Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 17

„Ég kalla ykkur vini“

„Ég kalla ykkur vini“

„Ég kalla ykkur vini því að ég hef sagt ykkur allt sem ég hef heyrt hjá föður mínum.“ – JÓH. 15:15.

SÖNGUR 13 Kristur, fyrirmynd okkar

YFIRLIT *

1. Hvernig myndast náin vináttubönd?

ÞEGAR þú vilt bindast einhverjum nánum vináttuböndum er nauðsynlegt að þú verjir tíma með honum. Vinátta myndast þegar þið tjáið hugsanir ykkar og tilfinningar. En þegar vinátta við Jesú er annars vegar þurfum við að yfirstíga vissar hindranir. Hverjar eru þær?

2. Hver er fyrsta hindrunin?

2 Í fyrsta lagi höfum við ekki hitt Jesú í eigin persónu. Margir kristnir menn á fyrstu öld höfðu það ekki heldur. En Pétur postuli sagði: „Þið hafið aldrei séð Jesú en elskið hann þó. Þið sjáið hann ekki núna en trúið samt á hann.“ (1. Pét. 1:8) Það er því hægt að verða náinn vinur Jesú án þess að hafa hitt hann.

3. Hver er önnur hindrunin?

3 Í öðru lagi getum við ekki talað við Jesú. Við tölum við Jehóva þegar við biðjumst fyrir. Við biðjum að vísu í nafni Jesú en tölum samt ekki við hann. Jesús vill reyndar ekki að við biðjum til sín. Hvers vegna? Bænin er þáttur í tilbeiðslunni og við eigum ekki að tilbiðja neinn annan en Jehóva. (Matt. 4:10) Samt sem áður getum við sýnt að við elskum Jesú.

4. Hver er þriðja hindrunin og hvað ræðum við í þessari grein?

4 Í þriðja lagi býr Jesús á himnum þannig að við getum ekki varið tíma með honum bókstaflega. En við getum fengið að vita margt um hann án þess að vera með honum. Við skulum ræða fernt sem við getum gert til að styrkja vináttuna við hann. En skoðum fyrst hvers vegna það er mikilvægt að bindast Kristi nánum vináttuböndum.

HVERS VEGNA ÞURFUM VIÐ AÐ VERÐA VINIR JESÚ?

5. Hvers vegna þurfum við að eiga Jesú að vini? (Sjá rammana „ Vinátta við Jesú opnar leiðina að vináttu við Jehóva“ og „ Sjáðu hlutverk Jesú í réttu ljósi“.)

5 Við þurfum að vera vinir Jesús til að eiga gott samband við Jehóva. Hvers vegna? Skoðum tvær ástæður. Í fyrsta lagi sagði Jesús við lærisveina sína: „Faðirinn sjálfur elskar ykkur því að þið hafið elskað mig.“ (Jóh. 16:27) Hann sagði líka: „Enginn kemst til föðurins án mín.“ (Jóh. 14:6) Að reyna að vera vinur Jehóva án þess að tengjast Jesú nánum vináttuböndum er eins og að reyna að komast inn í hús án þess að nota dyrnar. Jesús notaði svipað myndmál þegar hann sagðist vera „dyr sauðanna“. (Jóh. 10:7) Önnur ástæða er að Jesús endurspeglaði eiginleika föður síns fullkomlega. Hann sagði við lærisveina sína: „Sá sem hefur séð mig hefur líka séð föðurinn.“ (Jóh. 14:9) Að læra um líf Jesú er því mikilvæg leið til að kynnast Jehóva. Eftir því sem við lærum meira um Jesú vex kærleikur okkar til hans. Og þegar vinátta okkar við hann verður nánari styrkist um leið kærleikur okkar til föður hans.

6. Af hvaða annarri ástæðu þurfum við að eiga Jesú að vini? Skýrðu svarið.

6 Við þurfum að eiga samband við Jesú til að bænum okkar sé svarað. Það felur meira í sér en að segja „í Jesú nafni“ í lok bæna okkar. Við þurfum að skilja hvert hlutverk Jesú er þegar Jehóva svarar bænum okkar. Jesús sagði postulunum: „Ég mun gera hvaðeina sem þið biðjið um í mínu nafni.“ (Jóh. 14:13) Jehóva er vissulega sá sem heyrir bænir okkar og svarar þeim, en hann hefur falið Jesú það vald að framfylgja vilja sínum. (Matt. 28:18) Áður en Guð svarar bænum okkar tekur hann mið af því hvort við höfum farið eftir leiðbeiningum Jesú. Hann sagði til dæmis: „Ef þið fyrirgefið mönnum það sem þeir gera á hlut ykkar mun faðir ykkar á himnum líka fyrirgefa ykkur. En ef þið fyrirgefið ekki öðrum það sem þeir gera á hlut ykkar mun faðir ykkar ekki heldur fyrirgefa ykkur það ranga sem þið gerið.“ (Matt. 6:14, 15) Það er sannarlega mikilvægt að við séum góðviljuð við aðra rétt eins og Jehóva og Jesús eru góðviljaðir við okkur!

7. Hverjir njóta góðs af lausnarfórn Jesú?

7 Aðeins nánir vinir Jesú njóta gagns af lausnarfórn hans. Hvernig vitum við það? Jesús sagði að hann myndi ,leggja lífið í sölurnar fyrir vini sína‘. (Jóh. 15:13) Trúfast fólk sem var uppi áður en Jesús kom til jarðar á eftir að þurfa að kynnast honum og læra að elska hann. Fólk eins og Abraham, Sara, Móse og Rahab verður reist upp til lífs á ný, en jafnvel þessir trúföstu þjónar Jehóva þurfa að tengjast Jesú vináttuböndum til að öðlast eilíft líf. – Jóh. 17:3; Post. 24:15; Hebr. 11:8–12, 24–26, 31.

8, 9. Hvað gerir vinátta við Jesú okkur kleift að gera og hvers vegna er mikilvægt að viðhalda vináttunni, samanber Jóhannes 15:4, 5?

8 Við erum þeirrar ánægju aðnjótandi að vinna með Jesú við að boða og kenna fagnaðarboðskapinn um ríkið. Hann var kennari þegar hann var á jörðinni. Og hann hefur haldið áfram að stýra boðunar- og kennslustarfinu sem höfuð safnaðarins eftir að hann sneri aftur til himna. Hann tekur eftir og kann að meta viðleitni þína til að hjálpa eins mörgum og þú getur til að kynnast honum og föður hans. Við getum reyndar ekki unnið þetta verk nema með hjálp Jehóva og Jesú. – Lestu Jóhannes 15:4, 5.

9 Í Biblíunni kemur skýrt fram að við verðum að elska Jesú og hlúa að kærleikanum til hans ef við viljum þóknast Jehóva. Skoðum fernt sem við getum gert til að verða vinir Jesú.

HVERNIG GETUM VIÐ ORÐIÐ VINIR JESÚ?

Þú getur verið vinur Jesú með því að (1) kynnast honum betur, (2) líkja eftir hugsunarhætti hans og framkomu, (3) styðja andasmurða bræður hans og (4) styðja fyrirkomulag safnaðarins. (Sjá 10.–14. grein.) *

10. Hvað er það fyrsta sem við þurfum að gera til að geta orðið vinir Jesú?

10 (1Kynnumst Jesú. Við getum gert það með því að lesa biblíubækurnar Matteus, Markús, Lúkas og Jóhannes. Við lærum að elska og virða Jesú þegar við hugleiðum efni bókanna og kynnumst því hvernig hann sýndi öðrum hlýju og vinsemd. Hann kom til dæmis ekki fram við lærisveina sína eins og þjóna þótt hann væri húsbóndi þeirra. Öllu heldur tjáði hann þeim hugsanir sínar og tilfinningar. (Jóh. 15:15) Hann fann til með þeim og grét með þeim. (Jóh. 11:32–36) Jafnvel andstæðingar hans viðurkenndu að hann væri vinur þeirra sem tóku við boðskap hans. (Matt. 11:19) Þegar við líkjum eftir því hvernig Jesús kom fram við lærisveina sína eignumst við betra samband við aðra, við verðum hamingjusamari og kærleikur okkar og virðing í garð Jesú fer vaxandi.

11. Hvað annað þurfum við að gera til að geta orðið vinir Jesú og hvers vegna er það mikilvægt?

11 (2Líkjum eftir hugsunarhætti og framkomu Jesú. Því betur sem við kynnumst og líkjum eftir hugsunarhætti hans þeim mun nánari verður vinátta okkar við hann. (1. Kor. 2:16) Hvernig getum við líkt eftir Jesú? Skoðum eitt dæmi. Jesús hugsaði meira um að hjálpa öðrum en að þóknast sjálfum sér. (Matt. 20:28; Rómv. 15:1–3) Þar sem hann hugsaði þannig var hann fórnfús og fús til að fyrirgefa. Hann móðgaðist ekki auðveldlega vegna þess sem fólk sagði um hann. (Jóh. 1:46, 47) Og hann lét ekki fyrri mistök annarra hafa áhrif á viðhorf sitt til þeirra til langframa. (1. Tím. 1:12–14) Jesús sagði: „Allir munu vita að þið eruð lærisveinar mínir ef þið berið kærleika hver til annars.“ (Jóh. 13:35) Það er gott að spyrja sig: Líki ég eftir Jesú og geri allt sem á mínu valdi stendur til að viðhalda friði við bræður mína og systur?

12. Hvað er það þriðja sem við þurfum að gera til að geta orðið vinir Jesú og hvernig gerum við það?

12 (3Styðjum bræður Krists. Jesús lítur á það sem við gerum fyrir andasmurða bræður sína sem stuðning við sig. (Matt. 25:34–40) Helsta leiðin til að styðja hina andsmurðu er að taka fullan þátt í boðunar- og kennslustarfinu sem Jesús fól fylgjendum sínum. (Matt. 28:19, 20; Post. 10:42) Bræður Krists geta aðeins sinnt þessu alþjóðlega boðunarátaki sem nú stendur yfir með aðstoð ,annarra sauða‘. (Jóh. 10:16) Ef þú ert í hópi annarra sauða sýnirðu ekki aðeins hinum andasmurðu kærleika í hvert skipti sem þú tekur þátt í þessu starfi heldur líka Jesú.

13. Hvernig getum við farið eftir leiðbeiningum Jesú í Lúkasi 16:9?

13 Við verðum líka vinir Jehóva og Jesú með því að nota fjármuni okkar til að styðja starfið sem þeir stýra. (Lestu Lúkas 16:9.) Við getum til dæmis gefið framlög til alþjóðastarfsins, en þau eru meðal annars notuð til að standa straum af boðun fagnaðarboðskaparins á afskekktum svæðum, byggingu og viðhaldi húsa sem eru notuð í tilbeiðslunni og neyðaraðstoð í kjölfar hamfara. Við getum líka stutt heimasöfnuð okkar með framlögum og með því að hjálpa þeim sem við vitum að þurfa á aðstoð að halda. (Orðskv. 19:17) Þetta eru leiðir til að styðja bræður Krists.

14. Hvað er það fjórða sem við þurfum að gera til að geta orðið vinir Jesú, samanber Efesusbréfið 4:15, 16?

14 (4Styðjum fyrirkomulag safnaðarins. Við styrkjum samband okkar við Jesú höfuð safnaðarins þegar við erum samstarfsfús við þá sem er falið að annast okkur. (Lestu Efesusbréfið 4:15, 16.) Nú reynum við til dæmis að fullnýta alla ríkissali. Þess vegna hafa sumir söfnuðir verið sameinaðir og svæðismörkum verið breytt. Þar af leiðandi hefur sparast talsvert af þeim fjármunum sem eru gefnir söfnuðinum. En það hefur líka haft í för með sér að sumir boðberar hafa þurft að aðlagast nýjum aðstæðum. Þessir trúföstu boðberar voru kannski í sama söfnuðinum í mörg ár og urðu nánir bræðrum sínum og systrum þar. En þeir voru beðnir að tilheyra öðrum söfnuði. Jesús hlýtur að vera mjög ánægður að sjá þessa trúu lærisveina styðja þetta fyrirkomulag.

VINIR JESÚ UM ALLA EILÍFÐ

15. Hvers vegna verður vinátta okkar við Jesú enn nánari í framtíðinni?

15 Þeir sem eru smurðir heilögum anda munu ríkja með Jesú í ríki Guðs. Þeir eiga þá von að vera með Kristi, sjá hann, tala við hann og verja tíma með honum um alla eilífð. (Jóh. 14:2, 3) Jesús mun líka sýna ást og athygli þeim sem hafa jarðneska von. Þegar þeir lifa lífinu sem Jehóva og Jesús gera þeim mögulegt verða þeir enn nánari Jesú þótt þeir sjái hann ekki. – Jes. 9:5, 6

16. Hvaða blessunar njótum við sem vinir Jesú?

16 Við njótum margvíslegrar blessunar þegar við þiggjum boð Jesú um að verða vinir hans. Við njótum til dæmis kærleika hans og stuðnings nú þegar. Og við eigum möguleika á að lifa að eilífu. En mikilvægast af öllu er að vinátta okkar við Jesú greiðir leiðina að dýrmætustu vináttu sem hugsast getur – nánu og sterku sambandi við Jehóva, föður Jesú. Það er sannarlega mikill heiður að vera kallaður vinur Jesú!

SÖNGUR 17 „Ég vil“

^ gr. 5 Postularnir voru með Jesú í nokkur ár. Þeir töluðu saman, störfuðu saman og urðu góðir vinir. Jesús vill líka eiga okkur að vinum. En það er ekki jafn auðvelt fyrir okkur og það var fyrir postulana að bindast honum vináttuböndum. Í þessari grein ræðum við um sumt af því sem getur gert okkur erfitt fyrir og fáum ráð um hvernig við getum orðið nánir vinir Jesú og viðhaldið vináttunni.

^ gr. 55 MYNDIR: (1) Í biblíunámsstund fjölskyldunnar getum við kynnt okkur líf og starf Jesú. (2) Við getum lagt okkur fram um að eiga friðsamlegt samband við bræður okkar og systur. (3) Við getum stutt bræður Krists með því að taka fullan þátt í boðuninni. (4) Við getum stutt ákvarðanir öldunganna þegar söfnuðir eru sameinaðir.