Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Nýttu þér lög Guðs og meginreglur til að þjálfa samviskuna

Nýttu þér lög Guðs og meginreglur til að þjálfa samviskuna

„Ég íhuga reglur þínar.“ – SÁLM. 119:99.

SÖNGVAR: 127, 88

1. Hvað er eitt af því sem gerir okkur mennina æðri dýrunum?

SAMVISKAN er eitt af því sem gerir okkur mennina æðri dýrunum. Sú hefur verið raunin síðan maðurinn var skapaður. Adam og Eva földu sig eftir að þau brutu lög Guðs. Það gefur til kynna að samviskan hafi angrað þau.

2. Hvers vegna má líkja samviskunni við áttavita? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

2 Það má líkja manni með illa þjálfaða samvisku við skip með bilaðan áttavita. Það getur verið stórhættulegt að leggja upp í sjóferð ef áttavitinn er ekki rétt stilltur. Vindar og hafstraumar geta hæglega borið skip af leið. Rétt stilltur áttaviti auðveldar skipstjóra að halda réttri stefnu. Samviskan er að sumu leyti eins og áttaviti. Hún er innri vitund um rétt og rangt sem getur vísað okkur í rétta átt. En til að samviskan sé öruggur leiðarvísir þarf að stilla hana rétt.

3. Hvað getur gerst ef samviskan er ekki rétt þjálfuð?

3 Ef samviskan er ekki rétt þjálfuð varar hún mann ekki við því að gera rangt. (1. Tím. 4:1, 2) Hún getur jafnvel talið manni trú um að ,hið illa sé gott‘. (Jes. 5:20) Jesús sagði fylgjendum sínum: „Sú stund kemur að hver sem líflætur yður þykist veita Guði þjónustu.“ (Jóh. 16:2) Þannig var það hjá þeim sem urðu lærisveininum Stefáni að bana og hið sama má segja um aðra þeim líka. (Post. 6:8, 12; 7:54-60) Það er kaldhæðnislegt að trúarofstækismenn, sem fremja vonskuverk á borð við morð, skuli þverbrjóta lög Guðs sem þeir þykjast tilbiðja. (2. Mós. 20:13) Samviska þeirra er greinilega stórbrengluð.

4. Hvað getum við gert til að samviskan haldi áfram að virka rétt?

4 Hvað getum við gert til að samviskan haldi áfram að virka rétt? Meginreglur Biblíunnar og lög eru „nytsöm til fræðslu, umvöndunar, leiðréttingar og menntunar í réttlæti“. (2. Tím. 3:16) Ef við erum iðin við biblíunám, hugleiðum það sem við lesum og förum eftir því sem Biblían segir þjálfum við samviskuna þannig að hún verði næm fyrir viðhorfum Guðs og geti verið öruggur leiðarvísir. Við skulum nú kanna hvernig lög hans og meginreglur geta átt þátt í að þjálfa samvisku okkar.

NÝTTU ÞÉR LÖG GUÐS

5, 6. Hvernig er það okkur til góðs að fylgja lögum Guðs?

5 Ef við viljum njóta góðs af lögum Guðs er ekki nóg að lesa þau eða vita af þeim. Við þurfum að elska þau og virða. Í Biblíunni segir: „Hatið hið illa og elskið hið góða.“ (Amos 5:15) En hvernig förum við að því? Við þurfum að læra að líta hlutina sömu augum og Jehóva. Lýsum þessu með dæmi: Segjum að þú eigir erfitt með svefn. Læknir ráðleggur þér að breyta um lífsstíl, meðal annars mataræði, og hreyfa þig meira. Þú gerir það og kemst að raun um að þetta hefur tilætluð áhrif. Þú ert sennilega þakklátur lækninum fyrir að hjálpa þér að bæta lífsgæðin.

6 Skaparinn hefur sömuleiðis gefið okkur lög sem geta verndað okkur fyrir skaðlegum áhrifum syndarinnar. Við bætum lífsgæðin með því að fylgja þeim. Í Biblíunni segir til dæmis að við eigum ekki að ljúga, svíkja eða stela. Við eigum að forðast kynferðislegt siðleysi, ofbeldi og dulspeki. (Lestu Orðskviðina 6:16-19; Opinb. 21:8) Við lærum að elska bæði Jehóva og lög hans þegar við finnum hve gott það er fyrir okkur að gera hlutina eins og hann vill.

7. Hvaða gagn höfum við af því að lesa og hugleiða frásögur Biblíunnar?

7 Sem betur fer þurfum við ekki að læra í hörðum skóla reynslunnar hvaða afleiðingar það hefur að brjóta lög Guðs. Við getum lært af mistökum annarra sem sagt er frá í Biblíunni. Í Orðskviðunum 1:5 segir: „Hinn vitri hlýðir á og eykur lærdóm sinn.“ Við fáum fyrsta flokks kennslu hjá Jehóva, til dæmis þegar við lesum frásögur Biblíunnar og hugleiðum þær. Hugsaðu þér kvöl Davíðs konungs eftir að hann óhlýðnaðist fyrirmælum Jehóva og framdi hjúskaparbrot með Batsebu. (2. Sam. 12:7-14) Þegar við lesum og hugleiðum þessa frásögu er gott að velta fyrir sér hvernig Davíð hefði getað umflúið sársaukann sem hlaust af því sem hann gerði. Hvað myndir þú gera ef þú stæðir í svipuðum sporum og hann? Myndirðu flýja eins og Jósef eða láta undan eins og Davíð? (1. Mós. 39:11-15) Við verðum enn staðráðnari í að ,hata hið illa‘ ef við hugleiðum hve slæmar afleiðingar það hefur að syndga.

8, 9. (a) Hvaða tilgangi þjónar samviskan? (b) Hvernig vinna samviskan og meginreglur Jehóva saman?

8 Líklega forðumst við hvaðeina sem Guð hatar. En stundum eru engin sérstök lög í Biblíunni um ákveðnar aðstæður sem við lendum í. Hvernig getum við þá fundið út hvað sé Guði að skapi? Þar kemur biblíufrædd samviska okkar til sögunnar.

9 Jehóva hefur í kærleika sínum gefið okkur meginreglur sem vinna með biblíufræddri samvisku okkar. Hann segir: „Ég er Drottinn, Guð þinn, sem kenni þér það sem gagnlegt er, leiði þig þann veg sem þú skalt ganga.“ (Jes. 48:17, 18) Með því að hugleiða meginreglur Biblíunnar og láta þær snerta hjarta okkar getum við leiðrétt samviskuna, leiðbeint henni og mótað hana. Það hjálpar okkur síðan að taka skynsamlegar ákvarðanir.

HAFÐU MEGINREGLUR GUÐS AÐ LEIÐARLJÓSI

10. Hvað eru meginreglur og hvernig notaði Jesús þær þegar hann kenndi?

10 Meginreglur eru grundvallarsannindi eða trúarkenningar sem hægt er að styðjast við þegar maður tekur ákvörðun. Ef við skiljum meginreglur Jehóva höfum við innsýn í hvernig hann hugsar og hvers vegna hann setur okkur ákveðin lög. Meðan Jesús var á jörð kenndi hann lærisveinum sínum ýmis grundvallarsannindi sem gerðu þeim kleift að átta sig á afleiðingum vissra viðhorfa og verka. Hann kenndi til dæmis að reiði geti leitt til ofbeldis og siðlausar hugsanir til hjúskaparbrots. (Matt. 5:21, 22, 27, 28) Ef við höfum meginreglur Jehóva að leiðarljósi þjálfum við samviskuna vel og heiðrum hann með ákvörðunum okkar. – 1. Kor. 10:31.

Þroskaður kristinn maður tekur tillit til samvisku annarra. (Sjá 11. og 12. grein.)

11. Hvernig getur samviska fólks verið ólík?

11 Tveir þjónar Guðs geta tekið ólíkar ákvarðanir í ýmsum málum þó að þeir hafi báðir þjálfað samviskuna með hjálp Biblíunnar. Tökum notkun áfengis sem dæmi. Hófleg neysla áfengis er ekki fordæmd í Biblíunni. Hún varar hins vegar við óhóflegri notkun og ölvun. (Orðskv. 20:1; 1. Tím. 3:8) Merkir það að kristinn maður þurfi bara að gæta þess að nota áfengi í hófi? Nei, hann þarf að hafa fleira í huga. Þó að samviska hans sjálfs leyfi honum að neyta áfengis þarf hann líka að taka tillit til samvisku annarra.

12. Hvernig getur Rómverjabréfið 14:21 verið okkur hvatning til að virða samvisku annarra?

12 Páll benti á að við þyrftum að virða samvisku annarra. Hann skrifaði: „Það er rétt að eta hvorki kjöt né drekka vín eða gera neitt það annað sem kemur illa við bróður þinn eða systur.“ (Rómv. 14:21) Ertu fús til að neita þér um eitthvað sem þú hefur rétt á að gera en veist að myndi angra samvisku einhvers annars í söfnuðinum? Eflaust. Sum trúsystkini okkar misnotuðu áfengi áður en þau kynntust sannleikanum en vilja ekki snerta það núna. Við viljum auðvitað ekki gera neitt sem gæti orðið þeim að falli. (1. Kor. 6:9, 10) Það væri því ekki kærleiksríkt af gestgjafa að leggja fast að bróður að þiggja áfengi ef hann er búinn að afþakka það.

13. Hvað gerði Tímóteus í þágu fagnaðarerindisins?

13 Tímóteus var líklega kringum tvítugt þegar hann gekkst undir sársaukafullan umskurð. Það gerði hann til að hneyksla ekki Gyðinga sem hann átti eftir að boða fagnaðarerindið. Hann hugsaði á líkum nótum og Páll postuli. (Post. 16:3; 1. Kor. 9:19-23) Ertu fús, líkt og Tímóteus, til að færa fórnir til að geta hjálpað öðrum?

SÆKJUM FRAM TIL ÞROSKA

14, 15. (a) Hvernig þroskumst við í trúnni? (b) Hvernig koma þroskaðir þjónar Guðs fram við aðra?

14 Eftir að hafa lært grundvallaratriði sannleikans ættum við að „snúa okkur að fræðslunni fyrir lengra komna“. (Hebr. 6:1) Við þroskumst ekki sjálfkrafa í trúnni við það eitt að vera árum saman í sannleikanum. Við þurfum að vinna að því jafnt og þétt. Til að þroskast í trúnni er nauðsynlegt að afla sér meiri þekkingar og skilnings. Það er þess vegna sem við erum hvött til að lesa daglega í Biblíunni. (Sálm. 1:1-3) Hefurðu sett þér það markmið? Með því að lesa daglega í Biblíunni færðu dýpri skilning á orði Jehóva, lögum hans og meginreglum.

15 Mikilvægasta lagaboð Biblíunnar er að elska. Jesús sagði lærisveinum sínum: „Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóh. 13:35) Jakob, hálfbróðir Jesú, kallar það „hið konunglega boðorð“ að elska og Páll segir að kærleikurinn sé „uppfylling lögmálsins“. (Jak. 2:8; Rómv. 13:10) Þessi áhersla á kærleikann kemur ekki á óvart því að „Guð er kærleikur“ eins og segir í Biblíunni. (1. Jóh. 4:8) Kærleikur Guðs er ekki bara tilfinning heldur birtist hann í verki. Jóhannes skrifaði: „Í því birtist kærleikur Guðs til okkar að Guð hefur sent einkason sinn í heiminn til þess að hann skyldi veita okkur nýtt líf.“ (1. Jóh. 4:9) Það er merki um að við séum þroskuð í trúnni ef við sýnum að við elskum Jehóva, son hans, trúsystkini okkar og fólk almennt. – Matt. 22:37-39.

Samviskan verður áreiðanlegri leiðarvísir þegar við hugsum út frá meginreglum Guðs. (Sjá 16. grein.)

16. Hvers vegna verða meginreglur okkur mikilvægari þegar við sækjum fram til þroska?

16 Þegar þú sækir fram til kristins þroska verða meginreglur sífellt mikilvægari í huga þér. Ástæðan er sú að lagaboð eiga oft við ákveðnar aðstæður en meginreglur geta náð yfir margs konar aðstæður. Barn skilur til dæmis ekki að vondur félagsskapur getur verið hættulegur þannig að skynsamir foreldrar setja barninu reglur til að vernda það. (1. Kor. 15:33) Þegar barnið þroskast lærir það að rökhugsa með hliðsjón af meginreglum Biblíunnar. Það lærir því smám saman að taka skynsamlegar ákvarðanir varðandi félagsskap. (Lestu 1. Korintubréf 13:11; 14:20.) Þegar við hugsum út frá meginreglum Guðs verður samviskan sífellt áreiðanlegri leiðarvísir og betur í takt við vilja hans.

17. Hvers vegna getum við sagt að við höfum það sem við þurfum til að geta tekið skynsamlegar ákvarðanir?

17 Höfum við allt sem við þurfum til að geta tekið skynsamlegar ákvarðanir sem Jehóva hefur velþóknun á? Já. Við verðum ,albúin og hæf til sérhvers góðs verks‘ ef við lærum að nýta okkur lög og meginreglur Biblíunnar. (2. Tím. 3:16, 17) Leitaðu því að meginreglum í Biblíunni sem auðvelda þér að skilja hver sé vilji Jehóva. (Ef. 5:17) Nýttu þér vel hjálpargögnin sem söfnuðurinn lætur í té, svo sem Efnislykilinn að ritum Votta Jehóva, VEFBÓKASAFN Varðturnsins og JW Library-appið. Þessi hjálpargögn eru til þess gerð að þú hafir sem mest gagn af sjálfsnámi þínu og fjölskyldunámi.

BIBLÍUFRÆDD SAMVISKA ER BLESSUN

18. Hvaða blessun hljótum við þegar við breytum eftir lögum og meginreglum Jehóva?

18 Það er okkur til blessunar að fylgja lögum og meginreglum Jehóva. Í Sálmi 119:97-100 segir: „Hve mjög elska ég lögmál þitt, allan daginn íhuga ég það. Boð þín hafa gert mig vitrari en óvini mína því að þau hef ég ætíð hjá mér. Ég er hyggnari en allir kennarar mínir því að ég íhuga reglur þínar. Ég er skynsamari en öldungar því að ég held fyrirmæli þín.“ Við getum sýnt visku, hyggindi og skynsemi í æ ríkari mæli ef við gefum okkur tíma til að íhuga lög Jehóva og meginreglur. Með því að nýta okkur þau til að þjálfa samviskuna getum við orðið „fullþroska“ og náð „vaxtartakmarki Krists fyllingar“. – Ef. 4:13.