Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

,Verið þakklát‘

,Verið þakklát‘

TELURÐU þig vera þakklátan? Það er gott að spyrja sig að því. Biblían sagði fyrir að á okkar dögum yrðu margir „vanþakklátir“. (2. Tím. 3:2) Þú hefur líklega hitt einhverja sem finnst þeir eiga allt inni hjá öðrum. Þeim finnst þeir ekki þurfa að sýna þakklæti fyrir eitt né neitt. Þér finnst líklega ekki gaman að umgangast slíkt fólk.

Þjónum Guðs er aftur á móti sagt að ,vera þakklátir‘. (Kól. 3:15) Það eru líka nokkrar ástæður fyrir því að það er gott fyrir okkur sjálf að temja okkur þakklæti.

ÞAKKLÆTI OG HEILBRIGÐ SJÁLFSMYND

Ein góð ástæða til að temja sér þakklæti er að það stuðlar að góðri sjálfsmynd. Sá sem þakkar fyrir sig er líklega sáttur við sjálfan sig. Og þeim sem fær þakkir líður líka vel af því. Hvers vegna gleður þakklæti á báða bóga? Lítum á dæmi: Þegar maður finnur að aðrir eru fúsir til að gera eitthvað fyrir mann hlýtur maður að vera talinn þess virði. Þeir láta sér annt um mann. Þegar maður finnur fyrir slíkri umhyggju eflist sjálfsmyndin. Það átti án efa við um Rut þegar Bóas sýndi henni örlæti. Hún var örugglega mjög glöð að finna að einhver skyldi láta sér annt um hana. – Rut. 2:10–13.

Það er sérstaklega vel við hæfi að vera þakklátur Guði. (1. Þess. 5:18) Þú hefur örugglega hugsað um þær mörgu andlegu og efnislegu gjafir sem hann hefur gefið og heldur áfram að gefa. (5. Mós. 8:17, 18; Post. 14:17) En í stað þess að hugsa aðeins stuttlega um gæsku Guðs væri gott að gefa sér góðan tíma til að hugleiða hvernig hann hefur blessað þig og fjölskyldu þína. Þegar þú hugleiðir örlæti skaparans eykst þakklæti þitt og þú finnur betur hve mikið hann elskar þig og metur. – 1. Jóh. 4:9.

En gerðu meira en að hugsa um örlæti Guðs og íhuga hvernig hann hefur blessað þig. Þakkaðu Jehóva fyrir gæsku hans. (Sálm. 100:4, 5) Sagt hefur verið að „tjáning þakklætis gegni mikilvægu hlutverki í hamingju fólks“.

ÞAKKLÆTI STYRKIR VINÁTTUBÖND

Önnur ástæða fyrir því að þakklæti gerir manni gott er að það styrkir vináttubönd. Við þurfum öll að finna að við séum metin. Þegar þú þakkar einhverjum af einlægni fyrir eitthvað gott sem hann gerir styrkist vinátta ykkar. (Rómv. 16:3, 4) Þeir sem eru þakklátir eru þar að auki líklegri til að vera hjálpsamir. Þeir taka eftir góðvild sem aðrir sýna þeim og það hvetur þá til að vera góðir við aðra. Hjálpsemi stuðlar að hamingju, rétt eins og Jesús sagði: „Það er ánægjulegra að gefa en þiggja.“ – Post. 20:35.

Robert Emmons, meðstjórnandi rannsóknarverkefnis um þakklæti sem var unnið í Kaliforníuháskóla, sagði: „Til að geta verið þakklátur þarf maður að skilja samspilið á milli þess að vera gefandi og þiggjandi.“ Staðreyndin er sú að líf okkar er á margan hátt öðrum háð. Til dæmis sjá aðrir okkur kannski fyrir mat eða læknisþjónustu. (1. Kor. 12:21) Sá sem er þakklátur kann greinilega að meta það sem aðrir gera fyrir hann. Hefur þú tamið þér að tjá öðrum þakklæti fyrir það sem þeir gera fyrir þig?

ÞAKKLÆTI OG VIÐHORF TIL LÍFSINS

Enn önnur ástæða til að temja sér þakklæti er að það auðveldar manni að sjá það jákvæða frekar en það neikvæða. Hugurinn er að vissu leyti eins og sía. Hann gerir manni kleift að einbeita sér að einu og loka á annað. Ef maður er þakklátur sér maður frekar það sem er jákvætt og hugsar minna um vandamál. Og því þakklátari sem maður er því meira sér maður af því góða, sem gerir mann síðan enn þakklátari. Ef maður einblínir á það sem maður er þakklátur fyrir er auðveldara að fara eftir hvatningu Páls: „Verið alltaf glöð í Drottni.“ – Fil. 4:4.

Þakklæti vinnur á móti neikvæðni. Það er mjög erfitt að vera öfundsjúkur, dapur eða gramur um leið og maður er þakkátur. Þakklátt fólk er líka síður upptekið af efnislegum hlutum. Það er ánægt með það sem það á og ekki upptekið af að eignast meira. – Fil. 4:12.

HUGSAÐU UM ALLT ÞAÐ GÓÐA SEM ÞÚ ÁTT

Þar sem þú ert vottur Jehóva veistu að Satan vill að þú verðir niðurdreginn og kjarklaus yfir erfiðleikum sem þú þarft að þola núna á síðustu dögum. Hann væri ánægður ef þú yrðir kvörtunarsamur og neikvæður. Með slíku hugarfari væri erfiðara fyrir þig að fá fólk til að hlusta á gleðifréttirnar. Þakklæti helst í hendur við ávöxt andans, þar með talda gleði yfir því sem Guð hefur gefið þér og trú á loforð hans. – Gal. 5:22, 23.

Sem þjónn Jehóva ertu sennilega sammála því sem sagt hefur verið í þessari grein um þakklæti. En þú veist jafnframt að þakklæti og bjartsýni kemur ekki af sjálfu sér. Láttu það samt ekki draga úr þér kjarkinn. Þú getur tileinkað þér þakklæti og viðhaldið því. Hvernig? Taktu þér tíma á hverjum degi til að hugsa um það sem þú getur verið þakklátur fyrir. Því meira sem þú gerir af því þeim mun tamara verður þér að sýna þakklæti. Þá verðurðu mun ánægðari en þeir sem einblína á erfiðleika lífsins. Hugsaðu um það þegar Guð og aðrir gera eitthvað gott sem veitir þér hvatningu og gleði. Þú getur jafnvel skrifað í dagbók á hverjum degi tvennt eða þrennt sem vekur með þér þakklæti.

Sumir sem hafa rannsakað málið segja: „Að sýna þakklæti á reglulegum grundvelli getur breytt því hvernig taugafrumur heilans mynda hugsanamynstur þannig að það verði auðveldara að hugsa jákvætt.“ Sá sem er þakklátur er hamingjusamur. Hugsaðu því um allt það góða sem þú átt, njóttu ánægjulegra augnablika og temdu þér þakklæti. Í stað þess að taka hinu góða í lífinu sem sjálfsögðum hlut skaltu ,þakka Drottni því að hann er góður‘. Já, ,vertu þakklátur‘. – 1. Kron. 16:34; Kól. 3:15.