Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers vegna ættum við að safnast saman til tilbeiðslu?

Hvers vegna ættum við að safnast saman til tilbeiðslu?

„Gefum gætur hvert að öðru ... Vanrækið ekki safnaðarsamkomur ykkar.“ – HEBR. 10:24, 25.

SÖNGVAR: 20, 119

1-3. (a) Hvernig hafa kristnir menn sýnt að það skiptir þá miklu máli að sækja samkomur? (Sjá mynd í upphafi greinar.) (b) Hvað er rætt í þessari grein?

CORINNA var aðeins 17 ára þegar móðir hennar var handtekin og send í sovéskar vinnubúðir. Síðar meir var Corinna sjálf send í útlegð til Síberíu þúsundir kílómetra frá heimili sínu. Komið var fram við hana eins og þræl og hún var stundum neydd til að vinna úti illa klædd í nístingskulda. Þrátt fyrir þessar erfiðu aðstæður voru Corinna og önnur systir ákveðnar í að sækja samkomu.

2 „Við yfirgáfum vinnusvæðið um kvöldið,“ segir hún, „og gengum 25 kílómetra leið að lestarstöð. Lestin fór klukkan tvö um nóttina og ferðin tók sex tíma. Síðan gengum við tíu kílómetra í viðbót að samkomustaðnum.“ Var ferðin erfiðisins virði? Corinna segir: „Á samkomunni fórum við yfir efni í Varðturninum og sungum ríkissöngva. Það var mjög hvetjandi og trústyrkjandi fyrir okkur.“ Þó að Corinna og vinkona hennar hafi ekki mætt aftur til vinnu fyrr en þrem dögum síðar tók bóndinn, sem þær unnu fyrir, ekki einu sinni eftir að þær hefðu verið fjarverandi.

3 Þjónum Jehóva hefur alltaf fundist verðmætt að koma saman. Kristnir menn á fyrstu öld sóttust eftir að hittast til að tilbiðja Jehóva saman og fræðast um hann. (Post. 2:42) Líklega hefur þú sömu löngun til að sækja samkomur reglulega. Ýmsar hindranir verða þó á vegi allra þjóna Guðs. Vinna, stíf dagskrá eða þreyta vegna daglegs amsturs getur gert okkur erfitt fyrir að sækja samkomur. Hvað getur hvatt okkur til að yfirstíga þessar hindranir þannig að við getum notið góðs af því að sækja samkomur reglulega? [1] Hvernig getum við hjálpað biblíunemendum okkar og öðrum að átta sig á mikilvægi þess að mæta á samkomur? Í þessari grein verður rætt um átta ástæður til að sækja samkomur. Við getum skipt þessum ástæðum í þrjá flokka: hvaða áhrif samkomur hafa á þig, hvaða áhrif það hefur á aðra þegar þú sækir þær og hvaða áhrif það hefur á Jehóva. [2]

HVAÐA ÁHRIF HAFA SAMKOMURNAR Á ÞIG?

4. Hvernig hjálpa samkomurnar okkur að fræðast um Jehóva?

4 Við fræðumst á samkomum. Allar samkomur hjálpa okkur að fræðast um Jehóva. Nýlega fóru til dæmis flestir söfnuðir yfir bókina Nálægðu þig Jehóva í safnaðarbiblíunáminu. Hefur það ekki aukið kærleika þinn til föður þíns á himnum að læra um eiginleika hans og heyra einlæg svör trúsystkina þinna? Við aukum líka þekkingu okkar á orði Guðs með því að hlusta vandlega á ræður, sýnidæmi og biblíulestur. (Neh. 8:8) Hugsaðu til dæmis um þá andlegu fjársjóði sem þú finnur í hverri viku þegar þú lest fyrir fram biblíulesefni vikunnar og hlustar síðan á höfuðþætti þess.

5. Hvernig hafa samkomurnar hjálpað þér að nota það sem þú hefur lært af Biblíunni og taka framförum í boðuninni?

5 Á samkomum lærum við að nota meginreglur Biblíunnar á öllum sviðum lífsins. (1. Þess. 4:9, 10) Varðturnsnámið er til að mynda sniðið að þörfum þjóna Guðs. Hefur það einhvern tíma fengið þig til að endurskoða markmið þín, fyrirgefa trúsystkini eða hvatt þig til að gera bænir þínar innihaldsríkari? Samkoman í miðri viku veitir okkur menntun fyrir boðunina. Þar lærum við að boða fagnaðarerindið og kenna fólki meginreglur Biblíunnar með áhrifaríkum hætti. – Matt. 28:19, 20.

6. Hvernig eru samkomurnar okkur til uppörvunar og hvernig styrkja þær okkur?

6 Samkomur uppörva okkur. Heimur Satans getur dregið úr okkur kjark og veikt okkur bæði tilfinningalega og í trúnni. Safnaðarsamkomur uppörva okkur hins vegar og styrkja. (Lestu Postulasöguna 15:30-32.) Á samkomum skoðum við oft hvernig biblíuspádómar hafa uppfyllst. Þannig byggjum við upp enn meira traust á að loforð Jehóva um framtíðina rætist einnig. Það eru auðvitað ekki bara þeir sem tala frá sviðinu sem uppörva okkur. Trúsystkini, sem svara á samkomum og syngja af öllu hjarta, eru líka uppbyggjandi. (1. Kor. 14:26) Og þegar við tölum við trúsystkini okkar fyrir og eftir samkomur finnum við fyrir hlýju og samstöðu og það er sannarlega endurnærandi. – 1. Kor. 16:17, 18.

7. Hvers vegna er mjög mikilvægt að við mætum á samkomur?

7 Á samkomum fáum við hjálp heilags anda. Jesús sagði eftir að hann reis upp til himna: „Hver sem eyra hefur hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum.“ (Opinb. 2:7) Já, Jesús stýrir kristna söfnuðinum með hjálp heilags anda. Við þurfum heilagan anda til að geta staðist freistingar, boðað trúna af hugrekki og tekið skynsamar ákvarðanir. Ættum við ekki að nýta okkur allar ráðstafanir Guðs, þar á meðal samkomurnar, til að fá heilagan anda?

VIÐ HÖFUM ÁHRIF Á AÐRA MEÐ ÞVÍ AÐ SÆKJA SAMKOMUR

8. Hvernig uppörvum við trúsystkini okkar með því að mæta á samkomur og með svörum okkar og söng? (Sjá einnig rammann „Honum líður alltaf betur eftir á“.)

8 Á samkomum fáum við tækifæri til að sýna trúsystkinum okkar að okkur er annt um þau. Veltu fyrir þér hvaða erfiðleika sumir bræður og systur í söfnuðinum þínum þurfa að þola. Það er ekki að undra að Páll postuli skyldi skrifa: „Gefum gætur hvert að öðru.“ Síðan útskýrði hann að við gætum gert það með því að ,vanrækja ekki safnaðarsamkomur‘. (Hebr. 10:24, 25) Þegar þú mætir á samkomur sýnirðu að þú metur trúsystkini þín það mikils að þú viljir gefa þeim af tíma þínum og veita þeim athygli og umhyggju. Auk þess uppörvarðu þau með söng þínum og einlægum svörum. – Kól. 3:16.

9, 10. (a) Útskýrðu hvernig orð Jesú í Jóhannesi 10:16 undirstrika mikilvægi þess að safnast saman með trúsystkinum. (b) Hvaða áhrif getum við haft á trúsystkini sem hefur verið hafnað af fjölskyldu sinni ef við sækjum samkomur reglulega?

9 Á samkomum tengjumst við trúsystkinum okkar nánari böndum. (Lestu Jóhannes 10:16.) Jesús líkti sjálfum sér við hirði og fylgjendum sínum við sauðahjörð. Hugsaðu um eftirfarandi: Ef tveir sauðir væru uppi í fjallshlíð, tveir niðri í dal og enn einn sauður á beit annars staðar, myndum við þá líta á þessa fimm sauði sem hjörð? Yfirleitt heldur sauðahjörð hópinn nálægt hirðinum sem annast hana. Á sama hátt getum við ekki fylgt hirði okkar ef við einöngrum okkur af ásettu ráði. Við þurfum að hitta aðra þjóna Guðs til að vera hluti af ,einni hjörð‘ undir ,einum hirði‘.

10 Þegar við mætum á samkomu stuðlum við að einingu bræðralagsins. (Sálm. 133:1) Sumum trúsystkinum okkar hefur verið hafnað af foreldrum sínum og systkinum. Jesús lofaði þó að gefa þeim andlega fjölskyldu sem myndi elska þau og annast. (Mark. 10:29, 30) Ef þú sækir samkomur reglulega getur vel verið að þú verðir eins og faðir, móðir, bróðir eða systir einhvers í söfnuðinum. Hvetur það okkur ekki til að gera okkar ýtrasta til að mæta á allar samkomur?

VIÐ HÖFUM ÁHRIF Á JEHÓVA MEÐ ÞVÍ AÐ SÆKJA SAMKOMUR

11. Hvernig gefum við Jehóva það sem hann á skilið þegar við mætum á samkomur?

11 Þegar við sækjum samkomur gefum við Jehóva það sem hann á skilið. Jehóva er skapari okkar og á því skilið lof, dýrð, þakkir okkar og heiður. (Lestu Opinberunarbókina 7:12.) Þegar við biðjum, syngjum og tölum um Jehóva á samkomum gefum við honum það sem hann svo sannarlega verðskuldar – tilbeiðslu okkar. Við metum mikils að fá að heiðra hann sem hefur gert svo mikið fyrir okkur.

12. Hvaða áhrif hefur það á Jehóva þegar við hlýðum boði hans um að sækja samkomur?

12 Jehóva á einnig skilið að við hlýðum honum. Hann hefur gefið okkur fyrirmæli um að vanrækja ekki samkomur okkar, sérstaklega núna þegar endirinn nálgast óðfluga. Við gleðjum Jehóva þegar við fylgjum fúslega þessu boði. (1. Jóh. 3:22) Hann tekur eftir öllu sem við leggjum á okkur til að sækja hverja samkomu og metur það mikils. – Hebr. 6:10.

13, 14. Hvernig nálægjum við okkur Jehóva og Jesú á samkomum?

13 Þegar við sækjum samkomur sýnum við Jehóva að við viljum nálægja okkur honum og syni hans. Jehóva kennir okkur á samkomunum og notar til þess orð sitt, Biblíuna. (Jes. 30:20, 21) Jafnvel fólk utan safnaðarins, sem sækir samkomur okkar, getur dregið þessa ályktun: „Guð er sannarlega hjá ykkur.“ (1. Kor. 14:23-25) Jehóva blessar samkomurnar með heilögum anda sínum og það sem við lærum þar kemur frá honum. Þegar við sækjum þær hlustum við því á rödd Jehóva og finnum fyrir ástríkri umhyggju hans, og þannig nálægjum við okkur honum.

14 Jesús sagði: „Hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni þar er ég mitt á meðal þeirra.“ (Matt. 18:20) Þessi orð má heimfæra upp á samkomurnar okkar. Jesús er höfuð safnaðarins og „gengur á milli“ safnaða þjóna Guðs. (Opinb. 1:20 – 2:1) Hugsaðu þér! Jehóva og Jesús eiga virkan þátt í að styrkja okkur á samkomum. Hvernig heldurðu að Jehóva líði þegar hann sér hve mikið við leggjum á okkur til að nálægja okkur honum og syni hans?

15. Hvernig sýnum við Guði að við viljum hlýða honum þegar við sækjum samkomur?

15 Þegar við sækjum samkomur sýnum við að við styðjum drottinvald Guðs. Jehóva hefur gefið okkur fyrirmæli um að sækja samkomur en hann þvingar okkur ekki til þess. (Jes. 43:23) Það er því undir okkur komið að sýna Jehóva hve heitt við elskum hann og hve dyggilega við styðjum stjórn hans. (Rómv. 6:17) Vinnuveitandi gæti til dæmis þrýst á okkur að vinna það mikið að við getum ekki mætt reglulega á samkomur. Stjórnvöld gætu hótað okkur sektum, fangelsisvist eða þaðan af verra fyrir að sækja samkomur. Við gætum líka freistast til að nota tímann í afþreyingu í stað þess að sækja samkomu. Við allar þessar aðstæður stöndum við frammi fyrir vali: Hverjum ætlum við að þjóna? (Post. 5:29) Þegar við ákveðum að styðja drottinvald Jehóva gleðjum við hjarta hans. – Orðskv. 27:11.

RÆKTU SAMKOMURNAR DYGGILEGA

16, 17. (a) Hvernig vitum við að samkomur voru kristnum mönnum á fyrstu öld mjög mikilvægar? (b) Hvernig leit bróðir George Gangas á samkomur?

16 Kristnir menn á fyrstu öld komu ekki bara saman um stutt tímabil eftir að hafa orðið vitni að kraftaverkinu á hvítasunnu árið 33. „Þau ræktu trúlega uppfræðslu postulanna og samfélagið.“ (Post. 2:42) Gríska orðið, sem þýtt er „ræktu trúlega“, felur í sér að vera þolgóður og halda út á ákveðinni braut af mikilli einbeitni. Það var ekki auðvelt fyrir þessa kristnu menn að sækja samkomur vegna þess að bæði Rómverjar, sem réðu ríkjum, og trúarleiðtogar Gyðinga ofsóttu þá. En þrátt fyrir það héldu þeir út.

17 Margir þjónar Jehóva nú á dögum hafa sýnt að þeir kunna virkilega að meta samkomurnar. George Gangas, sem sat í hinu stjórnandi ráði í rúmlega 22 ár, sagði: „Það er fátt í lífinu sem veitir mér meiri gleði og hvatningu en að hitta trúsystkini mín. Ég nýt þess að mæta meðal þeirra fyrstu í ríkissalinn og fara með þeim síðustu ef ég get. Ég finn til innri gleði þegar ég tala við þjóna Guðs. Þegar ég er meðal þeirra finnst mér ég vera í faðmi fjölskyldu minnar, í andlegri paradís.“ Hann bætti við: „Innstu hugsanir mínar og þrár beinast að því að sækja samkomur rétt eins og nál áttavitans vísar alltaf til norðurs.“

18. Hvað finnst þér um samkomurnar og hvað ertu staðráðinn í að gera?

18 Lítur þú eins á það að safnast saman til að tilbiðja Jehóva? Vertu þá ákveðinn í að leggja þig allan fram við að sækja samkomur reglulega, jafnvel þegar það er ekki auðvelt. Þannig sýnirðu að þú ert sammála Davíð konungi sem sagði: „Drottinn, ég elska húsið sem er bústaður þinn.“ – Sálm. 26:8.

^ [1] (3. grein.) Sum trúsystkini okkar geta ekki sótt samkomur reglulega vegna aðstæðna sem þau ráða ekki við, eins og alvarleg veikindi. Þau mega vera viss um að Jehóva skilji aðstæður þeirra og kunni vel að meta að þau skuli tilbiðja hann af heilum huga. Öldungar geta aðstoðað þessi trúsystkini svo að þau geti notið góðs af samkomunum, til dæmis með því að hjálpa þeim að tengjast samkomunum símleiðis eða gefa þeim upptökur af þeim.

^ [2] (3. grein.) Sjá rammann „Ástæður til að sækja samkomur“.