Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hefur þú sömu tilfinningu og Jehóva fyrir réttlæti?

Hefur þú sömu tilfinningu og Jehóva fyrir réttlæti?

„Ég vil kunngjöra nafn Drottins ... Hann er trúfastur Guð og svikalaus, réttlátur og hreinlyndur.“ – 5. MÓS. 32:3, 4.

SÖNGVAR: 110, 2

1, 2. (a) Hvers konar óréttlæti urðu Nabót og synir hans fyrir? (b) Hvaða tvo eiginleika skoðum við í þessari grein?

ÍMYNDAÐU þér þessar aðstæður. Maður er ranglega sakaður um glæp sem varðar dauðarefsingu. Fjölskylda hans og vinir verða fyrir miklu áfalli þegar falsvottar, sem eru þekktir þrjótar, bera ljúgvitni gegn honum og fá hann dæmdan sekan. Hugsaðu þér hvernig fólki, sem elskar réttlætið, líður þegar það horfir upp á saklausan manninn og syni hans tekna af lífi. Þessi saga er enginn tilbúningur. Trúfastur þjónn Jehóva, Nabót að nafni, varð fyrir þessari reynslu en hann var uppi í stjórnartíð Akabs Ísraelskonungs. – 1. Kon. 21:11-13; 2. Kon. 9:26.

2 Í þessari grein tökum við frásöguna af Nabót fyrir en skoðum einnig frásögu af trúföstum öldungi í söfnuðinum á fyrstu öld sem varð alvarlega á. Af þessum dæmum í Biblíunni áttum við okkur á að við þurfum að vera auðmjúk ef við viljum hafa sömu tilfinningu og Jehóva fyrir réttlæti. Við sjáum líka að til þess að endurspegla réttlætiskennd Jehóva þurfum við að vera fús til að fyrirgefa þegar við tökum eftir óréttlæti í söfnuðinum.

RÉTTLÆTINU RANGSNÚIÐ

3, 4. Hvers konar maður var Nabót og hvers vegna neitaði hann að selja Akab konungi víngarð sinn?

3 Nabót var Jehóva trúfastur á tímum þegar flestir Ísraelsmenn fylgdu slæmu fordæmi Akabs konungs og Jesebelar drottningar, illrar eiginkonu hans. Þessir Baalsdýrkendur sýndu Jehóva enga virðingu og kunnu alls ekki að meta meginreglur hans. Nabót mat hins vegar samband sitt við Jehóva mikils, jafnvel meira en eigið líf.

4 Lestu 1. Konungabók 21:1-3Þegar Akab bauðst til að kaupa víngarð Nabóts eða gefa honum betri víngarð í staðinn hafnaði Nabót boðinu. Hvers vegna? Hann sagði með fullri virðingu: „Drottinn forði mér frá því að afhenda þér eign feðra minna.“ Ástæðan fyrir því að Nabót afþakkaði boðið var sú að lög Jehóva til Ísraelsmanna bönnuðu að maður seldi erfðaland ættar sinnar fyrir fullt og allt. (3. Mós. 25:23; 4. Mós. 36:7) Nabót sá málin greinilega frá sjónarhóli Jehóva.

5. Hvaða þátt átti Jesebel í því að Nabót var tekinn af lífi?

5 Akab konungur og eiginkona hans gerðu sig sek um röð ódæðisverka eftir að Nabót neitaði þeim um víngarðinn. Til að konungurinn gæti eignast hann kom Jesebel því í kring að menn bæru ljúgvitni gegn Nabót með þeim afleiðingum að bæði Nabót og synir hans voru teknir af lífi. Hvernig myndi Jehóva taka á þessu gegndarlausa óréttlæti?

RÉTTLÁTUR DÓMUR GUÐS

6, 7. Hvernig sýndi Jehóva að hann elskar réttlætið og hvers vegna hefur það veitt fjölskyldu Nabóts og vinum huggun?

6 Jehóva sendi strax Elía til að segja Akab til syndanna. Elía sagði honum réttilega að hann væri sekur um morð og þjófnað. Hver var úrskurður Jehóva í þessu máli? Akab, kona hans og synir myndu hljóta sömu örlög og Nabót og synir hans. – 1. Kon. 21:17-25.

7 Fjölskylda Nabóts og vinir syrgðu vegna illverka Akabs. En það hefur eflaust veitt þeim vissa huggun að vita að óréttlætið fór ekki fram hjá Jehóva og að hann gerði strax eitthvað í málinu. Þeir óvæntu atburðir, sem gerðust næst, hafa þó líklega reynt á auðmýkt þeirra og traust á Jehóva.

8. Hvernig brást Akab við dómi Jehóva og hver var afleiðingin?

8 Þegar Akab heyrði óhagstæðan dóm Jehóva „reif hann klæði sín, klæddist hærusekk einum klæða og tók að fasta. Hann svaf í hærusekknum og var niðurdreginn þegar hann var á fótum.“ Akab auðmýkti sig. Hver var afleiðingin? Jehóva sagði við Elía: „Þar sem hann hefur auðmýkt sig fyrir mér mun ég ekki senda ógæfuna yfir ætt hans á meðan hann lifir. En ég mun leiða böl yfir ætt hans á dögum sonar hans.“ (1. Kon. 21:27-29; 2. Kon. 10:10, 11, 17) Jehóva, sem „prófar hjörtun“, sýndi Akab miskunn að vissu marki. – Orðskv. 17:3.

AUÐMÝKT ER TIL VERNDAR

9. Hvers vegna getur það hafa verndað fjölskyldu Nabóts og vini hans að vera auðmjúk?

9 Hvaða áhrif hafði þessi ákvörðun á þá sem vissu af hræðilegum glæp Akabs? Það reyndi ef til vill á trú fjölskyldu Nabóts og vina hans að vita að dómi Guðs yrði ekki fullnægt fyrr en Akab væri dáinn. Ef svo var hefur það verndað þau að vera auðmjúk. Það hefur hvatt þau til að halda áfram að þjóna Jehóva dyggilega, fullviss um að hann geti ekki verið óréttlátur. (Lestu 5. Mósebók 32:3, 4.) Nabót, synir hans og fjölskyldur þeirra fá að upplifa fullkomið réttlæti þegar Jehóva vekur upp hina réttlátu. (Job. 14:14, 15; Jóh. 5:28, 29) Þeir sem eru auðmjúkir muna líka að „Guð mun leiða sérhvert verk fyrir dóm sem haldinn verður yfir öllu því sem hulið er, hvort sem það er gott eða illt“. (Préd. 12:14) Já, þegar Jehóva dæmir tekur hann mið af ýmsu sem við vitum ekki af. Auðmýkt getur því verndað saklaust fólk svo að það missi ekki trúna á Jehóva.

10, 11. (a) Við hvaða aðstæður gæti reynt á réttlætiskennd okkar? (b) Hvernig getur það verndað okkur að vera auðmjúk?

10 Hvernig bregstu við ef öldungarnir taka ákvörðun sem þú skilur ekki eða ert jafnvel ósammála? Hvað gerirðu til dæmis ef þú eða einhver sem er þér náinn missir þjónustuverkefni sem þú eða hann hafði ánægju af? Hvað ef maka þínum, syni eða dóttur, eða nánum vini er vikið úr söfnuðinum og þér finnst það ekki sanngjarnt? Eða hvað ef einhver brýtur af sér og er sýnd miskunn, en þér finnst hann ekki eiga það skilið? Slíkar aðstæður geta reynt á trú okkar á Jehóva og það fyrirkomulag sem hann hefur í söfnuðinum. Hvernig verndar það okkur að vera auðmjúk ef við verðum fyrir slíkum prófraunum? Skoðum tvennt.

Hvernig bregstu við ef öldungarnir tilkynna um ákvörðun sem þú ert ekki sammála? (Sjá 10. og 11. grein.)

11 Auðmýkt getur í fyrsta lagi hjálpað okkur að viðurkenna að við þekkjum ekki allar hliðar málsins. Óháð því hve vel við þekkjum til aðstæðna er það bara Jehóva sem getur lesið hjörtu fólks. (1. Sam. 16:7) Þegar við höfum það í huga hvetur það okkur til að vera auðmjúk, viðurkenna takmörk okkar og leiðrétta viðhorf okkar til málsins. Ef við erum auðmjúk hjálpar það okkur líka að vera undirgefin og þolinmóð á meðan við bíðum eftir að Jehóva taki á þeim málum sem eru í raun og veru óréttlát. Vitur maður skrifaði: „Réttlátum mönnum, sem óttast Guð, vegnar vel. Hinum rangláta mun ekki vel vegna og hann verður ekki langlífur.“ (Préd. 8:12, 13) Það er öllum sem eiga hlut að máli í hag að við séum auðmjúk þegar erfiðleikar sem þessir koma upp. – Lestu 1. Pétursbréf 5:5.

DÆMI UM HRÆSNI

12. Hvaða frásögu skoðum við núna og hvers vegna?

12 Meðal kristinna manna í Antíokkíu í Sýrlandi á fyrstu öld komu upp aðstæður sem reyndu bæði á auðmýkt þeirra og fúsleika til að fyrirgefa. Skoðum frásöguna af því og sjáum hvernig það hjálpar okkur að kanna hve fús við erum til að fyrirgefa. Það dýpkar líka skilning okkar á því hvernig fyrirgefning tengist viðhorfi Jehóva til réttlætis.

13, 14. Hvaða verkefni fékk Pétur postuli og hvernig sýndi hann hugrekki?

13 Pétur postuli var öldungur sem flestir í kristna söfnuðinum þekktu vel. Hann hafði verið náinn vinur Jesú og honum hafði verið falin töluverð ábyrgð. (Matt. 16:19) Hann hafði til dæmis fengið það verkefni að boða Kornelíusi og heimilisfólki hans fagnaðarerindið árið 36. Þetta var merkilegur atburður þar sem Kornelíus var óumskorinn heiðingi. Þegar hann og heimilisfólk hans fengu heilagan anda skildi Pétur að þau gætu nú orðið kristin og sagði: „Hver getur varnað þess að þeir verði skírðir í vatni? Þeir hafa fengið heilagan anda sem við.“ – Post. 10:47.

14 Árið 49 komu postularnir og öldungarnir í Jerúsalem saman til að ræða hvort heiðingjar, sem tækju kristna trú, þyrftu að láta umskerast. Á þessum fundi talaði Pétur djarfmannlega og minnti bræðurna á að óumskornir heiðingjar hefðu fengið heilagan anda nokkrum árum áður. Frásögn Péturs af því sem hann hafði orðið vitni að kom að miklu gagni þegar hið stjórnandi ráð tók ákvörðun í þessu máli. (Post. 15:6-11, 13, 14, 28, 29) Kristnir menn, bæði af hópi Gyðinga og heiðingja, kunnu líklega vel að meta hugrekki Péturs þegar hann sagði frá þessum atburði. Það hefur eflaust verið auðvelt að treysta þroskuðum og trúföstum bróður eins og honum. – Hebr. 13:7.

15. Hvernig varð Pétri á þegar hann var í Antíokkíu í Sýrlandi? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

15 Stuttu eftir fundinn árið 49 heimsótti Pétur Antíokkíu í Sýrlandi. Þar umgekkst hann frjálslega trúsystkini af hópi heiðingja. Þau nutu eflaust góðs af þekkingu Péturs og reynslu hans. Við getum því rétt ímyndað okkur hve hissa og vonsvikin þau hafa verið þegar Pétur hætti allt í einu að borða með þeim. Hegðun Péturs varð líka til þess að aðrir safnaðarmenn af hópi Gyðinga, þar á meðal Barnabas, gerðu slíkt hið sama. Hvernig gat þroskuðum öldungi orðið svona illa á og sýnt dómgreindarleysi sem hefði getað sundrað söfnuðinum? Og það sem meira máli skiptir, hvað getum við lært af mistökum Péturs sem hjálpar okkur ef öldungur segir eða gerir eitthvað sem særir okkur?

16. Hvernig var Pétur leiðréttur og hvaða spurningar vakna?

16 Lestu Galatabréfið 2:11-14Pétur gekk í þá snöru að fara að óttast menn. (Orðskv. 29:25) Þó að hann hefði fengið að sjá með eigin augum hvernig Jehóva leit á málið óttaðist hann álit umskorinna Gyðinga úr söfnuðinum í Jerúsalem. Páll postuli, sem einnig hafði verið viðstaddur fundinn í Jerúsalem árið 49, tók á máli Péturs í Antíokkíu og afhjúpaði hræsni hans. (Post. 15:12; Gal. 2:13) Hvernig myndu kristnir menn af hópi heiðingja bregðast við þessu óréttlæti? Þeir höfðu sumir fundið á eigin skinni fyrir því sem Pétur hafði gert. Myndu þeir láta þetta verða sér til hrösunar? Myndi Pétur missa verðmæt þjónustuverkefni út af mistökum sínum?

VERUM FÚS TIL AÐ FYRIRGEFA

17. Hvernig naut Pétur góðs af því að Jehóva skuli vera fús til að fyrirgefa?

17 Pétur var greinilega auðmjúkur og tók leiðréttingu Páls til sín. Ekkert í Biblíunni gefur til kynna að hann hafi misst þjónustuverkefni sín. Síðar var honum reyndar innblásið að skrifa tvö bréf sem urðu hluti af Biblíunni. Það er eftirtektarvert að í síðara bréfi sínu talar Pétur um Pál sem ,elskaðan bróður‘. (2. Pét. 3:15) Þó svo að mistök Péturs hafi eflaust sært safnaðarmenn af hópi heiðingja hélt Jesús, höfuð safnaðarins, áfram að nota hann. (Ef. 1:22) Bræður og systur í söfnuðinum fengu því tækifæri til að líkja eftir Jesú og föður hans með því að fyrirgefa Pétri. Vonandi lét enginn mistök ófullkomins manns verða sér til hrösunar.

18. Við hvaða aðstæður getum við þurft að endurspegla viðhorf Jehóva til réttlætis?

18 Það eru engir fullkomnir öldungar í söfnuðinum okkar nú á dögum, ekki frekar en á fyrstu öld, því að „öll hrösum við margvíslega“. (Jak. 3:2) Við gerum okkur örugglega grein fyrir því, en það getur samt reynt á þegar við finnum fyrir ófullkomleika bræðra á eigin skinni. Reynum við að endurspegla viðhorf Jehóva til réttlætis þegar slíkar aðstæður koma upp? Hvernig bregstu til dæmis við ef öldungur segir eitthvað sem ber keim af fordómum? Læturðu það verða þér til hrösunar ef öldungur segir eitthvað í hugsunarleysi sem móðgar þig eða særir? Ertu fljótur að álykta að bróðirinn sé ekki lengur hæfur til að vera öldungur eða bíðurðu þolinmóður og leggur málið í hendur Jesú, höfuðs safnaðarins? Leggurðu þig fram um að sjá heildarmyndina og hugsar um trúfasta þjónustu bróðurins til margra ára? Ef bróðir, sem syndgar gegn þér, fær að vera öldungur áfram eða fær jafnvel aukin verkefni í söfnuðinum, samgleðstu honum þá? Með því að vera fús til að fyrirgefa geturðu endurspeglað viðhorf Jehóva til réttlætis. – Lestu Matteus 6:14, 15.

19. Hvað ættum við að vera staðráðin í að gera?

19 Þeir sem elska réttlæti hlakka til þess dags þegar Jehóva útrýmir öllu því óréttlæti sem menn hafa þurft að þola af hendi Satans og þessa illa heims. (Jes. 65:17) Þangað til skulum við öll vera staðráðin í að endurspegla viðhorf Jehóva til réttlætis með því að viðurkenna auðmjúk takmarkanir okkar og fyrirgefa örlátlega þeim sem syndga gegn okkur.