Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Látið ljós ykkar lýsa, Jehóva til vegsemdar

Látið ljós ykkar lýsa, Jehóva til vegsemdar

„Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir ... vegsami föður yðar.“ – MATT. 5:16.

SÖNGVAR: 77, 59

1. Hvaða ástæðu höfum við til að gleðjast?

ÞAÐ er mjög gleðilegt að heyra af þeirri aukningu sem á sér stað meðal þjóna Jehóva um allan heim. Á síðasta ári héldum við að jafnaði meira en 10.000.000 biblíunámskeiða. Það sýnir svo ekki verður um villst að þjónar Guðs láta ljós sitt lýsa. Hugsaðu um allar þær milljónir sem sóttu minningarhátíðina og heyrðu rætt um kærleikann sem Guð sýndi með því að greiða lausnargjaldið. – 1. Jóh. 4:9.

2, 3. (a) Hvað kemur ekki í veg fyrir að við skínum „eins og ljós í heiminum“? (b) Hvað ræðum við í þessari grein með hliðsjón af orðum Jesú í Matteusi 5:14-16?

2 Vottar Jehóva um allan heim tala ýmis tungumál. Það kemur þó ekki í veg fyrir að við lofum Jehóva, föður okkar, í sameiningu. (Opinb. 7:9) Við getum öll skinið „eins og ljós í heiminum“, óháð því hvert móðurmál okkar er og hvar við búum. – Fil. 2:15.

3 Vöxturinn sem við sjáum, einingin sem við njótum og vitundin um á hvaða tímum við lifum stuðlar að því að við séum Jehóva til vegsemdar. Í þessari grein ræðum við hvernig við látum ljós okkar lýsa á þessum þrem sviðum. – Lestu Matteus 5:14-16.

HVETJUM FÓLK TIL AÐ KYNNAST JEHÓVA

4, 5. (a) Hvernig getum við látið ljós okkar lýsa? (b) Hverju getum við áorkað með hlýlegri framkomu? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

4 „Enginn getur verið Drottni trúr og hollur á þeim tíma sem eftir er ... nema hann noti tækifærið til að láta ljós sitt lýsa.“ Þetta stóð í greininni „Ljós í myrkri“ sem birtist í Varðturninum 1. júní 1925. Síðan sagði: „Hann þarf að gera það með því að segja jarðarbúum frá fagnaðarerindinu og fylgja vegi ljóssins.“ Ljóst er að ein leið til að láta ljós okkar lýsa er að boða fagnaðarerindið og gera fólk að lærisveinum. (Matt. 28:19, 20) Við getum enn fremur verið Jehóva til heiðurs með hegðun okkar. Húsráðendur og vegfarendur taka eftir okkur. Vingjarnlegt bros og hlýleg kveðja segja heilmikið um okkur og þann Guð sem við tilbiðjum.

5 „Þegar þér komið í hús þá árnið því góðs,“ sagði Jesús við lærisveina sína. (Matt. 10:12) Algengt var að fólk byði ókunnugum inn á heimili sitt á þeim slóðum þar sem Jesús og postularnir boðuðu trúna. Víða um lönd er það ekki mjög algengt nú á dögum. Fólk er oft kvíðið eða pirrað þegar ókunnugir banka upp á. En ef við erum hlýleg og vingjarnleg er líklegt að fólk slaki á. Það er einnig reynsla bræðra og systra sem boða trúna við ritatrillur á almannafæri. Ef þú tekur þátt í slíku starfi getur hlýlegt bros og vingjarnleg kveðja verið fólki hvatning til að ganga til þín og ná sér í rit. Þú getur jafnvel komið af stað samræðum með því að vera hlýlegur í framkomu.

6. Hvað gerðu roskin hjón til að boða trúna?

6 Roskin hjón á Englandi eiga við heilsubrest að stríða sem gerir þeim erfitt um vik að boða trúna hús úr húsi. Þau ákváðu að láta ljós sitt lýsa fyrir framan heimili sitt. Þau stilla upp biblíutengdum ritum til sýnis á borði fyrir framan húsið um það leyti sem foreldrar sækja börnin sín í nálægan skóla. Margir forvitnir foreldrar hafa þegið fyrra og síðara bindi bókarinnar Spurningar unga fólksins – svör sem duga, auk bæklinga. Brautryðjandasystir í söfnuðinum þeirra leggur þeim oft lið. Vingjarnlegt viðmót hennar og einlæg viðleitni hjónanna leiddi til þess að faðir nokkur þáði biblíunámskeið.

7. Hvernig geturðu aðstoðað flóttamenn á starfssvæði þínu?

7 Á síðustu árum hafa flóttamenn streymt til ýmissa landa. Hvað er hægt að gera til að hjálpa þeim að kynnast Jehóva og fyrirætlun hans? Þú gætir byrjað á því að læra að heilsa á þeirra máli. Appið JW Language er ágætis hjálpargagn til þess. Síðan gætirðu lært fáeinar setningar sem eru til þess fallnar að vekja áhuga þeirra. Í framhaldi af því geturðu kannski vísað þeim á jw.org og sýnt þeim úrval myndbanda og rita sem eru til á þeirra máli. – 5. Mós. 10:19.

8, 9. (a) Hvaða hjálp fáum við á samkomum í miðri viku? (b) Hvernig geta foreldrar hjálpað börnunum að taka þátt í samkomunum?

8 Jehóva sér okkur fyrir því sem við þurfum til að ná árangri þegar við boðum trúna. Á samkomunni Líf okkar og boðun fáum við leiðbeiningar sem hjálpa okkur að vera öruggari þegar við förum í endurheimsóknir og höldum biblíunámskeið.

9 Mörgum gestum, sem koma á samkomur hjá okkur, finnst eftirtektarvert að heyra börnin taka þátt í þeim. Foreldrar, hjálpið börnunum að láta ljós sitt lýsa með því að kenna þeim að svara með eigin orðum. Einföld og einlæg svör þeirra hafa stundum laðað fólk að sannleikanum. – 1. Kor. 14:25.

STUÐLAÐU AÐ EININGU

10. Hvað stuðlar að einingu í fjölskyldunni?

10 Önnur leið til að láta ljós sitt lýsa er að stuðla að einingu í fjölskyldunni og söfnuðinum. Það er meðal annars hægt með því að halda reglulegt fjölskyldunám. Margar fjölskyldur nota tækifærið til að horfa á þætti í Sjónvarpi Votta Jehóva einhvern tíma í mánuðinum og ræða síðan hvað hver og einn hafi lært af efninu. Þegar foreldrar skipuleggja fjölskyldunámið ættu þeir að hafa í huga að þarfir barna og unglinga eru oft ólíkar. Hjálpist að til að allir í fjölskyldunni hafi gagn af efninu. – Sálm. 148:12, 13.

Það er okkur til góðs að eiga félagsskap við þá sem eldri eru. (Sjá 11. grein.)

11-13. Hvernig geta allir stuðlað að einingu í söfnuðinum og hjálpað öðrum að láta ljós sitt lýsa?

11 Hvernig getur unga fólkið stuðlað að einingu í söfnuðinum og hvatt aðra til að láta ljós sitt lýsa? Hví ekki að setja þér það markmið að vingast við eldri boðbera í söfnuðinum? Þú gætir beðið þá að segja frá þjónustu sinni á liðnum árum. Það er mjög uppbyggilegt fyrir þig að gera þetta og það er bæði þér og þeim hvatning til að láta ljós sannleikans lýsa. Og öll getum við sett okkur það markmið að bjóða þá sem sækja samkomur í ríkissalnum velkomna. Með því að gera það stuðlarðu að einingu og þú getur verið öðrum hvatning til að láta ljós sitt lýsa. Þú getur heilsað gestum með hlýlegu brosi og kannski vísað þeim til sætis. Reyndu að kynna þá fyrir öðrum svo að þeir finni að þeir eru velkomnir.

12 Ef þú ert beðinn að stjórna samansöfnun geturðu lagt þitt af mörkum til að hinir eldri geti tekið þátt í boðuninni. Eru þeir með hentugt starfssvæði? Í sumum tilvikum er ágætt að biðja þá að starfa með yngri boðberum sem geta veitt þeim stuðning. Það er mikilvægt að vera skilningsríkur við þá sem geta ekki gert eins mikið og áður sökum heilsu eða annarra aðstæðna. Með því að vera tillitssamur og næmur á þarfir ungra sem aldinna, reyndra og óreyndra, er hægt að hjálpa þeim að boða fagnaðarerindið af kappi. – 3. Mós. 19:32.

13 „Hversu fagurt og yndislegt það er þegar bræður búa saman,“ orti sálmaskáldið. (Lestu Sálm 133:1, 2.) Það hafði góð áhrif á Ísraelsmenn að tilbiðja Jehóva í sameiningu. Sálmaskáldið líkir því við ilmgóða olíu sem nærir og mýkir húðina. Við getum á sambærilegan hátt haft jákvæð áhrif á trúsystkini og stuðlað að einingu í söfnuðinum. Þú átt hrós skilið ef þú gerir það. Geturðu lagt þig enn betur fram við að kynnast bræðrum þínum og systrum í söfnuðinum? – 2. Kor. 6:11-13.

14. Hvernig geturðu látið ljós þitt lýsa í hverfinu þínu?

14 Geturðu gert enn meira til að láta ljós sannleikans lýsa í hverfinu þínu? Þú getur hugsanlega laðað nágranna að sannleika Biblíunnar með vingjarnlegum orðum þínum og verkum. Hvernig líta nágrannarnir á þig? Leggurðu áherslu á að heimilið og lóðin sé snyrtileg og hverfinu til sóma? Ertu hjálpfús við nágrannana? Hví ekki að spyrja aðra votta hvernig þeir hafi haft áhrif á ættingja, nágranna, vinnufélaga eða skólafélaga með góðvild sinni og góðri hegðun? Þeir hafa trúlega frá einhverju jákvæðu að segja. – Ef. 5:9.

HALTU VÖKU ÞINNI

15. Af hverju er áríðandi að halda vöku sinni?

15 Ef við viljum að ljós okkar lýsi sem skærast þurfum við að hafa hugfast á hvaða tímum við lifum. Jesús hvatti lærisveinana margsinnis til að halda vöku sinni. (Matt. 24:42; 25:13; 26:41) Okkur finnst varla mjög áríðandi að boða fagnaðarerindið ef við höldum að ,þrengingin mikla‘ sé ekki alveg á næsta leiti, hún komi að vísu einhvern tíma en alls ekki meðan við lifum. (Matt. 24:21) Það er ólíklegt að ljós okkar lýsi skært ef við hugsum þannig. Að öllum líkindum dvínar það og deyr jafnvel út.

16, 17. Hvernig geturðu haldið vöku þinni?

16 Nú er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að halda vöku sinni. Jehóva lætur til skarar skríða á hárréttum tíma. Á því leikur enginn vafi. (Matt. 24:42-44) Þangað til skaltu vera þolinmóður og hafa efst í huga hvað framtíðin ber í skauti sér. Lestu daglega í Biblíunni og haltu sterku bænasambandi við Jehóva. (1. Pét. 4:7) Lærðu af skínandi fordæmi bræðra og systra sem hafa haldið vöku sinni og látið ljós sitt lýsa. Þú gætir til dæmis lesið greinina „Ég hef haldið í kyrtilfald Gyðings í sjötíu ár“ sem birtist í Varðturninum 15. apríl 2012, bls. 18-21.

17 Vertu upptekinn í þjónustu Jehóva, gerðu öðrum gott og eigðu félagsskap við trúsystkini þín. Það veitir þér mikla gleði og tíminn virðist fljótur að líða. (Ef. 5:16) Trúsystkini okkar fyrir einni öld voru ötul og áorkuðu miklu. En við áorkum miklu meira núna undir handleiðslu Jehóva. Og ljós okkar lýsir skærar en nokkurn hefði getað órað fyrir.

Hirðisheimsóknir gefa okkur tækifæri til að nýta okkur viskuna í orði Guðs. (Sjá 18. og 19. grein.)

18, 19. Hvernig geta öldungar safnaðarins hjálpað okkur að þjóna Jehóva dyggilega? Nefndu dæmi.

18 Þótt við séum ófullkomin kemur það ekki í veg fyrir að við getum þjónað Jehóva og haft velþóknun hans. Það er trústyrkjandi til þess að vita. Jehóva hefur gefið okkur safnaðaröldungana að gjöf. (Lestu Efesusbréfið 4:8, 11, 12.) Næst þegar öldungur heimsækir þig skaltu nota tækifærið til að læra af visku hans og góðum ráðum.

19 Tveir öldungar á Englandi heimsóttu hjón sem áttu í erfiðleikum og höfðu beðið um aðstoð. Konunni fannst eiginmaðurinn ekki taka forystuna í þjónustu Jehóva. Hann viðurkenndi að hann væri ekki sérlega góður kennari og héldi ekki uppi reglulegri tilbeiðslustund á heimilinu. Öldungarnir bentu hjónunum á fordæmi Jesú. Hann annaðist lærisveinana og hugsaði vel um þarfir þeirra. Öldungarnir hvöttu eiginmanninn til að líkja eftir honum og eiginkonuna til að vera þolinmóð. Þeir gáfu hjónunum nokkur góð ráð og bentu þeim á hvernig þau gætu unnið saman að því að halda uppi reglulegu fjölskyldunámi. (Ef. 5:21-29) Maðurinn tók sig á og öldungarnir hrósuðu honum fyrir. Þeir hvöttu hann til að gefast ekki upp heldur treysta á hjálp heilags anda til að veita fjölskyldunni góða forystu. Kærleikur þeirra og stuðningur hefur hjálpað hjónunum og börnum þeirra tveim að láta ljós sitt lýsa.

20. Við hverju máttu búast ef þú lætur ljós þitt lýsa?

20 „Sæll er hver sá er óttast Drottin og gengur á hans vegum,“ söng sálmaskáldið. (Sálm. 128:1) Þú uppskerð enn meiri hamingju þegar þú lætur ljós þitt lýsa. Hjálpaðu því öðrum að kynnast Guði, stuðlaðu að einingu í fjölskyldunni og söfnuðinum og haltu vöku þinni. Aðrir sjá þá góð verk þín og þau verða þeim hvatning til að vegsama Jehóva, föður okkar. – Matt. 5:16.