NÁMSGREIN 34
,Göngum á vegi sannleikans‘
,Göngum á vegi sannleikans.‘ – 3. JÓH. 4.
SÖNGUR 111 Gleðjumst og fögnum
YFIRLIT a
1. Hvers vegna er gagnlegt fyrir okkur að ræða um það hvernig við kynntumst „sannleikanum“?
„HVERNIG kynntistu sannleikanum?“ Þú hefur eflaust oft svarað þeirri spurningu. Hún er með fyrstu spurningunum sem við spyrjum þegar við viljum kynnast trúsystkini. Okkur finnst frábært að heyra hvernig bræður og systur kynntust Jehóva og fóru að elska hann. Og okkur finnst ánægjulegt að segja þeim frá því hvers vegna við njótum þess að vera vottar hans. (Rómv. 1:11) Slíkar umræður minna okkur á hve dýrmætur sannleikurinn er. Þær styrkja líka ásetning okkar að ,ganga á vegi sannleikans‘ – að lifa lífinu þannig að við höfum blessun og velþóknun Jehóva. – 3. Jóh. 4.
2. Hvað ræðum við í þessari námsgrein?
2 Í þessari námsgrein skoðum við nokkrar ástæður fyrir því að við metum sannleikann mjög mikils. Síðan ræðum við hvernig við getum haldið áfram að sýna að okkur þykir vænt um þessa dýrmætu gjöf. Það mun eflaust auka þakklæti okkar fyrir það sem Jehóva hefur gert til að laða okkur að sannleikanum. (Jóh. 6:44) Það styrkir líka löngun okkar til að segja öðrum frá sannleikanum.
HVERS VEGNA ELSKUM VIÐ SANNLEIKANN?
3. Hver er mikilvægasta ástæðan fyrir því að við elskum sannleikann?
3 Við höfum margar ástæður til að elska sannleikann. Sú mikilvægasta er að við elskum Jehóva Guð sem er uppspretta sannleikans. Með hjálp Biblíunnar höfum við ekki aðeins kynnst honum sem alvöldum skapara himins og jarðar heldur líka kærleiksríkum föður okkar á himnum sem er innilega annt um okkur. (1. Pét. 5:7) Við vitum að Guð okkar er „miskunnsamur og samúðarfullur Guð sem er seinn til reiði, sýnir tryggan kærleika í ríkum mæli og er alltaf sannorður“. (2. Mós. 34:6) Jehóva elskar réttlæti. (Jes. 61:8) Hann tekur það sárt að sjá okkur þjást og hann horfir með eftirvæntingu til þess tíma þegar hann bindur enda á allar þjáningar. (Jer. 29:11) Það verður stórkostlegt! Það er ekki nema eðlilegt að við elskum Jehóva heitt.
4, 5. Hvers vegna líkti Páll postuli von okkar við akkeri?
4 Önnur ástæða til að elska sannleikann er að við höfum mikið gagn af honum. Sannleikur Biblíunnar veitir til dæmis framtíðarvon. Til að lýsa hversu verðmæt þessi von er sagði Páll postuli: „Þessi von okkar er eins og akkeri fyrir sálina, bæði traust og örugg.“ (Hebr. 6:19) Von okkar sem er byggð á Biblíunni veitir okkur stöðugleika í prófraunum, rétt eins og akkeri heldur bát stöðugum.
5 Þegar Páll skrifaði þetta var hann að ræða um himnesku vonina sem er hinum andasmurðu mjög kær. En það sem hann segir á líka við um þá sem hlakka til þess að lifa að eilífu í paradís á jörð. (Jóh. 3:16) Að eignast von um eilíft líf hefur sannarlega veitt okkur tilgang í lífinu.
6, 7. Hvaða gagn hefur Yvonne haft af því að fræðast um það sem framtíðin ber í skauti sér?
6 Hugleiðum reynslu systur sem heitir Yvonne. Hún ólst ekki upp í sannleikanum og óttaðist dauðann þegar hún var barn. Hún las einu sinni setningu sem hún gat ekki gleymt: „Dag einn verður enginn morgundagur.“ Hún segir: „Þessi orð höfðu þau áhrif að ég lá andvaka um nætur og hugsaði um framtíðina. Mér fannst eins og þetta líf gæti ekki verið allt og sumt. Ég velti fyrir mér hvers vegna ég væri hér. Mig langaði ekki að deyja.“
7 Þegar Yvonne var orðinn táningur kynntist hún vottum Jehóva. Hún segir: „Ég fór að trúa að ég gæti lifað að eilífu í paradís á jörð.“ Hvernig hefur það gagnast systur okkar að kynnast sannleikanum? Hún bætir við: „Ég ligg ekki lengur andvaka um nætur með áhyggjur af framtíðinni eða dauðanum.“ Yvonne metur greinilega sannleikann mikils og hefur mikla ánægju af að segja öðrum frá von sinni um framtíðina. – 1. Tím. 4:16.
8, 9. (a) Hversu mikils mat maður í einni dæmisögu Jesú fjársjóð sem hann fann? (b) Hversu mikils metur þú sannleikann?
8 Biblían inniheldur líka fagnaðarboðskap um Guðsríki. Eins og við getum séð í Matteusi 13:44 líkti Jesús sannleikanum um Guðsríki við falinn fjársjóð. Hann sagði: „Himnaríki er eins og fjársjóður sem var falinn á akri. Maður nokkur fann hann og faldi aftur. Í gleði sinni fer hann og selur allar eigur sínar og kaupir akurinn.“ Tökum eftir að maðurinn var ekki að leita að fjársjóði. En þegar hann fann hann færði hann miklar fórnir til að eignast hann. Hann seldi reyndar allt sem hann átti. Hvers vegna? Hann áttaði sig á verðmæti fjársjóðsins. Hann var miklu meira virði en nokkuð sem hann þurfti að fórna.
9 Hugsar þú þannig um sannleikann? Það gerirðu eflaust. Við vitum að ekkert sem þessi heimur hefur upp á að bjóða stenst samanburð við þá gleði sem fylgir því að þjóna Jehóva núna og vonina um eilíft líf undir stjórn Guðsríkis. Að eiga náið samband við Jehóva er dýrmætara en allar fórnir sem við þurfum að færa. Við höfum enga meiri gleði en að „þóknast honum í einu og öllu“. – Kól. 1:10.
10, 11. Hvað hvatti Michael til að gera miklar breytingar í lífinu?
10 Mörg okkar hafa fært miklar fórnir til að geta haft velþóknun Jehóva. Sumir hafa sagt skilið við virtan starfsferil. Aðrir hafa hætt að sækjast eftir auðæfum. Og enn aðrir hafa gerbreytt lífsstefnu sinni eftir að þeir kynntust Jehóva. Michael er dæmi um það. Hann ólst ekki upp í sannleikanum. Sem ungur maður æfði hann karate. Hann segir: „Ég lagði mikið upp úr því að vera líkamlega vel á mig kominn. Stundum fannst mér ég vera ósigrandi.“ En þegar Michael byrjaði að rannsaka Biblíuna kynntist hann viðhorfi Jehóva til ofbeldis. (Sálm. 11:5) Hann segir um hjónin sem aðstoðuðu hann við biblíunám: „Þau sögðu mér aldrei að ég yrði að gefa bardagaíþróttir upp á bátinn. Þau héldu einfaldlega áfram að kenna mér sannindi Biblíunnar.“
11 Því meira sem Michael lærði um Jehóva þeim mun meira styrktist kærleikurinn til hans. Það snerti hann sérstaklega að Jehóva skuli hafa samúð með tilbiðjendum sínum. Hann skildi með tímanum að hann þurfti að taka mikilvæga ákvörðun. „Ég vissi að það að hætta að æfa karate yrði það erfiðasta sem ég myndi nokkurn tíma gera,“ segir hann. „En ég vissi líka að það myndi gleðja Jehóva og ég var sannfærður um að það að þjóna honum væri fórnarinnar virði, sama hversu mikil hún væri.“ Michael vissi að sannleikurinn sem hann hafði fundið væri mjög dýrmætur og það knúði hann til að gera miklar breytingar í lífinu. – Jak. 1:25.
12, 13. Hvernig upplýstu sannindi Biblíunnar Mayli?
12 Til að sýna fram á verðmæti sannleikans líkir Biblían honum við lampa sem lýsir í myrkri. (Sálm. 119:105; Ef. 5:8) Mayli er frá Aserbaísjan. Hún metur mikils fræðsluna sem hún hefur fengið frá Biblíunni. Hún ólst upp á trúarlega skiptu heimili. Faðir hennar var múslími og móðir hennar Gyðingur. Hún segir: „Ég efaðist aldrei um tilvist Guðs en hafði margar spurningar. Ég velti fyrir mér hvers vegna Guð skapaði okkur og hvaða tilgangi það þjónaði að þjást alla ævi og lenda síðan í helvíti þar sem þjáningarnar halda endalaust áfram. Sagt er að allt sem gerist sé vilji Guðs, svo að ég hugsaði: ,Erum við þá bara eins og strengjabrúður sem Guð nýtur að stjórna og sjá þjást?‘“
13 Mayli hélt áfram að leita að svörum við spurningum sínum. Þar að kom að hún þáði biblíunámskeið og gerðist vottur Jehóva. „Sannfærandi rök Biblíunnar breyttu viðhorfi mínu til lífsins til hins betra,“ segir hún. „Trúverðugar skýringar sem ég fann í orði Guðs veita mér innri frið.“ Rétt eins og Mayli lofum við Jehóva „sem kallaði [okkur] út úr myrkrinu til síns unaðslega ljóss“. – 1. Pét. 2:9.
14. Hvernig getum við styrkt kærleika okkar til sannleikans? (Sjá einnig rammagreinina: „ Fleira sem við getum líkt sannleika Biblíunnar við“.)
14 Við höfum aðeins skoðað fáein dæmi sem sýna fram á verðmæti sannleikans. Þér dettur örugglega í hug fleiri dæmi. Hvernig væri að hafa það sem verkefni í sjálfsnámi þínu að finna fleiri ástæður fyrir því að elska sannleikann? Því innilegar sem við elskum sannleikann þeim mun auðveldara er að finna leiðir til að sýna það í verki.
HVERNIG GETUM VIÐ SÝNT AÐ VIÐ ELSKUM SANNLEIKANN?
15. Hvernig getum við sýnt að við metum sannleikann mikils?
15 Við getum sýnt að við metum sannleikann mikils með því að rannsaka Biblíuna og biblíutengd rit reglulega. Óháð því hversu lengi við höfum verið vottar Jehóva eigum við alltaf eitthvað ólært. Í allra fyrsta tölublaði þessa rits sagði: „Líkt og látlaust, lítið blóm í óbyggðum lífsins er sannleikurinn umkringdur gróskumiklu illgresi villunnar sem næstum kæfir hann. Ef þú vilt finna hann verður þú að vera sívökull … Ef þú vilt eignast hann verður þú að beygja þig niður til að ná honum. Gerðu þig ekki ánægðan með eitt sannleiksblóm … Haltu áfram að safna þeim og leitaðu að fleirum.“ Nám er talsverð vinna en það er vel þess virði að leggja hana á sig.
16. Hvaða námsaðferð finnst þér virka vel? (Orðskviðirnir 2:4–6)
16 Við höfum ekki öll ánægju af því að lesa og rannsaka. En Jehóva býður okkur að leita að og grafa eftir dýpri skilningi á sannleikanum. (Lestu Orðskviðina 2:4–6.) Það skilar alltaf góðum árangri að gera þetta. Corey segist einbeita sér að einu versi í einu í biblíulestri sínum. Hann útskýrir: „Ég les allar aftanmálsgreinar, fletti upp öllum millivísunum og rannsaka versið betur … Ég fæ mjög mikið út úr biblíulestrinum með þessum hætti.“ Hvort sem við notum þessa aðferð eða einhverja aðra sýnum við að við elskum sannleikann þegar við notum tíma og orku í að rannsaka hann. – Sálm. 1:1–3.
17. Hvað felur það í sér að lifa í samræmi við sannleikann? (Jakobsbréfið 1:25)
17 Það er auðvitað ekki nóg að kynnast bara sannleikanum. Til að hafa fullt gagn af honum þurfum við að lifa í samræmi við hann með því að fara eftir því sem við lærum. Aðeins þá færir sannleikurinn okkur hamingju. (Lestu Jakobsbréfið 1:25.) Hvernig getum við verið viss um að við lifum eftir sannleikanum? Bróðir einn stingur upp á að gera sjálfsrannsókn til að finna út á hvaða sviðum við gerum vel og hvar við viljum bæta okkur. Páll postuli orðaði þetta svona: ,Við skulum halda áfram á sömu braut og við erum á, óháð því hvaða framförum við höfum tekið‘. – Fil. 3:16.
18. Hvers vegna gerum við okkar besta til að ,ganga á vegi sannleikans‘?
18 Hugsum okkur gagnið af því að gera okkar besta til að ,ganga á vegi sannleikans‘! Við bætum líf okkar og gleðjum um leið Jehóva og trúsystkini okkar. (Orðskv. 27:11; 3. Jóh. 4) Eru til betri ástæður til að elska sannleikann og lifa í samræmi við hann?
SÖNGUR 144 Horfðu á sigurlaunin
a Við tölum oft um „sannleikann“ þegar trú okkar og lífstefna eru annars vegar. Það er gagnlegt fyrir okkur að hugleiða hvers vegna við kunnum að meta sannleikann, hvort sem við höfum kynnst honum nýlega eða þekkt hann lengi. Það styrkir ásetning okkar og löngun til að hafa velþóknun Jehóva.