Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 6

„Maðurinn er höfuð konunnar“

„Maðurinn er höfuð konunnar“

„Maðurinn er höfuð konunnar.“ – 1. KOR. 11:3.

SÖNGUR 13 Kristur, fyrirmynd okkar

YFIRLIT *

1. Hvaða spurninga ætti einhleyp systir í giftingarhugleiðingum að spyrja sig?

ALLIR kristnir menn eru undirgefnir Jesú Kristi en hann veitir fullkomna forystu. Þegar kristin eiginkona giftir sig beygir hún sig hins vegar undir forystu manns sem er ófullkominn. Það er ekki alltaf auðvelt. Þegar hún íhugar að giftast bróður ætti hún að spyrja sig: „Hvað gefur til kynna að hann muni standa sig vel sem höfuð fjölskyldu? Hefur það forgang í lífi hans að þjóna Jehóva? Ef ekki, hvað gefur til kynna að hann stuðli að því að við eigum sterkt samband við Jehóva eftir að við giftum okkur?“ Systir ætti einnig að spyrja sig: „Hvaða eiginleika hef ég til að bera sem koma að gagni í hjónabandi? Er ég þolinmóð og örlát? Er samband mitt við Jehóva sterkt?“ (Préd. 4:9, 12) Þegar kona tekur viturlegar ákvarðanir áður en hún giftir sig stuðlar það að hamingjusömu hjónabandi.

2. Hvað skoðum við í þessari grein?

2 Milljónir trúsystra okkar sýna frábært fordæmi með undirgefni sinni við eiginmenn sína. Þær eiga hrós skilið! Það er unun að þjóna Jehóva ásamt þessum trúföstu konum. Í þessari grein skoðum við svör við þrem spurningum: (1) Hvaða vandamál þurfa eiginkonur að glíma við? (2) Hvers vegna kýs eiginkona að vera undirgefin eiginmanni sínum? (3) Hvað geta kristnir eiginmenn og eiginkonur lært um undirgefni af fordæmi Jesú, Abígail og Maríu, sem var eiginkona Jósefs og móðir Jesú?

HVAÐA VANDAMÁL ÞURFA EIGINKONUR AÐ GLÍMA VIÐ?

3. Hvers vegna er hægt að segja að ekkert hjónaband sé fullkomið?

3 Hjónaband er fullkomin gjöf frá Guði en fólk er ófullkomið. (1. Jóh. 1:8) Þess vegna varar orð Guðs hjón við vandamálum og segir að þau verði fyrir „erfiðleikum í lífinu“. (1. Kor. 7:28) Skoðum sum vandamál sem eiginkonur kunna að mæta.

4. Hvers vegna gæti eiginkonu fundist erfitt að vera undirgefin eiginmanni sínum?

4 Eiginkonu gæti þótt lítillækkandi að vera undirgefin eiginmanni sínum vegna þess hvernig hún var alin upp. „Þar sem ég ólst upp,“ segir Marisol, sem býr í Bandaríkjunum, „var konum stöðugt sagt að þær yrðu að vera jafnar mönnum í öllu. Ég veit að það er fyrirkomulag Jehóva að eiginmenn veiti forystu og að eiginkonur sýni undirgefni en að þær eigi jafnframt skilda virðingu. En það er ekki alltaf auðvelt að virða forystu eiginmanns míns vegna umhverfisins.“

5. Hvaða ranghugmyndir hafa sumir menn um hlutverk eiginkvenna?

5 Á hinn bóginn gæti kona verið gift manni sem lítur niður á konur. Systir sem heitir Ivon og býr í Suður-Ameríku segir: „Þar sem við búum fá mennirnir fyrst að borða og síðan konurnar. Litlar stelpur eiga að elda og þrífa en litlum strákum er þjónað af mæðrum sínum og systrum og þeim er sagt að þeir séu ,konungar fjölskyldunnar‘.“ Yingling er systir sem býr í Asíu. Hún segir: „Orðatiltæki í mínu tungumáli gefur í skyn að konur þurfi ekki að vera gáfaðar eða hafa neina hæfileika. Hlutverk þeirra sé að vinna við heimilisstörf en þær eigi ekki að tjá eiginmönnum sínum skoðanir sínar.“ Eiginmaður sem hefur slíkt kærleikslaust og óbiblíulegt viðhorf gerir eiginkonu sinni lífið leitt. Hann líkir ekki eftir Jesú og er Jehóva vanþóknanlegur. – Ef. 5:28, 29; 1. Pét. 3:7.

6. Hvað þurfa eiginkonur að gera til að styrkja samband sitt við Jehóva?

6 Eins og fram kom í greininni á undan væntir Jehóva þess að kristnir eiginmenn sjái fyrir andlegum, tilfinningalegum og efnislegum þörfum fjölskyldu sinnar. (1. Tím. 5:8) Giftar systur verða engu að síður að taka sér tíma í annríki lífsins til að lesa daglega í orði Guðs og hugleiða það ásamt því að biðja í einlægni til Jehóva. Það getur verið áskorun. Eiginkonur hafa mikið að gera þannig að þeim gæti fundist þær hvorki hafa tíma né orku til að gera þetta en það er mikilvægt að þær taki sér tíma til þess. Hvers vegna? Vegna þess að Jehóva vill að við eigum öll persónulegt samband við sig og leggjum rækt við það. – Post. 17:27.

7. Hvað gerir eiginkonu auðveldara að gegna hlutverki sínu?

7 Eiginkona þarf kannski að hafa mikið fyrir því að vera undirgefin ófullkomnum eiginmanni sínum. En það er auðveldara fyrir hana að gegna því hlutverki sem Jehóva hefur ætlað henni ef hún skilur og viðurkennir biblíulegar ástæður fyrir því að virða eiginmann sinn og vera honum undirgefin.

HVERS VEGNA AÐ KJÓSA FORYSTU EIGINMANNSINS?

8. Hvers vegna kýs kristin eiginkona að vera undirgefin eiginmanni sínum, samanber Efesusbréfið 5:22–24?

8 Kristin eiginkona kýs að vera undirgefin eiginmanni sínum vegna þess að það er vilji Jehóva. (Lestu Efesusbréfið 5:22–24.) Hún treystir föður sínum á himnum, vitandi að allt sem hann biður hana að gera er byggt á kærleika og er henni fyrir bestu. – 5. Mós. 6:24; 1. Jóh. 5:3.

9. Hvað hlýst af því þegar kristin kona virðir yfirráð eiginmannsins?

9 Heimurinn hvetur konur til að hunsa lög Guðs og líta á undirgefni sem lítillækkandi. En þeir sem halda slíkum hugmyndum á lofti þekkja ekki kærleiksríkan Guð okkar. Jehóva myndi aldrei fara fram á neitt við dýrmætar dætur sínar sem myndi lítillækka þær. Systir sem leggur sig fram í hlutverkinu sem Jehóva hefur falið henni stuðlar að friði í fjölskyldunni. (Sálm. 119:165) Það kemur eiginmanni hennar, henni sjálfri og börnunum til góða.

10. Hvað getum við lært af Carol?

10 Eiginkona sem er ófullkomnum manni sínum undirgefin sýnir að hún elskar og virðir Jehóva sem kom á fyrirkomulaginu um forystu. „Ég veit að eiginmaður minn mun gera mistök,“ segir Carol sem býr í Suður-Ameríku. „Ég veit líka að viðbrögð mín við mistökunum leiða í ljós að hvaða marki ég met samband mitt við Jehóva. Ég reyni að vera undirgefin vegna þess að mig langar til að þóknast himneskum föður mínum.“

11. Hvað hjálpar systur að nafni Aneese að vera fús til að fyrirgefa og hvað getum við lært af henni?

11 Það getur verið erfitt fyrir eiginkonu að sýna virðingu og undirgefni ef henni finnst eiginmaður hennar hunsa tilfinningar hennar og áhyggjur. En tökum eftir hvernig gift systir að nafni Aneese bregst við þegar það gerist. Hún segir: „Ég reyni að fara ekki í fýlu, minnug þess að öll gerum við mistök. Ég einset mér að fyrirgefa fúslega, rétt eins og Jehóva. Þegar ég fyrirgef öðlast ég aftur hugarró.“ (Sálm. 86:5) Kona sem er fús til að fyrirgefa á auðveldara með að sýna undirgefni.

HVAÐ GETUM VIÐ LÆRT AF DÆMUM SEM BIBLÍAN GREINIR FRÁ?

12. Hvaða dæmi er að finna í Biblíunni?

12 Sumum finnst ef til vill undirgefin persóna vera veikgeðja. En það er öðru nær. Í Biblíunni er að finna mörg dæmi um einstaklinga sem sýndu undirgefni en voru um leið sterkir og hugrakkir. Skoðum það sem við getum lært af Jesú, Abígail og Maríu.

13. Hvers vegna virðir Jesús yfirráð Jehóva? Skýrðu svarið.

13 Jesús er undirgefinn Jehóva en það er sannarlega ekki vegna þess að hann skorti greind eða hæfileika. Aðeins greind manneskja gæti kennt á jafn skýran og einfaldan hátt og Jesús. (Jóh. 7:45, 46) Jehóva vissi um færni Jesú og leyfði honum að vinna sér við hlið þegar hann skapaði alheiminn. (Orðskv. 8:30; Hebr. 1:2–4) Eftir að Jehóva hafði reist Jesú til lífs á ný gaf hann honum „allt vald á himni og jörð“. (Matt. 28:18) Enda þótt Jesús búi yfir miklum hæfileikum reiðir hann sig enn á leiðsögn Jehóva. Hvers vegna? Vegna þess að hann elskar föður sinn. – Jóh. 14:31.

14. Hvað geta eiginmenn lært af (a) viðhorfi Jehóva til kvenna? (b) Orðskviðunum 31?

14 Það sem eiginmenn geta lært. Jehóva ákvað ekki að eiginkona skyldi vera undirgefin eiginmanni sínum vegna þess að hann álíti konur lægra settar en karlmenn. Það er augljóst af því að Jehóva hefur valið bæði konur og karla til að ríkja með Jesú. (Gal. 3:26–29) Hann hefur sýnt að hann treystir syni sínum með því að fela honum vald. Á svipaðan hátt felur skynsamur eiginmaður konu sinni visst vald. Orð Guðs lýsir duglegri eiginkonu og segir að hún hafi umsjón með heimili, kaupi fasteignir og sjái um þær og stundi viðskipti. (Lestu Orðskviðina 31:15, 16, 18.) Hún er ekki þræll sem hefur ekki rétt á að tjá skoðun sína. Þvert á móti treystir eiginmaðurinn henni og hlustar á hugmyndir hennar. (Lestu Orðskviðina 31:11, 26, 27.) Þegar maður sýnir eiginkonu sinni virðingu á þennan hátt veitir það henni ánægju að vera honum undirgefin.

Hvað geta duglegar eiginkonur lært af undirgefni Jesú við Jehóva? (Sjá 15. grein.)

15. Hvað geta eiginkonur lært af Jesú?

15 Það sem eiginkonur geta lært. Þótt Jesús hafi afrekað margt finnst honum ekki lítillækkandi að vera undirgefinn Jehóva. (1. Kor. 15:28; Fil. 2:5, 6) Á svipaðan hátt finnst duglegri konu sem fylgir fordæmi Jesú ekki niðurlægjandi að vera undirgefinn eiginmanni sínum. Hún styður hann ekki aðeins vegna þess að hún elskar hann heldur fyrst og fremst vegna þess að hún elskar Jehóva og ber virðingu fyrir honum.

Abígail kemur til Davíðs eftir að hafa sent honum og mönnum hans mat. Hún beygir sig til jarðar og hvetur hann til að baka sjálfum sér ekki blóðskuld með því að hefna sín. (Sjá 16. grein.)

16. Hvaða vanda stóð Abígail frammi fyrir samkvæmt 1. Samúelsbók 25:3, 23–28? (Sjá forsíðumynd.)

16 Abígail var gift manni sem hét Nabal. Hann var eigingjarn, hrokafullur og vanþakklátur. Þrátt fyrir það reyndi Abígail ekki að finna ástæðu til að losna úr hjónabandinu. Hún hefði getað haldið kyrru fyrir og leyft Davíð og mönnum hans að drepa eiginmann sinn. Þess í stað gerði hún það sem hún gat til að vernda Nabal og stórt heimili þeirra. Við getum rétt ímyndað okkur hugrekkið sem hefur þurft til að fara og hitta 400 vopnaða menn og ræða málið við Davíð af virðingu. Hún var jafnvel tilbúin að taka á sig sökina fyrir það sem eiginmaður hennar hafði gert. (Lestu 1. Samúelsbók 25:3, 23–28.) Davíð áttaði sig á því að Jehóva notaði þessa sterku konu til að gefa sér ráðin sem hann þurfti og forðuðu honum frá því að gera alvarleg mistök.

17. Hvað geta eiginmenn lært af frásögunni af Davíð og Abígail?

17 Það sem eiginmenn geta lært. Abígail var skynsöm kona. Það var viturlegt af Davíð að hlusta á ráð hennar. Fyrir vikið bakaði hann sér ekki blóðskuld. Skynsamur eiginmaður hlustar líka á skoðanir eiginkonu sinnar áður en hann tekur mikilvægar ákvarðanir. Vera má að skoðun hennar forði honum frá því að taka óskynsamlega ákvörðun.

18. Hvað geta eiginkonur lært af Abígail?

18 Það sem eiginkonur geta lært. Eiginkona sem elskar Jehóva og ber virðingu fyrir honum getur haft jákvæð áhrif á fjölskyldu sína, jafnvel þótt eiginmaður hennar þjóni ekki Jehóva eða fylgi ekki meginreglum hans. Hún leitar ekki að ástæðu til að losna úr hjónabandinu. Með því að virða eiginmann sinn og vera honum undirgefin reynir hún að hvetja hann til að kynnast Jehóva. (1. Pét. 3:1, 2) En jafnvel þótt eiginmaðurinn kjósi að þjóna ekki Jehóva kann Jehóva að meta trúfestina sem undirgefin eiginkona sýnir honum.

19. Hvenær myndi eiginkona ekki hlýða eiginmanni sínum?

19 Undirgefin kristin eiginkona styður hins vegar ekki eiginmann sinn ef hann biður hana um að brjóta meginreglur Biblíunnar. Segjum að eiginmaður sem er ekki í trúnni segi konu sinni að ljúga, stela eða gera eitthvað annað sem Jehóva líkar ekki. Allir þjónar Guðs, þar á meðal giftar systur, þurfa fyrst og fremst að sýna Jehóva Guði hollustu. Ef systir er beðin um að brjóta meginreglur Biblíunnar ætti hún að neita og útskýra vingjarnlega en með festu hvers vegna hún geti ekki gert það sem hann biður um. – Post. 5:29.

Sjá 20. grein. *

20. Hvernig vitum við að María átti náið samband við Jehóva?

20 María átti náið samband við Jehóva. Hún þekkti Ritningarnar greinilega vel. Í samtali við Elísabetu, móður Jóhannesar skírara, vitnaði hún oftar en 20 sinnum í Hebresku ritningarnar. (Lúk. 1:46–55) Og taktu eftir því að þótt María hafi verið trúlofuð Jósef birtist engill Jehóva honum ekki fyrst. Engillinn fór fyrst til Maríu og sagði henni að hún myndi fæða son Guðs. (Lúk. 1:26–33) Jehóva þekkti Maríu vel og treysti að hún myndi elska og annast son hans. Og María átti eflaust áfram gott samband við Jehóva jafnvel eftir að Jesús dó og var reistur upp til lífs á himni. – Post. 1:14.

21. Hvað geta eiginmenn lært af því sem Biblían segir um Maríu?

21 Það sem eiginmenn geta lært. Skynsamur eiginmaður gleðst yfir því þegar eiginkona hans þekkir Biblíuna vel. Honum finnst það ekki ógna sér. Hann gerir sér grein fyrir því að kona sem þekkir Biblíuna og meginreglur hennar vel geti komið fjölskyldu sinni að miklu gagni. Jafnvel þótt eiginkonan sé með meiri menntun en eiginmaðurinn er það auðvitað á hans ábyrgð að taka forystuna í tilbeiðslunni eins og til dæmis í biblíunámsstund fjölskyldunnar. – Ef. 6:4.

Hvað geta eiginkonur lært af Maríu um biblíunám og hugleiðingu? (Sjá 22. grein.) *

22. Hvað geta eiginkonur lært af Maríu?

22 Það sem eiginkonur geta lært. Konu ber að vera eiginmanni sínum undirgefin en hún er sjálf ábyrg fyrir því að halda sér sterkri í trúnni. (Gal. 6:5) Hún þarf þess vegna að taka sér tíma fyrir sjálfsnám og til að hugleiða það sem hún lærir. Það hjálpar henni að halda áfram að elska Jehóva og bera virðingu fyrir honum og vera ánægð með að vera manni sínum undirgefin.

23. Hvernig geta undirgefnar eiginkonur gert sjálfum sér gagn, fjölskyldu sinni og söfnuðinum?

23 Eiginkonur sem eru eiginmönnum sínum undirgefnar vegna kærleika til Jehóva eru glaðari og ánægðari en þær sem hafna fyrirkomulagi Jehóva um forystu. Þær setja bæði ungum mönnum og konum gott fordæmi. Og þær stuðla að hlýju andrúmslofti bæði í fjölskyldunni og söfnuðinum. (Tít. 2:3–5) Meirihluti þjóna Jehóva nú á dögum er konur. (Sálm. 68:12) En við eigum öll mikilvægu hlutverki að gegna í söfnuðinum, hvort sem við erum karlmenn eða konur. Í næstu grein skoðum við hvernig við getum hvert og eitt okkar sinnt því hlutverki.

SÖNGUR 131 „Það sem Guð hefur tengt saman“

^ gr. 5 Það er fyrirkomulag Jehóva að gift kona sé undirgefin eiginmanni sínum. Hvað felur það í sér? Kristnir eiginmenn og eiginkonur geta áttað sig á því hvað undirgefni felur í sér með því að skoða fordæmi Jesú og kvenna sem Biblían segir frá.

^ gr. 68 MYND: Þegar María talaði við Elísabetu, móður Jóhannesar skírara, gat hún vitnað í ýmsa staði í Hebresku ritningunum sem hún hafði lagt á minnið.

^ gr. 70 MYND: Kristin eiginkona tekur sér tíma til að rannsaka Biblíuna til að halda trú sinni sterkri.