft. (Matt. 6:13) Mundu að hann vill hjálpa þér en ekki fordæma þig. (Sálm. 103:13, 14) Þú getur líka fengið hjálp í orði Guðs. Melissa, sem áður er minnst á, átti í baráttu við óhreinar hugsanir. Hún segir: „Ég las daglega í Biblíunni og það hjálpaði mér að gefast ekki upp. Það minnti mig á að ég tilheyrði Jehóva og vildi þjóna honum.“ – Sálm. 119:9.

11 Reyndu ekki að burðast einn með vandamálin. Talaðu við foreldra þína um það sem plagar þig. Það er ekki auðvelt að tala við aðra um viðkvæm mál en það er mikilvægt að gera það. Melissa segir: „Ég bað Jehóva að gefa mér hugrekki og talaði síðan við pabba. Ég fann til mikils léttis þegar ég var búin að því. Og ég vissi að Jehóva var stoltur af mér.“

12. Hvernig geturðu tekið góðar ákvarðanir?

12 Láttu meginreglur Biblíunnar leiðbeina þér. Smám saman gefa foreldrar þínir þér meira frelsi til að taka ákvarðanir. En þú ert samt með takmarkaða lífsreynslu. Hvernig er hægt að forðast að gera mistök sem skaða sambandið við Jehóva? (Orðskv. 22:3) Systir að nafni Kari útskýrir hvað hefur hjálpað sér að taka betri ákvarðanir. Hún hefur komist að því að þroskaðir þjónar Jehóva þurfa ekki ákveðnar reglur við allar mögulegar aðstæður. Hún segir: „Málið er að skilja meginreglur frekar en bara reglur.“ Þegar þú lest í Biblíunni skaltu því reyna að skilja hvernig Jehóva hugsar. Spyrðu þig: Hvað segir þessi texti mér um það hvernig Jehóva hugsar? Eru einhverjar frumreglur hér sem geta hjálpað mér að breyta rétt? Hvaða gagn get ég haft af því að fara eftir þeim? (Sálm. 19:7; Jes. 48:17, 18) Þegar við lesum í Biblíunni og hugleiðum frumreglur hennar hjálpar það okkur að taka ákvarðanir sem gleðja Jehóva. Eftir því sem við tökum framförum er minni þörf á reglum fyrir allar aðstæður vegna þess að við skiljum hvernig Jehóva hugsar.

Hvers konar vini valdi ung systir sér? (Sjá 13. grein.)

13. Hvaða áhrif geta góðir vinir haft á þig? (Orðskviðirnir 13:20)

13 Veldu vini sem elska Jehóva. Eins og áður hefur verið minnst á hefur val þitt á vinum áhrif á þroska þinn sem þjónn Guðs. (Lestu Orðskviðina 13:20.) Sara er systir sem missti gleðina. En hún fékk hjálp til að sjá málin í nýju ljósi. Hún segir: „Ég eignaðist góða vini á hárréttum tíma sem hjálpuðu mér. Ung systir og ég byrjuðum að undirbúa okkur saman fyrir Varðturnsnámið. Önnur vinkona hjálpaði mér að byrja að svara á samkomum. Þetta varð til þess að ég fór að taka sjálfsnám og bæn meira alvarlega. Sambandið við Jehóva styrktist og ég endurheimti gleðina.“

14. Hvernig eignaðist Julien góða vini?

14 Hvernig geturðu eignast vini sem hafa jákvæð áhrif á þig? Julien, sem er öldungur, segir: „Þegar ég var yngri eignaðist ég vini með því að boða trúna með öðrum. Kappsemi þeirra hjálpaði mér að skilja hvað boðunin gefur mikla gleði. Ég setti mér það markmið að þjóna í fullu starfi. Ég gerði mér líka grein fyrir því að ég hafði farið á mis við góðan félagskap og vináttu með því að velja bara vini á mínum aldri. Seinna eignaðist ég líka góða vini á Betel. Fordæmi þeirra hafði þau áhrif að ég fór að vanda val mitt betur á afþreyingu. Fyrir vikið varð samband mitt við Jehóva nánara.“

15. Hvaða viðvörun varðandi félagsskap gaf Páll Tímóteusi? (2. Tímóteusarbréf 2:20–22)

15 En hvað ef þú áttar þig á því að einhver í söfnuðinum er ekki góður félagsskapur fyrir þig? Páll vissi að sumir í söfnuðinum á fyrstu öld voru ekki andlega sinnaðir. Hann varaði þess vegna Tímóteus við að hafa samband við þá. (Lestu 2. Tímóteusarbréf 2:20–22.) Vinátta okkar við Jehóva er mjög dýrmæt. Við viljum ekki láta neinn veikja samband okkar við himneskan föður okkar sem við höfum lagt svona mikið á okkur til að eignast. – Sálm. 26:4.

HVERNIG GETA ANDLEG MARKMIÐ HJÁLPAÐ ÞÉR AÐ TAKA FRAMFÖRUM?

16. Hvers konar markmið ættirðu að velja þér?

16 Settu þér góð markmið. Veldu þér markmið sem styrkja þig og hjálpa þér að sækja fram til þroska sem þjónn Guðs. (Ef. 3:16) Þú kemst kannski að því að þú gætir tekið framförum í sambandi við sjálfsnám eða biblíulestur. (Sálm. 1:2, 3) Gætirðu beðið oftar til Jehóva og gætu bænir þínar verið innilegri? Gætirðu sýnt meiri sjálfstjórn í vali á afþreyingu og því hvernig þú notar tíma þinn? (Ef. 5:15, 16) Það gleður Jehóva þegar hann sér að þú leggur hart að þér til að halda áfram að taka framförum.

Hvaða markmið setti þessi unga systir sér? (Sjá 17. grein.)

17. Hvers vegna veitir það ánægju að hjálpa öðrum?

17 Að hjálpa öðrum hjálpar þér að þroskast sem þjónn Jehóva. Jesús sagði: „Það er ánægjulegra að gefa en þiggja.“ (Post. 20:35) Það er mjög gagnlegt fyrir þig að nota hluta af tíma þínum og æskuþrótti í að hjálpa öðrum. Þú gætir til dæmis sett þér það markmið að hjálpa þeim sem eru eldri eða heilsulitlir í söfnuðinum. Þú gætir boðist til að fara í sendiferðir fyrir þá eða hjálpað þeim með snjalltækin þeirra. Ef þú ert bróðir skaltu setja þér það markmið að verða safnaðarþjónn til að geta þjónað bræðrum þínum og systrum betur. (Fil. 2:4) Þú sýnir líka kærleika þeim sem eru ekki í söfnuðinum með því að boða þeim fagnaðarboðskapinn um Guðsríki. (Matt. 9:36, 37) Ef þess er nokkur kostur skaltu setja þér það markmið að þjóna Jehóva í fullu starfi.

18. Hvernig getur það að þjóna í fullu starfi hjálpað þér að sækja fram?

18 Að þjóna í fullu starfi getur opnað þér marga möguleika til að taka andlegum framförum. Ef þú ert brautryðjandi gætirðu fengið tækifæri til að sækja Skólann fyrir boðbera Guðsríkis. Brautryðjandastarfið gæti líka opnað þér dyr að starfi á Betel eða í byggingarframkvæmdum á vegum safnaðarins. Ung brautryðjandasystir að nafni Kaitlyn segir: „Að fara í boðunina með reyndum boðberum átti stóran þátt í því að ég tók andlegum framförum eftir skírnina. Fordæmi þeirra hvatti mig til að dýpka skilning minn á Biblíunni og taka framförum sem kennari.“

19. Hvaða blessun uppskerðu þegar þú heldur áfram að taka andlegum framförum?

19 Þú uppskerð ríkulega blessun ef þú heldur áfram að taka andlegum framförum. Þú sóar ekki æskunni í að eltast við innantóm markmið. (1. Jóh. 2:17) Og þú sleppur við sársaukann sem fylgir því að taka rangar ákvarðanir. Þess í stað uppskerðu árangur og hamingju. (Orðskv. 16:3) Og þú ert bæði eldri og yngri trúsystkinum hvatning. (1. Tím. 4:12) En það sem mestu máli skiptir er að þú öðlast frið og lífsfyllingu þegar þú gleður Jehóva og átt sterkt samband við hann. – Orðskv. 23:15, 16.

SÖNGUR 88 Vísaðu mér veg þinn

a Okkur hlýnar um hjartarætur þegar við sjáum ungt fólk láta skírast. En nýlega skírðir, ungir þjónar Jehóva þurfa að halda áfram að taka framförum. Í þessari grein skoðum við hvernig þeir geta gert það og náð kristnum þroska. Við getum öll haft gagn af því að skoða þetta.

b Sumum nöfnum hefur verið breytt.