Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Megi fúsleiki þinn vera Jehóva til lofs

Megi fúsleiki þinn vera Jehóva til lofs

„Fólkið kom af frjálsum vilja, lofið því Drottin.“ – DÓM. 5:2.

SÖNGVAR: 150, 10

1, 2. (a) Hvernig sögðu Elífas og Bildad að Guð liti á þjónustu okkar við sig? (b) Hvernig lét Jehóva viðhorf sitt í ljós?

„VINNUR maðurinn Guði gagn? Nei, vitur maður vinnur sjálfum sér gagn. Gleðst Hinn almáttki yfir réttlæti þínu? Er honum ávinningur að lýtalausri breytni þinni?“ (Job. 22:1-3) Hefurðu einhvern tíma velt fyrir þér spurningum sem þessum? Þegar Elífas frá Teman bar þær fyrst upp við Job taldi hann eflaust svarið vera nei. Bildad, félagi hans frá Súa, hélt því jafnvel fram að það væri ógerlegt fyrir mennina að vera réttlátir í augum Guðs. – Lestu Jobsbók 25:4.

2 Þessir falsvinir Jobs héldu því fram að það sem við leggjum á okkur til að þjóna Jehóva af trúfesti komi honum að engu gagni og að við séum engu verðmætari í augum hans en mölur, maðkur eða ormur. (Job. 4:19; 25:6) Við fyrstu sýn gæti okkur þótt Elífas og Bildad hafa verið hógværir menn. (Job. 22:29) Verk mannfólksins geta vissulega virst lítilfjörleg séð frá háum fjallstindi eða út um flugvélarglugga. En er það þannig sem Jehóva lítur á það sem við leggjum af mörkum í þágu ríkis hans þegar hann horfir á jörðina af himnum ofan? Jehóva lét viðhorf sitt í ljós með því að ávíta Elífas, Bildad og Sófar fyrir að fara með rangt mál en hann var ánægður með Job og kallaði hann ,þjón sinn‘. (Job. 42:7, 8) Við megum því vera viss um að ófullkomnir menn geta ,unnið Guði gagn‘.

„HVAÐ GEFURÐU HONUM?“

3. Hvað sagði Elíhú um viðleitni okkar til að þjóna Jehóva og hvað átti hann við?

3 Jehóva leiðrétti ekki Elíhú fyrir að spyrja: „Hvað gefurðu honum [Guði] með því að vera réttlátur eða hvað þiggur hann úr hendi þinni?“ (Job. 35:7) Var Elíhú að gefa í skyn að viðleitni okkar til að þjóna Guði sé tilgangslaus? Nei. Hann átti við það að Jehóva sé ekki háður tilbeiðslu okkar. Hann er sjálfum sér nógur. Við getum ekki gert hann ríkari né sterkari. Þvert á móti hefur Guð trúað okkur fyrir öllum góðum eiginleikum og hæfileikum sem við búum yfir og hann tekur eftir því hvernig við notum þá.

4. Við hvað líkir Jehóva góðum verkum okkar í þágu annarra?

4 Þegar við sýnum þjónum Jehóva tryggan kærleika lítur hann svo á að við séum að sýna honum persónulega þennan kærleika. „Sá lánar Drottni sem líknar fátækum, hann mun endurgjalda honum,“ segir í Orðskviðunum 19:17. Gefur þetta vers til kynna að Jehóva taki eftir hverju einasta verki sem við vinnum í þágu annarra? Getum við dregið þá ályktun að skapari alheims telji sig standa í skuld við lítilmótlega menn sem vinna miskunnarverk? Lítur hann á þessi verk sem lán sem hann endurgreiðir með velþóknun sinni og blessun? Já, og sjálfur sonur hans staðfesti það. – Lestu Lúkas 14:13, 14.

5. Hvaða spurningar skoðum við nú?

5 Jehóva bauð Jesaja spámanni að tala fyrir sína hönd og lét þannig í ljós að hann hafi ánægju af því að láta trúfasta menn taka þátt í að koma vilja hans til leiðar. (Jes. 6:8-10) Jesaja þáði boðið fúslega. Fólk í þúsundatali sýnir sama fúsleika nú á dögum með því að segja: „Hér er ég. Send þú mig,“ og taka að sér krefjandi verkefni í þjónustu Jehóva. Kannski spyrjum við okkur samt: „Skiptir framlag mitt í raun og veru máli? Það er fallega gert af Jehóva að leyfa mér að bjóða mig fram og taka þátt í þessu starfi, en sér hann ekki fyrir því sem þarf til að orð hans rætist, sama hve mikið ég kýs að gera í þjónustu hans?“ Skoðum hvernig atburðir á dögum Debóru og Baraks svara þessum spurningum.

LAMAÐIR AF ÓTTA EN GUÐ STYRKTI ÞÁ

6. Hvað var ólíkt með þorpsbúum í Ísrael og her Jabíns?

6 Jabín, konungur Kanverja, hafði „kúgað Ísraelsmenn harðlega í tuttugu ár“. Þorpsbúar óttuðust jafnvel að láta sjá sig á götum úti. Þeir voru illa búnir hernaðarlega séð og áttu hvorki vopn né búnað til að verjast. Óvinirnir bjuggu hins vegar yfir 900 járnvögnum. – Dóm. 4:1-3, 13; 5:6-8. *

7, 8. (a) Hvaða fyrirmæli gaf Jehóva Barak? (b) Hvernig sigraði Ísrael her Jabíns? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

7 Jehóva gaf Barak engu að síður þessi skýru fyrirmæli fyrir milligöngu Debóru spákonu: „Farðu og haltu til Taborfjalls og hafðu með þér tíu þúsund menn af niðjum Naftalí og Sebúlons. Og ég mun leiða til þín Sísera, hershöfðingja Jabíns, með vögnum sínum og herliði að Kísonlæk og ég mun gefa hann þér á vald.“ – Dóm. 4:4-7.

8 Þetta spurðist út og sjálfboðaliðar söfnuðust saman á Taborfjall. Barak lét ekki á sér standa að fylgja fyrirmælum Jehóva. (Lestu Dómarabókina 4:14-16.) Þegar aðalorrustan í Taanak stóð yfir skall skyndilega á steypiregn og svæðið breyttist í eitt stórt forarsvað. Barak elti her Sísera alla leið til Haróset – um 24 kílómetra leið. Einhvers staðar á leiðinni yfirgaf Sísera gagnslausan hervagninn sem hafði áður vakið ótta og skelfingu, og hljóp til Saananním (Elon Besaanaím). Hann leitaði skjóls í tjaldi Jaelar, konu Hebers Keníta, og hún bauð hann velkominn. Sísera var úrvinda eftir bardagann og sofnaði. Nú var hann varnarlaus gegn hinni hugrökku Jael sem hafði ákveðið að drepa hann. (Dóm. 4:17-21) Óvinir Ísraelsmanna voru úr sögunni! *

MISMUNANDI VIÐHORF TIL ÞESS AÐ BJÓÐA SIG FRAM

9. Hvaða upplýsingar um orrustuna við Sísera er að finna í Dómarabókinni 5:20, 21?

9 Lesa ætti 4. og 5. kafla Dómarabókarinnar saman þar sem þeir innihalda hvor um sig upplýsingar sem koma ekki fram í hinum kaflanum. Í Dómarabókinni 5:20, 21 segir til dæmis: „Af himni börðust stjörnurnar, af brautum sínum börðust þær við Sísera, Kísonlækur skolaði þeim burt.“ Er þetta vísun í aðstoð engla eða var um einhvers konar loftsteinaregn að ræða? Frásagan lætur það ósagt. En er hægt að eigna einhverju öðru en guðlegum mætti slíkt ofsaregn einmitt á réttum tíma og stað til að hefta för 900 hervagna? Þrisvar í Dómarabókinni 4:14, 15 er Jehóva eignaður sigurinn. Enginn af hinum 10.000 sjálfboðaliðum Ísraelsmanna gat stært sig af því að hafa frelsað þjóðina.

10, 11. Hvað var Merós og hvers vegna var hún bölvuð?

10 Það er eftirtektarvert að í miðjum sigursöng Debóru og Baraks, þar sem þau lofa Jehóva fyrir yfirnáttúrulegan sigur, syngja þau: „,Bölvið Merós,‘ sagði engill Drottins, já, bölvið íbúum hennar af því að þeir komu ekki Drottni til hjálpar, Drottni til hjálpar meðal hetjanna.“ – Dóm. 5:23.

11 Merós var greinilega bölvuð svo rækilega að það er erfitt að segja með vissu hvað hún var. Gæti hún hafa verið borg þar sem íbúarnir svöruðu ekki kallinu um sjálfboðaliða? Kannski var hún á flóttaleið Sísera og íbúarnir höfðu tækifæri til að taka hann höndum en létu það fram hjá sér fara. Þeir hljóta að hafa heyrt að Jehóva lét kalla eftir sjálfboðaliðum. Tíu þúsund manns, sem bjuggu á svæðinu í kring, höfðu safnast saman til orrustunnar. Ímyndaðu þér íbúa Merós koma auga á þennan alræmda stríðsmann hlaupandi beint í gegnum borgina, einan og örvæntingarfullan. Það hefði verið kjörið tækifæri til að koma vilja Jehóva til leiðar og hljóta blessun hans. En á þessari ögurstundu, þegar tækifæri gafst til að gera eitthvað, lokuðu þeir þá augunum fyrir því og létu hann afskiptalausan? Það hefði verið mjög ólíkt því sem hin hugrakka Jael gerði og sagt er frá í versunum þar á eftir. – Dóm. 5:24-27.

12. Hvaða munur var á hugarfari fólks sem talað er um í Dómarabókinni 5:9, 10 og hvaða áhrif ætti það að hafa á okkur?

12 Í Dómarabókinni 5:9, 10 sjáum við enn frekar muninn á hugarfari þeirra sem slógust í för með Barak og hinna sem gerðu það ekki. Debóra og Barak hrósuðu „leiðtogum Ísraels sem komu fram af frjálsum vilja meðal fólksins“. Öðru máli gegndi um þá ,sem riðu hvítum ösnum‘ og voru of stoltir til að bjóða sig fram og þeim ,sem hvíldu á ábreiðum‘ og elskuðu munaðarlífið. Þeir sem fylgdu Barak voru reiðubúnir að halda til bardaga í grýttum hlíðum Taborfjalls og forarsvaði Kísondals ólíkt þeim ,sem fóru um veginn‘ og kusu auðveldu leiðina. Þeir sem vildu lifa þægilegu lífi voru hvattir til að hugsa sinn gang. Já, þeir þurftu að hugsa um tækifærið sem þeir höfðu fengið til að styðja málstað Jehóva en létu fram hjá sér fara. Hver sá sem heldur aftur af sér í þjónustunni við Jehóva nú á dögum ætti að gera slíkt hið sama.

13. Hvernig var viðhorf ættbálka Rúbens, Dans og Assers ólíkt því sem ættbálkar Sebúlons og Naftalí sýndu?

13 Þeir sem buðu sig fram sáu með eigin augum hvernig Jehóva upphefur drottinvald sitt. Þeir höfðu frá ýmsu merkilegu að segja þegar þeir ,víðfrægðu réttlætisverk Drottins‘. (Dóm. 5:11) Hins vegar er sérstaklega tekið fram í Dómarabókinni 5:15-17 að ættbálkar Rúbens, Dans og Assers hafi veitt eigin hagsmunum – svo sem hjörðum sínum, skipum og höfnum – meiri athygli en verkinu sem Jehóva vildi að menn sinntu. (Biblían 1981) Sebúlon og Naftalí voru ólíkir þeim og ,hættu lífi sínu‘ til að styðja Debóru og Barak. (Dóm. 5:18) Við getum dregið mikilvægan lærdóm af þessum ólíku viðhorfum til þess að bjóða sig fram.

,LOFIÐ JEHÓVA‘

14. Hvernig sýnum við að við styðjum drottinvald Jehóva nú á dögum?

14 Við erum ekki beðin um að taka þátt í bókstaflegum hernaði nú á dögum. En við fáum tækifæri til að sýna hugrekki með því að vera ötulir boðberar. Þörfin á sjálfboðaliðum í söfnuði Jehóva er meiri en nokkru sinni fyrr. Milljónir bræðra og systra á öllum aldri bjóða sig fram til að þjóna í fullu starfi á ýmsum sviðum – sem brautryðjendur, Betelítar og sjálfboðaliðar við að byggja ríkissali. Og fjölmargir bjóða fram aðstoð sína í tengslum við mót. Hugsaðu líka um öldungana sem gegna mikilli ábyrgð í spítalasamskiptanefndum og við að skipuleggja umdæmismót. Þú mátt vera viss um að Jehóva kann vel að meta fúsleika þinn og gleymir ekki því sem við leggjum á okkur. – Hebr. 6:10.

Áður en þú tekur ákvörðun ættirðu að hugsa um hvaða áhrif hún hefði á fjölskylduna og söfnuðinn. (Sjá 15. grein.)

15. Hvernig getum við gengið úr skugga um að við séum ekki að missa ákafann í þjónustunni við Jehóva?

15 Við getum öll spurt okkur: Er ég sáttur við að láta aðra bera hitann og þungann af öllu sem þarf að gera? Hugsa ég svo mikið um efnisleg gæði að það dregur úr fúsleika mínum í þjónustu Jehóva? Hef ég trú og hugrekki til að nota allt sem í mér býr til að framfylgja skýrum fyrirmælum Jehóva líkt og Barak, Debóra, Jael og sjálfboðaliðarnir 10.000? Ef ég er að hugsa um að flytjast til annarrar borgar eða annars lands af fjárhagsástæðum, bið ég þá til Jehóva og íhuga vandlega áhrifin sem það hefði á fjölskylduna og söfnuðinn? *

16. Hvað getum við gefið Jehóva sem hann á ekki fyrir?

16 Jehóva veitir okkur mikinn heiður með því að leyfa okkur að eiga þátt í að styðja drottinvald hans. Allt frá því að Satan tældi Adam og Evu til að taka afstöðu með sér gegn drottinvaldi Jehóva hafa menn gefið honum skýr skilaboð með því að styðja stjórn Jehóva. Fúsleiki okkar sem er sprottinn af trú og ráðvendni gleður Jehóva. (Orðskv. 23:15, 16) Hann notar stuðning þinn til að svara smánaryrðum Satans. (Orðskv. 27:11) Með því að vera trúföst og hlýðin gefum við Jehóva nokkuð sem honum þykir afar verðmætt og gleður hann innilega.

17. Hvað gefur Dómarabókin 5:31 til kynna varðandi framtíðina?

17 Innan skamms verður jörðin full af fólki sem kýs drottinvald Jehóva fram yfir nokkra aðra stjórn. Við hlökkum mikið til þess dags! Við syngjum eins og Debóra og Barak: „Farist allir óvinir þínir, Drottinn. En megi þeir sem þig elska ljóma sem sólarupprás.“ (Dóm. 5:31) Þessari bæn verður svarað þegar Jehóva bindur enda á illan heim Satans. Þegar Harmagedónstríðið brýst út verður engin þörf á mennskum sjálfboðaliðum til að gera út af við óvininn. Á þeim tíma munum við ,standa og horfa á þegar Drottinn vinnur sigur‘. (2. Kron. 20:17) En þangað til höfum við ótal tækifæri til að styðja málstað Jehóva af hugrekki og eldmóð.

18. Hvaða áhrif hefur fúsleiki þinn á þá sem njóta góðs af honum?

18 „Fólkið kom af frjálsum vilja, lofið því Drottin.“ Við sjáum að Debóra og Barak hófu ekki sigursöng sinn á því að lofa menn heldur á því að lofa Hinn hæsta. (Dóm. 5:1, 2) Megi fúsleiki þinn sömuleiðis vera öllum sem njóta góðs af honum hvatning til að lofa Jehóva.

^ gr. 6 Þessir járnvagnar voru hervagnar útbúnir beittum, löngum og stundum sveigðum járnljáum. Ljáirnir stóðu út úr vögnunum, hugsanlega úr hjólásunum. Hver hefði vogað sér að nálgast svona ógnvænlega stríðsvél?

^ gr. 8 Hægt er að lesa meira um þessa spennandi frásögu í greininni „Þú komst fram, móðir í Ísrael“ í Varðturninum september-október 2015.

^ gr. 15 Sjá greinina „Anxiety About Money“ í Varðturninum á ensku 1. júlí 2015.