Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 49

Upprisan er örugg von

Upprisan er örugg von

,Ég hef þá von að Guð muni reisa upp bæði réttláta og rangláta.‘ – POST. 24:15.

SÖNGUR 151 Hann mun kalla

YFIRLIT *

1, 2. Hvaða dásamlegu von eiga þjónar Jehóva?

VON er okkur afar mikilvæg. Von sumra er fyrst og fremst að eiga farsælt hjónaband, ala upp heilbrigð börn eða ná sér eftir alvarleg veikindi. Við sem erum vottar erum kannski með svipaðar óskir. En sú von sem er okkur kærust nær lengra en það. Við vonumst til að lifa að eilífu og að sjá látna ástvini okkar fá líf á ný.

2 Páll postuli sagði: ,Ég hef þá von að Guð muni reisa upp bæði réttláta og rangláta.‘ (Post. 24:15) Páll var ekki fyrstur til að nefna vonina um upprisu. Ættfaðirinn Job gerði það líka. Hann var sannfærður um að Guð myndi minnast sín og reisa sig upp til lífs á ný. – Job. 14:7–10, 12–15.

3. Hvers vegna höfum við gagn af 15. kafla 1. Korintubréfs?

3 Kenningin um „upprisu dauðra“ er hluti af ,grunninum‘ eða ,byrjendafræðslunni‘ í trú kristinna manna. (Hebr. 6:1, 2) Páll ræðir um upprisuna í 15. kafla 1. Korintubréfs. Það sem hann skrifaði hlýtur að hafa verið uppörvandi fyrir kristna menn á fyrstu öld. Og þessi kafli uppörvar okkur og styrkir von okkar á upprisuna, sama hve lengi við höfum haft hana.

4. Hvers vegna getum við verið fullviss um að látnir ástvinir okkar verði reistir upp?

4 Upprisa Jesú Krists veitir okkur fullvissu um að látnir ástvinir okkar verði reistir upp á ný. Hún var hluti af fagnaðarboðskapnum sem Páll boðaði Korintumönnum. (1. Kor. 15:1, 2) Hann sagði meira að segja að ef kristinn maður tryði ekki á upprisuna væri trú hans til einskis. (1. Kor. 15:17) Trúin á upprisu Jesú er grunnurinn að von kristinna manna.

5, 6. Hvaða þýðingu hefur 1. Korintubréf 15:3, 4 fyrir okkur?

5 Páll nefndi þrjár staðreyndir snemma í umræðu sinni um upprisuna. Þær eru: 1. „Kristur dó fyrir syndir okkar.“ 2. „Hann var grafinn.“ 3. Hann var „reistur upp á þriðja degi eins og segir í Ritningunum“. – Lestu 1. Korintubréf 15:3, 4.

6 Hvaða þýðingu hefur það fyrir okkur að Jesús dó, var grafinn og síðan reistur upp? Jesaja spámaður sagði fyrir að Messías yrði „hrifinn burt af landi lifenda“ og honum búin „gröf meðal guðlausra“. En það er ekki allt og sumt. Jesaja sagði einnig að Messías myndi bera „synd margra“. Jesús gerði það þegar hann gaf líf sitt sem lausnargjald. (Jes. 53:8, 9, 12; Matt. 20:28; Rómv. 5:8) Það að Jesús dó, var grafinn og reistur upp gefur okkur því trausta von um að vera leyst undan synd og dauða og hitta aftur ástvini okkar sem hafa dáið.

VITNISBURÐUR MARGRA

7, 8. Hvað sannfærir kristna menn um að Jesús hafi verið reistur upp?

7 Upprisuvon okkar er nátengd upprisu Jesú og þess vegna þurfum við að vera viss um að Jesús hafi verið reistur upp. Hvers vegna getum við verið viss um að Jehóva hafi reist Jesú upp?

8 Margir sáu Jesú eftir að hann var reistur upp og sögðu frá því. (1. Kor. 15:5–7) Fyrsti sjónarvotturinn sem Páll nefndi var Pétur postuli (Kefas). Hópur lærisveina staðfesti að Pétur hefði séð Jesú upprisinn. (Lúk. 24:33, 34) Jesús birtist einnig „þeim tólf“, postulunum, eftir upprisu sína. „Eftir það birtist hann meira en 500 lærisveinum í einu.“ Ef til vill var það á ánægjulega viðburðinum í Galíleu sem er talað um í Matteusi 28:16–20. Jesús birtist líka Jakobi hálfbróður sínum sem trúði ekki áður að Jesús væri Messías. (Jóh. 7:5) Eftir að Jakob sá Jesú upprisinn var hann sannfærður. Athyglisvert er að þegar Páll skrifaði þetta bréf í kringum árið 55 voru margir sjónarvottanna enn á lífi þannig að sá sem efaðist gat talað við sjónarvottana sjálfa.

9. Hvernig sýnir Postulasagan 9:3–5 að Páll gat einnig borið því vitni að Jesús væri upprisinn?

9 Seinna birtist Jesús Páli sjálfum. (1. Kor. 15:8) Páll (Sál) var á leið til Damaskus þegar hann heyrði rödd hins upprisna Jesú og sá hann í sýn á himnum. (Lestu Postulasöguna 9:3–5.) Reynsla Páls var enn ein sönnun fyrir því að Jesús væri upprisinn. – Post. 26:12–15.

10. Hvað fékk sannfæring Páls um að Jesús væri risinn upp hann til að gera?

10 Vitnisburður Páls var sérstaklega eftirtektarverður fyrir suma því að hann hafði áður ofsótt kristna menn. Eftir að Páll sannfærðist um að Jesús hefði verið reistur upp lagði hann sig allan fram um að sannfæra aðra um það. Hann þurfti að þola barsmíðar, fangavist og skipbrot þegar hann boðaði sannleikann um að Jesús hefði dáið en væri á lífi á ný. (1. Kor. 15:9–11; 2. Kor. 11:23–27) Páll var svo sannfærður um að Jesús hefði verið reistur upp frá dauðum að hann var tilbúinn að láta lífið til að verja trú sína. Sannfærir ekki vitnisburður frumkristinna manna þig um að Jesús hafi verið reistur upp frá dauðum? Og styrkir hann ekki trú þína á upprisuna?

PÁLL LEIÐRÉTTI RANGAR HUGMYNDIR

11. Hver gæti verið ástæðan fyrir því að sumir í söfnuðinum í Korintu höfðu rangar hugmyndir um upprisuna?

11 Sumir í grísku borginni Korintu höfðu rangar hugmyndir um upprisuna og héldu því jafnvel fram að „dauðir rísi ekki upp“. Hvers vegna? (1. Kor. 15:12) Heimspekingar í Aþenu, annarri grískri borg, höfðu hæðst að þeirri hugmynd að Jesús væri upprisinn. Það getur hafa haft áhrif á einhverja í Korintu. (Post. 17:18, 31, 32) Aðrir hafa kannski hugsað um upprisuna í óeiginlegri merkingu, að sá sem hafði verið „dauður“ vegna syndar væri nú „lifandi“ sem kristinn maður. Hvernig sem stóð á því að sumir kristnir menn höfnuðu upprisunni var trú þeirra til einskis. Ef Guð reisti Jesú ekki upp var ekki búið að greiða lausnargjaldið og enginn hafði fengið syndir sínar fyrirgefnar. Þeir sem trúðu ekki á upprisuna höfðu þá í raun enga von. – 1. Kor. 15:13–19; Hebr. 9:12, 14.

12. Hvernig var upprisa Jesú ólík fyrri upprisum samanber 1. Pétursbréf 3:18, 22?

12 Páll vissi af eigin reynslu að „Kristur [var] risinn upp frá dauðum“. Upprisa Jesú var fremri upprisu þeirra sem höfðu áður verið reistir upp til lífs á jörðinni og dóu síðan aftur. Páll sagði að Jesús væri „frumgróði þeirra sem eru dánir“. Í hvaða skilningi var Jesús fyrstur? Hann var sá fyrsti sem var reistur upp sem andavera og fyrsti maðurinn sem fór til himna. – 1. Kor. 15:20; Post. 26:23; lestu 1. Pétursbréf 3:18, 22.

ÞEIR SEM ,VERÐA LÍFGAÐIR‘

13. Hvernig bar Páll Adam og Jesú saman?

13 Hvernig gat dauði eins manns gefið milljónum manna líf? Páll færði skýr rök fyrir því. Hann bar saman það sem Adam leiddi yfir mannkynið og þann möguleika sem Kristur opnaði. Páll skrifaði um Adam: „Dauðinn kom vegna manns.“ Adam leiddi ógæfu yfir sjálfan sig og afkomendur sína þegar hann syndgaði. Við finnum enn fyrir hörmulegum afleiðingum óhlýðni hans. Við getum hins vegar átt bjarta framtíð vegna þess að Guð reisti son sinn upp! ,Upprisa dauðra kemur líka vegna manns‘, Jesú. „Eins og allir deyja vegna sambands síns við Adam,“ sagði Páll, „verða líka allir lífgaðir vegna sambands síns við Krist.“ – 1. Kor. 15:21, 22.

14. Verður Adam reistur upp? Skýrðu svarið.

14 Hvað átti Páll við þegar hann sagði: „Allir deyja vegna sambands síns við Adam“? Hann átti við alla afkomendur Adams því að þeir hafa erft synd og ófullkomleika frá honum og þess vegna deyja þeir. (Rómv. 5:12) Adam er ekki meðal þeirra sem ,verða lífgaðir‘. Adam nýtur ekki góðs af lausnargjaldi Krists því að hann var fullkominn maður og óhlýðnaðist Guði af ásettu ráði. Hlutskipti Adams er það sama og þeirra sem Mannssonurinn mun dæma sem ,geitur‘, það er að segja „eilífur dauði“. – Matt. 25:31–33, 46; Hebr. 5:9.

Jesús var fyrstur af mörgum til að vera reistur upp frá dauðum til lífs á himnum. (Sjá 15. og 16. grein.) *

15. Hverjir eru meðal ,allra‘ sem ,verða lífgaðir‘?

15 Taktu eftir að Páll sagði að „allir [yrðu] lífgaðir vegna sambands síns við Krist“. (1. Kor. 15:22) Páll skrifaði bréf sitt til andasmurðra kristinna manna í Korintu sem yrðu reistir upp til lífs á himnum. Þeir ,voru helgaðir til að vera sameinaðir Kristi Jesú og kallaðir til að vera heilagir‘. Og hann minntist á þá „sem eru dánir sem lærisveinar Krists“. (1. Kor. 1:2; 15:18; 2. Kor. 5:17) Í öðru bréfi í Biblíunni skrifaði Páll að þeir sem höfðu „sameinast [Jesú] með því að deyja eins og hann“ myndu ,sameinast honum með því að rísa upp eins og hann‘. (Rómv. 6:3–5) Jesús var reistur upp sem andavera og fór til himna. Það verður því hlutskipti allra andasmurðra lærisveina Krists.

16. Hvað gaf Páll í skyn með því að kalla Jesú ,frumgróða‘?

16 Páll sagði að Kristur hefði verið reistur upp sem „frumgróði þeirra sem eru dánir“. Hafðu í huga að aðrir, svo sem Lasarus, höfðu verið reistir upp til lífs á jörðinni. En Jesús var sá fyrsti sem hafði nokkurn tíma verið reistur upp frá dauðum sem andavera og til að fá eilíft líf. Það var hægt að líkja honum við frumgróða uppskerunnar sem Ísraelsmenn færðu Guði. Með því að kalla Jesú ,frumgróða‘ gaf Páll auk þess í skyn að fleiri yrðu reistir upp frá dauðum til lífs á himnum. Postularnir og aðrir andasmurðir „lærisveinar Krists“ myndu á sínum tíma verða reistir upp til lífs á himnum eins og Jesús.

17. Hvenær áttu andasmurðir „lærisveinar Krists“ að hljóta himnesk laun sín?

17 Upprisa ,lærisveina Krists‘ til himna var ekki hafin þegar Páll skrifaði Korintumönnum. Páll vísaði fram í tímann þegar hann sagði: „Hver í sinni röð: Kristur er frumgróðinn og síðan, meðan hann er nærverandi, koma þeir sem tilheyra honum.“ (1. Kor. 15:23; 1. Þess. 4:15, 16) Núna lifum við á þeim tíma sem Kristur er „nærverandi“. Postularnir og aðrir andasmurðir kristnir menn sem dóu þurftu að bíða þess að hann yrði nærverandi til hljóta himnesk laun sín og ,sameinast Jesú með því að rísa upp eins og hann‘.

VON OKKAR ER ÖRUGG!

18. (a) Hvað sýnir að önnur upprisa kemur á eftir þeirri himnesku? (b) Hvaða framvinda mun eiga sér stað á himni samkvæmt 1. Korintubréfi 15:24–26?

18 En hvað um alla þá trúu þjóna Guðs sem hafa ekki þá von að lifa á himnum með Kristi? Þeir eiga líka von um upprisu. Í Biblíunni segir að Páll og aðrir sem fara til himna hljóti „fyrri upprisuna frá dauðum“. (Fil. 3:11) Það bendir til að önnur upprisa hafi átt að verða síðar. Það samræmist því sem Job sagði um framtíð sína. (Job. 14:15) ,Þeir sem tilheyra Kristi meðan hann er nærverandi‘ verða með Jesú á himnum þegar hann gerir að engu allar stjórnir, yfirvöld og máttarvöld. Jafnvel dauðinn, sem er „síðasti óvinurinn“, verður gerður að engu. Dauðinn sem mannkynið fékk í arf mun aldrei aftur plaga þá sem eru reistir upp til himna. En hvað um aðra? – Lestu 1. Korintubréf 15:24–26.

19. Hverju mega þjónar Guðs sem hafa ekki himneska von búast við?

19 Hverju mega þeir sem hafa jarðneska von búast við? Þeir geta byggt von sína á orðum Páls: ,Ég hef þá von að Guð muni reisa upp bæði réttláta og rangláta.‘ (Post. 24:15) Það fer auðvitað enginn ranglátur til himna. Þessi orð hljóta því að eiga við upprisu á jörðinni í framtíðinni.

Við getum litið framtíðina björtum augum ef við trúum á upprisuna. (Sjá 20. grein.) *

20. Hvernig hefur upprisuvon þín styrkst?

20 Það er enginn vafi á að það verður upprisa. Þeir sem verða reistir upp til lífs á ný á jörðinni eiga í vændum eilíft líf. Við getum treyst því loforði. Þessi von getur hughreyst okkur þegar við hugsum til látinna ástvina. Þeir verða reistir upp frá dauðum þegar Kristur og fleiri „ríkja sem konungar ... í 1.000 ár.“ (Opinb. 20:6) Við getum líka treyst því að ef við skyldum deyja fyrir þúsundáraríkið er framtíð okkar örugg. „Vonin bregst okkur ekki.“ (Rómv. 5:5) Hún getur veitt okkur styrk núna og aukið gleði okkar í þjónustunni við Guð. En við getum lært meira af 15. kafla 1. Korintubréfs eins og við sjáum í næstu grein.

SÖNGUR 147 Loforð um eilíft líf

^ gr. 5 Í 15. kafla 1. Korintubréfs er rætt um upprisuna. Hvers vegna skiptir hún okkur miklu máli? Og hvers vegna getum við verið viss um að Jesús hafi verið reistur upp? Þessum spurningum er svarað í greininni ásamt öðrum mikilvægum spurningum um upprisuna.

^ gr. 56 MYND: Jesús var sá fyrsti sem var reistur upp til himna. (Post. 1:9) Sumir lærisveina hans áttu eftir að fara til hans þangað. Á meðal þeirra voru Tómas, Jakob, Lýdía, Jóhannes, María og Páll.

^ gr. 58 MYND: Bróðir hefur misst ástkæra konu sína sem hann þjónaði Jehóva með lengi. Hann treystir því að hún verði reist upp til lífs á ný og hann heldur áfram að þjóna Jehóva trúfastlega.