Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Í hvaða skilningi var Páll postuli „hrifinn burt allt til þriðja himins“ og „upp í Paradís“? – 2. Kor. 12:2-4.

Í 2. Korintubréfi 12:2, 3 talar Páll um mann sem var „hrifinn burt allt til þriðja himins“. Hver var þessi maður? Þegar Páll skrifaði söfnuðinum í Korintu lagði hann áherslu á að Guð notaði hann sem postula. (2. Kor. 11:5, 23) Síðan minnist hann á ,vitranir og opinberanir sem Drottinn hafði birt honum‘. Páll talar ekki um aðra bræður í því samhengi. Það er því rökrétt að ætla að maðurinn, sem fékk vitranirnar og opinberanirnar, hafi verið hann sjálfur. – 2. Kor. 12:1, 5.

Páll var sem sagt maðurinn sem var „hrifinn burt allt til þriðja himins“ og „hrifinn upp í Paradís“. (2. Kor. 12:2-4) Hann notar orðið ,opinberanir‘ sem bendir til þess að hann hafi fengið innsýn í framtíðina.

Hver var ,þriðji himinninn‘ sem Páll sá?

Í Biblíunni getur „himinn“ merkt bókstaflegan himin. (1. Mós. 11:4; 27:28; Matt. 6:26) En hann getur líka merkt annað. Stundum merkir hann stjórnir manna. (Dan. 4:17-19) Hann getur einnig merkt himneska stjórn, eins og stjórn Guðsríkis. – Opinb. 21:1.

Páll sá ,þriðja himin‘. Hvað átti hann við með því? Stundum er eitthvað endurtekið þrisvar sinnum í Biblíunni í áhersluskyni eða til að auka vægi þess sem sagt er. (Jes. 6:3; Esek. 21:32; Opinb. 4:8) Það lítur út fyrir að þegar Páll var að tala um ,þriðja himin‘ hafi hann verið að leggja áherslu á stjórn sem er háleit og í hæsta gæðaflokki – Messíasarríkið undir stjórn Jesú og 144.000 meðstjórnenda hans. (Sjá bókina Insight on the Scriptures, 1. bindi, bls. 1059, 1062.) Pétur postuli átti við þetta ríki þegar hann sagði að við væntum „nýs himins“ sem Guð hefur lofað. – 2. Pét. 3:13.

En hvaða „Paradís“ var Páll að tala um?

Orðið „paradís“ getur sömuleiðis haft ýmsa merkingu: (1) Miðað við upprunalegt heimili mannsins getur „paradís“ vísað til bókstaflegu paradísarinnar sem verður á jörðinni. (2) Hún getur vísað til þess einstaka friðar sem þjónar Guðs munu búa við í nýja heiminum. (3) Hún getur vísað til þeirra ánægjulegu aðstæðna sem ríkja á himnum í „Paradís Guðs“ sem sagt er frá í Opinberunarbókinni 2:7. – Sjá Varðturninn 15. júlí 2015, bls. 8, gr. 8.

Mögulega var Páll að tala um allar þrjár hliðar paradísarinnar þegar hann lýsir reynslu sinni í 2. Korintubréfi 12:3, 4.

Í stuttu máli sagt:

,Þriðji himinninn,‘ sem minnst er á í 2. Korintubréfi 12:2, er líklega Messíasarríkið í höndum Jesú Krists og hinna 144.000, það er að segja hinn ,nýi himinn‘. – 2. Pét. 3:13.

Það er ,þriðji himinn‘ vegna þess að stjórn þessa ríkis er háleit og í hæsta gæðaflokki.

,Paradísin,‘ sem Páll var „hrifinn upp í“ í vitrun, vísar líklega til (1) bókstaflegu paradísarinnar sem verður á jörð, (2) andlegu paradísarinnar sem verður víðtækari en sú andlega paradís sem við búum við núna og (3) ,Paradísar Guðs‘ á himni sem verður við lýði á sama tíma í nýja heiminum.

Nýi heimurinn samanstendur því bæði af nýja himninum og nýju jörðinni. Hann verður ný heimsskipan þar sem himneskt ríki Guðs fer með völd og mannkynið þjónar Guði í paradís á jörð.