Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Höldum áfram að þjóna Jehóva með gleði

Höldum áfram að þjóna Jehóva með gleði

HVER er ánægjulegasti dagurinn sem þú hefur upplifað? Var það þegar þú giftir þig eða þegar fyrsta barnið þitt fæddist? Eða var það dagurinn sem þú lést skírast til tákns um að þú hefðir vígt þig Jehóva? Það getur vel verið að þér finnist sá dagur vera þýðingarmesti og ánægjulegasti dagur lífs þíns. Auk þess gladdi það trúsystkini þín ósegjanlega að sjá þig sýna opinberlega að þú elskaðir Guð af öllu hjarta, sálu, huga og mætti. – Mark. 12:30.

Þú hefur áreiðanlega upplifað mikla gleði í þjónustu þinni við Jehóva frá því að þú skírðist. En sumir boðberar Guðsríkis hafa misst gleðina að einhverju leyti. Hvers vegna ætli það hafi gerst? Hvaða ástæður höfum við til að halda áfram að þjóna Jehóva með gleði?

HVERS VEGNA HAFA SUMIR MISST GLEÐINA?

Boðskapurinn um ríki Guðs veitir okkur mikla gleði. Hvers vegna? Vegna þess að Jehóva lofar að ríki hans bindi brátt enda á þennan illa heim og að nýr heimur hans gangi í garð. Í Sefanía 1:14 segir: „Í nánd er hinn mikli dagur Drottins, hann er í nánd og færist óðfluga nær.“ En ef við höfum þurft að bíða lengur en við bjuggumst við gæti það rænt okkur gleðinni og orðið til þess að við hægðum á okkur í heilagri þjónustu Guðs. – Orðskv. 13:12.

Að verja tíma með trúsystkinum hvetur okkur til að halda áfram að þjóna Jehóva með gleði. Það má líka vera að góð hegðun þjóna Jehóva hafi verið það sem laðaði okkur að sannri tilbeiðslu og varð til þess að við byrjuðum að þjóna honum af gleði. (1. Pét. 2:12) En hvað gæti gerst ef trúsystkini hlýtur ögun vegna þess að það hefur ekki farið eftir meginreglum Guðs? Slíkar aðstæður gætu dregið kjarkinn úr sumum í söfnuðinum og orðið til þess að þeir misstu gleðina.

Auglýsingaáróður er annað sem getur rænt okkur gleðinni. Satan notar heiminn til að reyna að telja okkur trú um að við þurfum að eignast hluti sem eru í raun óþarfir. Við þurfum því að hafa orð Jesú í huga. Hann sagði: „Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.“ (Matt. 6:24) Við getum ekki þjónað Jehóva með gleði og á sama tíma reynt að fá sem mest út úr heiminum.

,FÖGNUM YFIR GUÐI HJÁLPRÆÐIS OKKAR‘

Að þjóna Jehóva er ekki íþyngjandi fyrir þá sem elska hann. (1. Jóh. 5:3) Mundu að Jesús sagði: „Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ (Matt. 11:28-30) Að vera kristinn er upplífgandi og veitir gleði. Og í þjónustu Jehóva höfum við sannarlega margar ástæður til að gleðjast. Skoðum nú þrjár mikilvægar ástæður fyrir því að við getum ,fagnað yfir Guði hjálpræðis okkar‘. – Hab. 3:18.

Við þjónum hinum sæla Guði sem gaf okkur lífið. (Post. 17:28; 1. Tím. 1:11, Biblían 1912) Við gerum okkur grein fyrir að við eigum skapara okkar lífið að þakka. Þess vegna höldum við áfram að þjóna honum með gleði, óháð því hversu mörg ár eru liðin frá því að við skírðumst.

Héctor viðheldur gleðinni með því að hafa vonina um ríki Guðs ofarlega í huga og vera virkur í safnaðarlífinu.

Héctor var farandhirðir í 40 ár. Hann hefur enn ánægju af að þjóna Jehóva þrátt fyrir ,háa elli‘. (Sálm. 92:13-15) Eiginkona Héctors á við veikindi að stríða og fyrir vikið getur hann ekki gert eins mikið og hann vildi í þjónustu Guðs, en það hefur ekki dregið úr gleði hans. Hann segir: „Mér finnst sárt að horfa upp á konuna mína missa heilsuna smám saman og það hefur reynt á að annast hana. En ég hef ekki leyft því að ræna mig gleðinni í þjónustunni við hinn sanna Guð. Að vita að ég á líf mitt Jehóva að þakka, honum sem skapaði manninn í ákveðnum tilgangi, er næg ástæða til að elska hann heitt og þjóna honum af öllu hjarta. Til að missa ekki gleðina legg ég mig fram um að taka þátt í boðuninni að staðaldri og reyni að hafa vonina um ríki Guðs efst í huga.“

Jehóva hefur séð okkur fyrir lausnarfórninni sem gerir okkur kleift að lifa hamingjuríku lífi. „Svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“ (Jóh. 3:16) Trú á lausnarfórn Jesú, þessa kærleiksríku gjöf Guðs, gerir okkur kleift að fá syndir okkar fyrirgefnar og hljóta eilíft líf. Er það ekki góð ástæða til að vera þakklát? Ætti ekki þakklæti fyrir lausnargjaldið að vera okkur hvatning til að þjóna Jehóva með glöðu geði?

Bróðir að nafni Jesús einfaldaði líf sitt og þjónaði Jehóva með gleði í mörg ár.

Bróðir í Mexíkó að nafni Jesús sagði: „Ég var þræll vinnunnar. Stundum tók ég fimm vaktir í röð þó að ég hafi ekki verið skyldugur til þess. Ég gerði það bara peninganna vegna. Síðan kynntist ég Jehóva og því að hann gaf elskaðan son sinn í þágu mannkyns. Ég þráði heitt að þjóna honum. Ég vígði Jehóva því líf mitt og eftir 28 ár hjá sama fyrirtækinu ákvað ég að segja upp vinnunni og byrja sem brautryðjandi. Þannig hófst áralöng þjónusta mín við Jehóva en hún hefur veitt mér mikla gleði.“

Við berum ávöxt sem veitir gleði en ekki sorg. Manstu hvernig líf þitt var áður en þú kynntist Jehóva? Páll postuli minnti kristna menn í Róm á að þeir hafi eitt sinn verið „þrælar syndarinnar“ en ,þjónuðu nú réttlæti Guðs‘. Þeir báru ávöxt „til helgunar“ sem leiddi til eilífs lífs. (Rómv. 6:17-22) Við lifum líka eftir meginreglum Jehóva, laus við þá sorg sem stafar af siðferðilegum óhreinleika og ofbeldisfullri hegðun. Það er góð ástæða til að gleðjast!

„Ánægjulegustu ár lífs míns hafa verið þau sem ég hef varið í þjónustu Jehóva.“ – Jaime.

Tökum Jaime sem dæmi. Hann var trúlaus þróunarsinni og lagði stund á hnefaleika. Jaime fór að sækja samkomur og hreifst mjög af kærleikanum sem fólkið sýndi. Til að segja skilið við fyrri lífsstefnu þurfti Jaime að biðja Jehóva um að hjálpa sér að trúa á hann. „Smátt og smátt uppgötvaði ég að til væri kærleiksríkur faðir, miskunnsamur Guð,“ segir Jaime. „Það hefur verið mér vernd að fylgja réttlátum meginreglum Jehóva. Ef ég hefði ekki snúið við blaðinu væri ég kannski dáinn eins og sumir gömlu vina minna sem einnig stunduðu hnefaleika. Ánægjulegustu ár lífs míns hafa verið þau sem ég hef varið í þjónustu Jehóva.“

EKKI GEFAST UPP!

Hvernig ættum við að hugsa á meðan við bíðum eftir að þetta illa heimskerfi líður undir lok? Mundu að við ,sáum í andann‘ og munum ,uppskera eilíft líf‘. Þreytumst því ekki „að gera það sem gott er því að á sínum tíma munum við uppskera ef við gefumst ekki upp“. (Gal. 6:8, 9) Með hjálp Jehóva getum við haldið út. Gerum okkar ýtrasta til að rækta með okkur þá eiginleika sem við þurfum til að komast í gegnum ,þrenginguna miklu‘ og höldum áfram að þjóna Jehóva með gleði, jafnvel í erfiðleikum. – Opinb. 7:9, 13, 14; Jak. 1:2-4.

Við getum verið fullviss um að Jehóva launi okkur þolgæði okkar því að hann tekur vel eftir verki okkar og kærleikanum sem við sýnum honum og nafni hans. Ef við þjónum Jehóva áfram með gleði verður okkur eins innanbrjósts og sálmaskáldinu Davíð sem sagði: „Ég hef Drottin ætíð fyrir augum, þegar hann er mér til hægri handar hnýt ég ekki. Fyrir því fagnar hjarta mitt, hugur minn gleðst og líkami minn hvílist í friði.“ – Sálm. 16:8, 9.