Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Var Jakob forfaðir Messíasar af því að hann keypti frumburðarréttinn af Esaú?

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Þurftu menn í Ísrael til forna að vera með frumburðarrétt til að geta verið ættfeður Messíasar?

Af og til höfum við gefið það í skyn. Það virtist vera í samræmi við það sem stendur í Hebreabréfinu 12:16. Þar segir að Esaú hafi verið „vanheilagur“ eða hafi ,ekki kunnað að meta það sem er heilagt‘ (NW) og hafi ,fyrir einn málsverð látið af hendi frumburðarrétt sinn‘ til Jakobs. Þetta virtist benda til þess að þegar Jakob fékk ,frumburðarréttinn‘ hafi hann einnig hlotið réttinn á að vera ættfaðir Messíasar. – Matt. 1:2, 16; Lúk. 3:23, 34.

Við nánari athugun á frásögn Biblíunnar kemur þó í ljós að maður þurfti ekki að vera frumgetinn sonur til að geta verið forfaðir Messíasar. Skoðum nokkur rök fyrir því.

Frumgetinn sonur Jakobs (Ísraels) var Rúben sem hann átti með Leu. Jósef var síðan fyrsti sonurinn sem hann átti með Rakel, konunni sem hann elskaði mest. Þegar Rúben drýgði alvarlega synd hlaut Jósef frumburðarréttinn í stað hans. (1. Mós. 29:31-35; 30:22-25; 35:22-26; 49:22-26; 1. Kron. 5:1, 2) En hvorki Rúben né Jósef urðu ættfeður Messíasar. Það var Júda sem fékk það hlutverk, en hann var fjórði sonur Jakobs sem hann átti með Leu. – 1. Mós. 49:10.

Í Lúkasi 3:32 eru taldir upp fimm menn sem voru uppi síðar og voru einnig ættfeður Messíasar. Þeir virðast allir hafa verið frumburðir. Bóas eignaðist Óbeð og sonur Óbeðs var Ísaí. – Rut. 4:17, 20-22; 1. Kron. 2:10-12.

Davíð, sonur Ísaí, var þó ekki frumburður. Hann var yngstur átta sona hans. Engu að síður var það í ættlegg Davíðs sem Messías kom fram. (1. Sam. 16:10, 11; 17:12; Matt. 1:5, 6) Næstur á eftir Davíð í ættartölu Messíasar er Salómon, en hann var ekki heldur frumburður. – 2. Sam. 3:2-5.

Þetta þýðir ekki að það hafi verið ómerkilegt að vera frumburður. Frumgetinn sonur hafði ákveðna virðingarstöðu og tók oft við sem höfuð fjölskyldunnar. Hann átti líka að fá tvöfaldan erfðahlut miðað við bræður sína. – 1. Mós. 43:33; 5. Mós. 21:17; Jós. 17:1.

Frumburðarrétturinn gat þó færst yfir á annan son. Abraham vísaði Ísmael burt og lét Ísak fá frumburðarréttinn. (1. Mós. 21:14-21; 22:2) Og eins og fram hefur komið fékk Jósef frumburðarréttinn sem Rúben hefði annars hlotið.

Skoðum nú aftur Hebreabréfið 12:16 þar sem stendur: „Gætið þess að eigi sé neinn hórkarl eða [neinn sem kann ekki að meta það sem er heilagt, NW] eins og Esaú sem fyrir einn málsverð lét af hendi frumburðarrétt sinn.“ Á hvað er verið að benda?

Páll postuli var ekki að ræða um ætterni Messíasar. Hann var rétt áður búinn að hvetja trúsystkini sín til að ,láta fætur sína feta beinar brautir‘ þannig að þau myndu ekki ,missa af náð Guðs‘, en það gat gerst ef þau gerðust sek um kynferðislegt siðleysi. (Hebr. 12:12-16) Ef þau gerðu það væru þau eins og Esaú. Hann ,kunni ekki að meta það sem var heilagt‘ og lét undan löngun sinni í það sem var veraldlegt.

Esaú var uppi á tímum ættfeðranna og hefur ef til vill fengið þann heiður að færa fórnir af og til. (1. Mós. 8:20, 21; 12:7, 8; Job. 1:4, 5) En þar sem hann lét holdlegar langanir ráða ferðinni afsalaði hann sér öllum slíkum heiðri fyrir eina skál af baunakássu. Kannski vildi hann komast hjá þeim þjáningum sem sagt var fyrir að myndu koma yfir afkomendur Abrahams. (1. Mós. 15:13) Esaú sýndi líka með öðrum hætti að hann hneigðist að því sem var veraldlegt og kunni ekki að meta það sem var heilagt. Hann kvæntist tveim heiðnum konum, foreldrum sínum til mikillar hryggðar. (1. Mós. 26:34, 35) Hann var gerólíkur Jakobi sem gætti þess að kvænast konu sem tilbað hinn sanna Guð. – 1. Mós. 28:6, 7; 29:10-12, 18.

Hvað getum við þá ályktað varðandi þá sem urðu ættfeður Jesú, Messíasar? Sumir ættfeðra hans voru frumgetnir synir – en ekki allir. Gyðingar áttuðu sig á þessu. Þeir viðurkenndu til dæmis að Kristur átti að koma í ættlegg Davíðs, yngsta sonar Ísaí. – Matt. 22:42.