Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Hvers vegna vitnaði Jesús í það sem Davíð sagði í Sálmi 22:2 rétt áður en hann dó?

▪ Stuttu áður en Jesús dó sagði hann það sem er skráð í Matteus 27:46: „Guð minn, Guð minn, hvers vegna hefurðu yfirgefið mig?“ Þegar hann sagði þetta endurtók hann það sem Davíð sagði í Sálmi 22:2. (Mark. 15:34) Það væri ekki rétt að álykta að Jesús hafi sagt þetta vegna þess að hann væri vonsvikinn eða að hann veiktist um stund í trúnni. Jesús vissi nákvæmlega hvers vegna hann þurfti að deyja og hann var fús til þess. (Matt. 16:21; 20:28) Hann vissi líka að þegar dauðinn nálgaðist varð Jehóva að taka alla vernd frá honum. (Job. 1:10) Jehóva gaf Jesú þannig tækifæri til að sýna svo ekki yrði um villst að hann myndi ekki hvika frá trúfesti sinni óháð því hversu erfitt yrði fram að dauðanum. – Mark. 14:35, 36.

Hvers vegna endurtók Jesús þá orð sálmaritarans? Við vitum það ekki með vissu en skoðum nokkra möguleika. *

Vera má að Jesús hafi sagt þetta til að undirstrika að Jehóva myndi ekki hjálpa sér þegar kæmi að dauða hans. Jesús varð að greiða lausnargjaldið án hjálpar Jehóva. Hann var mannlegur að öllu leyti og þurfti að ,deyja fyrir alla‘. – Hebr. 2:9.

Jesús hefur ef til vill viljað vekja athygli á öllum sálminum þegar hann vitnaði í fáein orð hans. Það var algengt í þá daga að Gyðingar lögðu marga af sálmunum á minnið. Þegar þeir heyrðu eitt vers í sálmi var eðlilegt að þeir hugsuðu um allan sálminn. Ef þetta var það sem Jesús hafði í huga hefur hann minnt fylgjendur sína meðal Gyðinga á marga spádóma í þessum sálmi sem tengdust dauða hans. (Sálm. 22:8, 9, 16, 17, 19, 25) Í lok sálmsins er Jehóva lofaður og honum lýst sem konungi yfir allri jörðinni. – Sálm. 22:28–32.

Með því að vitna í þessi orð Davíðs kann Jesús að hafa lagt áherslu á sakleysi sitt. Áður en Jesús var tekinn af lífi þurfti hann að þola ólögleg réttarhöld og að vera dæmdur sekur fyrir guðlast. (Matt. 26:65, 66) Æðstaráðið var kallað saman í skyndi og réttarhöldin sem fóru fram um nótt gengu algerlega í berhögg við viðurkennd lög. (Matt. 26:59; Mark. 14:56–59) Þegar Jesús sagði „Guð minn, Guð minn, hvers vegna hefurðu yfirgefið mig?“ má vera að hann hafi vakið athygli á því að hann hafði ekkert gert sem verðskuldaði þessa refsingu.

Jesús kann að hafa vakið athygli á að þótt Davíð, sem ritaði sálminn, hafi þurft að ganga í gegnum þjáningar þýddi það ekki að hann hefði misst velþóknun Jehóva. Spurning Davíðs þýddi ekki að hann hafði misst trúna á Guð. Á eftir spurningunni tjáir hann traust sitt á björgunarmátt Jehóva og Jehóva hélt áfram að blessa hann. (Sálm. 22:24, 25, 28) Á svipaðan hátt þýddi það að Jesús ,sonur Davíðs‘ þjáðist á kvalarstaurnum ekki að Jehóva hefði ekki lengur velþóknun á honum. – Matt. 21:9.

Það getur verið að Jesús hafi látið í ljós mikla hryggð vegna þess að Jehóva þurfti að draga vernd sína til baka til að Jesús gæti sannað ráðvendni sína. Það var ekki fyrirætlun Jehóva frá upphafi að sonur hans myndi þjást og deyja. En það varð nauðsynlegt eftir fyrstu uppreisnina. Jesús hafði ekki gert neitt rangt en hann þurfti að þjást og deyja til að svara ásökunum Satans og greiða lausnargjaldið sem þurfti til að kaupa til baka það sem maðurinn hafði glatað. (Mark. 8:31; 1. Pét. 2:21–24) Það hefði ekki verið hægt nema Jehóva tæki tímabundið vernd sína frá Jesú í fyrsta skipti í lífi hans.

Jesús hefur hugsanlega reynt að hjálpa fylgjendum sínum að sjá ástæðuna fyrir því að Jehóva leyfði að hann dæi með þessum hætti. * Jesús vissi að það að deyja eins og glæpamaður á kvalastaur myndi hneyksla marga. (1. Kor. 1:23) En ef fylgjendur hans hefðu í huga raunverulegu ástæðuna fyrir dauða hans myndu þeir líka skilja hvaða gildi hann hafði. (Gal. 3:13, 14) Þá myndu þeir líta á hann sem frelsara en ekki glæpamann.

Hver sem ástæðan var fyrir að Jesús vitnaði í þessi orð var honum alveg ljóst að það sem hann gekk í gegnum var vilji Jehóva. Stuttu eftir að hafa vitnað í sálminn sagði hann: „Ætlunarverkinu er lokið.“ (Jóh. 19:30; Lúk. 22:37) Það að Jehóva skyldi tímabundið draga vernd sína til baka gaf Jesú tækifæri til að fullna það verk sem hann var sendur til jarðar til að vinna. Það gerði honum líka kleift að uppfylla allt það sem skrifað var um hann „í Móselögunum, spámönnunum og sálmunum“. – Lúk. 24:44.

^ gr. 2 Sjá einnig 9. og 10. grein í greininni „Hvað lærum við af síðustu orðum Jesú?“ í þessu blaði.

^ gr. 4 Þegar Jesús þjónaði hér á jörð sagði hann stundum eitthvað eða varpaði fram spurningum sem endurspegluðu ekki endilega hans eigið álit. Hann gerði þetta til að örva umræðu meðal fylgjenda sinna. – Mark. 7:24–27; Jóh. 6:1–5; sjá Varðturninn 15. október 2010, bls. 4–5.