Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

ÆVISAGA

Það sem ég yfirgaf til að fylgja meistaranum

Það sem ég yfirgaf til að fylgja meistaranum

„Ef þú ferð út að boða trúna skaltu ekki koma aftur. Ef þú kemur aftur brýt ég á þér fæturna.“ Það var vegna þessarar hótunar föður míns að ég ákvað að flytja að heiman. Þetta var í fyrsta skipti sem ég yfirgaf eitthvað til að fylgja meistaranum, Jesú Kristi. Ég var ekki nema 16 ára.

HVERNIG atvikaðist þetta? Ég skal útskýra það. Ég fæddist 29. júlí 1929 og ólst upp í þorpi í Bulacan-héraði á Filippseyjum. Lífið þar var einfalt þar sem þetta var á tímum efnahagskreppu. Þegar ég var ungur braust út stríð. Japanski herinn gerði innrás á Filippseyjar. Þorpið okkar var hins vegar tiltölulega afskekkt og við urðum því ekki fyrir beinum áhrifum af stríðsátökunum. Við höfðum hvorki útvarp né sjónvarp og fengum engin dagblöð, þannig að einu fréttirnar af stríðinu heyrðum við frá öðru fólki.

Ég var næstelstur af átta börnum og afi og amma ólu mig upp frá átta ára aldri. Við vorum kaþólsk en afi var opinn fyrir öðrum trúarbrögðum og safnaði ritum um trúmál sem hann fékk frá vinum sínum. Ég man að hann sýndi mér bæklingana Vernd, Öryggi og Afhjúpun á tagalog, * og líka biblíu. Ég hafði gaman af að lesa í Biblíunni, sérstaklega guðspjöllin fjögur. Það vakti hjá mér löngun til að fylgja fordæmi Jesú. – Jóh. 10:27.

LÆRI AÐ FYLGJA MEISTARANUM

Hernámi Japana lauk árið 1945. Um það leyti báðu foreldrar mínir mig að koma aftur heim. Afi hvatti mig til að fara þannig að ég gerði það.

Skömmu síðar, í desember 1945, kom hópur votta Jehóva frá bænum Angat til að boða trúna í þorpinu okkar. Roskinn vottur kom heim til okkar og útskýrði hvað Biblían segir um ,síðustu daga‘. (2. Tím. 3:1-5) Hann bauð okkur að sækja biblíunámskeið í nálægu þorpi. Foreldrar mínir fóru ekki en það gerði ég. Um 20 manns voru viðstaddir og sumir spurðu spurninga um Biblíuna.

Ég skildi ekki allt sem þau töluðu um og ætlaði þess vegna að fara. En þá fóru þau að syngja ríkissöng. Ég var mjög hrifinn af söngnum og ákvað að vera um kyrrt. Eftir sönginn og bæn var öllum boðið að sækja samkomu í Angat næsta sunnudag.

Nokkur okkar gengu um átta kílómetra til að komast á samkomuna heima hjá Cruz-fjölskyldunni. Það hafði mikil áhrif á mig að jafnvel lítil börn, sem voru meðal þeirra 50 viðstaddra, gáfu svör um djúp biblíusannindi. Bróðir Damian Santos, roskinn brautryðjandi, bauð mér að gista heima hjá sér eftir að ég hafði sótt nokkrar samkomur. Við vöktum næstum alla nóttina og ræddum um Biblíuna.

Í þá daga tóku mörg okkar fljótt við sér eftir að hafa lært grundavallarsannindi Biblíunnar. Eftir aðeins fáeinar samkomur spurðu bræðurnir mig og aðra hvort við vildum láta skírast. Ég svaraði: „Já, það vil ég.“ Ég vissi að ég vildi ,þjóna Drottni Kristi‘. (Kól. 3:24) Við fórum niður að á í nágrenninu og ég skírðist ásamt einum öðrum hinn 15. febrúar 1946.

Okkur var ljóst að sem skírðir þjónar Guðs þyrftum við að boða trúna reglulega eins og Jesús gerði. Það féll ekki í kramið hjá föður mínum sem sagði: „Þú ert of ungur til að prédika. Og að vera dýft í ána gerir þig ekki hæfan til þess.“ Ég útskýrði að það væri vilji Guðs að við boðuðum fagnaðarerindið um ríki hans. (Matt. 24:14) Ég sagði honum líka að ég þyrfti að efna heit mitt við Guð. Það var þá sem faðir minn hótaði mér eins og ég minntist á í byrjun. Hann var staðráðinn í að koma í veg fyrir að ég boðaði trúna. Þetta var í fyrsta sinn sem ég yfirgaf eitthvað til að geta sótt fram í trúnni.

Cruz-hjónin buðu mér að búa hjá sér í Angat. Þau hvöttu okkur Noru, yngstu dóttur sína, til að gerast brautryðjendur. Við hófum bæði brautryðjandastarf 1. nóvember 1947. Ég studdi boðunina í Angat en Nora starfaði í öðrum bæ.

ANNAÐ TÆKIFÆRI TIL AÐ SEGJA SKILIÐ VIÐ ÞAÐ SEM ÉG ÞEKKTI

Á þriðja ári mínu sem brautryðjandi flutti Earl Stewart, bróðir frá deildarskrifstofunni, ræðu fyrir um 500 manns á almenningstorginu í Angat. Hann flutti ræðuna á ensku og síðan flutti ég samantekt af henni á tagalog. Ég hafði aðeins gengið í skóla í sjö ár en kennslan fór oft fram á ensku. Annað sem hjálpaði mér að læra ensku var að það voru ekki til mörg biblíutengd rit á tagalog. Ég las því mörg þeirra á ensku. Þannig lærði ég nægilega mikið í málinu til að geta túlkað þessa ræðu og fleiri við síðari tækifæri.

Daginn sem ég túlkaði ræðuna fyrir bróður Stewart nefndi hann við söfnuðinn á staðnum að deildarskrifstofan vildi bjóða einum eða tveim brautryðjandabræðrum að koma á Betel. Þeir áttu að hjálpa til meðan trúboðarnir þar sóttu mótið „Vöxtur guðveldisins“ í New York árið 1950. Ég var annar bræðranna sem fékk boð. Aftur yfirgaf ég kunnuglegt umhverfi, í þetta skipti til að hjálpa til við Betelþjónustu.

Ég kom á Betel 19. júní 1950 og hófst handa við nýtt verkefni. Betel var í stóru, gömlu húsi umkringdu stórum trjám á lóð sem var einn hektari. Um tíu einhleypir bræður störfuðu þar. Snemma á morgnana hjálpaði ég til í eldhúsinu og frá klukkan níu vann ég í þvottahúsinu við að strauja föt. Verkefnin voru svipuð eftir hádegi. Ég hélt áfram að vinna á Betel eftir að trúboðarnir sneru aftur frá alþjóðamótinu. Ég pakkaði inn blöðum áður en þau voru send, vann úr blaðaáskriftum og vann í móttökunni. Ég gerði allt sem ég var beðinn að gera.

FLYST FRÁ FILIPPSEYJUM TIL AÐ SÆKJA GÍLEAÐSKÓLANN

Það gladdi mig ósegjanlega að fá boð um að sækja Gíleaðskólann með 20. nemendahópnum árið 1952 ásamt sex öðrum frá Filippseyjum. Margt af því sem við sáum og upplifuðum í Bandaríkjunum var nýtt og framandi fyrir okkur. Það var heldur ólíkt því sem ég hafði vanist í litla þorpinu heima.

Með samnemendum mínum í Gíleaðskólanum.

Við þurftum til dæmis að læra að nota tæki og áhöld sem voru okkur ókunn. Og veðrið var heldur betur ólíkt því sem við þekktum! Einn morguninn, þegar ég gekk út um dyrnar, blasti við mér undurfögur sýn. Jörðin var alhvít! Þetta var í fyrsta sinn sem ég sá snjó. Síðan komst ég að því að hann var kaldur – mjög kaldur!

Þessar breytingar féllu þó í skuggann af þeirri frábæru kennslu sem ég fékk í Gíleaðskólanum. Kennararnir notuðu áhrifaríkar kennsluaðferðir. Við lærðum að kafa djúpt ofan í efnið og stunda innihaldsríkt nám. Kennslan í Gíleað var mér mikil hjálp til að eignast enn sterkara samband við Jehóva.

Eftir að ég útskrifaðist var mér falið að starfa tímabundið sem sérbrautryðjandi í Bronx í New York-borg. Ég gat því sótt mót sem var haldið í sama borgarhluta í júlí 1953. Að mótinu loknu var ég sendur aftur til Filippseyja.

SEGI SKILIÐ VIÐ ÞÆGINDI BORGARINNAR

Bræðurnir á deildarskrifstofunni sögðu: „Nú færðu það verkefni að vera farandhirðir.“ Það gaf mér nýtt tækifæri til að feta náið í fótspor meistarans, Jesú Krists, sem ferðaðist til fjarlægra bæja og borga til að aðstoða sauði Jehóva. (1. Pét. 2:21) Farandsvæðið, sem mér var úthlutað, náði yfir feikistóran hluta Luzon, stærstu eyjar Filippseyja. Það náði meðal annars yfir héruðin Bulacan, Nueva Ecija, Tarlac og Zambales. Til að komast til sumra bæjanna þurfti ég að fara yfir hinn stórbrotna Sierra Madre-fjallgarð. Engar almenningssamgöngur náðu til þessara staða. Ég þurfti því að spyrja vörubílstjóra hvort ég mætti sitja á trjábolunum sem þeir fluttu með stórum vörubílum. Oft fékk ég leyfi til þess en það var ekki beint þægilegasti ferðamátinn.

Flestir safnaðanna voru tiltölulega nýir og fámennir. Bræðurnir kunnu því vel að meta að ég skyldi hjálpa þeim að skipuleggja samkomurnar og boðunina á skilvirkari hátt.

Síðar fékk ég nýtt farandsvæði sem náði yfir allt Bicol-svæðið. Þar voru aðallega einangraðir hópar þar sem sérbrautryðjendur boðuðu trúna á áður ósnertum starfssvæðum. Á einu heimilanna var eina salernið hola í jörðinni með tveim spýtum þvert yfir. Þegar ég steig á spýturnar duttu þær ofan í holuna og ég datt með þeim. Það tók mig dágóða stund að þrífa mig og gera mig tilbúinn fyrir morgunmatinn.

Um það leyti sem ég var farandhirðir á Bicol-svæðinu fór ég að hugsa um Noru sem hafði byrjað sem brautryðjandi í Bulacan. Nú var hún orðin sérbrautryðjandi í borginni Dumaguete og ég fór að heimsækja hana. Við skrifuðumst á um tíma og árið 1956 giftum við okkur. Fyrstu vikuna eftir brúðkaupið heimsóttum við söfnuð á eyjunni Rapu Rapu. Þar þurftum við að klífa fjöll og ganga langar vegalengdir, en hvílík gleði það var að þjóna trúsystkinum okkar á afskekktum svæðum sem hjón!

BOÐIÐ Á BETEL Á NÝ

Eftir tæplega fjögur ár í farandstarfi var okkur boðið að starfa á deildarskrifstofunni. Í janúar 1960 hófst þar með langur starfsferill okkar á Betel. Í tímans rás hef ég lært margt af að vinna með bræðrum sem hafa haft mikla ábyrgð, og Nora hefur sinnt ýmsum störfum á Betel.

Að flytja ræðu á móti sem er túlkuð á sebúanó.

Hér á Betel hef ég getað séð hvernig söfnuðurinn á Filippseyjum hefur vaxið með gífurlegum hraða. Þegar ég kom fyrst á Betel sem ungur einhleypur bróðir voru um 10.000 boðberar í öllu landinu. Nú eru vel yfir 200.000 boðberar á Filippseyjum og hundruð Betelíta styðja boðun fagnaðarerindisins.

Þegar starfsemin jókst með árunum kom að því að Betelheimilið varð of lítið. Hið stjórnandi ráð bað okkur þá að leita að lóð undir nýtt og stærra húsnæði. Við umsjónarmaður prentsmiðjunnar fórum því hús úr húsi í nágrenni deildarskrifstofunnar til að spyrja hvort einhver vildi selja lóðina sína. Enginn var fús til þess og einn landeigandinn, sem var kínverskur, sagði jafnvel við okkur: „Kínverjar selja ekki. Við kaupum.“

Að túlka ræðu fyrir bróður Albert Schroeder.

En dag einn spurði einn landeigandi óvænt hvort við vildum kaupa lóðina hans þar sem hann var að flytjast til Bandaríkjanna. Það hratt af stað ótrúlegri atburðarás. Annar nágranni ákvað að selja og hann hvatti eigendur lóðanna í kring að gera slíkt hið sama. Við gátum meira að segja keypt lóðina af manninum sem sagði að Kínverjar seldu ekki. Á skömmum tíma þrefaldaðist landareign deildarskrifstofunnar og gott betur. Ég er sannfærður um að Jehóva Guð vildi að þetta færi svona.

Árið 1950 var ég yngstur í Betelfjölskyldunni. Nú erum við hjónin þau elstu. Ég sé alls ekki eftir að hafa fylgt meistaranum hvert sem hann vildi að ég færi. Vissulega ráku foreldrar mínir mig að heiman en Jehóva hefur gefið mér stóra fjölskyldu trúsystkina. Ég er ekki í minnsta vafa um að Jehóva sjái okkur fyrir öllu því sem við þurfum, sama hvaða verkefni við fáum. Við Nora erum Jehóva innilega þakklát fyrir allt sem hann hefur séð okkur fyrir, og við hvetjum aðra til að reyna hann. – Mal. 3:10.

Jesús sagði eitt sinni við tollheimtumanninn Matteus Leví: „Fylg þú mér!“ Hvernig brást Matteus við? „Hann stóð upp, yfirgaf allt og fylgdi [Jesú].“ (Lúk. 5:27, 28) Ég hef fengið svipuð tækifæri, og ég hvet aðra til að bregðast eins við. Þá hljóta þeir ríkulega blessun.

Það er ánægjulegt að geta enn átt þátt í vexti safnaðarins á Filippseyjum.

^ gr. 6 Gefnir út af Vottum Jehóva en eru ekki lengur fáanlegir.