Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Líkjum eftir Jehóva sem hvetur og uppörvar þjóna sína

Líkjum eftir Jehóva sem hvetur og uppörvar þjóna sína

„Lofaður sé Guð ... sem hughreystir mig í sérhverri þrenging minni.“ – 2. KOR. 1:3, 4.

SÖNGVAR: 7, 3

1. Hvaða hvatningu og uppörvun veitti Jehóva strax eftir uppreisnina í Eden?

JEHÓVA hefur hvatt og uppörvað þjóna sína allar götur síðan mannkynið varð synd og ófullkomleika að bráð. Strax eftir uppreisnina í Eden gaf hann ófæddum afkomendum Adams ástæðu til að missa ekki móðinn. Það var ekki öll von úti fyrir mennina. Þegar þeir fengju að skilja loforðið og spádóminn í 1. Mósebók 3:15 myndi það veita þeim þá von að um síðir yrði „hinum gamla höggormi“, Satan djöflinum, tortímt ásamt öllum illskuverkum hans. – Opinb. 12:9; 1. Jóh. 3:8.

JEHÓVA HVATTI OG UPPÖRVAÐI ÞJÓNA SÍNA TIL FORNA

2. Hvernig uppörvaði Guð Nóa?

2 Nói bjó í óguðlegum heimi og hann og fjölskylda hans voru eina fólkið sem tilbað Jehóva og þjónaði honum. Slíkt var ofbeldið og siðleysið í kynferðismálum að Nói hefði getað misst móðinn. (1. Mós. 6:4, 5, 11; Júd. 6) En Guð veitti honum vitneskju sem gaf honum kjark og hugrekki til að halda áfram að ,ganga með Guði‘. (1. Mós. 6:9) Jehóva sagðist ætla að afmá þennan illa heim og sagði Nóa hvað hann yrði að gera til að tryggja öryggi fjölskyldu sinnar. (1. Mós. 6:13-18) Jehóva veitti Nóa þá hvatningu og uppörvun sem hann þurfti að fá.

3. Hvaða hvatningu fékk Jósúa? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

3 Jósúa, sem var uppi löngu síðar, fékk það erfiða verkefni að vinna fyrirheitna landið og skipta því milli Ísraelsmanna. Hann þurfti meðal annars að sigra öfluga heri þjóðanna sem bjuggu fyrir í landinu. Jósúa hafði fulla ástæðu til að kvíða þessu verkefni. Jehóva vissi það og sagði Móse að hvetja hann til dáða. Hann sagði: „Skipaðu Jósúa foringja, stappaðu í hann stálinu því að hann skal fara fyrir þessu fólki yfir ána og skipta einnig landinu, sem þú færð að sjá, í erfðahluti milli þeirra.“ (5. Mós. 3:28) Áður en Jósúa lét til skarar skríða hvatti Jehóva hann með þessum orðum: „Hef ég ekki boðið þér að vera djarfur og hughraustur? Óttastu ekki og láttu ekki hugfallast því að Drottinn, Guð þinn, er með þér hvert sem þú ferð.“ (Jós. 1:1, 9) Hvílík hvatning!

4, 5. (a) Hvernig hvatti Jehóva þjóð sína til forna? (b) Hvernig hvatti Jehóva son sinn?

4 Jehóva hvatti ekki aðeins einstaklinga heldur einnig þjóna sína í heild. Það hlýtur að hafa verið uppörvandi fyrir Gyðingana, sem voru í útlegð í Babýlon, að heyra þessi spádómlegu orð frá Jehóva: „Óttast eigi því að ég er með þér, vertu ekki hræddur því að ég er þinn Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér, ég styð þig með sigrandi hendi minni.“ (Jes. 41:10) Frumkristnir menn fengu sams konar loforð, og hið sama er að segja um þjóna Guðs nú á dögum. – Lestu 2. Korintubréf 1:3, 4.

5 Jesús fékk líka hvatningu frá föður sínum. Þegar hann skírðist heyrði hann rödd af himni sem sagði: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“ (Matt. 3:17) Jesús hlýtur að hafa sótt mikinn styrk í þessi orð meðan hann þjónaði hér á jörð.

JESÚS HVATTI OG UPPÖRVAÐI

6. Hvaða hvatningu er að finna í dæmisögunni um talenturnar?

6 Jesús fór að dæmi föður síns. Dæmisagan um talenturnar er hluti af spádómi hans um endalok þessarar heimsskipanar. Þar hvetur Jesús til trúmennsku. Húsbóndinn í dæmisögunni segir þjónunum sem voru honum trúir: „Gott, þú góði og trúi þjónn, yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.“ (Matt. 25:21, 23) Þetta er sterk hvatning til að halda áfram að þjóna Jehóva af trúmennsku.

7. Hvernig hvatti Jesús postulana og þá Pétur sérstaklega?

7 Postular Jesú deildu oft um það hver þeirra væri mestur. Jesús hvatti þá þolinmóður til að vera auðmjúkir þjónar en ekki yfirboðarar. (Lúk. 22:24-26) Pétur olli Jesú vonbrigðum oftar en einu sinni. (Matt. 16:21-23; 26:31-35, 75) En Jesús hafnaði honum ekki sem þjóni sínum heldur hvatti hann og fékk honum meira að segja það verkefni að styrkja bræður sína. – Jóh. 21:16.

HVATNING OG UPPÖRVUN TIL FORNA

8. Hvernig hvatti Hiskía Júdamenn og foringja hersins?

8 Þjónar Jehóva voru meðvitaðir um þá þörf að hvetja og uppörva löngu áður en sonur hans kom til jarðar og sýndi á fullkominn hátt hvernig ætti að gera það. Þegar ógn stafaði af Assýringum kallaði Hiskía saman Júdamenn og foringja hersins til að hvetja þá og uppörva. Og „fólkið styrktist við orð Hiskía Júdakonungs“. – Lestu 2. Kroníkubók 32:6-8.

9. Hvað lærum við um uppörvun af Jobsbók?

9 Mennirnir þrír, sem þóttust ætla að hughreysta Job, reyndust „þreytandi huggarar“ og hann gaf þeim góð ráð þó að sjálfur væri hann hughreystingar þurfi. Hann sagði að í þeirra sporum hefði hann ,stutt þá með munni sínum og ekki sparað samúð með vörum sínum‘. (Job. 16:1-5) Að síðustu fékk Job hughreystingu og hvatningu frá Elíhú og svo frá Jehóva sjálfum. – Job. 33:24, 25; 36:1, 11; 42:7, 10.

10, 11. (a) Af hverju þurfti dóttir Jefta á uppörvun að halda? (b) Hverjir eiga svipaða uppörvun skilda á okkar dögum?

10 Dóttir Jefta dómara er annað dæmi um manneskju forðum daga sem þurfti á uppörvun að halda. Jefta átti að fara í stríð við Ammóníta. Hann lofaði Jehóva að fyrsta manneskjan, sem kæmi út á móti honum við heimkomuna, skyldi helguð því að þjóna honum við helgidóminn, ef hann sigraði Ammóníta. Það vildi svo til að það var einkadóttir hans sem kom á móti honum til að fagna sigrinum. Jefta var miður sín en stóð við orð sín og sendi ógifta dóttur sína til Síló til að þjóna við tjaldbúðina það sem eftir var ævinnar. – Dóm. 11:30-35.

11 Þótt það hafi verið erfitt fyrir Jefta að standa við heitið var það líklega enn erfiðara fyrir dóttur hans. Hún fór þó fúslega að vilja föður síns. (Dóm. 11:36, 37) Þar með afsalaði hún sér réttinum til að giftast, eignast börn og viðhalda nafni og arfleifð fjölskyldunnar. Hún þurfti sannarlega á hvatningu og uppörvun að halda. Í frásögn Biblíunnar segir: „Varð það ... siður í Ísrael að árlega fara dætur Ísraels að lofsyngja dóttur Jefta Gíleaðíta, fjóra daga á hverju ári.“ (Dóm. 11:39, 40) Eiga ekki einhleypir þjónar Guðs líka skilið hrós og hvatningu fyrir að nota aðstæður sínar til að „þóknast Drottni“ sem best? – 1. Kor. 7:32-35.

POSTULARNIR HVÖTTU OG UPPÖRVUÐU TRÚSYSTKINI SÍN

12, 13. Hvernig styrkti Pétur trúsystkini sín?

12 Kvöldið áður en Jesús dó sagði hann Pétri postula: „Símon, Símon, Satan krafðist að fá að sælda yður eins og hveiti svo að hismið kæmi í ljós. En ég hef beðið fyrir þér að trú þín þrjóti ekki. Og styrk þú trúsystkin þín þegar þú ert snúinn við.“ – Lúk. 22:31, 32.

Bréf postulanna voru mjög hvetjandi fyrir söfnuðina á fyrstu öld, og þau eru uppbyggileg enn þann dag í dag. (Sjá 12.-17. grein.)

13 Pétur reyndist vera máttarstólpi í frumkristna söfnuðinum. (Gal. 2:9) Með hugrekki sínu á hvítasunnu og eftir það var hann trúsystkinum sínum til hvatningar og uppörvunar. Hann skrifaði þeim bréf undir lok langrar þjónustu sinnar. Hann skýrir ástæðuna í bréfinu og segir: „Ég hef látið ... skrifa þetta stutta bréf til þess að hvetja ykkur og vitna hátíðlega að þetta er hin sanna náð Guðs. Standið stöðug í henni.“ (1. Pét. 5:12) Innblásin bréf Péturs hafa verið kristnum mönnum til hvatningar allar götur síðan. Við þurfum vissulega á þessari hvatningu að halda núna meðan við bíðum þess að fyrirheit Jehóva rætist. – 2. Pét. 3:13.

14, 15. Hvernig hafa innblásin skrif Jóhannesar postula verið hvetjandi og uppörvandi fyrir kristna menn í aldanna rás?

14 Jóhannes postuli var annar máttarstólpi í frumkristna söfnuðinum. Grípandi frásaga hans af þjónustu Jesú hefur verið kristnum mönnum til hvatningar og uppörvunar í aldanna rás – og er enn. Guðspjall hans er eina biblíubókin sem nefnir að kærleikurinn sé helsta auðkenni sannra lærisveina Jesú. – Lestu Jóhannes 13:34, 35.

15 Jóhannesarbréfin þrjú hafa að geyma fleiri andlega gimsteina. Stundum finnst okkur syndin sérstaklega íþyngjandi. Er þá ekki uppörvandi að lesa að ,blóð Jesú hreinsi okkur af allri synd‘? (1. Jóh. 1:7) Hjartað á það til að dæma okkur. Fáum við þá ekki kökk í hálsinn og tár í augun að lesa að ,Guð sé meiri en hjarta okkar‘? (1. Jóh. 3:20) Enginn nema Jóhannes nefnir að ,Guð sé kærleikur‘. (1. Jóh. 4:8, 16) Í öðru og þriðja bréfinu hrósar hann þjónum Guðs sem ,hlýða sannleikanum‘ stöðuglega. – 2. Jóh. 4; 3. Jóh. 3, 4.

16, 17. Hvernig hvatti Páll postuli frumkristna menn?

16 Sennilega var það þó Páll postuli sem hvatti þjóna Guðs meira en nokkur annar á fyrstu öld. Á fyrstu árum kristninnar virðist sem flestir postulanna hafi haldið sig í Jerúsalem, og þar var aðsetur hins stjórnandi ráðs. (Post. 8:14; 15:2) Kristnir menn í Júdeu boðuðu Krist meðal fólks sem var undir áhrifum gyðingdómsins og trúði á einn Guð. Heilagur andi sendi hins vegar Pál postula til þjóða hins grísk-rómverska heims en þær tilbáðu marga guði. – Gal. 2:7-9; 1. Tím. 2:7.

17 Páll ferðaðist víða um svæðið sem nú heitir Tyrkland, og einnig um Grikkland og Ítalíu, og myndaði kristna söfnuði fólks sem var ekki Gyðingar að uppruna. Þessir nýju þjónar Guðs þurftu að þola miklar þjáningar af völdum samlanda sinna og voru hvatningar þurfi. (1. Þess. 2:14) Um árið 50 skrifaði Páll hinum unga söfnuði í Þessaloníku: „Ég þakka ávallt Guði fyrir ykkur öll er ég minnist ykkar í bænum mínum. Ég minnist stöðugt fyrir augliti Guðs vors og föður hve mikið þið starfið í trúnni, stríðið í kærleikanum og eruð staðföst.“ (1. Þess. 1:2, 3) Hann hvatti þau einnig til að styrkja hvert annað og sagði: „Hvetjið ... og uppbyggið hvert annað.“ – 1. Þess. 5:11.

HIÐ STJÓRNANDI RÁÐ UPPÖRVAR OG HVETUR

18. Hvernig hvatti hið stjórnandi ráð Filippus trúboða?

18 Hið stjórnandi ráð á fyrstu öld var hvetjandi og uppörvandi fyrir þá sem fóru með forystuna og fyrir kristna menn almennt. Bræðurnir í ráðinu studdu Filippus trúboða dyggilega þegar hann fór um Samaríu og boðaði Krist. Ráðið sendi þangað tvo fulltrúa sína, þá Pétur og Jóhannes, til að biðja fyrir þeim sem höfðu tekið trú svo að þeir fengju heilagan anda. (Post. 8:5, 14-17) Það hlýtur að hafa verið mjög hvetjandi fyrir Filippus og þá sem hann hafði snúið til trúar að finna fyrir þessum stuðningi hins stjórnandi ráðs.

19. Hvaða áhrif hafði bréfið sem hið stjórnandi ráð sendi söfnuðunum á fyrstu öld?

19 Síðar var hið stjórnandi ráð beðið að úrskurða hvort kristnir menn, sem voru ekki af gyðingaættum, þyrftu að umskerast eins og Gyðingar höfðu gert samkvæmt Móselögunum. (Post. 15:1, 2) Bræðurnir í ráðinu leituðu leiðsagnar heilags anda og rökræddu málið með hliðsjón af Ritningunum. Þeir komust að þeirri niðurstöðu að umskurður væri ekki nauðsynlegur og skrifuðu söfnuðunum bréf þar að lútandi. Fulltrúar ráðsins voru sendir til safnaðanna til að afhenda bréfið. Hvernig brugðust menn við? Þegar bréfið var lesið í söfnuðunum „urðu þeir glaðir yfir þessari uppörvun“. – Post. 15:27-32.

20. (a) Hvaða hvatningu og uppörvun fær bræðralagið um allan heim frá hinu stjórnandi ráði? (b) Hvaða spurningu verður svarað í greininni á eftir?

20 Hið stjórnandi ráð Votta Jehóva nú á dögum hvetur og uppörvar þá sem starfa á Betel, þá sem vinna að boðuninni í fullu starfi og reyndar alla sem tilheyra bræðralaginu í heiminum. Og uppörvunin gleður ekki síður en á fyrstu öld. Árið 2015 gaf ráðið enn fremur út bæklinginn Snúðu aftur til Jehóva og hann hefur verið mörgum til mikillar uppörvunar víða um heim. En eru það aðeins þeir sem fara með forystuna í söfnuðinum sem eiga að hvetja og uppörva líkt og Jehóva? Þeirri spurningu er svarað í greininni á eftir.