Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Ættu vottar Jehóva að nota stefnumótasíður í leit að maka?

Jehóva vill vissulega að tvær manneskjur sem ganga í hjónaband séu hamingjusamar og eigi sterkt og varanlegt samband. (Matt. 19:4–6) Hvar geturðu fundið góðan lífsförunaut ef þig langar til að giftast? Sem skapari okkar veit Jehóva hvað er nauðsynlegt til að eiga farsælt tilhugalíf og hjónaband. Þú verður hamingjusamur ef þú hefur að leiðarljósi meginreglurnar sem hann hefur gefið okkur. Skoðum sumar af þessum meginreglum.

Það er grundvallaratriði að skilja að eftirfarandi á við um okkur öll: „Svikult er hjartað framar öllu öðru og forhert.“ (Jer. 17:9) Þegar tvær manneskjur sem langar til að giftast fara að hittast reglulega geta sterkar tilfinningar magnast upp mjög fljótt og skyggt á dómgreindina. Það endar oft með vonbrigðum þegar fólk byggir ákvörðun um að giftast á tilfinningum einum saman. (Orðskv. 28:26) Þess vegna er ekki skynsamlegt af þeim sem draga sig saman að tjá blíðar tilfinningar of snemma í sambandinu eða skuldbinda sig áður en þau þekkja hvort annað vel.

Í Orðskviðunum 22:3 segir: „Vitur maður sér ógæfuna og felur sig en einfeldningarnir halda áfram og gjalda þess.“ Hvers vegna getur verið hættulegt að nota stefnumótasíður? Sumir hafa orðið fyrir þeirri bitru reynslu að manneskja sem þeir hittu á netinu blekkti þá. Óheiðarlegt fólk hefur líka stofnað falska reikninga til að svíkja fé út úr hrekklausu fólki. Sumir sem hafa blekkt fólk þannig þóttust vera vottar.

Skoðum aðra hættu. Á sumum stefnumótasíðum eru notaðar ákveðnar reikningsaðferðir til að meta hverjir passi saman. En ekkert bendir til að slíkar aðferðir virki. Væri skynsamlegt að setja traust sitt á tölvuforrit sem er gert af mönnum í jafn mikilvægu máli og að velja sér lífsförunaut? Tölvuforrit standast engan samanburð við meginreglur Biblíunnar. – Orðskv. 1:7; 3:5–7.

Í Orðskviðunum 14:15 er bent á þessa meginreglu: „Einfaldur maður trúir öllu en hygginn maður kann fótum sínum forráð.“ Þú þarft að þekkja persónu vel til að vita hvort hún gæti verið góður maki. En það er ekki auðvelt að kynnast annarri manneskju á netinu. Er hægt að segja að þú þekkir hana þótt þið hafið aðgang að upplýsingum um hvort annað á netinu og notið mikinn tíma í samskipti þar? Sumir sem voru sannfærðir um að hafa fundið sanna ást með þessum hætti urðu fyrir áfalli þegar þeir hittust augliti til auglitis.

Sálmaritarinn sagði: „Ég umgengst ekki svikula menn og forðast þá sem fela sitt sanna eðli.“ (Sálmur 26:4, NW) Mörgum finnst eðlilegt að ljúga þegar þeir setja upplýsingar um sig á stefnumótasíður til að líta betur út í augum annarra. Þannig fela þeir sitt sanna eðli. Það getur líka gerst að fólk villi óviljandi á sér heimildir án þess að gera sér grein fyrir því þegar það á samskipti við aðra á netinu. Sumir segjast kannski vera vottar Jehóva en eru þeir skírðir vottar? Eru þeir þroskaðir í trúnni? Hafa þeir sterkt samband við Jehóva? Eru þeir virtir í söfnuðinum? Eða eru þeir slæmar fyrirmyndir eða jafnvel „vondur félagsskapur“? (1. Kor. 15:33; 2. Tím. 2:20, 21) Hafa þeir biblíulegt frelsi til að giftast? Þú þarft að vita þetta um þann sem þú hefur áhuga á en það getur verið erfitt án þess að tala við votta sem þekkja hann vel. (Orðskv. 15:22) Og trúfastur þjónn Jehóva myndi auðvitað ekki einu sinni hugleiða að ,gangast undir ok með vantrúuðum‘. – 2. Kor. 6:14; 1. Kor. 7:39.

Í ljósi þeirra hætta sem fylgja því að nota stefnumótasíður er skynsamlegt að finna betri leiðir til að leita sér að maka og komast í samband sem getur orðið að heiðvirðu hjónabandi. Hvar geturðu fundið hugsanlegan maka? Þegar hægt er að hittast geta vottar Jehóva kynnst öðrum vottum augliti til auglitis á safnaðarsamkomum, svæðismótum, umdæmismótum og við önnur tækifæri þegar trúsystkini koma saman.

Þegar þið verjið tíma saman sérðu smám saman betur hvort markmið ykkar og gildi fara saman.

Þegar ekki er hægt að hittast við slík tækifæri, eins og til dæmis vegna COVID-19-heimsfaraldursins, notum við rafrænar lausnir til að halda samkomur sem gefa tækifæri til á að kynnast einhleypum vottum. Þú getur fylgst með þegar hann flytur ræður og tjáir trú sína í svörum sínum. (1. Tím. 6:11, 12) Þið fáið kannski tækifæri til að tala saman í rafrænu spjallherbergi eftir samkomu. Þegar hópur votta kemur saman í spjallherbergi færðu tækifæri til að sjá hvernig sá sem þú villt kynnast hagar sér í samskiptum við aðra og hvort hann sýnir þeim áhuga. Þannig sérðu hvaða mann hann hefur að geyma. (1. Pét. 3:4) Eftir því sem þið kynnist betur sérðu hvort markmið ykkar og gildi fara saman og hvort þið passið saman.

Þegar einhleypt fólk fer eftir meginreglum Biblíunnar þegar það leitar sér að maka er líklegra en ella að það öðlist þá reynslu sem er lýst í þessum orðskvið: „Sá [eða sú] sem eignast konu [eða mann] eignast gersemi og hlýtur náðargjöf frá Drottni.“ – Orðskv. 18:22.