Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Leyfið þolgæðinu að ljúka verki sínu“

„Leyfið þolgæðinu að ljúka verki sínu“

„Leyfið þolgæðinu að ljúka verki sínu svo að þið verðið heilir og heilbrigðir að öllu leyti og ykkur sé í engu ábótavant.“ – JAK. 1:4, NW.

SÖNGVAR: 135, 139

1, 2. (a) Hvað getum við lært af þolgæði Gídeons og 300 manna hans? (Sjá mynd í upphafi greinar.) (b) Hvers vegna þurfum við að vera þolgóð miðað við Lúkas 21:19?

ORRUSTAN var lýjandi. Hermenn Gídeons dómara höfðu veitt óvinunum eftirför rúmlega 30 kílómetra leið. Í Biblíunni segir hvað gerðist þessu næst: „Gídeon kom nú að Jórdan og fór yfir hana með þau þrjú hundruð manna sem með honum voru. Þeir voru þreyttir.“ En Gídeon og menn hans voru ekki búnir að vinna stríðið því að þeir áttu enn í höggi við 15.000 hermenn af liði Midíaníta og bandamanna þeirra. Ísraelsmenn höfðu sætt kúgun þeirra árum saman og vissu að þeir máttu ekki láta deigan síga. Þeir ,ráku því flóttann‘ og sigruðu Midíaníta. – Dóm. 7:22; 8:4, 10, 28.

2 Við eigum líka í erfiðu og þreytandi stríði. Óvinir okkar eru meðal annars Satan, heimurinn og okkar eigin ófullkomleiki. Sum okkar hafa barist áratugum saman, og með hjálp Jehóva höfum við unnið marga sigra. En stundum verðum við þreytt á að berjast við óvini okkar og bíða eftir að þessi heimur taki enda. Við höfum ekki unnið fullnaðarsigur enn. Jesús benti á að við sem yrðum uppi á síðustu dögum þyrftum að þola erfiðar prófraunir og grimmilegar ofsóknir. En hann bætti við að við þyrftum að vera þolgóð til að ganga með sigur af hólmi. (Lestu Lúkas 21:19.) Hvað er þolgæði? Hvað getur hjálpað okkur að vera þolgóð? Hvað getum við lært af þeim sem hafa verið þolgóðir? Og hvernig getum við ,leyft þolgæðinu að ljúka verki sínu‘? – Jak. 1:4.

HVAÐ ER ÞOLGÆÐI?

3. Hvað er þolgæði?

3 Orðið þolgæði, eins og það er notað í Biblíunni, merkir meira en aðeins að láta prófraunir og erfiðleika yfir sig ganga. Þolgæði á rætur sínar í huga og hjarta mannsins. Það birtist í viðbrögðum okkar við erfiðleikum. Þolgóð manneskja er hugrökk, staðföst og þolinmóð. Þolgæði er „það eðlisfar sem gerir manninum kleift að halda út, ekki með því að sætta sig einfaldlega við orðinn hlut heldur með eldheitri von,“ segir í heimildarriti. Það er „sá eiginleiki sem gerir manni fært að standa í fæturna þegar á móti blæs. Það er sú dyggð sem getur breytt erfiðustu prófraun í vegsemd vegna þess að handan sársaukans sér hún markið.“

4. Hvers vegna getum við sagt að þolgæði sé sprottið af kærleika?

4 Þolgæði kristins manns er sprottið af kærleika. (Lestu 1. Korintubréf 13:4, 7.) Sá sem elskar Jehóva er fús til að þola hvaðeina sem hann leyfir. (Lúk. 22:41, 42) Sá sem elskar bræður sína og systur á auðveldara með að umbera ófullkomleika þeirra. (1. Pét. 4:8) Sá sem elskar maka sinn þolir fúslega ýmiss konar erfiðleika sem jafnvel hamingjusömustu hjón verða fyrir, og það styrkir hjónabandið. – 1. Kor. 7:28.

HVAÐ GETUR HJÁLPAÐ ÞÉR AÐ SÝNA ÞOLGÆÐI?

5. Hvers vegna er Jehóva best til þess fallinn að hjálpa okkur að vera þolgóð?

5 Biddu Jehóva að styrkja þig. Það er Jehóva sem „veitir þolgæðið og hugrekkið“. (Rómv. 15:5) Hann einn skilur að fullu erfiðleikana sem hrjá okkur. Hann veit nákvæmlega hvaða áhrif umhverfi okkar, tilfinningar og erfðir hafa á okkur. Hann er því best til þess fallinn að hjálpa okkur að vera þolgóð. „Hann uppfyllir óskir þeirra sem óttast hann og hróp þeirra heyrir hann og hjálpar þeim,“ segir í Biblíunni. (Sálm. 145:19) En hvernig svarar Guð bænum okkar þegar við biðjum hann um styrk til að vera þolgóð?

6. Hvernig getur Jehóva séð um að við ,fáum staðist‘ prófraunir?

6 Lestu 1. Korintubréf 10:13Jehóva hjálpar okkur að standast prófraunir þegar við biðjum hann um það. Gerir hann það með því að losa okkur úr þeim? Ef til vill. En oft notar hann þá aðferð að ,sjá um að við fáum staðist‘ prófraunina. Hann styrkir okkur með því að ,fylla okkur þolgæði og gleði‘. (Kól. 1:11) Og þar sem Jehóva þekkir fullkomlega hvað líkami okkar, hugur og tilfinningar þola leyfir hann aldrei að prófraunin verði svo þung að við getum ekki verið trúföst.

7. Hvers vegna þurfum við andlega fæðu til að halda út? Lýstu með dæmi.

7 Nærðu trúna á andlegri fæðu. Everestfjall er hæsta fjall heims. Þeir sem klífa það brenna um 6.000 hitaeiningum á dag en það er verulega umfram venjulega orkuþörf fólks. Fjallgöngumaðurinn þarf að neyta eins margra hitaeininga og hann getur til að ráða við að klífa fjallið og komast á tindinn. Til að halda út á kristinni lífsgöngu okkar og ná í mark þurfum við að næra okkur reglulega á andlegri fæðu og við þurfum að gera það í ríkum mæli. Það kostar sjálfsaga að gefa sér tíma til að lesa, hugleiða og sækja samkomur. Þannig nærum við trú okkar á „fæðu sem varir til eilífs lífs“. – Jóh. 6:27.

8, 9. (a) Um hvað snýst málið þegar við verðum fyrir mótlæti, samanber Jobsbók 2:4, 5? (b) Hvað geturðu séð fyrir þér á hinu ósýnilega tilverusviði þegar þú verður fyrir prófraunum?

8 Mundu eftir deilunni um ráðvendni mannsins. Þegar þjónn Jehóva lendir í prófraunum snýst málið ekki bara um þjáningar eins manns. Viðbrögð okkar við prófraununum leiða í ljós hvort við lítum á Jehóva sem Drottin alheims. Satan er óvinur Jehóva og berst gegn drottinvaldi hans. Hann ögraði honum og sagði: „Menn láta allt sem þeir eiga fyrir líf sitt. En réttu út hönd þína og snertu hold [Jobs] og bein. Þá mun hann vissulega formæla þér upp í opið geðið.“ (Job. 2:4, 5) Að sögn Satans þjónar enginn maður Jehóva af óeigingjörnum kærleika. Hefur Satan breyst síðan hann staðhæfði þetta? Nei. Þegar honum var varpað niður af himnum mörgum öldum síðar var sagt að ,hann stæði frammi fyrir Guði dag og nótt og ákærði þau sem trúa‘. (Opinb. 12:10) Satan er ekki búinn að gleyma deilunni um ráðvendni mannsins. Hann vill ólmur sjá okkur gefast upp í prófraunum og hætta að styðja drottinvald Guðs.

9 Þegar þú verður fyrir mótlæti skaltu sjá fyrir þér hið ósýnilega tilverusvið. Hugsaðu þér að öðrum megin við þig séu Satan og illu andarnir. Þeir benda á að þú eigir í baráttu og fullyrða að þú sért að kikna undan álaginu og gefist bráðum upp. Hinum megin eru Jehóva, konungurinn Jesús, hinir andasmurðu upprisnir og ógrynni engla. Þeir hvetja þig til dáða og gleðjast að sjá þig halda út dag eftir dag og styðja drottinvald Jehóva. Þú getur tekið til þín innblásna beiðni Jehóva: „Öðlastu visku, sonur minn, og gleddu hjarta mitt svo að ég geti svarað þeim orði sem smána mig.“ – Orðskv. 27:11.

10. Hvernig geturðu líkt eftir Jesú þegar þú átt í prófraunum?

10 Hugsaðu um launin fyrir að sýna þolgæði. Ímyndaðu þér að þú sért á langferð og leiðin liggi um löng jarðgöng. Það er niðamyrkur hvert sem þú horfir. Þú veist hins vegar að þú færð að sjá ljósið aftur ef þú heldur ferðinni áfram út úr göngunum. Á lífsleiðinni verða alls konar erfiðleikar á vegi þínum sem þér gæti stundum fundist yfirþyrmandi. Vera má að Jesú hafi jafnvel liðið þannig. Hann mátti þola niðurlægingu, „fjandskap ... af syndurum“ og meira að segja kvalafullan dauða á aftökustaur. Það var örugglega myrkasti dagur í ævi Jesú. Samt sem áður þoldi hann allt þetta „af því að hann vissi hvaða gleði beið hans“. (Hebr. 12:2, 3) Hann hugsaði um launin fyrir að vera þolgóður, ekki síst hvernig hann myndi eiga þátt í að helga nafn Jehóva og réttlæta drottinvald hans. Prófraunir Jesú voru tímabundnar en launin á himnum eilíf. Prófraunir þínar geta verið sársaukafullar, næstum óbærilegar. En mundu að þrengingar þínar á veginum til eilífa lífsins standa stutt.

ÞEIR SEM „ÞOLGÓÐIR HAFA VERIГ

11. Hvers vegna er gott að leiða hugann að þeim sem „þolgóðir hafa verið“?

11 Við stöndum ekki ein í þessari baráttu. Pétur postuli hvatti kristna menn til að vera þolgóðir í prófraunum af völdum Satans og skrifaði: „Standið gegn honum stöðug í trúnni og vitið að bræður ykkar og systur um allan heim verða fyrir sömu þjáningum.“ (1. Pét. 5:9) Reynsla þeirra sem „þolgóðir hafa verið“ segir okkur hvernig við getum verið staðföst, fullvissar okkur um að við séum fær um það og minnir á að okkur verður launuð trúfestin. (Jak. 5:11) Lítum á fáein dæmi. [1]

12. Hvað getum við lært af kerúbunum sem gættu vegarins til Eden?

12 Kerúbar eru fyrstu andaverurnar sem birtust mönnum. Við getum lært af þeim að gefast ekki upp þó að við fáum erfitt verkefni. Jehóva Guð „setti kerúbana fyrir austan Eden og loga hins sveipanda sverðs til þess að gæta vegarins að lífsins tré“. [2] (1. Mós. 3:24) Þessir kerúbar voru ekki skapaðir til að fara með slíkt hlutverk enda var það aldrei ætlun Jehóva að mennirnir syndguðu og gerðu uppreisn. Hvergi kemur hins vegar fram að þessar háttsettu andaverur hafi kvartað yfir því að þær væru of færar til að sinna þessu verki. Kerúbarnir urðu ekki leiðir á því eða gáfust upp. Öllu heldur sinntu þeir verkefni sínu dyggilega þangað til því lauk, hugsanlega þegar flóðið brast á meira en 1.600 árum síðar.

13. Hvernig gat Job verið þolgóður í prófraunum sínum?

13 Ættfaðirinn Job. Ertu niðurdreginn vegna þess að vinur eða ættingi sagði eitthvað særandi við þig? Áttu við alvarlegan sjúkdóm að stríða? Ertu sorgmæddur vegna þess að þú hefur misst ástvin? Þá getur frásagan af Job verið þér til uppörvunar. (Job. 1:18, 19; 2:7, 9; 19:1-3) Hann vissi ekki hvers vegna miklir erfiðleikar lögðust á hann en örvænti samt ekki né gafst upp. Af hverju? Meðal annars af því að hann „óttaðist Guð“. (Job. 1:1) Job var staðráðinn í að þóknast honum í blíðu og stríðu. Með hjálp Jehóva hugleiddi hann þann mikla mátt sem birtist í sköpunarverki hans. Það sannfærði Job um að Jehóva myndi fyrr eða síðar binda enda á prófraunir hans. (Job. 42:1, 2) Og þannig fór það líka. Jehóva „sneri við högum Jobs ... [og] gaf tvöfalt það sem hann hafði áður átt“. Hann lifði langa og góða ævi. – Job. 42:10, 17.

14. Hvernig var Páll öðrum til styrktar með þolgæði sínu, samanber 2. Korintubréf 1:6?

14 Páll postuli. Hefur þú orðið fyrir harðri andstöðu eða jafnvel ofsóknum af hendi þeirra sem berjast gegn sannri tilbeiðslu? Ertu safnaðaröldungur eða farandhirðir og finnst þér ábyrgðin leggjast þungt á þig? Þá skaltu leiða hugann að Páli. Hann var grimmilega ofsóttur og hafði stöðugar áhyggjur af velferð safnaðanna. (2. Kor. 11:23-29) En hann gafst samt ekki upp og var öðrum til styrktar og hvatningar með fordæmi sínu. (Lestu 2. Korintubréf 1:6.) Líklegt er að þú getir einnig hvatt aðra til að vera þolgóðir með því að vera sjálfur þolgóður í þrengingum.

LEYFIRÐU ÞOLGÆÐINU AÐ „LJÚKA VERKI SÍNU“ Í ÞÉR?

15, 16. (a) Hvaða verk er það sem þolgæðið á að ljúka? (b) Nefndu dæmi um hvernig við getum látið þolgæðið „ljúka verki sínu“.

15 Jakobi var innblásið að skrifa: „Leyfið þolgæðinu að ljúka verki sínu.“ Hvaða verk er það sem þolgæðið á að ljúka? Þolgæði hjálpar okkur að vera „heilir og heilbrigðir að öllu leyti“ og vera „í engu ábótavant“. (Jak. 1:4, NW) Prófraunir leiða oft í ljós hverjir veikleikar okkar eru, það er að segja það sem við þurfum að bæta í fari okkar. En ef við erum þolgóð í prófraunum verðum við heilbrigðari og heilsteyptari sem kristnir menn. Við getum til dæmis orðið þolinmóðari, þakklátari og umhyggjusamari.

Þegar við erum þolgóð í prófraunum verðum við heilsteyptari sem kristnir menn. (Sjá 15. og 16. grein.)

16 Þar sem þolgæðið bætir kristna eiginleika okkar er mikilvægt að hvika ekki frá meginreglum Biblíunnar í þeim tilgangi að binda enda á prófraunir sem við verðum fyrir. Segjum til dæmis að þú sért að berjast við óhreinar hugsanir. Í stað þess að láta undan freistingu skaltu biðja Jehóva að hjálpa þér að vinna bug á röngum löngunum. Þá verður auðveldara fyrir þig að sýna sjálfstjórn. Er einhver í fjölskyldunni á móti trú þinni? Í stað þess að láta undan þrýstingi skaltu vera ákveðinn í að halda þínu striki og þjóna Jehóva af heilu hjarta. Um leið og þú gerir það styrkirðu traustið til Jehóva. Mundu að hann hefur velþóknun á þeim sem eru þolgóðir. – Rómv. 5:3-5; Jak. 1:12.

17, 18. (a) Lýstu með dæmi hve mikilvægt er að vera þolgóður allt til enda. (b) Hverju getum við treyst?

17 Við verðum að vera þolgóð allt til enda, ekki aðeins um tíma. Lýsum því með dæmi: Segjum að skip fari á hliðina skammt frá landi. Til að komast lífs af þurfa farþegarnir að synda í land. Sá sem gefst upp nokkra metra frá ströndinni hlýtur sömu örlög og sá sem gefst upp miklu fyrr. Við erum ákveðin í að halda út uns við komumst inn í nýja heiminn. Líf okkar er undir því komið að við séum þolgóð. Við hugsum eins og Páll postuli sem sagði tvívegis að hann léti ekki hugfallast. – 2. Kor. 4:1, 16.

18 Við getum treyst fullkomlega að Jehóva hjálpi okkur að vera þolgóð allt til enda. Við erum jafn sannfærð og Páll sem sagði í Rómverjabréfinu 8:37-39: „Í öllu þessu vinnum við fyllsta sigur í krafti hans sem elskaði okkur. Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.“ Stundum verðum við þreytt. En líkjum eftir Gídeon og mönnum hans. Þeir gáfust ekki upp. „Þeir voru þreyttir en ráku þó enn flóttann.“ – Dóm. 8:4.

^ [1] (11. grein.) Það er einnig hvetjandi að lesa frásögur af þolgæði þjóna Guðs á síðari tímum. Í árbókum okkar 1992, 1999 og 2008 er til dæmis að finna trústyrkjandi frásögur af starfi bræðra okkar og systra í Eþíópíu, Malaví og Rússlandi.

^ [2] (12. grein.) Í Biblíunni er látið ósagt hve margir kerúbarnir voru sem fengu þetta verkefni.