NÁMSGREIN 35
Haldið áfram að „styrkja hvert annað“
,Haldið áfram að uppörva og styrkja hvert annað.‘ – 1. ÞESS. 5:11.
SÖNGUR 90 Gefum gætur hvert að öðru
YFIRLIT a
1. Hverju tökum við öll þátt í samkvæmt 1. Þessaloníkubréfi 5:11?
HEFUR söfnuðurinn þinn einhvern tíma byggt eða gert upp ríkissal? Þá er þér örugglega í fersku minni þegar fyrsta samkoman var haldin eftir framkvæmdirnar. Þú varst Jehóva örugglega mjög þakklátur. Tilfinningarnar voru kannski svo sterkar að þú áttir erfitt með að syngja upphafssönginn. Vandaðir ríkissalir okkar eru Jehóva til lofs. En það er annars konar byggingarstarf sem við tökum þátt í og er honum til enn meira lofs. Um er að ræða nokkuð sem er dýrmætara en bókstaflegar byggingar. Við erum að tala um að byggja upp fólkið sem sækir þessa tilbeiðslustaði. Páll postuli hafði þetta byggingarstarf í huga þegar hann skrifaði það sem segir í 1. Þessaloníkubréfi 5:11, en stef þessarar námsgreinar er byggt á því sem segir þar. – Lestu.
2. Hvað fjöllum við um í þessari námsgrein?
2 Páll postuli er frábært dæmi um mann sem vissi hvernig átti að byggja upp trúsystkini sín. Hann hafði samúð með þeim. Í þessari námsgrein athugum við hvernig hann hjálpaði bræðrum sínum og systrum (1) að sýna þolgæði í prófraunum, (2) að eiga friðsamleg samskipti hvert við annað og (3) að styrkja trú sína á Jehóva. Skoðum hvernig við getum líkt eftir honum og byggt bræður okkar og systur upp. – 1. Kor. 11:1.
PÁLL HJÁLPAÐI BRÆÐRUM OG SYSTRUM AÐ SÝNA ÞOLGÆÐI Í PRÓFRAUNUM
3. Hvernig sýndi Páll jafnvægi í lífinu?
3 Páll elskaði trúsystkini sín innilega. Hann þekkti erfiðleika af eigin reynslu. Hann gat því sýnt trúsystkinum sínum samúð og samkennd þegar þau gengu í gegnum prófraunir. Eitt sinn átti hann enga peninga og þurfti að finna vinnu til að geta séð fyrir sér og félögum sínum. (Post. 20:34) Hann var tjaldgerðarmaður. Þegar hann kom til Korintu vann hann í fyrstu með Akvílasi og Priskillu en þau stunduðu sömu iðn. En „á hverjum hvíldardegi“ boðaði hann Gyðingum og Grikkjum trúna. Þegar síðan Sílas og Tímóteus komu „gaf Páll sig allan að því að boða orðið“. (Post. 18:2–5) Páll missti aldrei sjónar á því sem skipti hann mestu máli, að þjóna Jehóva. Hann sinnti boðuninni af kappi og sá jafnframt fyrir sér og var þannig góð fyrirmynd fyrir bræður og systur. Hann minnti þau á að leyfa ekki álagi lífsins og ábyrgðinni að sjá fyrir fjölskyldu sinni verða til þess að þau vanræktu það sem væri mikilvægast – allt sem snýr að tilbeiðslunni á Jehóva. – Fil. 1:10.
4. Hvernig hjálpuðu Páll og Tímóteus trúsystkinum sínum að takast á við ofsóknir?
4 Fljótlega eftir að söfnuður hafði verið myndaður í Þessaloníku urðu þeir sem höfðu nýlega tekið trú fyrir harðri andstöðu. Þegar grimmir andstæðingar hópuðu sig saman en fundu ekki Pál og Sílas drógu þeir „nokkra aðra bræður fyrir stjórnendur borgarinnar“ og hrópuðu: „Þessir menn brjóta gegn tilskipunum keisarans.“ (Post. 17:6, 7) Geturðu ímyndað þér hversu óttaslegnir þeir sem höfðu nýlega tekið trú hafa verið þegar borgarbúar snerust gegn þeim? Þeir hefðu getað hægt á sér í þjónustu Jehóva en Páll vildi koma í veg fyrir það. Þótt hann og Sílas hafi þurft að fara tryggðu þeir að það yrði séð vel um unga söfnuðinn. Páll sagði við Þessaloníkumenn: ,Við sendum Tímóteus, bróður okkar … til að styrkja ykkur í trúnni og hughreysta svo að enginn léti haggast í þessum raunum.‘ (1. Þess. 3:2, 3) Tímóteus fékk líklega sjálfur að finna fyrir ofsóknum í heimabæ sínum, Lýstru. Hann fylgdist með hvernig Páll styrkti trúsystkinin þar. Hann gat fullvissað þessa nýju bræður sína og systur um að allt færi vel hjá þeim þar sem hann hafði séð hvernig Jehóva leysti málin í Lýstru. – Post. 14:8, 19–22; Hebr. 12:2.
5. Hvernig var það Bryant til góðs að öldungur veitti honum hjálp?
5 Á hvaða fleiri vegu styrkti Páll trúsystkini sín? Þegar Páll og Barnabas komu aftur til Lýstru, Íkóníum og Antíokkíu ,útnefndu þeir líka öldunga handa þeim í hverjum söfnuði‘. (Post. 14:21–23) Þessir öldungar veittu söfnuðunum örugglega hughreystingu eins og öldungar nú á dögum gera. Bryant er bróðir sem hefur áhugaverða reynslu. Hann segir: „Þegar ég varð 15 ára yfirgaf pabbi fjölskylduna og mömmu var vikið úr söfnuðinum. Ég var niðurdreginn og mér fannst ég yfirgefinn.“ Hvað hjálpaði Bryant að komast í gegnum þennan erfiða tíma? Hann segir: „Öldungur sem heitir Tony talaði við mig á samkomum og á öðrum tímum. Hann sagði mér frá þjónum Jehóva sem höfðu gengið í gegnum prófraunir en voru samt hamingjusamir. Hann sýndi mér Sálm 27:10 og talaði oft um Hiskía sem var trúfastur þótt faðir hans hefði ekki verið góð fyrirmynd.“ Hvaða áhrif hafði þetta á Bryant? „Uppörvun Tonys hafði þau áhrif að ég byrjaði að þjóna Jehóva í fullu starfi. Það reyndist gæfuspor,“ segir Bryant. Öldungar, verið vakandi fyrir því að hjálpa þeim sem gætu þurft á ,uppbyggjandi orði‘ að halda eins og Bryant. – Orðskv. 12:25.
6. Hvernig notaði Páll reynslusögur til að uppörva bræður og systur?
6 Páll minnti trúsystkini sín á að í krafti Jehóva hefði ,fjöldi votta‘ komist í gegnum erfiðar prófraunir. (Hebr. 12:1) Hann áttaði sig á því að reynslusögur þessara þjóna Guðs sem höfðu staðist alls konar erfiðleika gætu glætt með bræðrum hans og systrum hugrekki og hjálpað þeim að beina athygli sinni að ,borg hins lifandi Guðs‘. (Hebr. 12:22) Það sama gildir nú á dögum. Hver hefur ekki fengið uppörvun af að lesa hvernig Jehóva hjálpaði Gídeon, Barak, Davíð, Samúel og mörgum öðrum? (Hebr. 11:32–35) Og hvað með dæmi úr nútímanum? Það koma oft bréf til aðalstöðvanna frá bræðrum og systrum sem hafa styrkt trú sína með því að lesa ævisögur trúsystkina okkar.
PÁLL SÝNDI BRÆÐRUM SÍNUM OG SYSTRUM HVERNIG ÞAU GÁTU ÁTT FRIÐSAMLEG SAMSKIPTI
7. Hvað getum við lært af leiðbeiningum Páls í Rómverjabréfinu 14:19–21?
7 Við byggjum upp bræður okkar og systur þegar við stuðlum að friði með orðum okkar og verkum. Við látum ekki skoðanamun sundra okkur. Og við krefjumst ekki réttar okkar þegar meginreglur Biblíunnar eiga ekki í hlut. Skoðum dæmi. Í söfnuðinum í Róm voru bæði Gyðingar og kristnir menn af þjóðunum. Þegar Móselögin féllu úr gildi þurftu þjónar Jehóva ekki lengur að fylgja reglum sem kváðu á um að borða ekki ákveðna fæðu. (Mark. 7:19) Þaðan í frá vildu sumir kristnir Gyðingar borða alls konar fæðu. En aðrir kristnir Gyðingar gátu ekki hugsað sér það. Þetta mál hafði sundrandi áhrif á söfnuðinn. Páll benti á mikilvægi þess að halda friðinn og sagði: „Best er að borða ekki kjöt né drekka vín né gera neitt sem getur orðið bróður þínum að falli.“ (Lestu Rómverjabréfið 14:19–21.) Páll hjálpaði trúsystkinum sínum þannig að sjá hversu slæm áhrif slíkur ágreiningur hefði á einstaklinga og söfnuðinn í heild. Hann var líka fús til að breyta hegðun sinni til að forðast að hneyksla aðra. (1. Kor. 9:19–22) Við getum einnig byggt aðra upp og stuðlað að friði ef við gerum ekki mál úr því sem er persónuleg ákvörðun hvers og eins.
8. Hvernig brást Páll við í mikilvægu máli sem stofnaði friði safnaðarins í hættu?
8 Páll setti okkur gott fordæmi þegar hann hélt frið við þá sem voru honum ósammála um mikilvæg atriði. Sumir í söfnuðinum á fyrstu öld fóru til dæmis fram á að þeir sem voru ekki Gyðingar en höfðu tekið kristna trú yrðu umskornir, ef til vill til að Gyðingar myndu ekki gagnrýna þá. (Gal. 6:12) Páll var algerlega ósammála þessu en í stað þess að krefjast þess að farið yrði að vilja hans bað hann auðmjúkur postulana og öldungana í Jerúsalem um ráð. (Post. 15:1, 2) Það varð til þess að þessir þjónar Guðs héldu áfram að vera glaðir og að friður ríkti meðal þeirra í söfnuðinum. – Post. 15:30, 31.
9. Hvernig getum við fylgt fordæmi Páls?
9 Ef alvarlegur ágreiningur kemur upp stuðlum við að friði með því að leita leiðsagnar hjá þeim sem Jehóva hefur útnefnt til að annast söfnuðinn. Við getum fengið leiðsögn byggða á Biblíunni í ritum og leiðbeiningum sem söfnuður Jehóva sér okkur fyrir. Ef við einbeitum okkur að því að fylgja þeim frekar en að ýta okkar eigin skoðunum að stuðlum við að friði í söfnuðinum.
10. Hvað annað gerði Páll til að stuðla að friði í söfnuðinum?
10 Páll stuðlaði að friði með því að leggja áherslu á góða eiginleika bræðra og systra en ekki þá slæmu. Í lok bréfs síns til Rómverja nefndi hann mörg þeirra með nafni og bætti í flestum tilfellum við jákvæðum ummælum um þau. Við getum líkt eftir Páli með því að minnast á góða eiginleika trúsystkina okkar. Við hvetjum þannig bræður og systur til að tengjast nánari böndum og það styrkir kærleikann í söfnuðinum.
11. Hvernig getum við komið aftur á friði ef upp kemur ágreiningur?
11 Stundum getur jafnvel þroskaða kristna þjóna Guðs greint á. Það gerðist hjá Páli og nánum vini hans, Barnabasi. Þeir voru algerlega ósammála um það hvort Markús ætti að koma með þeim í næstu trúboðsferð þeirra. ,Þeir rifust harkalega um þetta‘ og í kjölfarið skildu leiðir þeirra. (Post. 15:37–39) En Páll, Barnabas og Markús sættust og sýndu með því að þeir mátu mikils frið og einingu safnaðarins. Páll talaði síðar vel um Barnabas og Markús. (1. Kor. 9:6; Kól. 4:10) Við þurfum að jafna ágreining sem gæti orðið milli okkar og annarra í söfnuðinum og halda síðan áfram að horfa á góða eiginleika þeirra. Fyrir vikið stuðlum við að friði og einingu. – Ef. 4:3.
PÁLL STYRKTI TRÚ BRÆÐRA SINNA OG SYSTRA
12. Við hvaða erfiðleika glíma bræður okkar og systur?
12 Við byggjum bræður okkar og systur upp þegar við styrkjum trú þeirra á Jehóva. Sumir verða fyrir háði ættingja sem eru ekki í trúnni, vinnufélaga eða skólafélaga. Aðrir eiga við alvarleg veikindi að stríða eða eru að reyna að vinna úr særðum tilfinningum. Og enn aðrir hafa verið þjónar Jehóva í mörg ár og beðið lengi eftir að þetta heimskerfi taki enda. Þetta getur reynt á trú þjóna Jehóva. Þjónar hans á fyrstu öld áttu í svipuðum erfiðleikum. Hvað gerði Páll til að styrkja bræður sína og systur?
13. Hvernig hjálpaði Páll þeim sem urðu fyrir háði vegna trúar sinnar?
13 Páll notaði Biblíuna til að byggja upp trú bræðra sinna og systra. Kristnir Gyðingar vissu kannski ekki hvernig þeir áttu að bregðast við gagnrýni ættingja sem voru ekki í trúnni og héldu því fram að gyðingdómurinn væri fremri kristinni trú. Bréf Páls til Hebreanna gaf þessum þjónum Jehóva án efa mikinn styrk. (Hebr. 1:5, 6; 2:2, 3; 9:24, 25) Þeir gátu notað sterk rök hans til að svara þeim sem gagnrýndu þá. Við getum hjálpað trúsystkinum okkar sem verða fyrir háði að nýta sér biblíutengt lesefni til að rökstyðja trú sína. Og ef gert er grín að unga fólkinu okkar fyrir að trúa á sköpun getum við hjálpað því að finna upplýsingar í bæklingunum Var lífið skapað? og The Origin of Life – Five Questions Worth Asking til að rökstyðja hvers vegna það trúir að lífið hafi verið skapað.
14. Hvað gaf Páll sér tíma til að gera þótt hann væri upptekinn í boðun og kennslu?
14 Páll hvatti bræður sína og systur til að sýna kærleika sinn með ,góðum verkum‘. (Hebr. 10:24) Hann hjálpaði trúsystkinum sínum bæði í orði og verki. Þegar til dæmis trúsystkini í Júdeu upplifðu hungursneyð tók Páll þátt í að koma hjálpargögnum til þeirra. (Post. 11:27–30) Þótt hann væri upptekinn við boðun og kennslu leitaði hann alltaf leiða til að hjálpa þeim sem þurftu á efnislegri hjálp að halda. (Gal. 2:10) Fyrir vikið byggði hann upp trú bræðra sinna og systra á að Jehóva myndi annast þau. Þegar við notum tíma okkar, krafta og hæfileika til að aðstoða við neyðarhjálp styrkjum við líka trú bræðra okkar og systra. Það á líka við þegar við gefum frjáls framlög til alþjóðastarfsins. Með þessum og öðrum hætti hjálpum við bræðrum okkar og systrum að treysta því að Jehóva yfirgefi þau aldrei.
15, 16. Hvernig ættum við að koma fram við þá sem hafa veikst í trúnni?
15 Páll gafst ekki upp á trúsystkinum sem höfðu veikst í trúnni. Hann sýndi þeim samkennd og var jákvæður og hlýlegur þegar hann talaði við þau. (Hebr. 6:9; 10:39) Hann notaði til dæmis oft orðin „við“ og „okkar“ í bréfi sínu til Hebrea og sýndi þannig að hann þurfti sjálfur að fara eftir leiðbeiningunum sem hann gaf öðrum. (Hebr. 2:1, 3) Við líkjum eftir Páli og gefumst ekki upp á trúsystkinum sem hafa veikst í trúnni. Við erum uppbyggjandi við þau og sýnum þeim einlægan áhuga. Þannig finna þau að við elskum þau. Það sem við segjum við aðra hefur meiri áhrif ef við sýnum hlýju og erum jákvæð.
16 Páll fullvissaði bræður sína og systur um að Jehóva tæki eftir góðum verkum þeirra. (Hebr. 10:32–34) Við getum gert það líka þegar við aðstoðum bróður eða systur sem hefur veikst í trúnni. Við getum beðið þau að segja okkur hvernig þau kynntust sannleikanum eða hvatt þau til að rifja upp atvik þegar þau fundu stuðning Jehóva. Við getum notað tækifærið til að segja þeim að Jehóva hafi ekki gleymt hvernig þau sýndu að þau elskuðu hann og að hann yfirgefi þau ekki í framtíðinni. (Hebr. 6:10; 13:5, 6) Slíkar samræður geta glætt löngun þessara kæru trúsystkina til að halda áfram að þjóna Jehóva.
HÖLDUM ÁFRAM AÐ UPPÖRVA HVERT ANNAÐ
17. Hvaða hæfileika getum við haldið áfram að þroska með okkur?
17 Rétt eins og byggingaverkamaður verður með tímanum færari í verki sínu getum við tekið framförum í að byggja hvert annað upp. Við getum hjálpað öðrum að fá styrk til að þola prófraunir með því að rifja upp með þeim hvernig aðrir hafa sýnt þolgæði. Við stuðlum að friði með því að sjá það góða í öðrum, varðveita frið þegar honum er ógnað og koma aftur á friði þegar ósætti verða. Og við getum haldið áfram að byggja upp trú bræðra okkar og systra með því að ræða við þau um mikilvæg biblíusannindi, sjá þeim fyrir aðstoð og með því að sýna þeim stuðning sem hafa veikst í trúnni.
18. Hvað ert þú ákveðinn í að gera?
18 Þeir sem vinna við byggingarframkvæmdir á vegum safnaðarins eru glaðir og sáttir. Við getum upplifað gleði og ánægju þegar við hjálpum til við að byggja upp trú bræðra okkar og systra. Ólíkt bókstaflegum byggingum sem eyðileggjast með tímanum getur árangur af verki okkar varað um alla framtíð! Verum ákveðin í að „uppörva og styrkja hvert annað“. – 1. Þess. 5:11.
SÖNGUR 100 Verum gestrisin
a Lífið í þessu heimskerfi er erfitt. Bræður okkar og systur eru undir miklu álagi. Við getum létt undir með þeim ef við leitum leiða til að uppörva þau. Við getum lært margt af Páli postula í þessu sambandi.
b MYND: Faðir sýnir dóttur sinni hvernig hún getur notað tillögur í ritum okkar til að standast þrýsting til að halda upp á jólin.
c MYND: Hjón hafa ferðast til annars landshluta til að hjálpa við neyðaraðstoð.
d MYND: Öldungur heimsækir bróður sem hefur veikst í trúnni. Hann sýnir honum myndir úr Brautryðjendaskólanum sem þeir sóttu saman mörgum árum áður. Myndirnar kalla fram minningar frá þeim ánægjulega tíma. Bróðurinn fer að langa til að endurheimta þá gleði sem hann fann þegar hann þjónaði Jehóva. Með tímanum snýr hann aftur til safnaðarins.