Dó Jesús virkilega fyrir mig?
BIBLÍAN hefur að geyma hjartnæm orð trúfastra manna sem höfðu sömu mannlegu tilfinningar og við. (Jak. 5:17) Við eigum til dæmis auðvelt með að setja okkur í spor Páls þegar hann viðurkennir einlæglega í Rómverjabréfinu 7:21–24: „Þótt ég vilji gera hið góða er hið illa mér tamast ... Ég aumur maður!“ Þegar við glímum við eigin ófullkomleika er hughreystandi að vita að trúföstum manni eins og Páli leið þannig með sjálfan sig.
Páll talaði líka um aðrar tilfinningar sínar. Í Galatabréfinu 2:20 segir hann fullviss: Jesús „elskaði mig og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir mig“. Líður þér þannig? Kannski ekki alltaf.
Ef við berjumst við lítið sjálfsálit vegna fyrri synda getur verið að við eigum stundum erfitt með að viðurkenna í hjarta okkar að Jehóva elski okkur og fyrirgefi, hvað þá að líta á lausnarfórnina sem persónulega gjöf til okkar. Vill Jesús virkilega að við lítum þannig á lausnargjaldið? Ef svo er, hvað getur hjálpað okkur til þess? Skoðum þessar tvær spurningar.
HVERNIG LÍTUR JESÚS Á FÓRN SÍNA?
Já, Jesús vill að við lítum á fórn hans sem persónulega gjöf. Hvernig vitum við það? Sjáðu fyrir þér aðstæðurnar í Lúkasi 23:39–43. Maður hangir á kvalastaur nálægt Jesú. Hann viðurkennir að hafa brotið af sér. Glæpurinn hlýtur að hafa verið alvarlegur því að aðeins verstu glæpamenn voru teknir af lífi með þessum grimmilega hætti. Í örvæntingu sinni grátbiður maðurinn Jesú: „Minnst þú mín þegar þú kemur í ríki þitt!“
Hvernig brást Jesús við? Ímyndaðu þér hve sársaukafullt það hefur verið að snúa höfðinu til að líta í augu glæpamannsins. Þrátt fyrir sársaukann brosir Jesús hlýlega til mannsins og hughreystir hann með því að segja: „Sannlega segi ég þér í dag: Þú skalt vera með mér í paradís.“ (NW) Jesús hefði einfaldlega getað minnt manninn á að ,Mannssonurinn kom til að gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla‘. (Matt. 20:28) En tókstu eftir að Jesús lagði áherslu á að fórnin næði til hans persónulega? Hann var vingjarnlegur og notaði persónufornöfnin „þú“ og „mér“. Hann sagði manninum að hann fengi að lifa í paradís á jörð.
Jesús vildi án efa að maðurinn liti á fórnina sem persónulega gjöf. Fyrst Jesú þótti svona vænt um glæpamann sem hafði ekki einu sinni fengið tækifæri til að þjóna Guði þykir honum klárlega enn vænna um skírðan þjón Guðs sem hefur iðrast synda sinna. En hvernig getum við tileinkað okkur slíkt heilbrigt viðhorf til sjálfra okkar þrátt fyrir fyrri syndir?
ÞAÐ SEM HJÁLPAÐI PÁLI
Þjónusta Páls hafði áhrif á það hvernig hann leit á fórn Jesú. Hvernig þá? Hann útskýrði: „Ég þakka honum sem mig styrkan gerði, Kristi Jesú, Drottni vorum, fyrir það að hann sýndi mér það traust að fela mér þjónustu, mér sem fyrrum lastmælti honum, ofsótti hann og smánaði.“ (1. Tím. 1:12–14) Verkefni Páls fullvissaði hann um að Jesús miskunnaði honum, elskaði hann og treysti honum. Jesús hefur sömuleiðis falið hverju og einu okkar þjónustu. (Matt. 28:19, 20) Getur hún haft sömu áhrif á okkur?
Albert sneri nýlega aftur til Jehóva, hátt í 34 árum eftir að honum var vikið úr söfnuðinum. Hann segir: „Syndir mínar standa mér stöðugt fyrir hugskotssjónum. En þegar ég boða trúna finnst mér Jesús hafa falið mér þjónustu rétt eins og Páli postula. Það gefur mér kraft og hjálpar mér að hugsa jákvætt um sjálfan mig, líf mitt og framtíð mína.“ – Sálm. 51:5.
Allan var ofbeldisfullur glæpamaður áður en hann kynntist sannleikanum. Hann viðurkennir: „Ég hugsa enn um allan þann skaða sem ég olli fólki. Stundum gerir það mig mjög niðurdreginn. En ég þakka Jehóva fyrir að leyfa syndara eins og mér að flytja fólki fagnaðarboðskapinn. Þegar ég sé fólk taka við boðskapnum minnir það mig á hve góður og kærleiksríkur Jehóva er. Mér finnst ég vera verkfæri í höndum hans til að aðstoða aðra með svipaðan bakgrunn og ég.“
Þegar við boðum trúna notum við krafta okkar í að gera öðrum gott og hugsa jákvætt. Það fullvissar okkur um að Jesús miskunni okkur, elski okkur og treysti.
JEHÓVA ER MEIRI EN HJARTA OKKAR
Þangað til hinum illa heimi Satans verður rutt úr vegi er hugsanlegt að við höldum áfram að dæma sjálf okkur fyrir fyrri syndir. Hvað getur hjálpað okkur að berjast gegn þeirri tilhneigingu?
„Ég er svo þakklát fyrir að Guð skuli vera ,meiri en hjarta okkar‘,“ segir Jean sem glímir oft við sektarkennd vegna þess að hún lifði tvöföldu lífi þegar hún var ung. (1. Jóh. 3:19, 20) Það getur sömuleiðis veitt okkur huggun að vita að Jehóva og Jesús skilja ófullkomleika okkar mun betur en við sjálf. Munum að þeir færðu lausnarfórnina ekki fyrir fullkomið fólk heldur fyrir syndara sem iðrast. – 1. Tím. 1:15.
Við verðum sannfærð um að lausnargjaldið nái til okkar persónulega þegar við hugleiðum hvernig Jesús kom fram við ófullkomna menn, gerum það að bænarefni og leggjum okkur fram um að gera þjónustu okkar góð skil. Þá geturðu sagt eins og Páll: Jesús „elskaði mig og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir mig“.