Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Líktu eftir nánum vinum Jehóva

Líktu eftir nánum vinum Jehóva

„Drottinn sýnir þeim trúnað sem óttast hann.“ – SÁLM. 25:14.

SÖNGVAR: 106, 118

1-3. (a) Hvernig vitum við að við getum orðið vinir Guðs? (b) Um hverja er fjallað í þessari grein?

ABRAHAM er nefndur vinur Guðs þrisvar í Biblíunni. (2. Kron. 20:7; Jes. 41:8; Jak. 2:23) Reyndar er hann sá eini sem Biblían nefnir sérstaklega að hafi verið vinur Jehóva. Ber að skilja það svo að hann sé eini maðurinn sem hefur verið vinur Jehóva? Nei, því að sjá má af Biblíunni að við getum öll eignast vináttusamband við hann.

2 Í orði Guðs eru ótal frásögur af körlum og konum sem óttuðust Jehóva, trúðu á hann og urðu nánir vinir hans. (Lestu Sálm 25:14.) Þau tilheyra hinum mikla „fjölda votta“ sem Páll postuli minnist á. (Hebr. 12:1) Þessir ólíku einstaklingar voru allir vinir Guðs.

3 Lesum okkur til um þrjá nána vini Jehóva sem lýst er í innblásinni frásögn Biblíunnar. Þetta eru (1) unga ekkjan Rut frá Móab sem sýndi aðdáunarverða trúfesti, (2) Hiskía sem var réttlátur konungur í Júda og (3) María, móðir Jesú, sem var einstaklega auðmjúk kona. Hvernig urðu þau vinir Guðs og hvað getum við lært af þeim?

HÚN SÝNDI TRYGGÐ OG KÆRLEIKA

4, 5. Hvaða erfiðu ákvörðun þurfti Rut að taka og hvers vegna var hún erfið? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

4 Þrjár ekkjur eru staddar á vegi nokkrum á Móabssléttu. Þetta eru Naomí og tengdadætur hennar, þær Rut og Orpa. Sú síðastnefnda er snúin við heim til Móabs. Naomí er hins vegar ákveðin í að halda áfram för sinni til Ísraels, heimalands síns. Hvað gerir Rut? Hún þarf að taka ákvörðun, kannski mikilvægustu ákvörðun ævinnar. Ætlar hún að snúa heim til fólks síns í Móab eða fylgja Naomí, tengdamóður sinni, til Betlehem? – Rut. 1:1-8, 14.

5 Rut hefði auðveldlega getað hugsað sem svo að hún ætti nú fjölskyldu í Móab – móður og aðra ættingja sem gætu skotið yfir hana skjólshúsi og hjálpað henni að sjá fyrir sér. Hún var fædd og uppalin í Móab. Þar var menningarheimur hennar, móðurmál hennar og þjóð hennar. Naomí gat ekki boðið henni neitt slíkt í Betlehem. Hún hvatti meira að segja Rut til að vera um kyrrt í Móab. Naomí sá ekki fram á að geta útvegað tengdadætrum sínum eiginmenn eða heimili. Hvað gerir Rut? Orpa ákvað að fara aftur heim „til fólks síns og guðs síns“. (Rut. 1:9-15) Langaði Rut líka til að snúa aftur til falsguða þjóðar sinnar? Nei.

6. (a) Hvaða viturlegu ákvörðun tók Rut? (b) Hvers vegna talaði Bóas um að Rut hefði leitað verndar undir vængjum Jehóva?

6 Rut virðist hafa kynnst Jehóva, kannski af manni sínum eða Naomí. Jehóva var ekki eins og guðir Móabs. Rut vissi að hann verðskuldaði ást hennar og tilbeiðslu. En það eitt að þekkja Jehóva er ekki nóg. Rut þurfti að ákveða hvort hún ætlaði að tilbiðja hann. Hún tók skynsamlega ákvörðun. „Þitt fólk er mitt fólk og þinn guð er minn guð,“ sagði hún við Naomí. (Rut. 1:16) Okkur hlýnar um hjartarætur að hugsa til þess hve vænt henni þótti um Naomí, en ást hennar á Jehóva var ekki síður mikilvæg. Landeigandinn Bóas hrósaði henni síðar fyrir að leita verndar undir vængjum Jehóva. (Lestu Rutarbók 2:12.) Þetta myndmál minnir á hvernig ungi leitar skjóls undir sterkum vængjum móður sinnar. (Sálm. 36:8; 91:1-4) Jehóva verndaði Rut á sambærilegan hátt. Hann umbunaði henni fyrir trú hennar og hún sá aldrei eftir því að hafa ákveðið að þjóna honum.

7. Hvað getur hjálpað þeim sem hika við að vígjast Jehóva?

7 Margir kynnast Jehóva en hika við að leita skjóls hjá honum. Þeir veigra sér við að verða vígðir og skírðir þjónar hans. Hikarðu við að vígjast Jehóva? Hefurðu þá spurt þig hvers vegna? Allir lifandi menn þjóna einhverjum guði. (Jós. 24:15) Hvers vegna ekki að leita skjóls hjá eina guðinum sem er þess virði að þjóna? Að vígjast Jehóva er besta leiðin til að sýna að maður trúi á hann. Hann hjálpar þér að standa við vígsluheit þitt og standast hvaða erfiðleika sem verða á vegi þínum. Hann hjálpaði Rut að gera það.

HANN HÉLT SÉR FAST VIÐ JEHÓVA

8. Við hvaða aðstæður ólst Hiskía upp?

8 Hiskía var af allt öðrum uppruna en Rut. Hann tilheyrði þjóð sem var vígð Jehóva. En það lifðu ekki allir Ísraelsmenn samkvæmt því. Akas konungur, faðir Hiskía, er dæmi um það. Hann leiddi Júdamenn út í skurðgoðadýrkun og gekk svo langt að vanhelga musteri Jehóva í Jerúsalem. Það er erfitt að gera sér í hugarlund hvernig það hefur verið fyrir Hiskía að alast upp við þessar aðstæður. Sumir af bræðrum hans dóu með hryllilegum hætti. Þeir voru brenndir lifandi og færðir falsguði að fórn. – 2. Kon. 16:2-4, 10-17; 2. Kron. 28:1-3.

9, 10. (a) Hvers vegna hefði Hiskía getað orðið bitur? (b) Hvers vegna ættum við ekki að verða bitur út í Guð? (c) Hvers vegna megum við ekki hugsa sem svo að uppeldi okkar ráði hvers konar manneskjur við verðum?

9 Hiskía hefði alveg getað orðið bitur og reiður maður og snúist gegn Guði. Sumum sem hafa ekki þurft að þola nema brot af því sem hann upplifði finnst þeir hafa fullt tilefni til að „illskast við Drottin“ eða vera bitrir út í söfnuð hans. (Orðskv. 19:3, Biblían 1981) Og sumir eru sannfærðir um þeir séu dæmdir til að eiga ömurlega ævi sökum uppeldis síns, og dæmdir til að endurtaka mistök foreldra sinna. (Esek. 18:2, 3) Er rétt að hugsa þannig?

10 Svarið er nei. Ævi Hiskía sannar það svo ekki verður um villst. Það er aldrei ástæða til að verða bitur út í Jehóva því að erfiðleikar fólks í þessum illa heimi eru ekki honum að kenna. (Job. 34:10) Foreldrar geta vissulega haft sterk áhrif á börn sín, til góðs eða ills. (Orðskv. 22:6; Kól. 3:21) En það er ekki þar með sagt að lífsstefna fólks ráðist af uppeldi þess. Jehóva hefur gefið okkur öllum þann hæfileika að geta valið sjálf hvað við gerum og hvers konar manneskjur við verðum. (5. Mós. 30:19) Hvernig notaði Hiskía þennan dýrmæta hæfileika?

Margt ungt fólk tekur við sannleikanum þrátt fyrir erfið skilyrði á uppvaxtarárunum. (Sjá 9. og 10. grein.)

11. Hvers vegna getum við sagt að Hiskía hafi verið einn af bestu konungum Júda?

11 Hiskía varð einn af bestu konungum Júda þó að faðir hans væri einn sá versti. (Lestu 2. Konungabók 18:5, 6.) Þrátt fyrir að faðir hans væri hræðileg fyrirmynd gat hann valið sér aðrar fyrirmyndir. Jesaja var spámaður á þeim tíma og sömuleiðis þeir Míka og Hósea. Við getum séð Hiskía fyrir okkur þar sem hann hlustar á og hugleiðir boðskap Guðs sem spámenn hans fluttu. Hann lét leiðbeiningar og áminningar Jehóva hafa sterk áhrif á hjarta sitt. Hann tók því til við að bæta úr því ranga sem faðir hans hafði gert. Af mikilli kostgæfni hreinsaði hann musterið, friðþægði fyrir syndir þjóðarinnar og útrýmdi heiðnum skurðgoðum úr öllu landinu. (2. Kron. 29:1-11, 18-24; 31:1) Hiskía sýndi mikið hugrekki og sterka trú þegar hætta steðjaði að, til dæmis þegar Sanheríb Assýríukonungur hótaði að ráðast á Jerúsalem. Hann treysti á vernd Guðs og styrkti þjóðina með orðum sínum og góðu fordæmi. (2. Kron. 32:7, 8) Síðar þurfti hann á leiðréttingu að halda þegar hann hafði sýnt af sér hroka. Þá auðmýkti hann sig og iðraðist. (2. Kron. 32:24-26) Það er deginum ljósara að Hiskía lét ekki fortíðina skemma fyrir sér nútíðina eða spilla fyrir sér framtíðinni. Hann sýndi öllu heldur að hann var vinur Jehóva og góð fyrirmynd til eftirbreytni.

12. Hvernig hafa margir líkt eftir Hiskía og orðið vinir Jehóva?

12 Við búum í hörðum og kærleikslausum heimi. Það er því ekkert undarlegt að fjöldi barna skuli fara á mis við ást og vernd umhyggjusamra foreldra. (2. Tím. 3:1-5) Margir þjónar Jehóva hafa átt erfiða æsku en samt eignast innilegt vináttusamband við hann. Líkt og Hiskía eru þeir til vitnis um að fortíðin þarf ekki að ráða framtíðinni. Jehóva hefur gefið okkur frjálsan vilja, og við getum notað þessa gjöf til að halda okkur fast við hann, heiðra hann og vegsama, rétt eins og Hiskía gerði.

„SJÁ, ÉG ER AMBÁTT DROTTINS“

13, 14. (a) Hvers vegna getur Maríu hafa þótt verkefnið, sem hún fékk, einum of erfitt? (b) Hvernig brást hún samt við orðum Gabríels?

13 Öldum eftir að Hiskía var uppi eignaðist auðmjúk ung Gyðingakona í Nasaret einstakt vináttusamband við Jehóva. Enginn hefur fengið sambærilegt verkefni frá Guði og hún. Hún átti að verða þunguð, fæða einkason Guðs í heiminn og ala hann upp. Jehóva hlýtur að hafa borið mikið traust til Maríu, dóttur Elí, fyrst hann fékk henni þetta ábyrgðarmikla hlutverk. En hvernig ætli Maríu hafi orðið við í fyrstu þegar hún fékk fréttirnar?

„Sjá, ég er ambátt Drottins.“ (Sjá 13. og 14. grein.)

14 Það er auðvelt að horfa bara á þann heiður sem þetta var fyrir Maríu en hugsa ekki út í hve yfirþyrmandi þetta kann að hafa verið fyrir hana. Gabríel engill sagði henni að hún yrði þunguð vegna kraftaverks – án þess að hafa mök við karlmann. Hann bauðst ekki til að fara til ættingja eða nágranna Maríu og skýra fyrir þeim hvernig hún hefði orðið þunguð. Hvað myndu þau hugsa? Hvað um Jósef, unnusta hennar? Hvernig átti hún að sannfæra hann um að hún hefði ekki verið honum ótrú þótt hún væri barnshafandi? Og ekki var það lítil ábyrgð að annast og ala upp einkason hins hæsta og kenna honum. Við vitum ekki um allt sem flaug gegnum huga Maríu þegar Gabríel talaði við hana. Hitt vitum við að hún svaraði: „Sjá, ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum.“ – Lúk. 1:26-38.

15. Hvernig sýndi María einstaka trú?

15 Sýndi María ekki einstaka trú? Ambátt átti að hlýða húsbónda sínum í einu og öllu. Orð Maríu bera með sér að hún treysti að Jehóva myndi annast hana og vernda. Hún vildi þjóna honum á þann veg sem hann vildi. Hvernig eignaðist hún slíka trú? Trúin er ekki meðfædd. Við þurfum að rækta hana og njóta blessunar Guðs. (Gal. 5:22; Ef. 2:8) Er eitthvað sem bendir til að María hafi lagt sig fram um að rækta trú sína? Já, líttu á hvernig hún hlustaði og um hvað hún talaði.

16. Hvernig vitum við að María hlustaði af athygli?

16 Hvernig hlustaði María? Í Biblíunni er okkur sagt að vera ,fljót til að heyra og sein til að tala‘. (Jak. 1:19) Var María vön að hlusta af athygli? Svo er að sjá. Lúkas segir frá því tvisvar í guðspjalli sínu að María hafi hlustað vel þegar hún heyrði eitthvað sem hafði djúpstæða andlega merkingu og síðan tekið sér tíma til að hugleiða það. Fjárhirðar komu til hennar rétt eftir að Jesús fæddist og sögðu henni frá boðskap sem englar höfðu flutt þeim. Þegar Jesús var 12 ára sagði hann svolítið sem hafði djúpstæða merkingu. Í bæði skiptin hlustaði María, lagði á minnið það sem hún heyrði og hugleiddi það vandlega. – Lestu Lúkas 2:16-19, 49, 51.

17. Um hvað talaði María og hvað lærum við af því?

17 Um hvað talaði María? Það er ekki mikið haft eftir henni í Biblíunni. Lengsta dæmið er að finna í Lúkasi 1:46-55. Þessi lofgerð Maríu ber með sér að hún þekkti hin innblásnu rit vel. Orð hennar virðast enduróma sumt af því sem Hanna, móðir Samúels spámanns, sagði í bæn. (1. Sam. 2:1-10) Í lofgerð Maríu er að finna um 20 vísanir í Biblíuna, að því er sumir telja. Það er greinilegt að hún var ófeimin að tjá sig um andleg mál. Hún sótti ríkulega í fjársjóðinn sem hún geymdi í hjarta sér, sannleikann sem hún hafði lært af besta vini sínum, Jehóva Guði.

18. Hvernig getum við líkt eftir trú Maríu?

18 Vera má að við fáum stundum verkefni frá Jehóva sem vaxa okkur í augum. Við skulum þá líkjast Maríu, taka auðmjúk við verkefninu og treysta að Jehóva annist okkur og vilji okkur allt það besta. Við getum líkt eftir trú Maríu með því að hlusta vel á það sem við lærum um Jehóva og vilja hans og hugleiða það. Höfum líka yndi af því að segja öðrum frá því sem við höfum lært. – Sálm. 77:12, 13; Lúk. 8:18; Rómv. 10:15.

19. Hverju getum við treyst ef við líkjum eftir trú þeirra sem þjónuðu Guði á biblíutímanum?

19 Það leikur enginn vafi á að Rut, Hiskía og María voru vinir Jehóva, rétt eins og Abraham. Þau urðu þess heiðurs aðnjótandi að vera vinir Guðs ásamt öllum þeim „fjölda votta“ sem hafa þjónað honum dyggilega í aldanna rás. Höldum áfram að líkja eftir trú þeirra. (Hebr. 6:11, 12) Ef við gerum það getum við treyst að Jehóva umbuni okkur ríkulega – við fáum að vera nánir vinir hans að eilífu!