Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Unglingar, þið getið átt innihaldsríkt líf

Unglingar, þið getið átt innihaldsríkt líf

„Kunnan gerðir þú mér veg lífsins.“ – SÁLM. 16:11.

SÖNGVAR: 133, 89

1, 2. Hvernig sýnir saga Tonys að hægt er að gera breytingar á lífi sínu?

TONY var enn í gagnfræðaskóla og um það bil að gefast upp á náminu. Hann átti ekki pabba og hafði lítinn áhuga á skólanáminu. Um helgar var hann mikið með vinum sínum og fór oft í bíó. Hann var hvorki ofbeldishneigður né háður fíkniefnum. En hann hafði ekkert markmið í lífinu. Og hann efaðist um tilvist Guðs. Þá hitti hann hjón sem voru vottar Jehóva og ræddi við þau um spurningar sínar og efasemdir. Þau gáfu honum tvo bæklinga: Var lífið skapað? og The Origin of Life – Five Questions Worth Asking.

2 Þegar hjónin hittu Tony aftur hafði hugarfar hans breyst. Hann var búinn að lesa bæklingana svo rækilega að þeir voru orðnir snjáðir og slitnir. Hann sagði: „Það hlýtur að vera til Guð.“ Hann þáði biblíunámskeið og smám saman breyttist viðhorf hans til lífsins. Hann bætti sig líka til muna í skólanáminu og varð einn besti nemandi skólans. Jafnvel skólastjórinn, sem vissi af því að Tony hafði fundið nýja trú, var undrandi. „Þér hefur farið heilmikið fram, bæði í einkunnum og framkomu,“ sagði hann. „Er það vegna þess að þú ert farinn að umgangast votta Jehóva?“ Tony svaraði játandi og vitnaði síðan fyrir skólastjóranum. Hann kláraði skólann með góðum árangri og er núna brautryðjandi og safnaðarþjónn. Hann gleðst líka yfir að eiga yndislegan föður, Jehóva. – Sálm. 68:6.

ÞÉR FARNAST VEL EF ÞÚ HLÝÐIR JEHÓVA

3. Hvað hvetur Jehóva unglinga til að gera?

3 Reynsla Tonys minnir á hve annt Jehóva er um ykkur unglingana á meðal okkar. Hann vill að þið eigið ánægjulegt líf og njótið velgengni. Þess vegna gefur hann þetta ráð: „Mundu eftir skapara þínum á unglingsárum þínum.“ (Préd. 12:1) Í heimi nútímans er það ekki alltaf auðvelt. En það er alls ekki ómögulegt. Með hjálp Guðs getur þér farnast vel, ekki aðeins á meðan þú ert unglingur heldur alla ævi. Til að skilja það betur skulum við íhuga hvað við getum lært af því hvernig Ísraelsmenn lögðu undir sig fyrirheitna landið og hvernig Davíð sigraði Golíat.

4, 5. Hvaða verðmæta lærdóm getum við dregið af sigri Ísraelsmanna yfir Kanverjum og bardaga Davíðs og Golíats? (Sjá myndir í upphafi greinar.)

4 Þegar Ísraelsmenn nálguðust fyrirheitna landið sagði Guð þeim ekki að þjálfa sig í hermennsku eða bardagatækni. (5. Mós. 28:1, 2) Hann sagði öllu heldur að þeir þyrftu að hlýða boðum hans og treysta honum. (Jós. 1:7-9) Frá mannlegum sjónarhóli virtist ekkert vit í þessum ráðum. En þetta voru samt bestu ráðin því að Jehóva gaf þeim hvern sigurinn á fætur öðrum yfir Kanverjum. (Jós. 24:11-13) Það útheimtir vissulega trú að hlýða Jehóva. Það hefur þó alltaf verið til farsældar og verður það alltaf.

5 Golíat var mikill stríðsmaður, tæpir þrír metrar á hæð og vel vopnum búinn. (1. Sam. 17:4-7) Davíð var hins vegar bara með slöngvu og treysti á Jehóva, Guð sinn. Davíð virtist heimskur í augum þeirra sem skorti trú. En þeir höfðu kolrangt fyrir sér. Golíat var sá heimski. – 1. Sam. 17:48-51.

6. Hvað skoðum við í þessari grein?

6 Í síðustu grein var rætt um fernt sem stuðlar að hamingju og velgengni. Það er: Að sinna andlegu þörfinni, meta að verðleikum vinina sem Guð gefur okkur, setja okkur verðug markmið og varðveita frelsið sem Guð gefur þjónum sínum. Nú skulum við kanna þetta enn betur með því að skoða nokkrar meginreglur í Sálmi 16.

SINNTU ANDLEGU ÞÖRFINNI

7. (a) Hvernig lýsirðu andlega sinnuðum manni? (b) Hvert var „hlutskipti“ Davíðs og hvaða áhrif hafði það á hann?

7 Sá sem er andlega sinnaður treystir á Guð og reynir að líta hlutina sömu augum og hann. Hann leitar leiðsagnar Guðs og er staðráðinn í að hlýða honum. (1. Kor. 2:12, 13) Davíð er gott dæmi um andlega sinnaðan mann. Hann söng: „Drottinn, þú ert hlutskipti mitt og minn afmældi bikar.“ (Sálm. 16:5) „Hlutskipti“ Davíðs var meðal annars að eiga náið samband við Jehóva, sem hann leitaði hælis hjá. (Sálm. 16:1) Þar af leiðandi gat hann sagt: „Hugur minn gleðst.“ Ekkert gladdi Davíð meira en að eiga innilegt samband við Jehóva. – Lestu Sálm 16:9, 11.

8. Hvað stuðlar að ánægjulegu og innihaldsríku lífi?

8 Þeir sem láta líf sitt snúast um efnislega hluti og að skemmta sér finna ekki gleðina sem Davíð naut. (1. Tím. 6:9, 10) Bróðir í Kanada segir: „Sönn ánægja stafar ekki af því sem maður getur sjálfur fengið út úr lífinu heldur af því sem maður getur gefið Jehóva, honum sem sérhver góð gjöf er frá.“ (Jak. 1:17) Ef þú styrkir trú þína á Jehóva og þjónar honum verður líf þitt ánægjulegt og innihaldsríkt. Hvernig geturðu styrkt trúna? Þú þarft að verja tíma með Jehóva með því að lesa í orði hans, skoða sköpunarverkið og hugsa um góða eiginleika hans eins og til dæmis kærleikann til þín. – Rómv. 1:20; 5:8.

9. Hvernig getum við látið orð Guðs móta okkur?

9 Kærleikur Guðs til okkar birtist stundum í því að hann leiðréttir okkur líkt og faðir myndi gera. Davíð tók fúslega við slíkri leiðréttingu. Hann sagði: „Ég lofa Drottin sem gefur mér ráð, jafnvel um nætur er ég áminntur hið innra.“ (Sálm. 16:7) Davíð leyfði Jehóva að móta sig með því að hugleiða hvernig hann hugsar um málin og tileinka sér sama hugarfar. Kærleikur þinn til Jehóva og löngunin til að hlýða honum eykst ef þú ferð að fordæmi Davíðs. Þá styrkist og þroskast þinn andlegi maður. Systir, sem heitir Christin, segir: „Þegar ég rannsaka og hugleiði það sem ég les finnst mér að Jehóva hafi látið skrifa efnið sérstaklega fyrir mig.“

10. Hvaða kosti hefur það að vera andlega sinnaður, samanber Jesaja 26:3?

10 Ef þú ert andlega sinnaður geturðu séð heiminn og framtíðina frá sjónarhóli Guðs því að hann gefur þér einstaka þekkingu og innsæi. Hvers vegna gerir hann það? Hann vill að þú forgangsraðir viturlega, takir skynsamlegar ákvarðanir og getir horft til framtíðarinnar af öryggi. (Lestu Jesaja 26:3.) Bróðir að nafni Joshua, sem býr í Bandaríkjunum, segir: „Að halda sig þétt við Jehóva hjálpar okkur að sjá hlutina í réttu ljósi.“ Það eru orð að sönnu!

VELDU ÞÉR SANNA VINI

11. Hvernig valdi Davíð sér vini?

11 Lestu Sálm 16:3Davíð vissi hvernig hann gat eignast sanna vini. Hann hafði „alla velþóknun“ á félagsskap við þá sem elskuðu Jehóva. Þeir voru siðferðilega hreinir og því kallaðir ,hinir heilögu‘. Annar sálmaritari var á sama máli um val sitt á vinum. Hann skrifaði: „Ég er vinur allra sem óttast þig og halda fyrirmæli þín.“ (Sálm. 119:63) Eins og rætt var um í síðustu grein getur þú líka eignast marga góða vini meðal þeirra sem óttast Jehóva og hlýða honum. Og þeir geta að sjálfsögðu verið á mismunandi aldri.

12. Á hverju byggðist vinátta Davíðs og Jónatans?

12 Sálmaritarinn Davíð átti ekki bara vini sem voru jafnaldrar hans. Geturðu nefnt einhvern af nánustu vinum Davíðs? Jónatan var einn af þeim. Vinátta þeirra er ein sú fallegasta sem við lesum um í Biblíunni. En vissirðu að Jónatan var um 30 árum eldri en Davíð? Á hverju byggðist vinátta þeirra? Hún byggðist á trú á Guð, gagnkvæmri virðingu og því hve mikils þeir mátu hugrekki hvor annars þegar þeir börðust gegn óvinum Guðs. – 1. Sam. 13:3; 14:13; 17:48-50; 18:1.

13. Hvernig geturðu eignast fleiri vini? Nefndu dæmi.

13 Líkt og Davíð og Jónatan höfum við „alla velþóknun“ á því að eignast vini sem elska Jehóva og treysta á hann. Kiera hefur þjónað Jehóva í mörg ár. Hún segir: „Ég hef eignast vini víðs vegar að úr heiminum, af ólíkum uppruna og menningu.“ Ef þú stækkar vinahópinn á þennan hátt finnurðu vel fyrir sameinandi áhrifum Biblíunnar og anda Guðs.

SETTU ÞÉR VERÐUG MARKMIÐ

14. (a) Hvað getur hjálpað þér að setja þér verðug markmið? (b) Hvað hefur sumt ungt fólk sagt um markmið sín í þjónustu Jehóva?

14 Lestu Sálm 16:8Davíð lét líf sitt snúast um að þjóna Guði. Ef þú lætur þjónustuna við Jehóva hafa forgang líkt og Davíð og hefur Jehóva í huga þegar þú setur þér markmið verður líf þitt innihaldsríkt. Bróðir að nafni Steven sagði: „Það veitir mér ánægju að vinna að ákveðnu markmiði, ná því og sjá síðan hvaða framförum ég hef tekið.“ Ungur bróðir frá Þýskalandi, sem starfar núna í öðru landi, segir: „Þegar ég verð gamall langar mig ekki til að líta um öxl og komast að því að líf mitt snerist bara um sjálfan mig.“ Vonandi ertu á sama máli. Ef svo er skaltu nota hæfileika þína til að heiðra Guð og aðstoða aðra. (Gal. 6:10) Settu þér markmið í þjónustu Jehóva og biddu hann að hjálpa þér að ná þeim. Hann hefur yndi af því að svara slíkum bænum. – 1. Jóh. 3:22; 5:14, 15.

15. Hvaða markmið geturðu sett þér? (Sjá rammann „Nokkur góð markmið“.)

15 Hvaða markmið geturðu sett þér? Til dæmis að svara með eigin orðum á samkomum, verða brautryðjandi eða starfa á Betel. Þú gætir líka lært nýtt tungumál með það markmið að starfa með erlendum söfnuði. Barak er ungur bróðir sem þjónar Jehóva í fullu starfi. Hann segir: „Það jafnast ekkert á við þá tilfinningu að vakna á hverjum morgni vitandi að maður notar alla krafta sína í að þjóna Jehóva.“

VARÐVEITTU FRELSIÐ SEM GUÐ GEFUR ÞÉR

16. Hvað fannst Davíð um réttláta staðla Jehóva og hvers vegna?

16 Lestu Sálm 16:2, 4Réttlát lög Guðs og meginreglur hans frelsa okkur eins og rætt var í síðustu grein. Þau kenna okkur að elska hið góða og hata hið illa. (Amos 5:15) Davíð sagði við Jehóva: „Ég á engin gæði nema þig.“ Orðið, sem er þýtt „gæði“, felur einnig í sér siðferðilegt ágæti, eða dyggð. Davíð lagði sig fram um að líkja eftir Jehóva og elska það sem hann elskar. Hann lærði líka að hata það sem er slæmt í augum Jehóva, þar á meðal skurðgoðadýrkun, en hún gerir lítið úr mönnum og rænir Jehóva heiðrinum sem hann á skilið að fá. – Jes. 2:8, 9; Opinb. 4:11.

17, 18. (a) Hvað sagði Davíð um afleiðingar falsguðadýrkunar? (b) Hvað veldur fólki nú á tímum ,miklum þjáningum‘?

17 Á biblíutímanum var gróft kynferðislegt siðleysi oft hluti af falsguðadýrkun. (Hós. 4:13, 14) Þess konar tilbeiðsla höfðaði til syndugra tilhneiginga holdsins en hafði ekki varanlega hamingju í för með sér. Davíð sagði öllu heldur: „Miklar eru þjáningar þeirra sem elta aðra guði.“ Falsguðadýrkendurnir ollu einnig fjölda barna ómældum þjáningum. (Jes. 57:5) Jehóva hafði andstyggð á grimmd þeirra. (Jer. 7:31) Þú hefðir án efa verið mjög þakklátur foreldrum þínum fyrir að trúa á Jehóva og hlýða honum ef þú hefðir lifað á þessum tíma.

18 Enn þann dag í dag láta falstrúarbrögð kynferðislegt siðleysi oft viðgangast, jafnvel líferni samkynhneigðra. Þó að menn telji sig njóta frelsis í siðferðismálum eru afleiðingarnar í raun og veru þær sömu og á biblíutímanum. (1. Kor. 6:18, 19) Þú hefur kannski tekið eftir að ,þjáningar þeirra eru miklar‘. Unglingar, hlustið því á himneskan föður ykkar. Þið megið vera vissir um að það er ykkur fyrir bestu að hlýða honum. Munið að skaðinn, sem hlýst af syndinni, er miklu meiri en hver sú stundlega ánægja sem menn kunna að hafa af henni. (Gal. 6:8) Joshua, sem vitnað var í fyrr í greininni, segir: „Við getum notað frelsið eins og við viljum en það er ekkert ánægjulegt að misnota það.“

19, 20. Hvaða blessun bíður unglinga sem treysta á Jehóva og hlýða honum?

19 Jesús sagði fylgjendum sínum: „Ef þér farið eftir því sem ég segi eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gera yður frjálsa.“ (Jóh. 8:31, 32) Það felur í sér að vera frjáls undan falstrúarbrögðum, fáfræði og hjátrú. En ekki nóg með það. Eins og við höfum þegar séð gefur það að lokum „frelsið í dýrðinni með börnum Guðs“. (Rómv. 8:21) Þú getur nú þegar notið þessa frelsis að hluta til með því að fara eftir því sem Jesús kenndi. Þannig muntu „þekkja sannleikann“, ekki aðeins með því að fræðast um hann heldur með því að lifa eftir honum.

20 Unglingar, varðveitið frelsið sem Guð hefur gefið ykkur. Notið frelsið skynsamlega og leggið þannig góðan grunn að framtíð ykkar. Ungur bróðir sagði: „Að nota frelsið skynsamlega á unglingsárunum kemur að miklu gagni síðar þegar maður þarf að taka stærri ákvarðanir, eins og til dæmis að velja sér hentuga vinnu eða ákveða hvort maður ætlar að gifta sig eða vera einhleypur um tíma.“

21. Hvernig geturðu eignast „hið sanna líf“?

21 Í þessu gamla heimskerfi er jafnvel það sem kallast gott líf í besta falli stutt og ótraust. Við vitum ekki hvað gerist á morgun. (Jak. 4:13, 14) Það er því skynsamlegt að taka ákvarðanir sem hjálpa þér að eignast „hið sanna líf“ – eilífa lífið. (1. Tím. 6:19) Jehóva neyðir okkur að sjálfsögðu ekki til að þjóna sér. Það er undir okkur komið hvað við gerum. Láttu því Jehóva vera „hlutskipti“ þitt. Mettu að verðleikum ,gæðin‘ sem hann hefur gefið þér. (Sálm. 103:5) Og treystu því að Jehóva geti veitt þér „gleðignótt“ og hamingjuríkt líf að eilífu. – Sálm. 16:11.