Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Hvað segir Biblían um að sverja eið?

Eiður hefur verið skilgreindur sem „hátíðleg og formleg yfirlýsing eða loforð um að standa við heit, oft frammi fyrir Guði“. Hann getur verið munnlegur eða skriflegur.

Sumir gætu álitið það rangt að sverja eið því að Jesús sagði: „Þið eigið alls ekki að sverja [eið] … Láttu bara ,já‘ þitt merkja já og ,nei‘ þitt nei því að allt þar fyrir utan er frá hinum vonda.“ (Matt. 5:33–37) Jesús vissi að sjálfsögðu að þess var krafist í Móselögunum að menn sverðu eið við vissar aðstæður og að trúfastir þjónar Guðs höfðu gert það. (1. Mós. 14:22, 23; 2. Mós. 22:9, 10) Hann vissi líka að Jehóva sjálfur sór eiða. (Hebr. 6:13–17) Jesús átti því ekki við að við ættum aldrei að sverja eiða. Hann var að vara við því að sverja eiða í léttvægum málum eða þegar það þjónaði engum tilgangi. Við ættum að líta á það sem heilaga skyldu að standa við orð okkar. Við verðum að meina það sem við segjum.

Hvað ættirðu að gera ef þú ert beðinn um að sverja eið? Fyrst skaltu ganga úr skugga um að þú getir staðið við það sem þú lofar. Ef þú ert í vafa er betra að sleppa því að sverja eið. Orð Guðs varar við: „Betra er að þú heitir engu en að þú heitir og efnir ekki.“ (Préd. 5:4) Því næst skaltu hugleiða meginreglur Biblíunnar sem eiga við það sem þú ert beðinn að sverja eið um og fylgja síðan þjálfaðri samvisku þinni í verki. Skoðum nokkrar af þessum meginreglum Biblíunnar.

Eiðar sem samræmast vilja Guðs. Vottar Jehóva skiptast á heitum þegar þeir ganga í hjónaband. Þessi heit eru ein tegund eiða. Brúðurin og brúðguminn lofa frammi fyrir Guði og sjónarvottum að elska, annast og virða hvort annað „svo lengi sem þau bæði lifa“. (Þótt ekki sé farið orðrétt með þetta heit gefa brúðhjón samt heit frammi fyrir Guði.) Síðan er lýst yfir að þau séu hjón og að hjónabandið eigi að vera ævilangt. (1. Mós. 2:24; 1. Kor. 7:39) Þetta fyrirkomulag er viðeigandi og í samræmi við vilja Guðs.

Eiðar sem stangast á við vilja Guðs. Sannkristinn maður myndi ekki sverja eið þess efnis að lofa að taka þátt í að verja land með vopnum eða afneita trú sinni á Guð. Það væri brot á boðum Guðs. Kristnir menn eiga ,ekki að tilheyra heiminum‘ þannig að við getum ekki tekið þátt í deilum og átökum heimsins. – Jóh. 15:19; Jes. 2:4; Jak. 1:27.

Eiðar sem eru samviskumál. Í sumum tilfellum verðum við að meta eið vandlega í ljósi eftirfarandi leiðbeininga Jesú: „Gjaldið þá keisaranum það sem tilheyrir keisaranum en Guði það sem tilheyrir Guði.“ – Lúk. 20:25.

Segjum að þjónn Guðs sæki um ríkisborgararéttindi eða vegabréf og komist að því að þess sé krafist að hann sverji eið um hollustu. Ef slíkur eiður í viðkomandi landi felur í sér að lofa einhverju sem gengur í berhögg við lög Guðs, ætti biblíufrædd samviska hans ekki að leyfa honum að sverja hann. Yfirvöld gætu samt gefið honum leyfi til að endurorða eiðinn í samræmi við samvisku hans.

Að sverja endurorðaðan eið um hollustu getur samræmst meginreglunni í Rómverjabréfinu 13:1: „Allir eiga að vera undirgefnir yfirvöldum.“ Þjónn Guðs getur því ákveðið að ekkert mæli á móti því að lofa að gera það sem Guð hefur þegar farið fram á.

Það er líka mikilvægt að hlýða biblíufræddri samvisku sinni þegar maður er beðinn að nota ákveðinn hlut eða gera ákveðið látbragð þegar maður sver eið. Rómverjar og Skýtar til forna sóru eiða við sverð sín og notuðu þannig tákn stríðsguðs til að staðfesta orðheldni sína. Grikkir réttu höndina til himins þegar þeir sóru eið. Þannig viðurkenndu þeir að guðlegur kraftur væri til vitnis um það sem væri sagt og gert og að menn væru ábyrgir frammi fyrir honum.

Þjónn Jehóva myndi auðvitað aldrei sverja eið við nokkurt þjóðartákn sem tengdist falskri tilbeiðslu. En hvað ef þú ert beðinn frammi fyrir dómara að leggja hönd á biblíu og sverja eið um að gefa sannan vitnisburð? Þú gætir ákveðið að gera það þar sem Biblían segir frá trúföstum þjónum Guðs sem sóru eið með ákveðnu látbragði. (1. Mós. 24:2, 3, 9; 47:29–31) Ef þú sverð slíkan eið er mikilvægt að muna að þú ert að lofa að segja sannleikann frammi fyrir Guði. Þú þarft að vera tilbúinn að svara öllum spurningum sem þú færð sannleikanum samkvæmt.

Samband okkar við Jehóva er dýrmætt og við ættum því að hugleiða í bænarhug hvern eið sem við erum beðin að sverja og fullvissa okkur um að hann brjóti ekki gegn samvisku okkar eða meginreglum Biblíunnar. Ef þú ákveður að sverja eið verðurðu að halda hann. – 1. Pét. 2:12.