Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

ÆVISAGA

Jehóva er ekkert um megn

Jehóva er ekkert um megn

MAJRAMBÚBÚ, eiginkona mín, var í strætó þegar hún heyrði út undan sér sagt: „Dauðinn verður ekki framar til og jafnvel þeir sem eru dánir verða reistir upp.“ Hún varð forvitin og vildi fá að vita meira. Þegar farþegarnir stigu út úr vagninum elti hún konuna sem hafði sagt þetta. Hún hét Apún Mambetsadykova og var vottur Jehóva, en í þá daga var áhættusamt að tala við vottana. Það sem Apún kenndi okkur seinna átti hins vegar eftir að gerbreyta lífi okkar.

UNNIÐ FRÁ MORGNI TIL KVÖLDS

Ég fæddist árið 1937 á samyrkjubúi nálægt Tokmak í Kirgistan. Við fjölskyldan erum af kirgisku bergi brotin og tölum kirgisku. Foreldrar mínir voru verkamenn og unnu á samyrkjubúinu frá morgni til kvölds. Vinnufólk fékk reglulegar matarbirgðir en útborguð laun aðeins einu sinni á ári. Móðir mín lagði á sig mikið erfiði við að annast mig og yngri systur mína. Eftir aðeins fimm ára skólagöngu byrjaði ég líka að vinna allan daginn á búinu.

Teskej Ala-Too-fjallgarðurinn.

Í héraðinu þar sem ég bjó var mikil fátækt og það var lýjandi að láta enda ná saman. Sem ungur maður leiddi ég hugann lítið að framtíðinni eða hvort lífið hefði einhvern tilgang. Aldrei hvarflaði það að mér að sannleikurinn um Jehóva Guð og fyrirætlun hans myndi umbreyta lífi mínu. Það er spennandi saga hvernig sannleikurinn náði til Kirgistans og breiddist út hérna. Þetta byrjaði allt saman í heimahögum mínum í norðurhluta Kirgistans.

FYRRVERANDI ÚTLAGAR FÆRA KIRGISUM SANNLEIKANN

Sannleikurinn um Jehóva Guð festi rætur í Kirgistan á sjötta áratug síðustu aldar. En til þess þurfti sannleikurinn að sigrast á hugmyndafræði kommúnismans sem var allsráðandi. Það sem nú heitir Kirgistan tilheyrði þá Sovétríkjunum. Vottar Jehóva varðveittu hlutleysi sitt í stjórnmálum í Sovétríkjunum öllum. (Jóh. 18:36) Þess vegna voru þeir álitnir óvinir kommúnistaríkisins og ofsóttir fyrir það. En engin hugmyndafræði getur komið í veg fyrir að orð Guðs nái til hjartna einlægs fólks. Já, eitt það mikilvægasta sem ég hef lært á minni löngu ævi er að Jehóva er „ekkert um megn“. – Mark. 10:27.

Emil Jantzen

Ofsóknirnar á hendur vottum Jehóva leiddu til þess að vottunum fjölgaði í Kirgistan. Hvernig stóð á því? Óvinir ríkisins voru sendir í útlegð til Síberíu sem var hluti af Sovétríkjunum. Þegar útlögunum var sleppt komu margir þeirra til Kirgistans og færðu fólki sannleikann. Einn fyrrverandi útlaganna hét Emil Jantzen og var fæddur í Kirgistan árið 1919. Hann hafði verið sendur í vinnubúðir og komst í kynni við vottana þar. Hann tók við sannleikanum og sneri heim árið 1956. Emil settist að nálægt Sokúlúk sem er í heimahéraði mínu. Þar var fyrsti söfnuðurinn myndaður árið 1958.

Viktor Vinter

Um ári síðar fluttist Viktor Vinter til Sokúlúk. Þessi bróðir var beittur miklu harðræði. Í tvígang afplánaði hann þriggja ára fangelsisdóm fyrir hlutleysi sitt í stjórnmálum, var auk þess í fangelsi í áratug og sendur í útlegð í fimm ár. En þrátt fyrir slíkar ofsóknir hélt sönn tilbeiðsla áfram að ryðja sér til rúms.

SANNLEIKURINN NÆR TIL HEIMAHAGANNA

Edúard Varter

Árið 1963 voru vottarnir orðnir 160 talsins í Kirgistan og margir þeirra voru frá Þýskalandi, Úkraínu og Rússlandi. Einn þeirra var Eduard Varter sem lét skírast í Memelland í Litáen árið 1924. Á fimmta áratugnum sendu nasistar hann í fangabúðir og síðar ráku kommúnistar í Sovétríkjunum hann í útlegð. Þessi trúfasti bróðir fluttist 1961 til Kant sem er í sama héraði og heimabær minn.

Elízaveta Fot; Aksamaj Súltanalíeva

Elízaveta Fot bjó einnig í Kant. Hún var trúfastur þjónn Jehóva og vann fyrir sér sem saumakona. Læknar og kennarar og annað sérmenntað fólk keyptu föt hjá henni þar sem hún var mjög fær í sínu fagi. Einn viðskiptavinur hennar hét Aksamaj Súltanalíeva en hún var gift manni sem vann á skrifstofu ríkissaksóknara. Þegar Aksamaj kom til Elízavetar til að láta sauma á sig var hún með ótal spurningar um tilgang lífsins og hvað gerist við dauðann. Elízavet svaraði spurningum hennar með því að nota Biblíuna. Með tímanum varð Aksamaj kappsamur boðberi fagnaðarerindisins.

Níkolaj Chímpoesh

Níkolaj Chímpoesh frá Moldóvu var útnefndur farandhirðir um þetta leyti og sinnti því starfi hátt í 30 ár. Auk þess að heimsækja söfnuðina skipulagði hann fjölföldun og dreifingu á ritum safnaðarins. Það fór ekki fram hjá yfirvöldum. Eduard Varter gaf Níkolaj því eftirfarandi ráð: „Þegar yfirvöld spyrja þig skaltu horfa beint í augun á útsendara leyniþjónustunnar og segja honum að við fáum ritin okkar frá aðalstöðvunum í Brooklyn. Þú hefur ekkert að óttast.“ – Matt. 10:19.

Stuttu eftir þetta var Níkolaj kallaður til yfirheyrslu við höfuðstöðvar leyniþjónustunnar í Kant. Hann segir svo frá: „Útsendarinn spurði hvaðan við fengjum ritin. Ég sagði honum að þau kæmu frá Brooklyn. Hann vissi ekki hvað hann átti að segja við því svo að hann sleppti mér úr haldi. Ég heyrði aldrei aftur frá honum.“ Hugrakkir vottar eins og Níkolaj létu ekki deigan síga og boðuðu fagnaðarerindið af varfærni í heimahéraði mínu í norðurhluta Kirgistans. Majrambúbú, eiginkona mín, var sú fyrsta í fjölskyldunni sem heyrði sannleikann um Jehóva en það var árið 1981.

KONAN MÍN UPPGÖTVAR SANNLEIKANN FLJÓTT

Majrambúbú kemur frá Naryn-héraði. Ég hitti hana í fyrsta skipti í ágúst 1974 þegar hún var í heimsókn hjá systur minni. Ég féll strax fyrir henni og við giftum okkur samdægurs.

Apún Mambetsadykova

Í janúar 1981 þegar Majrambúbú var í strætó á leiðinni á markað heyrði hún samtalið sem nefnt var í byrjun greinar. Hún vildi vita meira svo að hún spurði konuna að nafni og bað um heimilisfangið hennar. Hún gaf upp nafn sitt, Apún, en vildi ekki gefa upp heimilisfang þar sem starfsemi vottanna var bönnuð á þessum tíma. Apún bað í staðinn um heimilisfangið okkar. Þegar konan mín kom heim var hún upprifin.

„Ég heyrði frábærar fréttir í dag,“ sagði hún. „Það var kona sem sagði mér að bráðlega muni fólk aldrei framar deyja. Villidýr verða jafnvel tamin.“ Í mínum eyrum hljómaði þetta eins og ævintýri. „Bíðum nú þar til hún kemur í heimsókn og útskýrir málið betur,“ svaraði ég.

Apún heimsótti okkur þrem mánuðum síðar og kom reglulega eftir það. Hún kynnti okkur fyrir sumum þeirra fyrstu sem urðu vottar úr hópi Kirgisa. Þeir sögðu okkur frá hinum dásamlegu sannindum um Jehóva og fyrirætlun hans með mannkynið. Þeir lásu með okkur bókina Frá hinni týndu paradís til hinnar endurheimtu paradísar. * En þar sem aðeins var til eitt eintak af bókinni í Tokmak handskrifuðum við afrit af henni.

Spádómurinn í 1. Mósebók 3:15 var eitt af því fyrsta sem við fórum yfir. Hann uppfyllist fyrir atbeina Jesú, hins smurða konungs Guðsríkis. Allir þurfa að fá að heyra þetta og því höfum við ærna ástæðu til að taka þátt í boðuninni. (Matt. 24:14) Líf okkar tók fljótt miklum stakkaskiptum þegar við fórum að kynna okkur sannindi Biblíunnar.

SAMKOMUR OG SKÍRN Á BANNÁRUM

Trúbróðir í Tokmak bauð okkur í brúðkaup. Við hjónin tókum fljótt eftir því að vottarnir höguðu sér ólíkt öðrum. Það var ekkert áfengi haft um hönd í brúðkaupinu og veisluhöldin fóru sómasamlega fram. Þetta var mjög ólíkt öðrum brúðkaupum sem við höfðum farið í þar sem gestirnir urðu oft ölvaðir, hegðuðu sér illa og notuðu ljótt orðbragð.

Við sóttum líka samkomur hjá söfnuðinum í Tokmak. Þær voru haldnar úti í skógi ef veður leyfði. Þar sem lögreglan fylgdist grannt með okkur var bróðir alltaf látinn standa vörð. Á veturna voru samkomur haldnar innandyra. Nokkrum sinnum kom lögreglan og krafðist þess að fá að vita hvað við værum að gera. Við hjónin létum skírast í júlí 1982 í ánni Tsjú og þurfti að sýna mikla aðgát. (Matt. 10:16) Bræður og systur gengu nokkur saman inn í skóginn. Við sungum síðan ríkissöng og hlustuðum á skírnarræðuna.

VIÐ FÆRUM ÚT KVÍARNAR Í BOÐUNINNI

Árið 1987 bað bróðir mig að heimsækja mann sem bjó í bænum Balyktsjy. Ferðin þangað tók fjóra tíma með lest. Eftir það fórum við í nokkrar boðunarferðir þangað og komumst að raun um að fólk hafði mikinn áhuga á Biblíunni. Þetta var upplagt tækifæri til að færa út kvíarnar í þjónustunni.

Við hjónin ferðuðumst oft til Balyktsjy og dvöldumst þar næstum hverja helgi. Við fórum í boðunina og héldum samkomur. Eftirspurnin eftir biblíuritum varð gríðarleg. Við fluttum ritin með okkur frá Tokmak í kartöflupokum sem kallast mishok. Tveir fullir pokar af ritum dugðu varla til að anna eftirspurninni. Við fengum líka tækifæri til að vitna fyrir fólki í lestinni til og frá Balyktsjy.

Árið 1995 var myndaður söfnuður í Balyktsjy, átta árum eftir að við heimsóttum bæinn fyrst. Það var kostnaðarsamt fyrir okkur að ferðast milli Tokmak og Balyktsjy á þessum árum því að við höfðum lítið handa á milli. Hvernig gekk þetta þá upp? Trúbróðir okkar gaf okkur reglulega peninga til að við gætum staðið undir kostnaðinum. Jehóva sá hversu heitt við vildum færa út kvíarnar í þjónustunni og lauk upp „flóðgáttum himins“ fyrir okkur. (Mal. 3:10) Já, Jehóva er ekkert um megn!

NÓG AÐ GERA Í FJÖLSKYLDUNNI OG BOÐUNINNI

Árið 1992 var ég útnefndur safnaðaröldungur og var þar með fyrsti kirgiski öldungurinn í landinu. Í heimasöfnuði okkar í Tokmak fengum við ný tækifæri til að boða trúna. Við hjálpuðum allmörgu ungu kirgisku fólki, sem stundaði nám við tækniskóla, að kynna sér Biblíuna. Einn fyrrverandi nemandi okkar situr núna í deildarnefnd og tveir eru sérbrautryðjendur. Við gerðum líka okkar besta til að hjálpa þeim sem sóttu samkomur. Á þessum tíma voru rit safnaðarins og samkomurnar á rússnesku. En hópur þeirra sem höfðu kirgisku að móðurmáli varð sífellt stærri. Ég túlkaði því samkomurnar fyrir þá til að auðvelda þeim að meðtaka sannleikann.

Við hjónin ásamt átta af börnum okkar árið 1989.

Við Majrambúbú höfðum í nógu að snúast því að fjölskyldan fór stækkandi. Við tókum börnin með í boðunina og á samkomur. Gúlsajra, dóttir okkar, var ekki nema 12 ára þegar hún tók fólk á götum úti tali og sagði því frá Biblíunni. Börnin okkar höfðu líka gaman af að leggja ritningarstaði á minnið. Allt þetta hjálpaði þeim að vera virk í safnaðarlífinu og síðar meir barnabörnum okkar. Við eigum 9 börn og 11 barnabörn á lífi og 16 þeirra þjóna Jehóva eða sækja samkomur með foreldrum sínum.

EFTIRTEKTARVERÐAR BREYTINGAR

Bræður og systur, sem lögðu fyrst hönd á plóginn í verki Jehóva hér í landi á sjötta áratugnum, yrðu mjög hissa að sjá allar þær breytingar sem við höfum upplifað. Frá tíunda áratug síðustu aldar höfum við til að mynda fengið aukið frelsi til að boða fagnaðarerindið og koma saman í stórum hópum.

Við hjónin í boðuninni.

Árið 1991 fórum við hjónin í fyrsta skipti á mót. Það var haldið í Kasakstan í Alma-Ata sem nú heitir Almaty. Árið 1993 héldu bræðurnir í Kirgistan mót í fyrsta sinn og var það haldið á Spartak-leikvanginum í Bíshkek. Boðberar tóku heila viku í að þrífa leikvanginn. Forstöðumaðurinn var svo hrifinn að hann leyfði okkur að nota hann endurgjaldslaust.

Árið 1994 náðum við merkisáfanga þegar við fengum ritin okkar fyrst á kirgisku. Teymi á deildarskrifstofunni í Bíshkek sér nú um að þýða þau á kirgisku að staðaldri. Árið 1998 fékk starfsemi Votta Jehóva lagalega viðurkenningu í Kirgistan. Söfnuðurinn hefur stækkað og boðberar í landinu eru nú orðnir vel yfir 5.000. Söfnuðirnir eru orðnir 83 talsins og það eru 25 erlendir málhópar þar sem töluð er enska, kirgiska, kínverska, rússneska, rússneskt táknmál, tyrkneska, úsbekska og úýgúr. Öll þessi kæru trúsystkini frá ólíkum menningarheimum þjóna Jehóva í sameiningu. Það er honum að þakka að allar þessar eftirtektarverðu breytingar gátu orðið að veruleika.

Jehóva hefur einnig gerbreytt lífi mínu. Ég kem úr fátækri verkamannafjölskyldu og gekk ekki nema fimm ár í skóla. Þrátt fyrir það hefur Jehóva leyft mér að vera öldungur og kenna fólki dásamleg biblíusannindi, jafnvel fólki sem var mennaðra en ég. Já, Jehóva gerir hina ótrúlegustu hluti. Allt sem ég hef upplifað er mér hvatning til að halda trúfastur áfram að segja frá Jehóva sem er „ekkert um megn“. – Matt. 19:26.

^ gr. 21 Gefin út af Vottum Jehóva en er ekki lengur fáanleg.