Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Þýðir það sem Páll segir í 1. Korintubréfi 15:29 að sumir kristnir samtímamenn hans hafi látið skírast fyrir dáið fólk?

Nei. Það á sér hvorki stoð í Biblíunni né í sagnfræði.

Orðalag versins í mörgum biblíuþýðingum hefur fengið suma til að álykta að skírn fyrir dáið fólk hafi verið stunduð þegar Páll var uppi. Tökum dæmi: „Ef dauðir rísa alls ekki upp, hvers vegna láta menn þá skíra sig fyrir þá?“ – Biblían 2010.

En veitum athygli athugasemdum tveggja biblíufræðinga. Dr. Gregory Lockwood segir að sú hugmynd að skírast fyrir þá sem hafa dáið eigi sér hvorki stoð í sagnfræði né í Biblíunni. Prófessor Gordon D. Fee tekur í sama streng og segir að slík skírn eigi sér hvorki sögulegt né biblíulegt fordæmi, það sé hvergi minnst á hana í Nýja testamentinu og ekkert bendi til að hún hafi verið stunduð af frumkristnum mönnum eða í kirkjunum sem urðu til eftir dauða postulanna.

Biblían segir að fylgjendur Jesú eigi að ,gera fólk af öllum þjóðum að lærisveinum, skíra það og kenna því að halda öll fyrirmæli‘ hans. (Matt. 28:19, 20) Sá sem vildi verða skírður lærisveinn þurfti því að kynnast Jehóva og syni hans, trúa á þá og hlýða þeim. Einhver sem var dáinn gat ekki gert þetta og enginn kristinn maður á lífi gat gert það fyrir hann. – Préd. 9:5, 10; Jóh. 4:1; 1. Kor. 1:14–16.

Hvað átti Páll þá við?

Sumir Korintumenn höfnuðu því að dánir myndu rísa upp. (1. Kor. 15:12) Páll vísaði þessari skoðun á bug. Hann benti á að ,dauðinn blasti við sér á hverjum degi‘. En við þessar hættulegu aðstæður var hann samt fullviss um að hann myndi rísa upp sem voldug andavera þegar hann dæi, rétt eins og Jesús. – 1. Kor. 15:30–32, 42–44.

Korintumenn þurftu að gera sér grein fyrir því að andasmurning þeirra fæli í sér að standa daglega andspænis prófraunum og deyja áður en þeir gátu fengið upprisu. Þau sem voru „skírð til Krists Jesú“ voru því „skírð til dauða hans“. (Rómv. 6:3) Þessi táknræna skírn fól í sér lífshlaup sem myndi enda með dauða og upprisu til lífs á himni.

Meira en tveimur árum eftir að Jesús skírðist í vatni sagði hann við tvo af lærisveinum sínum: „Þið skuluð ... skírast skírninni sem ég skírist.“ (Mark. 10:38, 39) Hér er Jesús ekki að ræða um vatnsskírn. Hann átti við að trúfesti hans við Guð myndi hafa í för með sér að hann dæi að lokum. Páll skrifaði að þeir sem voru andasmurðir myndu ,þjást með honum til að geta einnig orðið dýrlegir með honum‘. (Rómv. 8:16, 17; 2. Kor. 4:17) Þeir þurftu að deyja til að fá upprisu til lífs á himni.

Eftirfarandi þýðing á því sem Páll sagði er þar af leiðandi nákvæm: „Hvað verður um þá sem láta skírast til þess að deyja ef hinir dánu rísa ekki upp? Og hvers vegna eru þeir á annað borð að láta skírast til að deyja?“