ÆVISAGA
Ég hef leyft Jehóva að greiða götu mína
ÞEGAR ég var unglingur kaus ég sjálfur hvaða leið ég vildi fara og valdi ævistarf sem ég mat mikils. En Jehóva bauð mér að fara aðra leið með því að segja: „Ég fræði þig og vísa þér veginn sem þú átt að ganga.“ (Sálm. 32:8) Að leyfa Jehóva að vísa mér veginn hefur opnað dyr að ævistarfi með frábærum tækifærum og margvíslegri blessun, þar á meðal þjónustu í Afríku í 52 ár.
FRÁ BLACK COUNTRY Í HLÝTT HJARTA AFRÍKU
Ég fæddist árið 1935 í Darlaston í Black Country, svæði á Englandi sem dregur nafn sitt af svörtu reykmettuðu lofti frá mörgum málmsteypusmiðjum og öðrum verksmiðjum. Þegar ég var fjögurra ára byrjuðu foreldrar mínir að rannsaka Biblíuna með aðstoð votta Jehóva. Snemma á unglingsárunum sannfærðist ég um að það sem ég lærði væri sannleikurinn og lét skírast árið 1952 þegar ég var 16 ára.
Um svipað leyti byrjaði ég sem lærlingur í stórri verksmiðju sem framleiddi handverkfæri og varahluti í vélknúin ökutæki. Ég hlaut þjálfun til að fá ábyrgðarstöðu á skrifstofu fyrirtækisins og naut þess að vera í þessari vinnu.
Ég stóð frammi fyrir mikilvægri ákvörðun þegar farandhirðir fól mér að stjórna safnaðarbóknáminu í miðri viku í söfnuðinum mínum í Willenhall. En mér var vandi á höndum. Ég sótti samkomur í tveim söfnuðum. Í miðri viku fór ég á samkomur í söfnuðinum sem var næstur vinnustaðnum mínum í Bromsgrove, 32 kílómetra frá heimili mínu. Um helgar fór ég heim til foreldra minna og sótti samkomur í Willenhall.
Mig langaði til að leggja söfnuði Jehóva lið þannig að ég þáði boð farandhirðisins þótt það þýddi að ég þyrfti að segja skilið við starfið sem ég mat svo mikils. Að leyfa Jehóva að vísa mér veginn við þetta tækifæri opnaði dyr að mjög ánægjulegu lífi.
Meðan ég sótti samkomur í söfnuðinum í Bromsgrove hitti ég aðlaðandi og andlega sinnaða systur sem heitir Anne. Við giftum okkur árið 1957 og saman höfum við notið þess að þjóna sem brautryðjendur og sérbrautryðjendur, í farandstarfinu og á Betel. Anne hefur veitt mér mikla gleði um ævina.
Það var mjög spennandi að sækja 42. bekk Gíleaðskólans árið 1966. Við vorum send til Malaví en sagt er að landið sé hlýtt hjarta Afríku vegna þess hve fólkið þar er vingjarnlegt og gestrisið. Okkur óraði ekki fyrir að fljótlega yrðum við ekki lengur velkomin.
ÞJÓNUSTA VIÐ ERFIÐAR AÐSTÆÐUR Í MALAVÍ
Við komum til Malaví 1. febrúar 1967. Eftir mánaðarlangt og stíft tungumálanámskeið byrjuðum við í farandstarfinu. Við vorum á torfærujeppa sem sumir héldu að væri hægt að keyra hvert sem var, líka yfir ár. En raunin var sú að við gátum aðeins farið yfir ár á grunnu vaði. Stundum gistum við í moldarkofum með stráþaki. Á regntímabilum þurfti að hengja upp vatnsþéttan segldúk undir þakið. Þetta var ekki þægilegasta leiðin til að hefja trúboðsstarf en við nutum þess.
Í apríl varð mér ljóst að vandamál voru í aðsigi. Ég hlustaði á útvarpsræðu sem Dr. Hastings Banda forseti Malaví flutti. Hann fullyrti að vottar Jehóva borguðu ekki skatta og að þeir skiptu sér að stjórnmálum. Þessar ásakanir vor auðvitað rangar. Við vissum öll að þetta snerist um hlutleysi okkar, sérstaklega það að við neituðum að kaupa pólitísk flokksskírteini.
Í september lásum við í dagblaðinu að forsetinn sakaði vottana um að vera alls staðar til vandræða. Hann tilkynnti á pólitískri ráðstefnu að ríkisstjórn hans myndi bregðast skjótt við og banna starfsemi Votta Jehóva. Bannið tók gildi 20. október
1967. Stuttu síðar lokuðu lögreglumenn og fulltrúar útlendingaeftirlitsins deildarskrifstofunni og vísuðu trúboðunum úr landi.Eftir þrjá daga í varðhaldi sendu yfirvöld okkur til Máritíus, lands undir yfirráðum Bretlands. En yfirvöld á Máritíus vildu ekki leyfa okkur að vera þar sem trúboðar þannig að okkur var falið að þjóna í Rhodesíu sem heitir nú Simbabve. Þegar þangað var komið hittum við fyrir ruddalegan útlendingaeftirlitsmann sem meinaði okkur aðgang að landinu. Hann sagði: „Þið máttuð ekki vera í Malaví. Ykkur var ekki leyft að vera á Máritíus og nú komið þið hingað vegna þess að það er þægileg lausn.“ Anne brast í grát. Við virtumst ekki vera velkomin neins staðar. Þá stundina langaði mig að fara beint heim til Englands. Að lokum leyfði útlendingaeftirlitið okkur að gista á deildarskrifstofunni að því tilskildu að við tilkynntum okkur daginn eftir. Við vorum úrvinda en settum allt í hendur Jehóva. Seinnipart næsta dags fengum við óvænt leyfi til að dvelja í Simbabve sem gestir. Ég gleymi aldrei hvernig mér leið þennan dag – ég var sannfærður um að Jehóva væri að stýra skrefum okkar.
NÝTT VERKEFNI – AÐ SINNA MALAVÍ FRÁ SIMBABVE
Á deildarskrifstofunni í Simbabve var mér falið að vinna í þjónustudeildinni og sjá um Malaví og Mósambík. Trúsystkini í Malaví sættu grimmilegum ofsóknum. Eitt af verkefnum mínum var að þýða skýrslur frá farandhirðum þar. Kvöld eitt þegar ég var að klára að þýða skýrslu grét ég vegna ofbeldisins sem bræður mínir og systur urðu fyrir. * En ég var um leið djúpt snortinn af trúfesti þeirra, trú og þolgæði. – 2. Kor. 6:4, 5.
Við gerðum allt sem í okkar valdi stóð til að færa trúsystkinum sem urðu eftir í Malaví andlega fæðu og eins þeim sem höfðu flúið ofbeldið til Mósambík. Þýðingarteymið sem þýddi á Chichewa, útbreiddasta tungumálið í Malaví, flutti á stóran bóndabæ í eigu bróður í Simbabve. Hann byggði handa þeim hús og skrifstofu. Þar héldu þýðendurnir áfram því mikilvæga starfi að þýða biblíurit.
Við gerðum ráðstafanir til að farandhirðar í Malaví gætu sótt umdæmismót á Chichewa á hverju ári í Simbabve. Þar fengu þeir ræðudrög fyrir ræður á umdæmismótinu. Á leiðinni til baka til Malaví gerðu þeir sitt besta við að ræða efnið við trúsystkini. Eitt árið þegar þeir komu í heimsókn til Simbabve gátum við haldið Ríkisþjónustuskólann til að hvetja þessa hugrökku farandhirða.
Í febrúar árið 1975 heimsótti ég bræður sem höfðu flúið frá Malaví í flóttamannabúðir í Mósambík. Bræðurnir fylgdu nýjustu leiðbeiningum safnaðar Jehóva og mynduðu meðal annars öldungaráð. Þessir nýju öldungar gerðu margt til að sinna tilbeiðslunni á Jehóva, þar á meðal að flytja opinberar ræður, ræða dagstextann og Varðturninn og halda jafnvel svæðismót. Þeir breyttu flóttamannabúðunum í mótsstað með deildir fyrir þrif, mat og öryggi. Þessir trúföstu bræður áorkuðu miklu með blessun Jehóva og það var ákaflega hvetjandi fyrir mig að heimsækja þá.
Seint á áttunda áratugnum tók deildarskrifstofan í Sambíu við umsjón með Malaví. En ég hugsaði oft um trúsystkinin þar og bað fyrir þeim og það gerðu margir aðrir líka. Ég sat í deildarnefndinni og sem slíkur hitti ég nokkrum sinnum fulltrúa aðalstöðvanna ásamt bræðrum í ábyrgðarstöðum frá Malaví, Suður-Afríku og
Sambíu. Við spurðum alltaf sömu spurningarinnar: „Hvað fleira getum við gert fyrir trúsystkinin í Malaví?“Með tímanum dró úr ofsóknunum. Trúsystkini sem höfðu flúið landið sneru smán saman aftur til Malaví og þau sem höfðu orðið eftir þar sættu ekki eins hörðum ofsóknum og áður. Nágrannalönd veittu Vottum Jehóva lagalega viðurkenningu og afléttu hömlum. Mósambík gerði það líka árið 1991. En við veltum fyrir okkur hvenær vottar Jehóva í Malaví myndu öðlast frelsi.
VIÐ FÖRUM AFTUR TIL MALAVÍ
Stjórnmálaástandið í Malaví breyttist um síðir og árið 1993 afnámu yfirvöld lögbannið á starfsemi Votta Jehóva. Stuttu seinna spurði trúboði mig hvort ég færi aftur til Malaví. Ég var orðinn 59 ára og sagðist vera orðinn of gamall. En sama dag fékk ég símbréf frá stjórnandi ráði þar sem okkur var boðið að fara þangað aftur.
Þetta var erfið ákvörðun því að okkur þótti vænt um verkefni okkar í Simbabve. Okkur leið mjög vel þar og við höfðum eignast góða vini. Stjórnandi ráð bauð okkur að vera áfram ef við vildum. Það hefði því verið auðvelt að velja sjálf þá leið sem við vildum fara og vera áfram í Simbabve. En ég man að ég hugleiddi að Abraham og Sara yfirgáfu þægilegt heimili á efri árum til að hlýða fyrirmælum Jehóva. – 1. Mós. 12:1–5.
Við ákváðum að þiggja boðið og fórum til Malaví 1. febrúar 1995, 28 árum upp á dag eftir að við komum þangað fyrst. Deildarnefnd var mynduð og í henni sat ég og tveir aðrir bræður. Fljótlega vorum við í fullum gangi að endurskipuleggja starfsemi votta Jehóva.
JEHÓVA GEFUR VÖXTINN
Hvílík blessun að sjá Jehóva hraða vextinum! Boðberum fjölgaði úr 30.000 árið 1993 í meira en 42.000 árið 1998. * Stjórnandi ráð samþykkti byggingu nýrrar deildarskrifstofu til að mæta aukinni þörf á starfssvæðinu. Við keyptum 12 hektara lóð í Lilongwe og mér var falið að sitja í byggingarnefndinni.
Bróðir Guy Pierce í stjórnandi ráði flutti vígsluræðuna vegna nýju deildarskrifstofunnar í maí 2001. Rúmlega tvö þúsund vottar frá svæðinu voru viðstaddir en flestir þeirra höfðu verið skírðir í meira en 40 ár. Þessi trúföstu trúsystkini höfðu þolað ólýsanlegar raunir meðan á banninu stóð. Þau höfðu lítið milli handanna en voru andlega mjög rík. Þau nutu þess að fara í skoðunarferð á Betel. Meðan þau gengu um sungu þau ríkissöngva að afrískum hætti. Þetta var hjartnæmasti viðburður sem ég hef nokkurn tíma verið viðstaddur og augljóst merki um að Jehóva blessar þá ríkulega sem halda trúfastir út í prófraunum.
Eftir að byggingu deildarskrifstofunnar var lokið naut ég þess að fá að flytja vígsluræður þegar byggðir voru nýir ríkissalir. Söfnuðirnir í Malaví nutu góðs af ráðstöfun sem var gerð til að flýta fyrir byggingu ríkissala í löndum með takmörkuð fjárráð. Áður höfðu sumir söfnuðir haft samkomur í skýlum úr tröllatré með stráþökum og bekkjum úr leir. Nú unnu bræðurnir hörðum höndum við að gera múrsteina í ofnum sem þeir höfðu sjálfir hannað og byggðu nýja ríkissali. En þeir vildu áfram hafa bekki í ríkisölunum því að alltaf er pláss fyrir einn í viðbót á bekk, eins og orðatiltækið segir.
Það hefur líka verið ánægjulegt að sjá bræður og systur vaxa og dafna andlega. Það snerti mig sérstaklega að sjá unga afríska bræður bjóða sig fram til þjónustu. Þeir voru fljótir að öðlast reynslu vegna menntunar og þjálfunar á vegum safnaðarins. Þeir tóku á sig meiri ábyrgð á Betel og í söfnuðunum. Söfnuðirnir styrktust enn frekar þegar bræður á staðnum voru útnefndir farandhirðar. Sumir þeirra voru giftir og þessi hjón kusu að fresta því að eignast börn þrátt fyrir þrýsting frá samfélaginu og stundum fjölskyldunni til að geta gert meira í þjónustu Jehóva.
ÉG ER ÁNÆGÐUR MEÐ ÁKVARÐANIR MÍNAR
Eftir 52 ár í Afríku var ég farinn að glíma við heilsuvandamál. Stjórnandi ráð samþykkti meðmæli deildarskrifstofunnar um að við færum aftur til Bretlands. Við vorum vonsvikin að segja skilið við verkefni sem okkur þótti vænt um en Betelfjölskyldan í Bretlandi sér mjög vel um okkur í ellinni.
Ég er sannfærður um að það hafi verið besta ákvörðun sem ég hef tekið að leyfa Jehóva að velja þá leið sem ég átti að fara. Hver veit hvert ferill í heiminum hefði leitt mig ef ég hefði reitt mig á eigin vitsmuni. Jehóva vissi allan tímann hvernig hann átti að ,greiða götu mína‘. (Orðskv. 3:5, 6) Sem ungum manni fannst mér heillandi að læra hvernig stórt fyrirtæki er rekið. En ég hef átt ánægjulegri andlegan feril í söfnuði Jehóva. Að þjóna Jehóva hefur gert og gerir lífið sannarlega innihaldsríkt og gott.