Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 9

Kærleikur og réttlæti í Ísrael til forna

Kærleikur og réttlæti í Ísrael til forna

„Hann hefur mætur á réttlæti og rétti, jörðin er full af gæsku Drottins.“ – SÁLM. 33:5.

SÖNGUR 3 Von okkar, athvarf og öruggt traust

YFIRLIT *

1-2. (a) Hvað viljum við öll? (b) Hverju megum við treysta?

VIÐ viljum öll vera elskuð og að komið sé fram við okkur af sanngirni. Ef okkur er ítrekað synjað um ást og réttlæti getur okkur fundist við einskis virði og við fundið fyrir vonleysi.

2 Jehóva veit að við þráum réttlæti og að vera elskuð. (Sálm. 33:5) Við megum treysta því að Guð elskar okkur heitt og vill að við njótum sanngirni. Það má sjá af lögmálinu sem Jehóva gaf Ísraelsþjóðinni fyrir milligöngu Móse. Ef þú hefur ekki notið þeirrar ástúðar sem þú þarfnast eða ert niðurbrotinn eftir að hafa verið beittur órétti skaltu hugleiða hvernig Móselögin * bera vitni um hve annt Jehóva er um þjóna sína.

3. (a) Hvað lærum við af því að hugleiða Móselögin, eins og kemur fram í Rómverjabréfinu 13:8-10? (b) Hvaða spurningum er svarað í þessari grein?

3 Við kynnumst umhyggju Jehóva, okkar kærleiksríka Guðs, þegar við hugleiðum Móselögin. (Lestu Rómverjabréfið 13:8-10.) Í þessari grein skoðum við nokkur lagaákvæðanna sem Ísrael fékk og fáum svör við eftirfarandi spurningum: Hvers vegna má segja að lögmálið hafi verið byggt á kærleika? Hvers vegna má segja að lögmálið hafi stuðlað að réttlæti? Hvernig áttu þeir sem fóru með vald að framfylgja lögunum? Og hverja verndaði lögmálið sérstaklega? Svörin við þessum spurningum geta veitt okkur huggun og von og styrkt samband okkar við ástríkan föður okkar. – Post. 17:27; Rómv. 15:4.

LÖGMÁLIÐ BYGGÐIST Á KÆRLEIKA

4. (a) Hvers vegna má segja að Móselögin hafi verið byggð á kærleika? (b) Hvaða boðum beindi Jesús sérstakri athygli að samkvæmt Matteusi 22:36-40?

4 Segja má að Móselögin hafi verið byggð á kærleika því að kærleikur er hvötin að baki öllu sem Jehóva gerir. (1. Jóh. 4:8) Hann byggði öll ákvæði Móselaganna á tveim grundvallarboðum – að elska Guð og að elska náungann. (3. Mós. 19:18; 5. Mós. 6:5; lestu Matteus 22:36-40.) Við megum því gera ráð fyrir að hvert og eitt af hinum rúmlega 600 ákvæðum lögmálsins geti kennt okkur eitthvað um kærleika Jehóva. Skoðum nokkur dæmi.

5-6. Hvað vill Jehóva að hjón geri og hverju tekur hann eftir? Nefndu dæmi.

5 Vertu trúr maka þínum og hugsaðu vel um börnin. Jehóva vill að ástin milli hjóna sé sterk og að hún vari alla ævi. (1. Mós. 2:24; Matt. 19:3-6) Framhjáhald er með því versta sem hægt er að gera maka sínum. Sjöunda boðið af boðorðunum tíu lagði bann við hjúskaparbroti og það af góðri ástæðu. (5. Mós. 5:18) Það er synd „á móti Guði“ og miskunnarlaust gagnvart makanum. (1. Mós. 39:7-9) Sá sem hefur verið svikinn af maka sínum getur verið fjöldamörg ár að jafna sig.

6 Jehóva tekur vel eftir því hvernig hjón koma fram hvort við annað. Honum var umhugað um að ísraelskar eiginkonur nytu virðingar. Ef maður virti lögmálið elskaði hann konuna sína og myndi ekki skilja við hana fyrir smávægilegar sakir. (5. Mós. 24:1-4; Matt. 19:3, 8) En ef upp kom alvarlegt vandamál og hann skildi við hana þurfti hann að láta hana fá skilnaðarbréf. Bréfið yrði henni vernd gegn tilhæfulausum ásökunum um siðleysi. Þar að auki virðist vera að eiginmaðurinn hafi þurft að ráðfæra sig við öldunga borgarinnar áður en hann lét konu sína fá skilnaðarbréfið. Þá höfðu öldungarnir tækifæri til að reyna að hjálpa hjónunum að bjarga hjónabandinu. Jehóva greip ekki alltaf inn í þegar Ísraelsmenn skildu við konur sínar af eigingjörnum ástæðum. En hann tók samt eftir kvöl kvennanna og fann til með þeim. – Mal. 2:13-16.

Jehóva vildi að börn fyndu til öryggis. Foreldrar áttu að fræða þau og veita þeim kærleiksríkt uppeldi. (Sjá 7. og 8. grein) *

7-8. (a) Hvaða fyrirmæli gaf Jehóva foreldrum? (Sjá mynd á forsíðu.) (b) Hvað lærum við?

7 Lögmálið sýnir einnig að Jehóva er mjög annt um velferð barna. Hann gaf foreldrum fyrirmæli um að annast bæði efnislegar og andlegar þarfir barna sinna. Foreldrar áttu að nota hvert tækifæri til að kenna börnunum svo að þau lærðu að elska Jehóva og meta lög hans. (5. Mós. 6:6-9; 7:13) Ein ástæða þess að Jehóva refsaði Ísraelsmönnum var sú að þeir fóru hræðilega með börnin sín. (Jer. 7:31, 33) Foreldrar áttu ekki að líta á börnin eins og eign sem þeir máttu vanrækja eða fara illa með. Börnin voru arfur þeirra, gjöf frá Jehóva sem þeim bar að hlúa að. – Sálm. 127:3.

8 Það sem við lærum: Jehóva tekur vel eftir því hvernig hjón koma fram hvort við annað. Hann ætlast til að foreldrar elski börn sín og hann dregur þá til ábyrgðar ef þeir fara illa með þau.

9-11. Hvers vegna lagði Jehóva bann við ágirnd?

9 Þú skalt ekki girnast. Boðorðin tíu enda á banni við ágirnd, það er að segja að ala á rangri löngun í það sem einhver annar á. (5. Mós. 5:21; Rómv. 7:7) Jehóva veitti verðmæta kennslu með þessu boði – þjónar hans verða að vernda hjartað, það er að segja hugsanir sínar og tilfinningar. Hann veit að illar hugsanir og tilfinningar eru undanfari rangra verka. (Orðskv. 4:23) Ef Ísraelsmaður leyfði rangri löngun að vaxa innra með sér myndi hann líklega koma illa fram við aðra. Davíð konungur féll í þá gryfju. Alla jafna var hann góður maður. En einu sinni girntist hann konu annars manns og löngun hans leiddi til þess að hann syndgaði. (Jak. 1:14, 15) Davíð framdi hjúskaparbrot, reyndi að blekkja eiginmann konunnar og lét síðan drepa hann. – 2. Sam. 11:2-4; 12:7-11.

10 Jehóva vissi hvenær Ísraelsmaður braut boðið um að girnast ekki því að hann sér það sem býr í hjartanu. (1. Kron. 28:9) Bannið við ágirnd kenndi þjóðinni að hún þyrfti að forðast hugsanir sem leiddu til slæmrar hegðunar. Jehóva er sannarlega kærleiksríkur og vitur faðir.

11 Það sem við lærum: Jehóva sér meira en það sem er hið ytra. Hann sér það sem býr í hjartanu, það sem við erum hið innra. (1. Sam. 16:7) Við getum ekki falið hugsanir okkar, tilfinningar eða verk fyrir honum. Hann leitar að því góða í okkur og hvetur okkur til að efla það. En hann vill að við komum auga á rangar hugsanir og berjumst gegn þeim svo að þær leiði ekki til rangra verka. – 2. Kron. 16:9; Matt. 5:27-30.

LÖGMÁLIÐ STUÐLAÐI AÐ RÉTTLÆTI

12. Hvað undirstrika Móselögin?

12 Móselögin undirstrika einnig að Jehóva elskar réttlæti. (Sálm. 37:28; Jes. 61:8) Hann er fullkomin fyrirmynd um að koma fram við aðra af sanngirni. Hann blessaði Ísraelsmenn þegar þeir fóru eftir lögmálinu sem hann gaf þeim. En þegar þeir hunsuðu réttlátar meginreglur hans var það þeim til ills. Skoðum nú tvö boð í viðbót af boðorðunum tíu.

13-14. Hvaða krafa var gerð í fyrstu tveim boðorðunum og hvernig var það þjóðinni til góðs þegar hún fór eftir þeim?

13 Hafðu enga aðra guði en Jehóva. Tvö fyrstu boðorðin kváðu á um að Ísraelsmenn ættu aðeins að tilbiðja Jehóva og vöruðu við skurðgoðadýrkun. (2. Mós. 20:3-6) Þessi boðorð voru þjóðinni til góðs frekar en honum sjálfum. Þegar þjóðin var honum trú vegnaði henni vel en þegar hún tilbað guði nágrannaþjóðanna vegnaði henni illa.

14 Til dæmis tilbáðu Kanverjar lífvana skurðgoð frekar en hinn lifandi og sanna Guð. Með því lítilsvirtu þeir sjálfa sig. (Sálm. 115:4-8) Óhreinar kynlífsathafnir og hryllilegar barnafórnir voru þáttur í tilbeiðslu þeirra. Eins lítilsvirtu Ísraelsmenn sjálfa sig og gerðu fjölskyldum sínum illt þegar þeir hunsuðu Jehóva og völdu að tilbiðja skurðgoð. (2. Kron. 28:1-4) Þeir sem fóru með vald fylgdu ekki meginreglum Jehóva um að sýna réttlæti. Þeir misbeittu valdi sínu og kúguðu þá sem minna máttu sín. (Esek. 34:1-4) Jehóva varaði þjóðina við að hann myndi fella dóm yfir þeim sem færu illa með varnarlausar konur og börn. (5. Mós. 10:17, 18; 27:19) Aftur á móti blessaði Jehóva þjóðina þegar hún var honum trú og menn voru réttlátir í samskiptum sín á milli. – 1. Kon. 10:4-9.

Jehóva elskar okkur og veit þegar við erum órétti beitt. (Sjá 15. grein.)

15. Hvað lærum við um Jehóva?

15 Það sem við lærum: Það er ekki Jehóva að kenna þegar þeir sem segjast þjóna honum hunsa meginreglur hans og fara illa með þjóna hans. Jehóva elskar okkur og veit af því þegar við verðum fyrir óréttlæti. Hann finnur til með okkur, jafnvel meira en móðir finnur til með barni sínu sem þjáist. (Jes. 49:15) Þó að hann grípi kannski ekki inn í strax mun hann á sínum tíma láta iðrunarlausa syndara svara til saka fyrir að hafa farið illa með aðra.

HVERNIG ÁTTI AÐ FRAMFYLGJA LÖGUNUM?

16-18. Hve yfirgripsmikil voru Móselögin og hvað lærum við af því?

16 Móselögin náðu yfir marga þætti í lífi Ísraelsmanna. Því var mikilvægt að útnefndir öldungar dæmdu fólk Jehóva réttlátlega. Þeir báru ábyrgð á að taka á málum sem tengdust tilbeiðslunni en einnig á ágreiningsmálum og glæpum. Skoðum eftirfarandi dæmi.

17 Ef Ísraelsmaður varð manni að bana var ekki sjálfgefið að hann yrði tekinn af lífi. Öldungar borgarinnar áttu að rannsaka tildrög málsins áður en ákveðið var hvort dauðarefsing væri við hæfi. (5. Mós. 19:2-7, 11-13) Öldungarnir dæmdu einnig í mörgum hversdagslegum málum, allt frá því að leysa úr deilum um eigur til þess að leysa úr ágreiningsmálum hjóna. (2. Mós. 21:35; 5. Mós. 22:13-19) Allir nutu góðs af þegar öldungarnir voru sanngjarnir og Ísraelsmenn fóru eftir lögmálinu. Og þá var þjóðin Jehóva til heiðurs. – 3. Mós. 20:7, 8; Jes. 48:17, 18.

18 Það sem við lærum: Öll svið lífs okkar skipta Jehóva máli. Hann vill að við séum sanngjörn og kærleiksrík í samskiptum við aðra. Og hann tekur eftir því sem við segjum og gerum, jafnvel þegar enginn annar sér til. – Hebr. 4:13.

19-21. (a) Hvernig áttu öldungar og dómarar að koma fram við fólk Guðs? (b) Hvernig veitti lögmálið fólki vernd og hvað lærum við af því?

19 Jehóva vildi vernda þjóð sína gegn spillandi áhrifum nágrannaþjóðanna. Hann gerði þá kröfu á hendur öldungum og dómurum að þeir framfylgdu lögunum án þess að gera mannamun. Þeir sem dæmdu í málum áttu ekki að vera strangir og harðir. Þeir áttu að elska réttlæti. – 5. Mós. 1:13-17; 16:18-20.

20 Jehóva hefur samúð með þjónum sínum. Þess vegna setti hann lög til að vernda fólk fyrir ósanngjarnri meðferð. Lögmálið dró til dæmis úr líkunum á að einhver yrði ranglega ákærður fyrir glæp. Sá sem var sakaður um glæp átti rétt á að vita hver ásakaði hann. (5. Mós. 19:16-19; 25:1) Einnig þurfti að leiða fram að minnsta kosti tvö vitni til að hægt væri að sakfella hann. (5. Mós. 17:6; 19:15) En hvað ef Ísraelsmaður framdi glæp sem aðeins einn varð vitni að? Hann gat ekki reiknað með því að komast upp með glæpinn því að Jehóva sá hvað hann gerði. Feður fóru með ákveðið vald innan fjölskyldunnar en það hafði sín takmörk. Stundum áttu öldungar borgarinnar að skerast í leikinn og fella dóm í fjölskylduerjum. – 5. Mós. 21:18-21.

21 Það sem við lærum: Jehóva er okkur fullkomin fyrirmynd. Hann gerir aldrei neitt sem er ósanngjarnt. (Sálm. 89:15) Hann umbunar þeim sem eru trúir meginreglum hans en refsar þeim sem misbeita valdi sínu. (2. Sam. 22:21-23; Esek. 9:9, 10) Sumir fremja kannski illskuverk og virðast komast upp með það. En Jehóva dregur þá til ábyrgðar þegar hann telur réttan tíma til þess. (Orðskv. 28:13) Og ef þeir iðrast ekki komast þeir brátt að raun um að „óttalegt er að falla í hendur lifanda Guðs“. – Hebr. 10:30, 31.

HVERJA VERNDAÐI LÖGMÁLIÐ SÉRSTAKLEGA?

Þegar öldungar leystu úr ágreiningsmálum áttu þeir að endurspegla hvernig Jehóva elskar fólk og réttlæti. (Sjá 22. grein.) *

22-24. (a) Hverja verndaði lögmálið sérstaklega og hvað lærum við um Jehóva? (b) Hvaða viðvaranir er að finna í 2. Mósebók 22:21-23?

22 Lögmálið verndaði sérstaklega þá sem gátu ekki varið sig sjálfir, svo sem munaðarlausa, ekkjur og útlendinga. Dómurum Ísraels var sagt: „Þú skalt ekki halla rétti aðkomumanns eða munaðarleysingja og þú skalt ekki taka fatnað ekkju að veði.“ (5. Mós. 24:17) Jehóva sýndi þeim viðkvæmustu í þjóðfélaginu einlægan áhuga og hlýju. Og hann lét þá sem fóru illa með þá svara til saka. – Lestu 2. Mósebók 22:21-23.

23 Lögmálið verndaði einnig fjölskyldur gegn kynferðisglæpum með því að banna hvers kyns kynferðislegt samneyti náinna ættingja. (3. Mós. 18:6-30) Nágrannaþjóðir Ísraelsmanna umbáru slíkt athæfi og lögðu jafnvel blessun sína yfir það en þjóð Jehóva átti að líta það sömu augum og hann – sem viðurstyggilegan glæp.

24 Það sem við lærum: Jehóva vill að þeir sem hann felur ábyrgð láti sér einlæglega annt um þá sem þeir hafa umsjón með. Hann hatar kynferðisglæpi og vill tryggja að allir njóti verndar og réttlætis, sérstaklega þeir sem minnst mega sín.

LÖGMÁLIÐ VAR ,SKUGGI HINS GÓÐA SEM VAR Í VÆNDUM‘

25-26. (a) Að hvaða leyti er kærleikur og réttlæti eins og líf og andadráttur? (b) Um hvað fjallar næsta grein í þessari greinaröð?

25 Kærleikur og réttlæti þrífast ekki hvort án annars, ekkert frekar en líf og andadráttur hér á jörð. Ef við erum fullviss um að Jehóva er sanngjarn við okkur eykst kærleikurinn til hans. Og ef við elskum hann og réttlátar meginreglur hans finnum við okkur knúin til að elska aðra og vera sanngjörn.

26 Lagasáttmálinn, sem var gerður fyrir milligöngu Móse, styrkti samband Jehóva og Ísraelsmanna. En Jesús uppfyllti lögmálið og þá voru þjónar Guðs ekki lengur bundnir því. Nokkuð betra kom í staðinn. (Rómv. 10:4) Páll postuli lýsir lögmálinu sem „skugga hins góða sem er í vændum“. (Hebr. 10:1) Í næstu grein í þessari greinaröð verður rætt um sumt af þessu góða og um mikilvægi kærleika og réttlætis í kristna söfnuðinum.

SÖNGUR 109 Höfum brennandi kærleika hvert til annars

^ gr. 5 Þessi grein er sú fyrsta af fjórum sem ræðir hvers vegna við getum verið fullviss um að Jehóva láti sér annt um okkur. Hinar greinarnar þrjár birtast í Varðturninum maí 2019. Þær fjalla um hvernig kærleikur og réttlæti Jehóva birtist í söfnuðinum, hvernig kærleikur og réttlæti verndar börn gegn kynferðisofbeldi og hvernig við getum hughreyst þá sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi í æsku.

^ gr. 2 ORÐASKÝRING: Þau rúmlega 600 lagaákvæði, sem Jehóva gaf Ísraelsþjóðinni fyrir milligöngu Móse, eru kölluð „lögmálið“, „lögmál Móse“, „Móselögin“ og „boðorðin“. Fyrstu fimm bækur Biblíunnar (Mósebækurnar) eru einnig oft kallaðar lögmálið. Og stundum eru hinar innblásnu Hebresku ritningar í heild kallaðar lögmálið.

^ gr. 60 Mynd: Móðir í Ísrael á líflegar samræður við dætur sínar meðan hún útbýr máltíð. Í bakgrunninum sést faðirinn kenna syni sínum að hugsa um sauðféð.

^ gr. 64 Mynd: Umhyggjusamir öldungar í borgarhliði hjálpa ekkju og barni hennar eftir að kaupmaður í borginni hefur farið illa með þau.