Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Hvers vegna mega menn ekki birta rit Votta Jehóva á eigin vefsetri eða á samfélagsmiðlum?

Við bjóðum fólki biblíutengt efni án endurgjalds og þess vegna telja sumir að það sé í lagi að afrita það og birta á öðrum vefsetrum eða samfélagsmiðlum. Það brýtur hins vegar gegn notkunarskilmálum * vefsetra okkar og hefur haft alvarleg vandamál í för með sér. Eins og skýrt er tekið fram í notkunarskilmálunum má ekki „birta efni af þessu vefsetri á Netinu (engri vefsíðu eða skráaskiptasíðu og engum samskiptamiðli)“. Þessar hömlur ná yfir teiknaðar og málaðar myndir, rit í rafrænu formi, vörumerki, tónlist, ljósmyndir, myndbönd og greinar á vefsetrinu. Hvers vegna þarf að setja þessar hömlur?

Rit safnaðarins eru varin höfundarrétti. Enginn má birta þau á öðrum vefsíðum.

Allt efni á vefsetrum okkar er varið höfundarrétti. Fráhvarfsmenn og aðrir andstæðingar okkar reyna að nota rit safnaðarins á eigin vefsetrum sem tálbeitu fyrir votta Jehóva og aðra. Á þessum vefsetrum er að finna efni sem ætlað er að vekja efasemdir í hugum lesenda. (Sálm. 26:4; Orðskv. 22:5) Aðrir hafa notað efni úr ritum okkar eða kennimerki okkar, jw.org, í auglýsingum, á vörum sem boðnar eru til sölu og í smáforritum fyrir snjalltæki. Með því að verja höfundarrétt okkar og vörumerki höfum við lagalegar forsendur til að koma í veg fyrir misnotkun af þessu tagi. (Orðskv. 27:12) Ef við leyfum fólki, jafnvel trúsystkinum okkar, að birta stafrænt efni frá okkur á öðrum vefsvæðum eða nota vörumerkið jw.org til að selja vörur er óvíst að dómstólar styðji viðleitni okkar til að koma í veg fyrir misnotkun af hálfu andstæðinga eða misnotkun í viðskiptalegum tilgangi.

Það getur verið varhugavert að sækja rit safnaðarins annars staðar en á jw.org. Jehóva hefur falið hinum ,trúa og hyggna þjóni‘ og engum öðrum að sjá okkur fyrir andlegri fæðu. (Matt. 24:45) ,Trúi þjónninn‘ notar aðeins hin opinberu vefsetur sín til að miðla andlegu fæðunni. Þetta eru www.pr418.com, tv.pr418.com og wol.pr418.com. Og við gefum aðeins út þrjú opinber smáforrit fyrir snjalltæki. Þetta eru JW Language®, JW Library® og JW Library Sign Language®. Við getum treyst að þar séu engar auglýsingar og að heimur Satans hafi þar engu spillt. Ef andlega fæðan fer aðrar leiðir er engin trygging fyrir því að henni hafi ekki verið breytt eða spillt. – Sálm. 18:27; 19:9.

Ef rit safnaðarins eru birt á vefsetrum þar sem hægt er að setja inn athugasemdir gefst fráhvarfsmönnum og öðrum gagnrýnendum okkar tækifæri til að gera söfnuð Jehóva tortryggilegan. Einstaka bræður hafa látið draga sig inn í deilur á slíkum vettvangi og með því hafa þeir átt þátt í að kasta rýrð á nafn Jehóva. Netið er ekki heppilegur vettvangur til að ,aga með hógværð þá sem skipast í móti‘. (2. Tím. 2:23-25; 1. Tím. 6:3-5) Einnig eru dæmi um að opnuð hafi verið svikavefsetur og falsaður aðgangur að samfélagsmiðlum í nafni safnaðarins, hins stjórnandi ráðs og einstakra bræðra í ráðinu. Enginn í hinu stjórnandi ráði er hins vegar með eigin vefsíðu og enginn þeirra hefur stofnað aðgang að nokkrum samfélagsmiðli.

Við eigum þátt í að útbreiða „fagnaðarerindið“ með því að vísa fólki á jw.org. (Matt. 24:14) Sífellt er verið að endurbæta stafrænu hjálpargögnin sem eru gerð til að hjálpa okkur við boðunina. Við viljum gjarnan að allir njóti góðs af þeim. Þess vegna máttu senda rit í rafrænu formi með tölvupósti eða senda krækju á efni á jw.org, eins og tekið er fram í notendaskilmálunum. Með því að vísa áhugasömum á opinbert vefsetur okkar setjum við þá í samband við hina einu sönnu uppsprettu andlegrar fæðu, hinn ,trúa og hyggna þjón‘.

^ gr. 1 Neðst á heimasíðunni jw.org er að finna krækju á notkunarskilmálana, og hömlurnar ná yfir allt efni sem til er á vefsetrum okkar.