Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

ÆVISAGA

Ég hef bara gert það sem ég átti að gera

Ég hef bara gert það sem ég átti að gera

Í MEIRA en þrjá áratugi var Donald Ridley fulltrúi Votta Jehóva í dómsmálum. Hann átti þátt í að skilgreina rétt sjúklinga til að hafna blóðgjöf. Vinna hans skilaði mörgum sigrum fyrir hæstarétti í ýmsum fylkjum Bandaríkjanna. Vinir hans kölluðu hann Don. Hann var iðinn, auðmjúkur og fórnfús.

Árið 2019 greindist Don með sjaldgæfan ólæknandi taugahrörnunarsjúkdóm sem ágerðist hratt. Hann lést 16. ágúst sama ár. Þetta er saga hans.

Ég fæddist árið 1954 í Saint Paul í Minnesota í Bandaríkjunum. Foreldrar mínir voru af millistétt og rómversk-kaþólskir. Ég er næstelstur af fimm börnum. Ég gekk í kaþólskan grunnskóla og var altarisdrengur. En ég þekkti Biblíuna samt mjög lítið. Og þó að ég tryði að það hlyti að vera til Guð sem skapaði allt missti ég trúna á kirkjuna.

ÉG KYNNIST SANNLEIKANUM

Á fyrsta ári mínu í lögfræðinámi við William Mitchell College of Law bönkuðu vottahjón upp á hjá mér. Ég var upptekinn við að þvo þvott en þau voru svo vinsamleg að samþykkja að koma aftur. Þegar þau gerðu það spurði ég þau að tvennu: „Hvers vegna þarf gott fólk oft að lúta í lægra haldi og hvernig getur maður fundið sanna hamingju?“ Ég fékk bókina Sannleikurinn sem leiðir til eilífs lífs og Nýheimsþýðingu Biblíunnar í áberandi grænni kápu. Ég þáði líka biblíunámskeið. Biblíunámið hjálpaði mér að skilja mjög margt. Það gladdi mig mikið að fá að vita að ríki Guðs er stjórn sem mun ríkja yfir jörðinni. Ég sá að stjórn manna yfir eigin málum hafði mistekist hrapallega og valdið sársauka, þjáningum, óréttlæti og hörmungum um allan heim.

Ég vígði mig Jehóva snemma árs 1982 og skírðist seinna sama ár á mótinu „Sannindi Guðsríkis“ í félagsmiðstöðinni í Saint Paul í Minnesota. Viku síðar mætti ég aftur í félagsmiðstöðina í próf til að fá lögfræðiréttindi. Í byrjun október fékk ég svo að vita að ég hefði náð prófinu og var kominn með réttindi til að starfa sem lögfræðingur.

Á mótinu hitti ég Mike Richardson sem starfaði á Betel. Hann sagði mér að nú væri starfandi lögfræðideild við aðalstöðvarnar. Mér komu til hugar orð eþíópíska hirðmannsins í Postulasögunni 8:36 og spurði mig: „Hvað aftrar mér frá því að biðja um að vinna á lögfræðideildinni?“ Ég sótti því um á Betel.

Foreldrar mínir voru ekki ánægðir að ég skyldi vera orðinn vottur Jehóva. Pabbi spurði hvaða gagn ég hefði af því að starfa sem lögfræðingur hjá Varðturnsfélaginu og ég sagði honum að ég myndi vinna sjálfboðavinnu og fengi 75 dollara í fjárstyrk á mánuði sem Betelíti.

Ég byrjaði á Betel í Brooklyn í New York 1984 þegar ég var laus við skuldbindingar sem ég hafði í vinnu. Mér var falið að starfa á lögfræðideildinni. Þetta hefði ekki getað verið betri tímasetning fyrir mig.

STANLEY-KVIKMYNDAHÚSIÐ ENDURNÝJAÐ

Stanley-kvikmyndahúsið eins og það leit út þegar það var keypt.

Í nóvember 1983 voru fest kaup á Stanley-kvikmyndahúsinu í Jersey City í New Jersey-ríki. Bræðurnir sóttu um leyfi til að endurnýja rafmagns- og pípulagnir hússins. Þegar þeir áttu fund með borgaryfirvöldum sögðu þeir að til stæði að nota húsið sem mótshöll Votta Jehóva. Það var vandamál. Svæðisskipulag borgarinnar leyfði húsnæði ætlað undir tilbeiðslu aðeins í íbúðarhverfum. Stanley-kvikmyndahúsið var á viðskiptasvæði miðbæjarins svo að borgaryfirvöld vildu ekki veita leyfið. Bræðurnir áfrýjuðu en fengu aftur neitun.

Fyrstu vikuna mína á Betel höfðaði söfnuðurinn mál fyrir alríkisundirrétti til að reyna að fá neituninni hnekkt. Ég var nýbúinn að ljúka tveggja ára starfi sem ritari í réttinum í Saint Paul í Minnesota og var þess vegna vel inni í málum sem þessu. Einn lögmanna okkar setti fram þau rök í málinu að Stanley-kvikmyndahúsið hefði verið notað undir ýmsa opinbera viðburði, allt frá kvikmyndum til rokktónleika. Hvers vegna ætti þá ekki að vera löglegt að vera með trúarlegan viðburð þar? Alríkisundirrétturinn tók málið til skoðunar og úrskurður hans var að Jersey City hefði brotið gegn trúfrelsi okkar og borgin var dæmd til að veita leyfið. Ég sá hvernig Jehóva blessaði það að söfnuðurinn notaði lagalegar leiðir til að efla starf hans. Ég var mjög ánægður að mega eiga þátt í því.

Bræðurnir hófust handa við það gríðarstóra verkefni að endurnýja húsið. Og innan við ári síðar, þann 8. september 1985, var útskrift 79. bekkjar Gíleaðskólans haldin í mótshöllinni. Mér fannst heiður að fá að starfa með lögfræðiteyminu í þágu Guðsríkis. Gleðin sem ég upplifði var miklu meiri en ég hafði nokkurn tíma upplifað í lögfræðistarfi áður en ég kom á Betel. Mig óraði ekki fyrir hvað Jehóva átti eftir að fela mér mörg önnur slík verkefni.

AÐ VERJA RÉTT OKKAR Á LÆKNISMEÐFERÐ ÁN BLÓÐGJAFAR

Á níunda áratug síðustu aldar var algengt að læknar og spítalar hunsuðu óskir lögráða votta um að fá meðferð án blóðgjafar. Ófrískar konur mættu stærri hindrunum því að dómurum fannst oft að konur ættu ekki lagalegan rétt á að neita blóðgjöf. Rökin voru að ef þær fengju ekki blóðgjöf gæti ungbarnið misst móður sína.

Þann 29. desember 1988 missti systir Denise Nicoleau mikið blóð eftir að hafa fætt son. Blóðrauðinn féll niður fyrir 5,0 og læknirinn hennar bað um leyfi til að gefa henni blóð. Hún neitaði. Morguninn eftir fór spítalinn fram á dómsúrskurð þess efnis að starfsfólk spítalans mætti gefa henni blóð, eins og það taldi nauðsynlegt. Dómarinn úrskurðaði að spítalinn mætti gefa systur Denise blóð, og það án þess að taka málið fyrir eða láta hana eða manninn hennar vita af því.

Föstudaginn 30. desember gaf starfsfólk spítalans Denise blóð þrátt fyrir mótmæli mannsins hennar og annarra ættingja sem voru hjá henni. Um kvöldið voru nokkrir úr fjölskyldunni og einn eða tveir öldungar handteknir og þeim gefið að sök að hafa staðið í kringum rúmið hennar til að koma í veg fyrir að henni yrði gefin blóðgjöf. Á laugardagsmorgni 31. desember var sagt frá handtökunum í fréttum dagblaða, sjónvarps og útvarps í New York-borg og á Long Island.

Við Philip Brumley þegar við vorum ungir.

Á mánudagsmorgni talaði ég við Milton Mollen dómsforseta og útskýrði fyrir honum málavexti. Ég benti á að dómarinn í málinu hefði gefið leyfi fyrir blóðgjöfinni án þess að taka málið fyrir. Mollen dómari bað mig að koma til sín seinna um daginn til að ræða þetta mál og lög sem ættu við það. Umsjónarmaður minn, Philip Brumley, fór með mér á skrifstofu Mollens dómara þetta kvöld. Dómarinn bauð líka lögmanni spítalans að vera viðstaddur. Umræðurnar urðu ákafar. Á einum tímapunkti skrifaði bróðir Philip „róaðu þig“ í minnisbókina sína til að minna mig á að halda rónni. Það var gott ráð því að ég var farinn að æsa mig upp við að hrekja rök lögmannsins.

Frá vinstri: Richard Moake, Gregory Olds, Paul Polidoro, Philip Brumley, ég og Mario Moreno – lögmenn okkar daginn sem málið Watchtower v. Village of Stratton (Varðturnsfélagið gegn Stratton-þorpi) var flutt fyrir Hæstarétti Bandaríkjanna. – Sjá Vaknið! á ensku 8. janúar 2003.

Eftir um það bil klukkustund sagði Mollen dómari að þetta yrði fyrsta málið á dagskrá morguninn eftir. Þegar við vorum að fara sagði dómarinn að lögmaður spítalans ætti „erfitt verkefni“ fyrir höndum. Það yrði ekki auðvelt fyrir lögmanninn að verja mál spítalans. Mér fannst Jehóva vera að segja mér að við værum með sterkt mál í höndunum. Það var undravert að sjá hvernig Jehóva vildi nota okkur til að framkvæma vilja sinn.

Við unnum fram á nótt við að undirbúa mál okkar. Dómshúsið er rétt hjá Betel í Brooklyn svo að flestir úr litlu lögfræðideildinni okkar gengu þangað. Eftir að kviðdómararnir fjórir höfðu hlustað á rök okkar ógiltu þeir dóminn sem leyfði blóðgjöfina. Hæstiréttur dæmdi systur Denise Nicoleau í vil og staðfesti lög þess efnis að ef fenginn væri dómsúrskurður eða mál flutt án þess að það væri tilkynnt teldist það brot á stjórnarskrárbundnum grundvallarréttindum.

Stuttu síðar staðfesti æðsta dómstig New York rétt systur Denise til að fá læknismeðferð án blóðgjafar. Þetta var fyrsta málið af fjórum sem ég fékk að koma að tengdum blóðgjöfum og sem fóru fyrir hæstarétt í Bandaríkjunum. (Sjá rammann „Sigrar í hæstarétti í Bandaríkjunum“.) Ég hef einnig unnið með öðrum lögmönnum á Betel í forræðismálum, skilnaðarmálum og málum sem tengjast skipulags- og fasteignarétti.

HJÓNABAND OG FJÖLSKYLDA

Við Dawn konan mín.

Þegar ég kynntist Dawn konunni minni var hún fráskilin með þrjú börn. Hún var brautryðjandi jafnframt því að sjá fyrir sér. Líf hennar hafði ekki verið auðvelt og ég var mjög hrifinn af því hve einbeitt hún var í þjónustunni við Jehóva. Við sóttum mótið „Ljósberar“ árið 1992 í New York-borg og ég spurði hana hvort við ættum að kynnast betur. Ári síðar giftum við okkur. Það er gjöf frá Jehóva að eiga andlega sinnaða konu með gott skopskyn. Dawn hefur sannarlega gert mér gott alla ævidagana sem við höfum átt saman. – Orðskv. 31:12.

Börnin voru 11, 13 og 16 ára þegar við giftum okkur. Mig langaði að vera góður faðir og las og tók til mín allt sem ég fann í ritunum okkar varðandi stjúpforeldra. Það hefur ekki alltaf verið auðvelt en ég fagna því að börnin hafa tekið mér sem traustum vini og ástríkum pabba. Vinir krakkanna okkar hafa alltaf verið velkomnir heim til okkar. Við höfðum gaman af að hafa húsið fullt af fjörugum unglingum.

Við Dawn fluttumst til Wisconsin árið 2013 til að annast aldraða foreldra okkar. Mér til undrunar var Betelþjónustu minni ekki lokið. Mér var boðið að halda áfram að veita söfnuðinum lögfræðiaðstoð með tímabundnu starfi á Betel.

SKYNDILEG BREYTING

Í september 2018 tók ég eftir að ég var farinn að ræskja mig oft. Læknirinn minn skoðaði mig en gat ekki greint orsökina. Síðar lagði annar læknir til að ég færi til taugasjúkdómafræðings. Í janúar 2019 fékk ég bráðabirgðagreiningu um að ég væri með sjaldgæfan kvilla sem kallast ágeng ofankjarnalömun (PSP).

Þrem dögum síðar datt ég á skautum og brákaði úlnlið. Þá vissi ég að ég væri að tapa hreyfigetu því að ég hef verið á skautum síðan ég man eftir mér. Það hefur komið mér á óvart hve hratt sjúkdómurinn ágerist. Ég á sífellt erfiðara með að tala, hreyfa mig og kyngja.

Ég hef notið þess heiðurs að fá að nýta reynslu mína sem lögfræðingur til að eiga dálítinn þátt í að efla hag Guðsríkis. Og ég hef fengið að skrifa greinar í ýmis fræðirit og tala á læknaráðstefnum víðs vegar um heiminn til að verja rétt votta Jehóva til að velja læknismeðferð án blóðgjafar. En ég segi eins og Lúkas sagði í Lúkasi 17:10: ,Ég er ómerkilegur þjónn. Ég hef bara gert það sem ég átti að gera.‘