Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hann hefði getað haft velþóknun Guðs

Hann hefði getað haft velþóknun Guðs

VIÐ þjónum Jehóva og viljum að sjálfsögðu hafa velþóknun hans. En hverja blessar Guð? Sumir á biblíutímanum nutu velþóknunar hans og blessunar þó að þeir hefðu áður gert sig seka um alvarlegar syndir. Aðrir sem höfðu góða eiginleika misstu að lokum velþóknun Guðs. Það væri því gott að spyrja sig að hverju Jehóva leiti sérstaklega í fari okkar. Saga Rehabeams Júdakonungs getur hjálpað okkur að fá svar við því.

BRÖSÓTT BYRJUN

Salómon, faðir Rehabeams, hafði ríkt í Ísrael í 40 ár. (1. Kon. 11:42) Hann lést árið 997 f.Kr. og Rehabeam fór þá frá Jerúsalem norður til Síkem til að láta smyrja sig til konungs. (2. Kron. 10:1) Skyldi hann hafa kviðið fyrir því að taka við af Salómon sem var þekktur fyrir að vera einstaklega vitur? Hann sá líklega ekki fyrir að brátt myndi reyna á hæfileika hans til að greiða úr erfiðum málum.

Rehabeam hlýtur að hafa fundið fyrir spennunni sem lá í loftinu í Ísrael þegar fulltrúar þjóðarinnar komu til hans og lögðu mál sitt fyrir hann umbúðalaust. Þeir sögðu: „Faðir þinn lagði á okkur þungt ok. Ef þú léttir hinn harða þrældóm föður þíns og hið þunga ok, sem hann lagði á okkur, skulum við þjóna þér.“ – 2. Kron. 10:3, 4.

Rehabeam átti úr vöndu að ráða. Ef hann yrði við kröfum þeirra þyrftu hann, fjölskylda hans og hirðin líklega að neita sér um ýmsan munað og draga úr kröfum sínum til þjóðarinnar. Ef hann neitaði var hins vegar hætta á að fólkið gerði uppreisn. Hvað átti hann til bragðs að taka? Hann ráðfærði sig fyrst við gömlu mennina sem höfðu verið ráðgjafar Salómons. En síðan leitaði hann ráða hjá ungu mönnunum sem höfðu alist upp með honum. Hann fór að ráðum þeirra og ákvað að fara illa með þjóðina. Hann svaraði: „Faðir minn lagði á ykkur þungt ok en ég mun þyngja það enn. Faðir minn agaði ykkur með hnútasvipu en ég mun aga ykkur með gaddasvipu.“ – 2. Kron. 10:6-14.

Getum við dregið lærdóm af þessu? Það er oft viturlegt að hlusta á ráð þeirra sem eru eldri og þroskaðir í trúnni. Þeir búa yfir reynslu til að sjá fyrir hvaða afleiðingar viss ákvörðun getur haft og geta því gefið okkur góð ráð. – Job. 12:12.

„ÞEIR HLÝDDU BOÐSKAP DROTTINS“

Þjóðin gerði uppreisn í kjölfar ákvörðunar Rehabeams. Hann safnaði því saman herliði til að bæla niður uppreisnina. En Jehóva sendi Semaja spámann til hans með þessi boð: „Farið ekki til að berjast við bræður ykkar, Ísraelsmenn. Hver ykkar skal halda til síns heima því að ég er valdur að því sem gerst hefur.“ – 1. Kon. 12:21-24. *

Áttu þeir ekki að berjast? Þú getur rétt ímyndað þér hvernig Rehabeam var innanbrjósts! Hvað myndi fólki finnast um konung sem hótar að refsa þegnum sínum með „gaddasvipu“ en reynir ekki einu sinni að berja niður grófa uppreisn? (Samanber 2. Kroníkubók 13:7.) En konungur og her hans „hlýddu boðskap Drottins, sneru við og fóru heim eins og Drottinn hafði sagt“.

Hvað lærum við af þessu? Það er alltaf viturlegt að hlýða Guði, jafnvel þótt fólk hæðist að okkur. Við hljótum blessun hans og velþóknun ef við hlýðum honum. – 5. Mós. 28:2.

Hvað hafði það í för með sér fyrir Rehabeam að hlýða Jehóva og hætta við að berjast gegn þessu nýstofnaða ríki? Hann beindi nú kröftum sínum að því að reisa borgir í tveggjaættkvíslaríkinu þar sem ættkvíslir Júda og Benjamíns bjuggu og hann réð yfir. Hann víggirti margar borgir og „efldi þær mjög“. (2. Kron. 11:5-12) Síðast en ekki síst fylgdi hann lögum Jehóva um tíma. Tíuættkvíslaríkið leiddist hins vegar út í skurðgoðadýrkun undir stjórn Jeróbóams en margir fóru þaðan til Jerúsalem, „styrktu Rehabeam“ og studdu sanna tilbeiðslu. (2. Kron. 11:16, 17) Rehabeam efldi þannig ríki sitt með því að hlýða Jehóva.

SYND REHABEAMS OG IÐRUN

Þegar Rehabeam var orðinn fastur í sessi gerðist þó nokkuð óvænt. Hann sneri baki við lögum Jehóva og tók að tilbiðja falsguði! Hvers vegna í ósköpunum? Lét hann móður sína, sem var Ammóníti, hafa áhrif á sig? (1. Kon. 14:21) Hver sem ástæðan var fylgdi þjóðin slæmu fordæmi hans. Jehóva leyfði því Sísak Egyptalandskonungi að hertaka margar af borgum Júda þrátt fyrir að Rehabeam hefði styrkt þær og víggirt. – 1. Kon. 14:22-24; 2. Kron. 12:1-4.

Það dró til úrslita þegar her Sísaks gerði sig líklegan til að ráðast á Jerúsalem þar sem Rehabeam sat að völdum. Semaja spámaður flutti þá Rehabeam og höfðingjum hans boð frá Guði: „Þið hafið yfirgefið mig. Þess vegna yfirgef ég ykkur og framsel ykkur í hendur Sísaks.“ Hvernig brást Rehabeam við? Biblían segir: „Höfðingjar Ísraels og konungurinn auðmýktu sig og sögðu: ,Drottinn er réttlátur.‘“ Jehóva bjargaði því Rehabeam og kom í veg fyrir að Jerúsalem yrði eydd. – 2. Kron. 12:5-7, 12.

Rehabeam sat áfram að völdum í Suðurríkinu. Áður en hann dó gaf hann sonum sínum, sem voru margir, rausnarlegar gjafir, sennilega til að minnka líkurnar á að þeir gerðu uppreisn gegn Abía, bróður sínum, sem var arftakinn. (2. Kron. 11:21-23) Þannig sýndi hann skynsemi sem hann hafði ekki sýnt á yngri árum.

GÓÐUR EÐA SLÆMUR?

Þó að Rehabeam hafi reynt að gera eitthvað gott hafði Guð ekki velþóknun á honum. Biblían lýsir honum þannig í hnotskurn: „Hann gerði það sem illt var.“ Hvers vegna? Vegna þess að hann „kappkostaði ekki að leita Drottins“. – 2. Kron. 12:14.

Rehabeam átti ekki náið samband við Jehóva eins og Davíð konungur.

Hvað getum við lært af þessari frásögu? Rehabeam hlýddi Guði annað slagið og gerði stundum eitthvað gott í þágu þjóðar hans. En hann myndaði hvorki náin tengsl við Jehóva né hafði hann sterka löngun til að hlýða honum. Þess vegna leiddist hann út í ranga breytni og falsguðadýrkun. Það er því ástæða til að velta fyrir sér hvers vegna Rehabeam tók við leiðréttingu Guðs. Var það vegna þess að hann iðraðist í einlægni og vildi þóknast Guði? Eða var það aðallega til að þóknast mönnum? (2. Kron. 11:3, 4; 12:6) Seinna meir fór hann aftur að gera það sem var illt. Hann var mjög ólíkur afa sínum, Davíð konungi. Davíð gerði ýmis mistök á lífsleiðinni en hann iðraðist í einlægni og elskaði Jehóva og sanna tilbeiðslu alla ævi. – 1. Kon. 14:8; Sálm. 51:3, 19; 63:2.

Það má greinilega læra margt af sögu Rehabeams. Það er lofsvert að sjá fyrir fjölskyldu sinni og leggja sig fram í þjónustu Jehóva. En það er ekki nóg eitt og sér. Til að hafa velþóknun hans verðum við að tilbiðja hann á þann hátt sem hann vill og eiga náið samband við hann.

Líklega gerum við það ef við elskum Jehóva innilega. Við bætum á eld til að halda honum lifandi. Eins þurfum við að halda kærleikanum til Guðs brennandi með því að lesa daglega í orði hans, hugleiða það og eiga innilegt bænasamband við hann. (Sálm. 1:2; Rómv. 12:12) Ef við elskum Jehóva glæðir það löngunina til að þóknast honum í öllu sem við gerum. Það knýr okkur líka til að iðrast í einlægni þegar okkur verður eitthvað á. Og þá tilbiðjum við Jehóva staðfastlega, ólíkt Rehabeam. – Júd. 20, 21.

^ gr. 9 Salómon hafði verið Guði ótrúr og Guð hafði því gefið til kynna að ríkið myndi klofna. – 1. Kon. 11:31.