NÁMSGREIN 33
Jehóva vakir yfir þjónum sínum
„Augu Jehóva vaka yfir þeim sem óttast hann.“ – SÁLM. 33:18.
SÖNGUR 4 Jehóva er minn hirðir
YFIRLIT a
1. Hvers vegna bað Jesús Jehóva að vaka yfir fylgjendum sínum?
SÍÐASTA kvöldið áður en Jesús dó bað hann föður sinn á himni að vaka yfir fylgjendum sínum. (Jóh. 17:15, 20) Jehóva hefur auðvitað alltaf vakað yfir þjónum sínum, hann hefur annast þá og verndað. En Jesús vissi að Satan myndi herða árásir sínar og að fylgjendur sínir þyrftu á hjálp Jehóva að halda til að standast þær.
2. Af hverju þurfum við ekki að óttast andstreymi samkvæmt Sálmi 33:18–20?
2 Þjónar Guðs eru undir miklum þrýstingi í heimi Satans. Erfiðleikar okkar geta dregið úr okkur kjark og jafnvel reynt á trúfesti okkar við Jehóva. En eins og við munum sjá í þessari námsgrein höfum ekkert að óttast. Jehóva vakir yfir þjónum sínum. Hann sér erfiðleika okkar og er alltaf reiðubúinn að hjálpa okkur að takast á við þá. Við skoðum tvö dæmi úr Biblíunni sem sýna að Jehóva ,vakir yfir þeim sem óttast hann‘. – Lestu Sálm 33:18–20.
ÞEGAR OKKUR FINNST VIÐ VERA EIN
3. Hvenær gæti okkur fundist við vera ein?
3 Við tilheyrum stórri fjölskyldu tilbiðjenda Jehóva. En okkur gæti samt stundum fundist við vera ein. Ungum þjónum Jehóva finnst þeir kannski vera einir þegar þeir ætla að útskýra trú sína í skólanum eða byrja í nýjum söfnuði. Ef við glímum við depurð eða aðrar neikvæðar tilfinningar gæti okkur liðið eins og við þurfum að ganga í gegnum það ein. Við hikum kannski við að tala við aðra vegna þess að við óttumst að þeir skilji okkur ekki. Við gætum jafnvel hugsað að öðrum standi á sama um okkur. Þessar tilfinningar gætu orðið til þess að við fylltumst vanmáttarkennd og kvíða. Jehóva vill ekki að okkur líði þannig. Hvernig vitum við það?
4. Hvers vegna sagði Elía spámaður að hann væri einn eftir?
4 Skoðum hvað við getum lært af frásögunni um hinn trúfasta Elía. Jesebel hafði heitið því að drepa hann og hann var því á flótta í 40 daga. (1. Kon. 19:1–9) Sitjandi einn í helli úthellir Elía hjarta sínu fyrir Jehóva og segist vera „einn eftir“ af spámönnunum. (1. Kon. 19:10) En það voru fleiri spámenn í landinu. Óbadía hafði bjargað 100 þeirra frá hinni morðóðu Jesebel. (1. Kon. 18:7, 13) Hvers vegna fannst þá Elía hann vera einn? Hélt hann kannski að spámennirnir væru allir dánir? Var það kannski vegna þess að enginn þeirra sem hafði fylgst með uppgjöri Jehóva við Baal á Karmelfjalli fór að þjóna Jehóva með Elía? Hugsaði hann að enginn vissi af hættunni sem hann var í eða að öllum stæði á sama? Biblían segir ekki nákvæmlega hvernig Elía leið. En eitt getum við verið viss um, Jehóva vissi hvernig honum leið og hvernig hann átti að hjálpa honum.
5. Hvernig fullvissaði Jehóva Elía um að hann væri ekki einn?
5 Jehóva hjálpaði Elía með margvíslegum hætti. Hann hvatti hann til að opna sig. Hann spurði hann tvisvar: „Hvað ertu að gera hér, Elía?“ (1. Kon. 19:9, 13) Síðan hlustaði hann meðan Elía úthellti hjarta sínu. Jehóva brást við með því að opinbera Elía nærveru sína og geysimikinn kraft. Hann fullvissaði hann líka um að hann hefði marga við hlið sér sem þjónuðu honum líka. (1. Kon. 19:11, 12, 18) Elía hefur örugglega verið létt að úthella hjarta sínu fyrir Jehóva og sjá viðbrögð hans. Jehóva gaf Elía líka mörg mikilvæg verkefni. Hann átti að smyrja Hasael sem konung Sýrlands, Jehú sem konung Ísraels og Elísa sem spámann. (1. Kon. 19:15, 16) Þessi verkefni gátu hjálpað Elía að einbeita sér að einhverju jákvæðu. Jehóva gaf honum líka starfsfélaga sem hann gat unnið náið með, Elísa. Hvernig getur þú fengið hjálp frá Jehóva þegar þér finnst þú vera einn?
6. Hvað geturðu beðið til Jehóva um þegar þér finnst þú vera einn? (Sálmur 62:8)
6 Jehóva býður okkur að nálgast sig í bæn. Hann veit hvað við erum að takast á við og fullvissar okkur um að hann sé tilbúinn að hlusta á okkur hvenær sem er. (1. Þess. 5:17) Hann hefur yndi af því að hlusta á tilbiðjendur sína. (Orðskv. 15:8) Hvað geturðu beðið til Jehóva um þegar þér finnst þú vera einn? Úthelltu hjarta þínu rétt eins og Elía. (Lestu Sálm 62:8.) Tjáðu honum áhyggjur þínar og segðu honum hvaða áhrif þær hafa á þig. Biddu Jehóva að hjálpa þér að takast á við tilfinningar þínar. Þér finnst þú kannski einn og ert hræddur þegar þú þarft að útskýra trú þína í skólanum. Þá geturðu beðið Jehóva um hugrekki til að tjá þig. Þú getur jafnvel beðið hann um visku til að útskýra trú þína af kurteisi. (Lúk. 21:14, 15) Ertu kannski að glíma við erfiðar tilfinningar? Þá geturðu beðið hann um hjálp til að tala við þroskað trúsystkini um það. Biddu Jehóva að hjálpa þeim sem þú ætlar að tala við að sýna þér skilning. Þér finnst þú ekki standa eins einn ef þú úthellir hjarta þínu fyrir Jehóva, sérð hvernig hann svarar þér og þiggur hjálp annarra.
7. Hvað lærir þú af Mauricio?
7 Jehóva hefur falið okkur tilgangsrík verkefni. Við getum verið viss um að hann tekur eftir og kann að meta það sem við leggjum á okkur til að annast verkefni okkar í söfnuðinum og boðuninni. (Sálm. 110:3) Hvernig getur það að halda þér uppteknum við þessi verkefni hjálpað þér þegar þér finnst þú vera einn? Hugleiðum reynslu ungs bróður að nafni Mauricio. b Stuttu eftir að hann lét skírast fór einn besti vinur hans að fjarlægjast sannleikann. „Það hafði áhrif á sjálfstraust mitt að sjá hann fjarlægjast,“ sagði Mauricio. „Ég fór að velta fyrir mér hvort ég gæti staðið við vígsluheit mitt og verið áfram í fjölskyldu Jehóva. Mér fannst ég einn og að enginn myndi skilja tilfinningar mínar.“ Hvað hjálpaði Mauricio? „Ég jók þjónustu mína,“ segir hann. „Það hjálpaði mér að hugsa minna um sjálfan mig og tilfinningar mínar. Það gaf mér gleði og mér fannst ég ekki vera eins einn þegar ég var með öðrum í boðuninni.“ Jafnvel þegar við getum ekki hitt trúsystkini til að boða trúna með þeim styrkir það okkur að vera með þeim þegar við skrifum bréf eða notum símann í boðuninni. Hvað fleira hjálpaði Mauricio? Hann bætir við: „Ég var upptekinn í söfnuðinum og lagði mig fram við að undirbúa og flytja nemendaverkefni fyrir samkomur. Að sinna þessum verkefnum hjálpaði mér að finnast ég metinn af Jehóva og öðrum.“
ÞEGAR OKKUR FINNST ERFIÐLEIKARNIR YFIRÞYRMANDI
8. Hvaða áhrif geta miklar prófraunir haft á okkur?
8 Við búumst við prófraunum á þessum síðustu dögum. (2. Tím. 3:1) En tímasetningin og eðli þeirra gæti slegið okkur út af laginu. Við lendum kannski í fjárhagskröggum, áfalli vegna sjúkdómsgreiningar eða missum ástvin. Það getur verið mjög yfirþyrmandi og valdið okkur áhyggjum, sérstaklega ef hver prófraunin kemur á fætur annarri eða jafnvel margar í einu. En gleymum ekki að Jehóva vakir yfir okkur. Með hjálp hans getum við tekist á við allar prófraunir, full trúartrausts.
9. Lýstu sumum af þeim prófraunum sem Job lenti í.
9 Skoðum hvernig Jehóva hjálpaði hinum trúfasta Job. Hann lenti í mörgum meiri háttar áföllum á stuttum tíma. Á einum og sama degi upplifði hann hræðilega og grimmilega atburði. Hann missti allan búpening sinn, alla þjóna sína og það sem verra var, hann missti öll börnin sín sem hann elskaði heitt. (Job. 1:13–19) Stuttu seinna, meðan hann var enn að takast á við mikla sorg, var hann sleginn kvalafullum sjúkdómi sem afmyndaði hann. (Job. 2:7) Honum leið svo illa að hann sagði: „Ég hef óbeit á lífi mínu, ég vil ekki lifa lengur.“ – Job. 7:16.
10. Hvernig gaf Jehóva Job þá hjálp sem hann þurfti til að halda út í prófraunum sínum? (Sjá forsíðumynd.)
10 Jehóva vakti yfir Job. Hann elskaði hann og gaf honum þess vegna það sem hann þurfti til að takast á við erfiðleika sína. Hann talaði við Job og minnti hann á takmarkalausa visku sína og umhyggju fyrir sköpunarverum sínum. Hann talaði um mörg stórkostleg dýr. (Job. 38:1, 2; 39:9, 13, 19, 27; 40:15; 41:1, 2) Hann sendi hinn unga, trúfasta Elíhú til hans til að styrkja hann og hughreysta. Hann fullvissaði Job um að Jehóva umbunar alltaf þjónum sínum fyrir þolgæði þeirra. Jehóva fékk Elíhú líka til að gefa Job kærleiksríkar leiðbeiningar. Hann hjálpaði honum að sjá heildarmyndina og skilja hvað hann væri sjálfur lítill í samanburði við skapara alheims, Jehóva. (Job. 37:14) Og Jehóva gaf Job verkefni. Hann átti að biðja fyrir félögum sínum þrem sem höfðu syndgað. (Job. 42:8–10) Hvernig hjálpar Jehóva okkur þegar við göngum í gegnum erfiðar raunir?
11. Hvernig hjálpar Biblían okkur í prófraunum?
11 Jehóva talar ekki beint við okkur eins og hann talaði við Job en hann notar orð sitt, Biblíuna, til þess. (Rómv. 15:4) Í henni veitir hann okkur von sem hughreystir okkur. Skoðum sumt af því sem Biblían segir og getur hughreyst okkur þegar við göngum í gegnum raunir. Jehóva fullvissar okkur um að ekkert – ekki einu sinni erfiðar prófraunir – „geti gert okkur viðskila við kærleika“ sinn. (Rómv. 8:38, 39) Hann fullvissar okkur um að hann sé „nálægur öllum sem ákalla hann“ í bæn. (Sálm. 145:18) Hann segir okkur að við getum haldið út í öllum prófraunum og jafnvel notið gleði í þjáningum ef við treystum á hann. (1. Kor. 10:13; Jak. 1:2, 12) Orð Guðs minnir okkur líka á að erfiðleikar okkar standa stutt og eru léttbærir í samanburði við þá eilífu umbun sem hann býður okkur. (2. Kor. 4:16–18) Hann hefur gefið okkur þá öruggu von að hann muni uppræta orsök allra erfiðleika okkar – Satan Djöfulinn og alla sem haga sér eins og hann. (Sálm. 37:10) Hefur þú lagt á minnið hughreystandi biblíuvers sem geta hjálpað þér að sýna þolgæði í prófraunum í framtíðinni?
12. Til hvers ætlast Jehóva af okkur til að við getum haft fullt gagn af orði hans?
12 Jehóva ætlast til þess að við tökum okkur tíma reglulega til að rannsaka Biblíuna og hugleiða efni hennar. Þegar við heimfærum upp á líf okkar það sem við lærum styrkir það trúna og sambandið við föður okkar á himni. Fyrir vikið fáum við kraft til að halda út í prófraunum. Jehóva gefur þeim heilagan anda sem reiða sig á orð hans. Heilagur andi gefur okkur kraft „sem er ofar mannlegum mætti“ svo að við getum haldið út í öllum prófraunum. – 2. Kor. 4:7–10.
13. Hvernig getur andlega fæðan sem ,trúi og skynsami þjónninn‘ lætur í té hjálpað okkur að halda út í prófraunum?
13 Með Jehóva að bakhjarli gefur ,trúi og skynsami þjónninn‘ okkur gnægð lesefnis, myndbanda og tónlistar sem getur hjálpað okkur að byggja upp sterka trú og viðhalda nánu sambandi við Jehóva. (Matt. 24:45) Við þurfum að nýta okkur þessa tímabæru fræðslu til fulls. Systir frá Bandaríkjunum tjáði nýlega þakklæti sitt fyrir alla þessa andlegu fæðu. Hún sagði: „Það hefur oft reynt á trú mína í þau 40 ár sem ég hef þjónað Jehóva.“ Hún gekk í gegnum miklar raunir. Afi hennar dó þegar drukkinn ökumaður keyrði á hann, foreldrar hennar lutu í lægra haldi fyrir banvænum sjúkdómi og sjálf fékk hún tvisvar sinnum krabbamein. Hvað hjálpaði henni að halda út? Hún segir: „Jehóva hefur alltaf annast mig. Andlega fæðan sem hann gefur fyrir milligöngu trúa og skynsama þjónsins hefur hjálpað mér að halda út. Þess vegna segi ég eins og Job: ,Svo lengi sem ég lifi læt ég ekki af ráðvendni minni!‘“ – Job. 27:5.
14. Hvernig notar Jehóva trúsystkini okkar til að hjálpa okkur í erfiðleikum? (1. Þessaloníkubréf 4:9)
14 Jehóva hefur kennt okkur að hughreysta og hugga hvert annað á erfiðum tímum. (2. Kor. 1:3, 4; lestu 1. Þessaloníkubréf 4:9.) Trúsystkini okkar líkja eftir Elíhú og eru tilbúin að hjálpa okkur þegar við göngum í gegnum erfiðleika. (Post. 14:22) Skoðum hvernig söfnuður Diane hughreysti hana og hjálpaði henni til að vera andlega sterk þegar maðurinn hennar varð alvarlega veikur. Hún segir: „Þetta var erfitt. Jehóva veitti okkur styrk með því að taka okkur í hlýjan faðm sinn á þessum erfiða tíma. Söfnuðurinn gaf okkur þann stuðning sem við þurftum til að halda áfram með því að heimsækja okkur, hringja og taka utan um okkur. Þar sem ég er ekki með bílpróf fékk ég aðstoð við að komast á samkomur og í boðunina.“ Hvílík blessun að eiga kærleiksríka fjölskyldu trúsystkina.
ÞAKKLÁT FYRIR ÁSTRÍKA UMHYGGJU JEHÓVA
15. Hvers vegna erum við viss um að við getum haldið út í raunum?
15 Við lendum öll í einhverjum prófraunum. En eins og við höfum séð stöndum við aldrei ein. Eins og ástríkur faðir vakir Jehóva alltaf yfir okkur. Hann stendur okkur við hlið og er tilbúinn að heyra bæn okkar um hjálp og hann er fús að styðja okkur. (Jes. 43:2) Við erum sannfærð um að við getum staðist allar raunir vegna þess að hann sér okkur fyrir öllu sem við þurfum til þess. Hann hefur gefið okkur bænina, Biblíuna, gnægð andlegrar fæðu og kærleiksrík trúsystkini sem veita okkur tímabæra hjálp.
16. Hvernig getum við haldið áfram að njóta ástríkrar umhyggju Jehóva?
16 Við erum mjög þakklát að eiga himneskan föður sem vakir yfir okkur. „Hjörtu okkar fagna yfir honum.“ (Sálm. 33:21) Við sýnum að við kunnum að meta allt sem hann gefur okkur með því að nýta okkur það. Við þurfum að gera okkar til að njóta áfram umhyggju Jehóva. Ef við gerum okkar besta til að gera það sem er rétt í augum hans vakir hann yfir okkur að eilífu. – 1. Pét. 3:12.
SÖNGUR 30 Guð er vinur minn og faðir
a Við þurfum öll á hjálp Jehóva að halda til að sigrast á þeim erfiðleikum sem mæta okkur. Í þessari námsgrein skoðum við hvers vegna við getum verið sannfærð um að Jehóva vakir yfir fólki sínu. Hann tekur eftir þeim erfiðleikum sem við glímum við hvert og eitt og sér okkur fyrir því sem við þurfum til að sigrast á þeim.
b Sumum nöfnum hefur verið breytt.