Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Ég veit að hann rís upp“

„Ég veit að hann rís upp“

„Vinur okkar er sofnaður. En nú fer ég að vekja hann.“ – JÓH. 11:11.

SÖNGVAR: 142, 129

1. Um hvað efaðist Marta ekki varðandi bróður sinn? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

MARTA, náinn vinur og lærisveinn Jesú, syrgði. Lasarus, bróðir hennar, var dáinn. Gat eitthvað linað sorg hennar? Já, Jesús fullvissaði hana um að ,bróðir hennar myndi upp rísa‘. Marta hefur kannski ekki hætt að syrgja en hún trúði orðum Jesú. „Ég veit að hann rís upp í upprisunni á efsta degi,“ sagði hún. (Jóh. 11:20-24) Hún vissi að þetta myndi gerast í framtíðinni. En þá vann Jesús kraftaverk. Hann reisti Lasarus til lífs á ný á þessum sama degi.

2. Hvers vegna viltu búa yfir sömu sannfæringu og Marta?

2 Við höfum enga ástæðu til að ætla að Jesús eða faðir hans vinni slíkt kraftaverk fyrir okkur núna. En ertu samt jafn viss og Marta um að ástvinir þínir rísi upp í framtíðinni? Þú hefur ef til vill misst maka, móður, föður, afa eða ömmu sem var þér kær. Eða syrgirðu kannski barn sem þú hefur misst í dauðann? Þú þráir að faðma, tala við og hlæja með þessum ástvini. Sem betur fer gætirðu, líkt og Marta, haft góða ástæðu til að segja: Ég veit að ástvinur minn rís upp í upprisunni. Það getur samt verið gott fyrir alla þjóna Guðs að velta fyrir sér á hvaða grundvelli sú von er reist.

3, 4. Hvernig hefur það sem Jesús hafði nýlega gert líklega styrkt sannfæringu Mörtu?

3 Það er ólíklegt að Marta, sem bjó nálægt Jerúsalem, hafi verið viðstödd þegar Jesús reisti upp son ekkju skammt frá Nain í Galíleu. Hún hafði þó örugglega heyrt um það. Jesús hafði líka reist dóttur Jaírusar til lífs á ný. Þeir sem voru á heimili hennar „vissu að hún var dáin“. Jesús tók samt í hönd hennar og sagði: „Stúlka, rís upp!“ Og hún gerði það samstundis. (Lúk. 7:11-17; 8:41, 42, 49-55) Bæði Marta og María, systir hennar, vissu að Jesús gat læknað þá sem voru veikir. Þær hugsuðu því að ef Jesús hefði verið á staðnum hefði Lasarus ekki dáið. En eftir hverju gátu þær vonast núna þegar þessi kæri vinur Jesú var dáinn? Við sjáum að Marta talaði um að Lasarus fengi lífið aftur í framtíðinni, „á efsta degi“. Hvernig gat hún verið viss um það? Og hvernig getur þú verið viss um að fólk verði reist upp í framtíðinni og að ástvinir þínir geti verið þess á meðal?

4 Þú hefur góðar ástæður fyrir sannfæringu þinni. Þegar við nú skoðum nokkrar þeirra gætirðu rekist á sitthvað í orði Guðs sem þú hefur ekki tengt við vonina um að sjá látna ástvini þína á ný.

FRÁSÖGUR SEM EFLA VONINA

5. Hvað átti sinn þátt í að Marta var sannfærð um að Lasarus yrði reistur upp?

5 Taktu eftir að Marta sagði ekki: ,Ég vona að bróðir minn rísi upp.‘ Hún sagði: „Ég veit að hann rís upp.“ Marta var sannfærð um það vegna kraftaverka sem hún hafði heyrt um áður en Jesús hóf þjónustu sína. Hún hafði lært um þau á unga aldri heima hjá sér og í samkunduhúsinu. Okkur detta líklega í hug þrír atburðir sem sagt er frá í innblásnu orði Guðs.

6. Hvaða einstaka kraftaverk vann Elía og hvernig tengist það von Mörtu?

6 Fyrsta upprisan átti sér stað á þeim tíma sem Guð gaf Elía, spámanni sínum, mátt til að vinna kraftaverk. Fátæk ekkja í hafnarbænum Sarefta í Fönikíu sýndi spámanninum gestrisni. Guð gerði þá kraftaverk og sá til þess að hveiti hennar og olía þryti ekki þannig að hún og sonur hennar gátu haldið lífi. (1. Kon. 17:8-16) Síðar veiktist sonur hennar og dó. Elía kom henni þá til hjálpar. Hann kom við lík drengsins og bað: „Guð minn, gefðu þessum dreng aftur líf.“ Og svo fór. Guð heyrði bæn Elía og drengurinn lifnaði aftur. Þetta er fyrsta upprisan sem Biblían segir frá. (Lestu 1. Konungabók 17:17-24.) Marta hafði án efa lært um þennan merkilega atburð.

7, 8. (a) Hvað gerði Elísa til að lina sorg konu einnar? (b) Hvað sannar kraftaverk Elísa um Jehóva?

7 Í annað skiptið, sem talað erum upprisu í Biblíunni, var það Elísa spámaður, eftirmaður Elía, sem átti hlut að máli. Ísraelsk kona, sem var vel þekkt í heimabæ sínum, Súnem, sýndi Elísa einstaka gestrisni. Guð launaði þessari barnlausu konu og rosknum eiginmanni hennar fyrir milligöngu spámannsins og gaf þeim son. Nokkrum árum síðar dó drengurinn. Ímyndaðu þér hve sorgmædd móðir hans hefur verið. Með leyfi eiginmannsins fór hún um 30 kílómetra leið til Elísa á Karmelfjalli. Spámaðurinn sendi Gehasí, þjón sinn, á undan þeim aftur til Súnem. En Gehasí tókst ekki að vekja drenginn aftur til lífs. Syrgjandi móðirin kom síðan ásamt Elísa. – 2. Kon. 4:8-31.

8 Þegar Elísa kom að líki drengsins í húsinu í Súnem bað hann til Guðs. Drengurinn lifnaði aftur fyrir kraftaverk og móðirin endurheimti hann yfir sig ánægð. (Lestu 2. Konungabók 4:32-37.) Ef til vill hefur hún hugsað til Hönnu sem var lengi ófær um að eignast börn. Þegar Hanna fór með Samúel til að þjóna við tjaldbúðina sagði hún í bæn: „Drottinn ... sendir menn til heljar og leiðir þá upp þaðan.“ (1. Sam. 2:6) Guð ,leiddi upp‘ drenginn í Súnem með mjög bókstaflegum hætti og sannaði þar með að hann getur reist fólk upp frá dauðum.

9. Útskýrðu hvaða hlut Elísa átti í þriðju upprisunni sem sagt er frá í Biblíunni.

9 En þetta var ekki í síðasta sinn sem óvæntur atburður gerðist í tengslum við Elísa. Hann hafði verið spámaður í rúm 50 ár en síðan „veiktist [hann] af þeim sjúkdómi sem dró hann til dauða“. Síðar, þegar ekkert var eftir af líki hans nema beinin, réðst ræningjaflokkur inn í landið. Nokkrir Ísraelsmenn voru á leiðinni að jarða mann. En til að flýja ræningjana köstuðu þeir líki hins látna í gröfina þar sem bein Elísa lágu. Við lesum: „Þegar hann snerti bein Elísa lifnaði hann og stóð á fætur.“ (2. Kon. 13:14, 20, 21) Þessar frásögur af upprisum höfðu eflaust mikla þýðingu fyrir Mörtu. Guð hefur greinilega vald yfir dauðanum. Hugsaðu líka um hvað frásögurnar þýða fyrir þig. Þær ættu sannarlega að fullvissa þig um að máttur Guðs er mikill. Hann er óendanlegur.

FRÁSÖGUR FRÁ FYRSTU ÖLD

10. Hvað gerði Pétur fyrir kristna systur sem hafði dáið?

10 Í Grísku ritningunum er einnig sagt frá upprisum sem áttu sér stað í návist fulltrúa Guðs. Dæmi um það er þegar Jesús reisti upp dána fyrir utan Nain og í húsi Jaírusar. Pétur postuli átti hlut í annarri upprisu þegar kristin kona, sem hét Dorkas (Tabíþa), fékk lífið á ný. Þegar Pétur kom á staðinn þar sem hún beið greftrunar bað hann til Guðs. Síðan sagði hann: „Tabíþa, rís upp.“ Hún lifnaði strax við og Pétur „leiddi hana fram lifandi“ til trúsystkina sinna. Þessi atburður var svo sterkt merki um mátt Guðs að „margir tóku trú á Drottin“. Þeir gátu vitnað almennt um Jesú en líka bent á sterka sönnun fyrir því að Jehóva geti reist upp hina dánu. – Post. 9:36-42.

11. Hvað segir læknirinn Lúkas að hafi komið fyrir ungan mann og hvaða áhrif hafði það sem síðan gerðist á aðra?

11 Aðrir urðu sjónarvottar að annarri upprisu. Páll postuli var eitt sinn á samkomu í loftstofu í Tróas sem heyrir nú undir norðvesturhluta Tyrklands. Hann talaði fram á miðnætti. Ungur maður, sem hét Evtýkus, sat í glugganum og hlustaði en dottaði og féll af þriðju hæðinni beint niður á jörðina fyrir neðan. Læknirinn Lúkas var ef til vill fyrstur til að koma að Evtýkusi. Hann komst að því að hann var ekki bara slasaður og meðvitundarlaus heldur dáinn! Páll kom niður og tók utan um drenginn. Síðan tilkynnti hann, öllum til undrunar: „Það er líf með honum.“ Þetta hefur haft djúpstæð áhrif á sjónarvotta. Þeir sáu hvað hafði gerst, áttuðu sig á að drengurinn hefði risið upp frá dauðum og „hugguðust mikillega“. – Post. 20:7-12.

BJARGFÖST VON

12, 13. Hvaða spurningar skoðum við nú í ljósi þeirra frásagna um upprisu sem við höfum rætt?

12 Frásögurnar, sem hér hafa verið til umræðu, ættu að veita þér nokkuð sem Marta hafði. Hún var fullviss um að Guð okkar og lífgjafi væri fær um að veita dáinni manneskju lífið á ný. Það er þó athyglisvert að í öllum þessum tilfellum voru trúir þjónar Guðs, eins og Elía, Jesús og Pétur, viðstaddir en þeir voru uppi á tímum sem Jehóva vann kraftaverk. En hvað um þá sem dóu á öðrum tímum í sögu mannkyns? Á löngum tímabilum reisti Guð engan upp frá dauðum. Gátu trúfastir karlar og konur, sem lifðu þá, vænst þess að Guð myndi reisa látið fólk upp í framtíðinni? Gátu þau verið jafn viss og Marta sem sagði: „Ég veit að [bróðir minn] rís upp í upprisunni á efsta degi“? Hvernig gat hún haft þessa sannfæringu og hvernig getur þú það?

13 Í innblásnu orði Guðs eru mörg dæmi sem sýna að trúfastir þjónar hans hafi vitað að sá tími kæmi að hann myndi reisa fólk upp frá dauðum. Skoðum nú nokkur þeirra.

14. Hvað getum við lært um upprisuna af frásögunni af Abraham?

14 Hugsum um það sem Guð sagði Abraham að gera við Ísak, langþráðan erfingja sinn. Jehóva sagði: „Tak þú son þinn, einkason þinn sem þú elskar, hann Ísak, og ... fórna honum sem brennifórn.“ (1. Mós. 22:2) Þú getur rétt ímyndað þér hvaða tilfinningar þetta hefur vakið. Jehóva hafði lofað að allar þjóðir myndu hljóta blessun fyrir milligöngu afkomanda Abrahams. (1. Mós. 13:14-16; 18:18; Rómv. 4:17, 18) Hann hafði líka sagt að um ættlegg Ísaks væri að ræða. (1. Mós. 21:12) En hvernig gat það gerst ef Abraham fórnaði Ísak? Páli var innblásið að skrifa að Abraham hefði trúað að Guð gæti reist Ísak upp frá dauðum. (Lestu Hebreabréfið 11:17-19.) Biblían segir ekki að Abraham hafi haldið að ef hann hlýddi yrði Ísak reistur upp innan nokkurra klukkustunda, sama dag eða í sömu viku. Abraham gat ekki vitað hvenær sonur hans yrði reistur upp frá dauðum. En hann treysti að Jehóva myndi reisa hann upp.

15. Hvaða von tjáði ættfaðirinn Job?

15 Ættfaðirinn Job sá líka fyrir sér að upprisa yrði í framtíðinni. Hann áttaði sig á að þó að tré sé höggvið getur það vaxið aftur og orðið eins og nýtt tré. En það á ekki við um menn. (Job. 14:7-12; 19:25-27) Ef menn deyja geta þeir ekki reist sig upp úr gröfinni sjálfir og lifað aftur. (2. Sam. 12:23; Sálm. 89:49) Það þýðir auðvitað ekki að Guð geti ekki reist mann upp frá dauðum. Job trúði því að Jehóva myndi minnast hans eftir ákveðinn tíma. (Lestu Jobsbók 14:13-15.) Job gat ekki vitað hvenær í framtíðinni þetta yrði. En hann treysti því að sá sem skapaði mannslífið í upphafi gæti og myndi minnast hans og reisa hann upp frá dauðum.

16. Hvaða hvatningu veitti engill Daníel spámanni?

16 Daníel er annar trúfastur maður sem sagt er frá í Hebresku ritningunum. Hann þjónaði Jehóva dyggilega um margra áratuga skeið og Jehóva studdi hann. Eitt sinn sagði engill við Daníel, ástmög Guðs, að allt myndi ,ganga honum í hag‘ og hvatti hann til að ,vera hughraustur‘. – Dan. 9:22, 23; 10:11, 18, 19.

17, 18. Hvaða loforð fékk Daníel varðandi framtíðina?

17 Daníel var að nálgast tírætt og átti stutt eftir ólifað. Hann gæti hafa velt fyrir sér hvað biði hans í framtíðinni. Fengi hann að lifa á ný? Vissulega! Í lok Daníelsbókar lesum við hvað Guð sagði við hann: „En þú, gakk áfram til endalokanna, og þú munt hvílast.“ (Dan. 12:13, Biblían 1981) Hinn aldraði Daníel vissi að hinir dánu hvílast og að í gröfinni eru hvorki „hyggindi né þekking né viska“. Bráðlega færi hann þangað. (Préd. 9:10) En það yrðu ekki endalok hans. Guð hafði gefið honum framtíðarvon.

18 Í framhaldinu sagði engillinn við Daníel spámann: ,Þú munt upp rísa til að taka þitt hlutskipti við endi daganna.‘ Hann tilgreindi enga dagsetningu eða hve langur tími myndi líða. Daníel átti eftir að deyja og síðan hvílast. En þegar engillinn sagði að hann myndi ,rísa upp til að taka hlutskipti sitt‘ í framtíðinni var það skýrt loforð um upprisu – löngu eftir að hann félli frá. Það átti að gerast „við endalok daganna“.

Þú getur verið fullviss um að upprisa muni eiga sér stað, rétt eins og Marta. (Sjá 19. og 20. grein.)

19, 20. (a) Hvernig er það sem við höfum nú skoðað tengt því sem Marta sagði við Jesú? (b) Hvað eigum við eftir að skoða?

19 Marta hafði góðar ástæður til að treysta því að Lasarus, trúfastur bróðir hennar, myndi ,rísa upp í upprisunni á efsta degi‘. Loforðið, sem Daníel fékk, og fullvissa Mörtu, sem kom skýrt í ljós þegar hún svaraði Jesú, ætti að styrkja trú þjóna Guðs nú á dögum. Við getum verið fullviss um að það verði upprisa.

20 Við höfum nú séð að raunverulegir atburðir í fortíðinni sanna að upprisa sé möguleg – hinir dánu geta fengið líf á ný. Karlar og konur, sem þjónuðu Guði, væntu þess líka að upprisa myndi eiga sér stað einhvern tíma í framtíðinni. En er eitthvað sem bendir til þess að fólk geti risið upp löngu eftir að það hefur fengið loforð um það? Ef svo er höfum við enn frekari ástæðu til að hlakka til þess tíma, líkt og Marta, þegar upprisuvonin verður að veruleika. En þá spyrjum við kannski líka: Hvenær gerist þetta? Þessar spurningar tökum við fyrir í næstu grein.