Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sýndu Jehóva hollustu

Sýndu Jehóva hollustu

„Drottinn er ævarandi vitni okkar og afkomenda okkar.“ – 1. SAM. 20:42.

SÖNGVAR: 125, 62

1, 2. Hvers vegna er vinátta Jónatans við Davíð einstakt dæmi um tryggð og hollustu?

JÓNATAN hlýtur að hafa verið undrandi yfir því hvernig Davíð tókst á við risann Golíat. Nú stóð Davíð frammi fyrir Sál Ísraelskonungi, föður Jónatans, „með höfuð Filisteans í hendi“. (1. Sam. 17:57) Jónatan hefur eflaust dáðst að Davíð fyrir hugrekki hans. Það var greinilegt að Guð var með Davíð og þeir Jónatan urðu mjög nánir vinir. Jónatan gerði jafnvel „sáttmála við Davíð af því að hann elskaði hann eins og sjálfan sig“. (1. Sam. 18:1-3) Hann var Davíð trúr það sem eftir var ævinnar.

2 Vinátta Jónatans og Davíðs hélst jafnvel þótt Guð hefði valið Davíð til að verða næsti konungur Ísraels. Jónatan hafði áhyggjur af Davíð þegar Sál leitaðist við að drepa hann. Jónatan ferðaðist til Júdaeyðimerkur til að hughreysta Davíð, vin sinn, sem var í Hóres. „Jónatan taldi í hann kjark í nafni Guðs og sagði: ,Vertu óhræddur ... Þú verður konungur yfir Ísrael og ég mun ganga næst þér.‘“ – 1. Sam. 23:16, 17.

3. Hvað fannst Jónatan mikilvægara en að sýna Davíð hollustu og hvernig vitum við það? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

3 Hollusta er yfirleitt mikils metin alls staðar í heiminum. En hvað Jónatan varðar færum við á mis við mikilvægan lærdóm ef við einblíndum á hollustu hans við Davíð án þess að hugsa um hollustu hans við Guð. Hvers vegna leit Jónatan á Davíð sem vin sinn en ekki keppinaut? Það er greinilegt að Jónatan fannst eigin upphefð ekki skipta mestu máli. Hann hjálpaði Davíð jafnvel að reiða sig á Jehóva. Hollusta við Guð skipaði greinilega fyrsta sæti hjá Jónatan. Hollusta hans við Davíð byggðist reyndar á hollustu hans við Jehóva. Bæði Jónatan og Davíð voru trúir og stóðu við svarinn eið sinn: „Drottinn er ævarandi vitni okkar og afkomenda okkar.“ – 1. Sam. 20:42.

4. (a) Hvað veitir okkur sanna gleði og ánægju? (b) Hvað skoðum við í þessari grein?

4 Við sem erum kristin dáumst ekki bara að hollustu annarra, við sýnum sjálf fjölskyldu okkar, vinum og trúsystkinum hollustu. (1. Þess. 2:10, 11) En hollusta við hvern ætti að skipta okkur mestu máli? Það er auðvitað hollustan við hann sem gaf okkur lífið. (Opinb. 4:11) Það veitir okkur sanna gleði og ánægju að sýna Guði hollustu. En til að geta gert það verðum við líka að vera honum trú þegar á reynir. Í þessari grein skoðum við hvernig fordæmi Jónatans getur hjálpað okkur að sýna Jehóva hollustu við fjórar erfiðar aðstæður: (1) þegar þeir sem fara með vald virðast ekki verðskulda virðingu, (2) þegar við verðum að velja hverjum við sýnum hollustu, (3) þegar einhver misskilur okkur eða dæmir okkur ranglega og (4) þegar hollusta og eigin hagsmunir stangast á.

ÞEGAR ÞEIR SEM FARA MEÐ VALD VIRÐAST EKKI VERÐSKULDA VIRÐINGU

5. Hvers vegna var erfitt fyrir Ísraelsmenn að sýna Guði hollustu á meðan Sál var konungur?

5 Guð hafði smurt Sál, föður Jónatans, til konungs yfir Ísrael. En síðar á lífsleiðinni varð Sál óhlýðinn og Jehóva hafnaði honum. (1. Sam. 15:17-23) Samt leyfði Guð Sál að ríkja áfram í mörg ár. Slæm hegðun Sáls setti því þegna hans og alla sem stóðu honum nærri í mjög óþægilega stöðu. Það var þeim erfitt að sýna Guði hollustu á meðan konungur þeirra, sem sat í „hásæti Drottins“, gerði það sem illt var. – 1. Kron. 29:23.

6. Hvað sýnir að Jónatan var Jehóva trúr?

6 Jónatan sannaði hollustu sína við Jehóva þegar fór að bera á óhlýðni Sáls, föður hans. (1. Sam. 13:13, 14) Samúel spámaður hafði sagt um Jehóva: „Vegna síns mikla nafns mun hann ekki hafna lýð sínum.“ (1. Sam. 12:22) Jónatan sýndi að hann treysti þessum orðum þegar mikill her Filistea með 30.000 [1] stríðsvagna ógnaði Ísrael. Í her Sáls voru einungis 600 menn og aðeins hann og Jónatan voru vopnaðir. Þrátt fyrir það héldu Jónatan og skjaldsveinn hans einir síns liðs gegn framvarðarsveit Filistea. „Ekkert getur hindrað að Drottinn veiti sigur, hvort heldur það er með mörgum mönnum eða fáum,“ sagði Jónatan. Þessir tveir menn felldu um 20 menn í framvarðarsveitinni. Eftir það ,fór jörðin að nötra því að þessi skelfing var send af Guði‘. Í allri ringulreiðinni snerust Filistearnir hver á móti öðrum. Þannig varð trú Jónatans til þess að Ísraelsmenn sigruðu stríðið. – 1. Sam. 13:5, 15, 22; 14:1, 2, 6, 14, 15, 20.

7. Hvernig kom Jónatan fram við föður sinn?

7 Jónatan reyndi að eiga eins gott samstarf við Sál og mögulegt var, jafnvel þótt Sál héldi áfram að óhlýðnast Jehóva. Þeir börðust til dæmis saman til að verja þjóð Guðs. – 1. Sam. 31:1, 2.

8, 9. Hvernig sýnum við Guði hollustu með því að virða þá sem fara með vald?

8 Rétt eins og Jónatan getum við sýnt Jehóva hollustu með því að hlýða yfirvöldum eftir bestu getu eins og Jehóva ætlast til af okkur, jafnvel þótt sum þeirra virðist ekki verðskulda virðingu. Til dæmis gætu embættismenn verið spilltir en við virðum samt stöðu þeirra þar sem við eigum að hlýða ,þeim yfirvöldum sem eru yfir okkur sett‘ ef mögulegt er. (Lestu Rómverjabréfið 13:1, 2.) Við getum öll sýnt Jehóva hollustu með því að virða þá sem hann hefur falið vald. – 1. Kor. 11:3; Hebr. 13:17.

Ein leið til að sýna Jehóva hollustu er að bera virðingu fyrir maka sínum þó að hann sé ekki í trúnni. (Sjá 9. grein.)

9 Olga, [2] sem býr í Suður-Ameríku, sýndi Guði hollustu með því að virða eiginmann sinn, jafnvel þótt á reyndi. Um árabil lét hann í ljós óánægju sína með að hún væri vottur Jehóva. Hann beitti hana andlegu ofbeldi, gerði lítið úr henni, neitaði að yrða á hana og hótaði að fara frá henni og taka börnin með sér. En Olga svaraði ekki í sömu mynt. Hún lagði sig fram um að vera góð eiginkona með því að elda fyrir hann, þvo fötin hans og hugsa um fjölskylduna og ættingja hans. (Rómv. 12:17) Hún fór með honum í fjölskylduboð og heimsóknir til vina þegar hægt var. Þegar hann vildi sækja jarðarför föður síns í annarri borg hafði hún allt til fyrir ferðina og sá til þess að krakkarnir væru tilbúnir. Hún beið eftir honum fyrir utan kirkjudyrnar þar til athöfninni lauk. Eftir mörg ár fór viðhorf hans að breytast vegna þess hve mikla þolinmæði og virðingu Olga sýndi honum. Núna skutlar hann henni á samkomur og hvetur hana meira að segja til að mæta á þær. Stundum sækir hann jafnvel samkomur með henni. – 1. Pét. 3:1.

ÞEGAR VIÐ VERÐUM AÐ VELJA HVERJUM VIÐ SÝNUM HOLLUSTU

10. Hvernig vissi Jónatan hverjum hann ætti að sýna hollustu?

10 Þegar Sál hugðist drepa Davíð þurfti Jónatan að taka erfiða ákvörðun: Hverjum ætlaði hann að sýna hollustu? Þótt Jónatan hefði gert sáttmála við Davíð var hann líka undirgefinn föður sínum. En Jónatan vissi að Guð var með Davíð en ekki með Sál. Jónatan tók því hollustu við Davíð fram yfir hollustu við Sál. Hann varaði Davíð við, sagði honum að fela sig og talaði síðan jákvætt um hann við Sál. – Lestu 1. Samúelsbók 19:1-6.

11, 12. Hvernig hjálpar kærleikurinn til Guðs okkur að ákveða að vera honum trú?

11 Hollusta við Guð hjálpaði Alice, systur í Ástralíu, að átta sig á hversu mikla hollustu hún ætti að sýna öðrum. Þegar hún fór að kynna sér Biblíuna sagði hún fjölskyldunni frá því góða sem hún var að læra. Með tímanum sagði Alice fjölskyldunni að hún myndi ekki lengur halda jól með henni. Hún útskýrði ástæðurnar en áhyggjur fjölskyldunnar breyttust smám saman í gremju og reiði. Fjölskyldunni fannst Alice vera að snúa baki við henni. „Mamma afneitaði mér að lokum,“ segir Alice. „Mér var mjög brugðið og ég var afskaplega sár af því að ég elskaði fjölskyldu mína innilega. Samt sem áður var ég ákveðin í að láta Jehóva og son hans eiga fyrsta sæti í lífi mínu og ég skírðist á næsta móti.“ – Matt. 10:37.

12 Ef við gætum okkar ekki gæti hollusta við land, skóla eða íþróttalið smám saman kæft hollustu okkar við Guð. Tökum Henry sem dæmi. Honum finnst gaman að tefla. Skólinn hans var þekktur fyrir að vinna skákmeistaratitilinn og Henry vildi leggja sig allan fram. Hann viðurkennir þó: „Smátt og smátt fór hollusta við skólann að verða mikilvægari en hollustan við Guð. Skákmót um helgar urðu til þess að ég hafði lítinn tíma fyrir þjónustuna við Jehóva. Ég ákvað því að hætta í skákliðinu.“ – Matt. 6:33.

13. Hvernig getur hollusta við Guð hjálpað okkur að takast á við vandamál innan fjölskyldunnar?

13 Það getur verið erfitt að vita hverjum við eigum að sýna hollustu innan fjölskyldunnar. Ken segir: „Ég vildi heimsækja aldraða móður mína reglulega og vildi að hún gisti hjá okkur af og til. En henni og konunni minni kom ekki vel saman. Til að byrja með lenti ég í klípu af því að ég gat ekki þóknast annarri án þess að ergja hina. En ég áttaði mig á að ég þurfti að sýna konunni minni hollustu fram yfir móður mína. Ég gerði því málamiðlun sem konan mín gat sætt sig við.“ Hollusta við Guð og virðing fyrir orði hans gaf Ken hugrekki til að útskýra fyrir konunni sinni hvers vegna hún ætti að koma vel fram við móður hans. Hann gat líka útskýrt fyrir móður sinni hvers vegna hún þyrfti að bera virðingu fyrir konunni hans. – Lestu 1. Mósebók 2:24; 1. Korintubréf 13:4, 5.

ÞEGAR EINHVER MISSKILUR OKKUR EÐA DÆMIR OKKUR RANGLEGA

14. Hvernig var Sál ósanngjarn við Jónatan?

14 Það getur reynt á hollustu okkar við Jehóva ef einhver í ábyrgðarstöðu dæmir okkur ranglega. Jónatan lenti líklega í slíkum aðstæðum. Sál, sem Guð hafði smurt til konungs, vissi af vináttu sonar síns við Davíð en hann skildi ekki hvers vegna þeir voru vinir. Í reiðikasti gerði Sál lítið úr Jónatan. En Jónatan svaraði ekki í sömu mynt. Hann sýndi óskeikula hollustu við Guð og við Davíð sem síðar átti eftir að verða konungur Ísraels. – 1. Sam. 20:30-41.

15. Hvernig ættum við að bregðast við ef bróðir er ósanngjarn við okkur?

15 Það er ólíklegt að umsjónarmenn í söfnuðinum séu ósanngjarnir við okkur. En þeir sem fara með forystuna í söfnuðunum eru ófullkomnir og gætu mistúlkað það sem við gerum. (1. Sam. 1:13-17) Við skulum alltaf vera Jehóva trú, jafnvel þótt einhver misskilji okkur eða dæmi okkur ranglega.

ÞEGAR HOLLUSTA OG EIGIN HAGSMUNIR STANGAST Á

16. Við hvaða aðstæður þurfum við að sýna Guði hollustu og vera óeigingjörn?

16 Sál reyndi að fá Jónatan til að hugsa um eigin hagsmuni. (1. Sam. 20:31) En hollustan við Guð fékk Jónatan til að vingast við Davíð í stað þess að sækjast sjálfur eftir konungstigninni. Líklega langar okkur að líkja eftir óeigingirni Jónatans ef við höfum í huga að Jehóva hefur velþóknun á þeim sem „heldur eiða sína þótt það sé honum til tjóns“. (Sálm. 15:4) Jónatan ,hélt eið sinn‘ við Davíð og eins ættum við að halda eiða okkar. Ef okkur reynist til dæmis erfiðara að standa við viðskiptasamning en við gerðum ráð fyrir ætti hollustan við Guð og virðing fyrir Biblíunni að knýja okkur til að standa við orð okkar. Og hvað ef hjónabandið reynist erfiðara en við bjuggumst við? Við sýnum maka okkar hollustu vegna þess að við elskum Guð. – Lestu Malakí 2:13-16.

Við stöndum við viðskiptasamninga okkar þótt á reyni því að við viljum sýna Jehóva hollustu. (Sjá 16. grein.)

17. Hvaða gagn hefur þú haft af þessari námsgrein?

17 Eftir að hafa hugleitt fordæmi Jónatans, langar okkur þá ekki til að líkja eftir hollustu hans við Guð? Hugsum ekki fyrst og fremst um eigin hagsmuni. Líkjum eftir Jónatan og sýnum Jehóva hollustu með því að vera trú þjónum hans, jafnvel þeim sem valda okkur vonbrigðum. Þegar við sýnum Jehóva Guði hollustu þrátt fyrir erfiðar aðstæður gleðjum við hjarta hans, og það veitir okkur mestu ánægju sem hugsast getur. (Orðskv. 27:11) Ef við höldum áfram að sýna Jehóva hollustu sjáum við hvernig hann sér til þess að allt fari á besta veg hjá þeim sem elska hann. Í næstu grein skoðum við hvað við getum lært af öðrum samtíðarmönnum Davíðs, bæði af þeim sem voru trúir og þeim sem voru það ekki.

^ [1] (6. grein.) Í sumum fornum biblíuhandritum stendur „30.000“ en í öðrum „3.000“.

^ [2] (9. grein.) Sumum nöfnum er breytt.