Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Mitt ríki er ekki af þessum heimi“

„Mitt ríki er ekki af þessum heimi“

„Til þess er ég kominn í heiminn að ég beri sannleikanum vitni.“ – JÓH. 18:37.

SÖNGVAR: 15, 74

1, 2. (a) Hvers konar sundrung verður sífellt meira áberandi í heiminum? (b) Hvaða spurningum er svarað í þessari grein?

„FRÁ unga aldri þekkti ég ekkert nema óréttlæti,“ segir systir í Suður-Evrópu þegar hún hugsar til baka. „Þess vegna hafnaði ég stjórnmálakerfinu í heimalandi mínu og aðhylltist hugmyndir sem margir töldu róttækar. Ég var meira að segja kærasta hryðjuverkamanns í mörg ár.“ Bróðir nokkur í sunnanverðri Afríku réttlætti ofbeldi áður fyrr. „Ég taldi ættbálk minn öllum öðrum æðri og ég gekk í stjórnmálaflokk,“ segir hann. „Okkur var kennt að drepa andstæðinga okkar með spjótum, jafnvel þá af okkar eigin ættbálki sem studdu aðra stjórnmálaflokka.“ Systir, sem býr í Mið-Evrópu, segir: „Ég var fordómafull og hataði alla sem voru af öðru þjóðerni eða annarrar trúar.“

2 Þessir þrír einstaklingar endurspegluðu viðhorf sem færast sífellt í vöxt í heiminum. Ofbeldisfullar sjálfstæðishreyfingar blómstra, stjórnmáladeilur harðna og í mörgum löndum verða útlendingar fyrir æ meiri fjandskap. Eins og sagt var fyrir í Biblíunni er fólk ósáttfúst nú á síðustu dögum. (2. Tím. 3:1, 3) Hvernig geta þjónar Guðs staðið vörð um einingu sína í þessum heimi sem verður sífellt sundraðri? Við getum lært mikið af því hvernig Jesús tók á máli sem kom upp á fyrstu öld þegar pólitísk ólga ríkti meðal landsmanna. Skoðum þrjú meginatriði: Hvers vegna neitaði Jesús að eiga nokkurn þátt í hreyfingum aðskilnaðarsinna? Hvernig sýndi hann að þjónar Guðs þyrftu að varast að taka afstöðu til pólitískra mála? Og hvernig benti hann á að það sé ekki réttlætanlegt að beita ofbeldi?

VIÐHORF JESÚ TIL SJÁLFSTÆÐISBARÁTTU

3, 4. (a) Hvaða pólitískar væntingar gerðu Gyðingar sér á dögum Jesú? (b) Hvaða áhrif höfðu væntingar fólks á lærisveina Jesú?

3 Margir Gyðingar, sem Jesús prédikaði fyrir, þráðu að losna undan valdi Rómverja. Þjóðernissinnar meðal Gyðinga, sem kölluðust sílótar, kyntu undir sjálfstæðislönguninni. Margir þessara öfgamanna fylgdu hugmyndum Júdasar frá Galíleu. Hann var falskristur á fyrstu öld sem leiddi marga afvega. Jósefus, sagnaritari Gyðinga, segir að þessi Júdas hafi „æst samlanda sína til að gera uppreisn og sakað þá um hugleysi af því að þeir sættu sig við að greiða Rómverjum skatt“. Rómverjar tóku Júdas af lífi. (Post. 5:37) Sumir sílótar beittu jafnvel ofbeldi til að ná sínu fram.

4 Gyðingar almennt biðu þar að auki með eftirvæntingu eftir pólitískum Messíasi. Þeir gerðu ráð fyrir að þegar Messías kæmi myndi hann hefja þjóðina til vegs og virðingar og leysa hana undan oki Rómverja. (Lúk. 2:38; 3:15) Margir trúðu að Messías myndi stofnsetja jarðneskt ríki í Ísrael og að þá myndu milljónir Gyðinga, sem voru dreifðar víða um lönd, snúa aftur heim. Jóhannes skírari spurði Jesú eitt sinn: „Ert þú sá sem koma skal eða eigum við að vænta annars?“ (Matt. 11:2, 3) Jóhannes langaði ef til vill að vita hvort einhver annar myndi uppfylla allar vonir Gyðinga. Lærisveinarnir tveir, sem mættu Jesú upprisnum á veginum til Emmaus, gerðu sér líka ákveðnar væntingar um Messías sem höfðu ekki orðið að veruleika. (Lestu Lúkas 24:21.) Stuttu síðar spurðu postularnir Jesú: „Drottinn, ætlar þú á þessum tíma að endurreisa ríkið handa Ísrael?“ – Post. 1:6.

5. (a) Hvers vegna vildu Galíleubúar að Jesús yrði konungur þeirra? (b) Hvernig leiðrétti Jesús þá?

5 Slíkar væntingar um Messías áttu eflaust sinn þátt í að Galíleubúar vildu að Jesús yrði konungur þeirra. Þeir ímynduðu sér án efa að Jesús yrði tilvalinn leiðtogi. Hann var einstakur ræðumaður, gat læknað sjúka og var meira að segja fær um að sjá fólki fyrir mat. Þegar hann hafði gefið um 5.000 mönnum að borða skynjaði hann hvernig þeim var innanbrjósts. „Jesús vissi nú að þeir mundu koma og taka hann með valdi til að gera hann að konungi og vék því aftur upp til fjallsins einn síns liðs.“ (Jóh. 6:10-15) Daginn eftir var mannfjöldinn ef til vill búinn að róast dálítið. Hinum megin við Galíleuvatn útskýrði Jesús fyrir þeim í hverju starf hans var fólgið. Hann var kominn til að færa þjóðinni andlega blessun en ekki efnislega. Hann sagði: „Aflið yður eigi þeirrar fæðu sem eyðist heldur þeirrar fæðu sem varir til eilífs lífs.“ – Jóh. 6:25-27.

6. Hvernig tók Jesús skýrt fram að hann sæktist ekki eftir völdum á jörðinni? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

6 Stuttu áður en Jesús dó var honum ljóst að sumir fylgjenda hans reiknuðu með að hann stofnsetti jarðneskt ríki með aðsetur í Jerúsalem. Hann leiðrétti þá með því segja þeim dæmisöguna um pundin. Þar kemur fram að Jesús, tiginborni maðurinn í dæmisögunni, færi burt í langan tíma. (Lúk. 19:11-13, 15) Jesús skýrði hlutleysi sitt einnig fyrir rómverskum yfirvöldum. Pontíus Pílatus spurði hann: „Ert þú konungur Gyðinga?“ (Jóh. 18:33) Pílatus óttaðist ef til vill að Jesús myndi valda pólitískri ólgu en það var stöðugt áhyggjuefni í stjórnartíð hans. Jesús svaraði honum: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi.“ (Jóh. 18:36) Hann vildi ekki blanda sér í stjórnmál því að ríki hans yrði á himni. Hann sagði Pílatusi að hann væri kominn til að ,bera sannleikanum vitni‘. – Lestu Jóhannes 18:37.

Einblínirðu á vandamál heimsins eða einbeitirðu þér að ríki Guðs? (Sjá 7. grein.)

7. Hvers vegna getur verið erfitt innst inni að vera hlutlaus í stjórnmálum?

7 Jesús skildi vel hvert verkefni hans var. Ef við skiljum hvert verkefni okkar er styðjum við ekki pólitískar hreyfingar, ekki einu sinni innst inni. Það er ekki alltaf auðvelt. Farandhirðir nokkur segir: „Fólk á okkar svæði verður sífellt róttækara. Þjóðernishyggja er orðin allsráðandi og margir telja sjálfsagt að líf þeirra verði betra ef þeir hljóta sjálfstæði. Sem betur fer hafa bræður og systur staðið vörð um einingu safnaðarins með því að halda sér uppteknum við að boða fagnaðarerindið um ríkið. Þau treysta að Guð bindi enda á óréttlæti og önnur vandamál sem við eigum við að glíma.“

HVERNIG TÓK JESÚS Á PÓLITÍSKUM DEILUMÁLUM?

8. Nefndu dæmi um það sem íþyngdi Gyðingum á fyrstu öld.

8 Óréttlæti ýtir oft undir að fólk blandi sér í stjórnmál. Skattlagning var hitamál á dögum Jesú. Júdas frá Galíleu, sem minnst var á áður, gerði uppreisn gegn rómverskum yfirvöldum vegna manntals sem átti að tryggja að fólk borgaði skattana sína. Þegnar Rómaveldis, þeirra á meðal áheyrendur Jesú, þurftu að borga skatta af vörum, landi og húsum svo fátt eitt sé nefnt. Og ekki bætti úr skák að skattheimtumenn voru spilltir. Stundum gátu menn keypt sér slíka valdastöðu á opinberu uppboði og grætt síðan á skattheimtunni. Sakkeus var yfirtollheimtumaður í Jeríkó sem varð ríkur á því að kúga fé af fólki. (Lúk. 19:2, 8) Sömu sögu var eflaust að segja um marga aðra skattheimtumenn.

9, 10. (a) Hvernig reyndu óvinir Jesú að blanda honum í pólitískt mál? (b) Hvað lærum við af svari Jesú? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

9 Óvinir Jesú lögðu gildru fyrir hann með því að reyna að fá hann til að taka afstöðu í skattamáli. Um var að ræða skatt upp á einn denar sem allir þegnar Rómaveldis áttu að greiða. (Lestu Matteus 22:16-18.) Gyðingum var sérstaklega í nöp við þennan skatt því að hann minnti þá á að Rómverjar réðu yfir þeim. Heródesarsinnar vonuðust til að Jesús fordæmdi skattinn svo að hægt væri að ákæra hann fyrir uppreisnaráróður. En ef Jesús segði að það ætti að greiða skattinn gæti hann misst fylgjendur.

10 Jesús gætti þess að vera hlutlaus í þessu máli. „Gjaldið ... keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er,“ sagði hann. (Matt. 22:21) Hann vissi vel að margir skattheimtumenn voru spilltir. En hann vildi ekki láta draga athygli sína frá mun mikilvægara máli, ríki Guðs sem er eina varanlega lausnin á vandamálum manna. Þannig gaf hann öllum fylgjendum sínum fordæmi til eftirbreytni. Þeir áttu að varast að blanda sér í stjórnmál, sama hve góður eða réttlátur málstaðurinn virtist vera. Fylgjendur Krists leita ríkis Guðs og réttlætis í stað þess að mynda sér sterkar skoðanir á einhverju sem er óréttlátt eða að mótmæla því. – Matt. 6:33.

11. Hver er besta leiðin til að berjast gegn óréttlæti?

11 Mörgum vottum Jehóva hefur tekist að losa sig við sterkar pólitískar skoðanir. „Ég myndaði mér róttækar skoðanir eftir félagsfræðinám í háskóla,“ segir systir í Bretlandi. „Ég vildi berjast fyrir réttindum svartra af því að við höfum þurft að þola svo mikið óréttlæti. Mér gekk vel að sigra í rökræðum en fann samt fyrir vonleysi. Ég gerði mér ekki grein fyrir að kynþáttafordóma þarf að uppræta úr hjörtum fólks. En þegar ég fór að kynna mér Biblíuna varð mér ljóst að ég þyrfti að byrja á eigin hjarta. Og það var hvít systir sem aðstoðaði mig þolinmóð við það. Núna er ég brautryðjandi í táknmálssöfnuði og er að læra að ná til alls konar fólks.“

„SLÍÐRA SVERÐ ÞITT“

12. Hvers konar „súrdeig“ sagði Jesús lærisveinum sínum að varast?

12 Á dögum Jesú studdu trúarleiðtogar oft stjórnmálaflokka. Bókin Daily Life in Palestine at the Time of Christ bendir á að „sértrúarflokkarnir, sem Gyðingar skiptust í, hafi að meira eða minna leyti samsvarað því sem við köllum stjórnmálaflokka“. Jesús sagði við lærisveinana: „Gætið ykkar, varist súrdeig farísea og súrdeig Heródesar.“ (Mark. 8:15) Farísear studdu sjálfstæðisbaráttu Gyðinga. Og þegar Jesús nefnir Heródes á hann líklega við Heródesarsinna. Í frásögn Matteusar kemur fram að Jesús hafi einnig nefnt saddúkea í þessu samtali. Þeir vildu hafa óbreytt ástand enda áttu margir þeirra pólitísk ítök í stjórnsýslu Rómaveldis. Jesús varaði lærisveinana eindregið við ,súrdeigi‘ þessara þriggja hópa, það er að segja kenningum þeirra. (Matt. 16:6, 12) Athyglisvert er að samtalið átti sér stað stuttu eftir að menn vildu gera Jesú að konungi.

13, 14. (a) Hvernig urðu pólitísk og trúarleg mál kveikjan að óréttlæti og ofbeldi? (b) Af hverju er óréttlæti ekki afsökun fyrir því að beita ofbeldi? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

13 Þegar stjórnmálum og trú er blandað saman er oft stutt í ofbeldi. Jesús kenndi lærisveinum sínum að þeir yrðu að vera hlutlausir. Það var ein ástæða þess að æðstuprestarnir og farísearnir lögðu á ráðin um að taka Jesú af lífi. Þeir litu á hann sem pólitískan og trúarlegan keppinaut sem ógnaði stöðu þeirra. Þeir sögðu: „Ef við leyfum honum að halda svo áfram munu allir trúa á hann og þá koma Rómverjar og taka bæði helgidóm okkar og þjóð.“ (Jóh. 11:48) Kaífas æðstiprestur fór því með forystuna í að fá Jesú ráðinn af dögum. – Jóh. 11:49-53; 18:14.

14 Í skjóli nætur sendi Kaífas hermenn til að handtaka Jesú. Jesús vissi af þessu ráðabruggi og bað því postulana að sækja sverð síðasta kvöldið sem hann var með þeim. Tvö sverð myndu duga til að kenna þeim verðmæta lexíu. (Lúk. 22:36-38) Síðar þessa nótt kom hópur manna til að handtaka Jesú. Pétur reiddist þessu óréttlæti og réðst á einn manninn með sverði. (Jóh. 18:10) En Jesús sagði við hann: „Slíðra sverð þitt! Allir sem sverði bregða munu fyrir sverði falla.“ (Matt. 26:52, 53) Þessi áhrifaríka kennsla var í samræmi við bæn Jesú um kvöldið, að þeir væru ekki af heiminum. (Lestu Jóhannes 17:16.) Þeir áttu að láta Guði eftir að berjast gegn óréttlætinu.

15, 16. (a) Hvernig hefur orð Guðs hjálpað þjónum hans að forðast ágreining og átök? (b) Hvaða andstæður sér Jehóva í heimi nútímans?

15 Systirin í Suður-Evrópu, sem minnst var á fyrr í greininni, komst að því sama. „Ég hef séð að réttlæti fæst ekki með ofbeldi,“ segir hún. „Margir sem grípa til ofbeldis missa lífið. Og oft verða menn líka bitrir. Það gladdi mig mjög þegar ég lærði af Biblíunni að Guð einn getur komið á raunverulegu réttlæti á jörðinni. Síðastliðin 25 ár hef ég boðað þann boðskap.“ Bróðirinn í sunnanverðri Afríku hefur tekið upp „sverð andans“, orð Guðs, í stað spjótsins. (Ef. 6:17) Núna boðar hann fólki friðarboðskap, óháð því hvaða ættbálki það tilheyrir. Og systirin í Mið-Evrópu giftist bróður af kynþætti sem hún hataði áður en hún varð vottur Jehóva. Öll þrjú gerðu breytingar á lífi sínu vegna þess að þau vildu líkjast Kristi.

16 Það er mjög mikilvægt að gera slíkar breytingar. Í Biblíunni er mannkyninu líkt við ólgusjó sem á engan frið. (Jes. 17:12; 57:20, 21; Opinb. 13:1) Þó að pólitískar deilur espi fólk upp, sundri því og egni það út í glórulaust ofbeldi varðveitum við frið og einingu á meðal okkar. Það hlýtur að ylja Jehóva um hjartarætur að sjá eininguna meðal þjóna sinna í þessum sundraða heimi. – Lestu Sefanía 3:17.

17. (a) Á hvaða þrjá vegu getum við eflt eininguna? (b) Um hvað er rætt í næstu grein?

17 Í þessari grein höfum við séð að við getum eflt einingu safnaðarins á þrjá vegu: (1) Við treystum að ríki Guðs á himnum ráði bót á öllu óréttlæti, (2) við tökum ekki neina afstöðu í pólitískum deilum og (3) við beitum ekki ofbeldi. En stundum geta fordómar ógnað einingu okkar. Næsta grein ræðir um hvernig við getum barist gegn fordómum eins og kristnir menn gerðu á fyrstu öldinni.