Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 18

Hvernig setjum við okkur markmið í þjónustu Jehóva og náum þeim?

Hvernig setjum við okkur markmið í þjónustu Jehóva og náum þeim?

„Hugleiddu þetta vel, vertu upptekinn af því svo að framför þín sé öllum augljós.“ – 1. TÍM. 4:15.

SÖNGUR 84 Verum framsækin

YFIRLIT a

1. Hvaða andlegu markmið getum við sett okkur?

 SEM sannkristnir menn elskum við Jehóva innilega. Við viljum gera okkar allra besta í þjónustunni við hann. En til að gera það verðum við að setja okkur andleg markmið, eins og að rækta kristna eiginleika, tileinka okkur nýja færni og leita leiða til að þjóna öðrum. b

2. Hvers vegna ættum við að setja okkur andleg markmið og vinna af kappi til að ná þeim?

2 Hvers vegna ættum við að hafa áhuga á því að taka framförum í þjónustu Jehóva? Fyrst og fremst viljum við gleðja kærleiksríkan föður okkar á himni. Það gleður Jehóva þegar hann sér okkur nota hæfileika okkar til fulls í þjónustu hans. En við viljum líka taka framförum til að geta hjálpað bræðrum okkar og systrum betur. (1. Þess. 4:9, 10) Við getum öll tekið framförum í þjónustu Jehóva hversu lengi sem við höfum verið í sannleikanum. Skoðum hvernig við getum gert það.

3. Hvað hvatti Páll postuli Tímóteus til að gera samkvæmt 1. Tímóteusarbréfi 4:12–16?

3 Þótt Tímóteus væri enn ungur þegar Páll postuli skrifaði honum fyrra bréfið hafði hann þegar þjónað sem öldungur um tíma. Páll hvatti hann samt til að halda áfram að taka framförum. (Lestu 1. Tímóteusarbréf 4:12–16.) Þegar við veltum orðum Páls fyrir okkur tökum við eftir að hann hvatti Tímóteus til að taka framförum á tveim sviðum: annars vegar með því að rækta kristna eiginleika eins og kærleika, trú og hreinleika og hins vegar með því að auka færni sína í upplestri og í að hvetja og kenna. Við skoðum fordæmi Tímóteusar til að sjá hvernig það að setja sér raunhæf markmið getur hjálpað okkur að þjóna Jehóva betur. Við lítum líka á nokkrar leiðir til að auka þjónustu okkar.

RÆKTUM KRISTNA EIGINLEIKA

4. Hvað gerði Tímóteus að nytsömum þjóni Jehóva samkvæmt Filippíbréfinu 2:19–22?

4 Hvað gerði Tímóteus að nytsömum þjóni Jehóva? Frábærir kristnir eiginleikar hans. (Lestu Filippíbréfið 2:19–22.) Af lýsingu Páls á Tímóteusi má sjá að hann var hógvær, trúr, duglegur og áreiðanlegur. Hann var kærleiksríkur og honum var mjög umhugað um trúsystkini sín. Fyrir vikið þótti Páli vænt um Tímóteus og hikaði ekki við að fela honum krefjandi verkefni. (1. Kor. 4:17) Jehóva elskar okkur líka og við komum að meira gagni í söfnuðinum þegar við ræktum eiginleika sem eru honum kærir. – Sálm. 25:9; 138:6.

Veldu kristinn eiginleika sem þú vilt tileinka þér betur. (Sjá 5. og 6. grein.)

5. (a) Hvernig geturðu valið hvaða kristna eiginleika þú vilt bæta? (b) Hvernig er yngri systirin á myndinni að vinna að markmiði sínu að sýna öðrum meiri samkennd?

5 Settu þér ákveðið markmið. Hugleiddu í bænarhug á hvaða sviðum þú þarft að bæta persónuleika þinn. Veldu einn ákveðinn eiginleika sem þú vilt vinna í. Gætirðu til dæmis ræktað með þér meiri samkennd eða sterkari löngun til að styðja trúsystkini þín? Eða gætirðu þurft að vera friðsamari eða fúsari að fyrirgefa? Það gæti verið gagnlegt að biðja náinn vin um tillögur að því hvernig þú getur tekið framförum. – Orðskv. 27:6.

6. Hvernig geturðu náð markmiði þínu að rækta ákveðinn eiginleika?

6 Vinndu að markmiði þínu. Hvernig geturðu gert það? Ein leið til þess er að lesa þér vel til um eiginleikann sem þú vilt bæta. Segjum að þú ákveðir að vinna að því að vera fúsari að fyrirgefa. Þú gætir byrjað á því að lesa og hugleiða frásögur í Biblíunni um þá sem fyrirgáfu öðrum fúslega og þá sem gerðu það ekki. Hugleiddu fordæmi Jesú. Hann fyrirgaf öðrum fúslega. (Lúk. 7:47, 48) Hann horfði líka fram hjá göllum annarra og sá hæfileika þeirra. En farísearnir á dögum Jesú „litu niður á aðra“. (Lúk. 18:9) Eftir að hafa hugleitt þessi dæmi skaltu spyrja þig: Hvernig sé ég aðra? Á hvaða eiginleika þeirra kýs ég að horfa? Ef þú átt erfitt með að fyrirgefa einhverjum, skrifaðu þá á blað eins marga góða eiginleika hans og þú getur. Spyrðu þig síðan: Hvernig sér Jesús þennan einstakling? Myndi hann fyrirgefa honum? Slík rannsókn gæti hjálpað þér að leiðrétta hugsun þína. Við gætum í fyrstu þurft að leggja hart að okkur til að fyrirgefa þeim sem hefur móðgað okkur. En ef við höldum áfram að vinna að því eigum við með tímanum auðveldara með að fyrirgefa öðrum.

TILEINKAÐU ÞÉR NÝJA FÆRNI

Bjóddu þig fram til að læra að sinna viðhaldi í ríkissalnum. (Sjá 7. grein.) e

7. Hvernig gefa Orðskviðirnir 22:29 til kynna að Jehóva noti hæfileikaríka menn nú á dögum?

7 Annað markmið sem þú getur sett þér er að tileinka þér nýja færni. Hugsaðu þér hversu marga þarf til að vinna við byggingu nýrra Betelheimila, mótshalla og ríkissala. Margir þessara sjálfboðaliða hafa tileinkað sér færni með því að vinna við hlið bræðra og systra sem eru reyndir iðnaðarmenn. Eins og fram kemur á myndinni læra bæði bræður og systur færni sem þörf er á til að viðhalda mótshöllum og ríkissölum. Það er meðal annars þannig sem Jehóva Guð ,konungur eilífðarinnar‘ og Jesús Kristur „konungur konunga“ nota fólk með fagkunnáttu til að gera stórkostlega hluti. (1. Tím. 1:17; 6:15; lestu Orðskviðina 22:29.) Við viljum leggja okkur fram og nota hæfileika okkar til að upphefja Jehóva en ekki okkur sjálf. – Jóh. 8:54.

8. Hvernig gætirðu ákveðið hvaða færni þú vilt tileinka þér?

8 Settu þér ákveðið markmið. Hvaða markmið gætir þú sett þér? Spyrðu safnaðaröldungana og ef til vill farandhirðinn í hverju þú gætir tekið framförum. Ef þeir leggja til að þú bætir ræðu- og kennsluhæfileika þína skaltu biðja þá að benda á ákveðinn þjálfunarlið sem þú gætir unnið í. Leggðu þig síðan fram við að taka framförum. Hvernig geturðu gert það?

9. Hvernig geturðu unnið að markmiði þínu að tileinka þér ákveðna færni?

9 Vinndu að markmiði þínu. Segjum að þú viljir verða betri kennari. Þú gætir lesið vandlega bæklinginn Leggðu þig fram við að lesa og kenna. Þegar þú færð verkefni á samkomunni í miðri viku gætirðu beðið hæfan bróður að hlusta á þig flytja verkefnið fyrir samkomuna og koma með tillögur að því hvernig þú getur bætt þig. Byrjaðu snemma og undirbúðu verkefni þitt þannig að það sjáist að þú leggur þig fram og ert áreiðanlegur. – Orðskv. 21:5; 2. Kor. 8:22.

10. Nefndu dæmi um það hvernig við getum aukið færni okkar.

10 Hvað ef markmið þitt er að auka færni þína í einhverju sem þér finnst erfitt? Gefstu ekki upp. Bróðir að nafni Garry átti erfitt með lestur. Hann man eftir því hversu mikið hann skammaðist sín þegar hann reyndi að lesa upphátt á safnaðarsamkomum. En hann hélt áfram að leggja hart að sér. Hann segir að það sé þjálfuninni sem hann fékk að þakka að hann flytur nú ræður í ríkissalnum og á mótum.

11. Hvað hjálpar okkur að axla meiri ábyrgð, líkt og Tímóteus gerði?

11 Varð Tímóteus mjög góður ræðumaður eða fær kennari? Biblían gefur ekkert upp um það. En Tímóteus hefur áreiðanlega orðið færari í því sem honum var treyst fyrir þegar hann fór að ráðum Páls. (2. Tím. 3:10) Ef við tileinkum okkur meiri færni getum við líka komið að meira gagni í þjónustu Jehóva.

LEITAÐU LEIÐA TIL AÐ ÞJÓNA ÖÐRUM

12. Hvernig hefur þú haft gagn af þjónustu annarra?

12 Við njótum öll góðs af þjónustu annarra. Þegar við þurfum að leggjast á spítala erum við þakklát að fá heimsókn frá öldungum í spítalasamskiptanefnd eða bræðrum og systrum sem taka þátt í að heimsækja trúsystkini á spítala. Þegar við tökumst á við erfiðleika í lífi okkar kunnum við vel að meta þegar umhyggjusamur öldungur tekur sér tíma til að hlusta og veita okkur uppörvun. Þegar við þurfum á hjálp að halda með biblíunemanda er gott að fá reyndan brautryðjanda til að vera með á biblíunámskeiðinu og gefa ráð. Öll þessi trúsystkini hjálpa okkur með gleði. Við njótum líka gleði ef við erum tilbúin að þjóna bræðrum okkar og systrum. „Það er ánægjulegra að gefa en þiggja,“ sagði Jesús. (Post. 20:35) Hvað hjálpar þér að ná markmiðum þínum ef þú vilt gera meira fyrir Jehóva á þessu sviði eða öðrum?

13. Hvað ættum við að hafa í huga þegar við setjum okkur markmið?

13 Ekki setja þér markmið sem er of almennt. Þú gætir hugsað: „Mig langar að gera meira í söfnuðinum.“ En þá getur verið erfitt að vita hvaða stefnu þú átt að taka og þú veist ekki hvenær þú hefur náð því markmiði. Veldu því ákveðið og skýrt markmið. Þú gætir jafnvel skrifað það á blað og hvernig þú ætlar að ná því.

14. Hvers vegna þurfum við að vera sveigjanleg þegar við setjum okkur markmið?

14 Við þurfum líka að vera sveigjanleg þegar við setjum okkur markmið. Hvers vegna? Vegna þess að við höfum ekki algera stjórn á aðstæðum okkar. Tökum dæmi. Páll postuli hafði hjálpað til við að stofna nýjan söfnuð í borginni Þessalóníku. Og hann stefndi örugglega að því að vera þar áfram og hjálpa þessum nýju þjónum Jehóva. En andstæðingar hröktu Pál út úr borginni. (Post. 17:1–5, 10) Hann hefði stofnað trúsystkinum sínum í hættu ef hann hefði verið þar áfram. En Páll var ekki af baki dottinn. Hann lagaði sig að breyttum aðstæðum. Síðar sendi hann Tímóteus til að styrkja trú þeirra sem höfðu nýlega tekið við sannleikanum. (1. Þess. 3:1–3) Þessalóníkumenn hljóta að hafa verið ánægðir að Tímóteus skuli hafa verið tilbúinn að fara þangað sem hans var þörf.

15. Hvernig gætu aðstæður sem við ráðum ekki við haft áhrif á markmið okkar? Nefndu dæmi.

15 Við getum lært af reynslu Páls í Þessalóníku. Við setjum okkur kannski markmið en aðstæður okkar breytast og koma í veg fyrir að við náum því. (Préd. 9:11) Ef það á við um þig skaltu setja þér nýtt og raunhæft markmið. Hjónin Ted og Hiedi gerðu það. Þau hættu að starfa á Betel vegna heilsuvandamáls. En kærleikur þeirra til Jehóva knúði þau til að leita leiða til að gera meira í þjónustunni. Fyrst gerðust þau brautryðjendur. Síðar voru þau útnefnd sérbrautryðjendur og Ted fékk þjálfun í að vera staðgengill farandhirðis. Þá breyttust aldurstakmörk fyrir farandhirða. Ted og Hiedi áttuðu sig á því að þau voru orðin of gömul til að vera í þessari þjónustu. Þótt þau væru vonsvikin vissu þau að þau gátu þjónað Jehóva á öðrum sviðum. Ted segir: „Við höfum lært að horfa ekki eingöngu á eina tegund þjónustunnar.“

16. Hvað lærum við af Galatabréfinu 6:4?

16 Við getum ekki haft stjórn á öllu í lífi okkar. Það er því mikilvægt að við metum okkur ekki eftir þjónustuverkefnum okkar eða berum þau saman við verkefni annarra. Hiedi segir: „Þú missir hugarfriðinn ef þú berð líf þitt saman við það sem þú sérð í lífi annarra.“ (Lestu Galatabréfið 6:4.) Það er mikilvægt að við skoðum hvað við getum gert til að koma að gagni. c

17. Hvernig geturðu unnið að því að verða hæfur til að taka að þér verkefni?

17 Gerðu þitt til að vera tilbúinn að þjóna öðrum með því að hafa líf þitt einfalt og forðast ónauðsynlegar skuldir. Settu þér skammtímamarkmið sem hjálpa þér að ná langtímamarkmiðum þínum. Gætirðu til dæmis verið aðstoðarbrautryðjandi núna ef langtímamarkmið þitt er að verða brautryðjandi? Gætirðu notað meiri tíma í boðuninni og til að heimsækja veika og aldraða í söfnuðinum ef þú stefnir að því að verða safnaðarþjónn? Reynslan sem þú safnar núna getur opnað þér dyr að frekari verkefnum í framtíðinni. Vertu staðráðinn í að gera þitt besta í hverju því verkefni sem þú tekur að þér. – Rómv. 12:11.

Veldu markmið sem þú ræður við. (Sjá 18. grein.) f

18. Hvað getum við lært af Beverley, systurinni á myndinni?

18 Við erum aldrei of gömul til að setja okkur markmið í þjónustu Jehóva og ná þeim. Taktu eftir því hvað systir að nafni Beverley gerði, en hún er 75 ára. Hún átti við alvarlegan heilsubrest að glíma sem gerði henni erfitt um gang. En hana langaði að taka fullan þátt í átaki fyrir minningarhátíðina. Hún setti sér því ákveðin markmið. Hún var ánægð að ná markmiðum sínum í tengslum við átakið. Viðleitni hennar hvatti aðra til að leggja sig meira fram í boðuninni. Jehóva kann að meta það sem eldri bræður og systur gera þótt aðstæður setji þeim takmörk. – Sálm. 71:17, 18.

19. Hvaða andlegu markmið getum við sett okkur?

19 Settu þér markmið sem eru þér innan seilingar. Ræktaðu með þér eiginleika sem gleðja Jehóva. Tileinkaðu þér færni sem kemur Guði og söfnuðinum að gagni. Leitaðu leiða til að þjóna bræðrum þínum og systrum enn betur. d Með blessun Jehóva getur ,framför þín orðið öllum augljós‘ rétt eins og hjá Tímóteusi. – 1. Tím. 4:15.

SÖNGUR 38 Hann mun styrkja þig

a Tímóteus var fær boðberi fagnaðarboðskaparins. En Páll postuli hvatti hann samt til að taka framförum í þjónustu Jehóva. Með því að fylgja leiðbeiningum Páls myndi Tímóteus koma Jehóva að enn meira gagni og veita bræðrum og systrum meiri hjálp. Ert þú ákafur að þjóna Jehóva og trúsystkinum þínum betur rétt eins og Tímóteus? Eflaust ertu það. Hvaða markmið geta hjálpað þér á þeirri braut? Og hvað felur það í sér að setja sér markmið og ná þeim?

b ORÐASKÝRING: Andleg markmið eru allt sem við leggjum hart að okkur við að gera til að þjóna Jehóva betur og gleðja hann.

c Sjá millifyrirsögnina „Að þjóna þar sem þörfin er meiri“ í bókinni Söfnuður skipulagður til að gera vilja Jehóva, 10. kafla, greinar 6.–9.

d Sjá kafla 60, „Haltu áfram að taka framförum“, í bókinni Von um bjarta framtíð.

e MYND: Bróðir kennir tveim systrum að sinna viðhaldi og þær nota vel það sem þær læra.

f MYND: Systir sem á ekki heimangengt nær góðum árangri í að boða trúna í síma þegar hún býður fólki á minningarhátíðina.