Verum öll eitt eins og Jehóva og Jesús eru eitt
„Ég bið ... að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér.“ – JÓH. 17:20, 21.
1, 2. (a) Hvað gerði Jesús að bænarefni í síðustu bæn sinni með postulunum? (b) Af hverju var eining ofarlega í huga Jesú?
EINING var Jesú ofarlega í huga við síðustu kvöldmáltíðina með postulunum. Þegar hann bað með þeim nefndi hann þá ósk sína að allir lærisveinar hans væru eitt eins og hann og faðir hans eru eitt. (Lestu Jóhannes 17:20, 21.) Eining þeirra yrði skýr sönnun þess að Jehóva hefði sent Jesú til jarðar til að gera vilja hans. Kærleikurinn myndi einkenna sanna lærisveina Jesú og styrkja eininguna meðal þeirra. – Jóh. 13:34, 35.
2 Það er skiljanlegt að Jesús hafi lagt áherslu á einingu. Hann tók eftir að postularnir voru ekki eins einhuga og þeir hefðu átt að vera. Þetta kvöld fóru þeir enn á ný að „metast um hver þeirra væri talinn mestur“. (Lúk. 22:24-27; Mark. 9:33, 34) Við annað tækifæri höfðu Jakob og Jóhannes beðið Jesú að veita sér virðingarstöður við hlið honum í ríki hans. – Mark. 10:35-40.
3. Hvað getur hafa átt þátt í að grafa undan einingu lærisveina Krists og hvaða spurningar ætlum við að ræða?
3 Metnaðargirni var þó ekki það eina sem gat grafið undan einingunni meðal lærisveina Krists. Landsmenn voru sundraðir
vegna haturs og fordóma. Lærisveinar Jesú þurftu að sigrast á þessum neikvæðu tilfinningum. Í þessari grein ræðum við um eftirfarandi spurningar: Hvernig tók Jesús á fordómum? Hvernig kenndi hann fylgjendum sínum að vera óhlutdrægir hver við annan og sameinaðir? Og hvernig hjálpar kennsla hans okkur að varðveita eininguna?JESÚS OG FYLGJENDUR HANS URÐU FYRIR BARÐINU Á FORDÓMUM
4. Nefndu dæmi um fordóma sem Jesús varð fyrir.
4 Jesús varð sjálfur fyrir barðinu á fordómum. Þegar Filippus sagði Natanael að hann hefði fundið Messías svaraði Natanael: „Getur nokkuð gott komið frá Nasaret?“ (Jóh. 1:46) Hann vissi líklega að Messías átti að fæðast í Betlehem eins og spáð var í Míka 5:1 og trúlega fannst honum Nasaret ekki nógu merkilegur staður til að vera heimabær Messíasar. Virtir Júdamenn fyrirlitu Jesú af því að hann var frá Galíleu en margir Júdamenn litu niður á Galíleumenn. (Jóh. 7:52) Aðrir Gyðingar reyndu að móðga Jesú með því að kalla hann Samverja en Samverjar voru af öðru þjóðerni og annarrar trúar en Gyðingar. (Jóh. 8:48) Hvorki Júdamenn né Galíleumenn báru virðingu fyrir Samverjum og þeir forðuðust þá. – Jóh. 4:9.
5. Hvaða fordómum urðu fylgjendur Jesú fyrir?
5 Trúarleiðtogar Gyðinga fyrirlitu sömuleiðis fylgjendur Jesú. Farísearnir litu á þá sem ,bölvaða‘. (Jóh. 7:47-49) Þeir töldu alla vera fyrirlitlega alþýðumenn sem höfðu ekki lært við rabbínaskólana og fylgdu ekki erfikenningum þeirra. (Post. 4:13) Fordómarnir, sem Jesús og lærisveinar hans urðu fyrir, stöfuðu af því að fólk var óhóflega stolt af trú sinni, þjóðerni og stöðu í samfélaginu. Þetta hugarfar gat líka haft áhrif á lærisveinana. Þeir þurftu að læra að hugsa öðruvísi til að geta verið sameinaðir.
6. Nefndu dæmi sem sýna hvaða áhrif fordómar geta haft á okkur.
6 Heimurinn er fullur af fordómum nú á dögum. Kannski verðum við fyrir þeim eða höfum sjálf einhverja fordóma. „Ég fór að hafa sífellt meiri andúð á hvítu fólki eftir því sem ég hugsaði meira um óréttlætið sem frumbyggjar hafa þurft að þola alla tíð,“ segir systir sem er nú brautryðjandi í Ástralíu. „Ég var sjálf misrétti beitt og það ýtti undir hatrið.“ Kanadískur bróðir viðurkennir: „Ég taldi þá sem töluðu frönsku vera betri en aðra og fór að hafa óbeit á þeim sem töluðu ensku.“
7. Hvernig tók Jesús á fordómum?
7 Fordómar geta rist djúpt á okkar dögum rétt eins og á dögum Jesú. Hvernig tók Jesús á þeim? Í fyrsta lagi var hann aldrei fordómafullur sjálfur heldur var hann alltaf óhlutdrægur. Hann boðaði trúna ríkum jafnt sem fátækum, faríseum jafnt sem Samverjum og jafnvel skattheimtumönnum og syndugum. Í öðru lagi sýndi hann lærisveinum sínum í orði og verki að þeir þyrftu að sigrast á tortryggni og umburðarleysi.
SIGRAST Á FORDÓMUM MEÐ KÆRLEIKA OG AUÐMÝKT
8. Á hvaða grundvallarsannindum er eining okkar byggð? Skýrðu svarið.
8 Jesús kenndi fylgjendum sínum grundvallarsannindi sem eining okkar byggist á. ,Þið eruð öll bræður og systur,‘ sagði hann. (Lestu Matteus 23:8, 9.) Við erum „bræður og systur“ að því leyti að við erum öll afkomendur Adams. (Post. 17:26) Jesús útskýrði líka að lærisveinar sínir væru bræður og systur þar sem þeir litu á Jehóva sem himneskan föður sinn. (Matt. 12:50) Að auki tilheyrðu þeir stórri andlegri fjölskyldu sem var sameinuð í trú og kærleika. Þess vegna ávörpuðu postularnir aðra kristna menn „bræður og systur“ í bréfum sínum. – Rómv. 1:13; 1. Pét. 2:17; 1. Jóh. 3:13.
9, 10. (a) Hvers vegna höfðu Gyðingar enga ástæðu til að hreykja sér af þjóðerni sínu? (b) Hvernig sýndi Jesús að það væri rangt að líta niður á fólk af öðru þjóðerni? (Sjá mynd í upphafi greinar.)
9 Þegar Jesús hafði tekið fram að við ættum að líta hvert á annað sem bræður og systur lagði hann áherslu á að við þyrftum að vera auðmjúk. (Lestu Matteus 23:11, 12.) Óviðeigandi stolt ógnaði einingu postulanna eins og fram hefur komið. Þeim stóð einnig ógn af þjóðernishroka. Höfðu Gyðingar ástæðu til að hreykja sér af því að vera afkomendur Abrahams? Margir þeirra töldu svo vera. En Jóhannes skírari sagði við þá: „Guð getur vakið Abraham börn af steinum þessum.“ – Lúk. 3:8.
10 Jesús fordæmdi þjóðernishroka. Það kom vel fram þegar fræðimaður spurði hann: „Hver er ... náungi minn?“ Jesús svaraði honum með dæmisögu um Samverja. Samverji þessi lét sér annt um Gyðing sem þjófar höfðu barið og skilið eftir við veginn. Aðrir Gyðingar, sem áttu leið hjá, létu manninn eiga sig en Samverjinn kenndi í brjósti um hann og hjálpaði honum. Jesús lauk dæmisögunni á því að segja fræðimanninum að taka Samverjann sér til fyrirmyndar. (Lúk. 10:25-37) Jesús sýndi fram á að Gyðingar gátu lært af Samverja hvað felst í sönnum náungakærleika.
11. Hvers vegna máttu lærisveinar Jesú ekki hafa fordóma gagnvart útlendingum og hvernig hjálpaði hann þeim að skilja það?
11 Lærisveinar Jesú þurftu að sigrast á hroka og fordómum til að geta leyst af hendi verkefnið sem hann fól þeim. Áður en hann steig upp til himna sagði hann þeim að bera vitni í „allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar“. (Post. 1:8) Jesús hafði áður búið þá undir þetta krefjandi verkefni með því að beina athygli þeirra að góðum eiginleikum í fari útlendinga. Hann hrósaði erlendum hundraðshöfðingja fyrir einstaka trú. (Matt. 8:5-10) Í Nasaret, heimabæ sínum, talaði Jesús um hvernig Jehóva hafði sýnt útlendingum velvild, svo sem fönikísku ekkjunni í Sarefta og holdsveika Sýrlendingnum Naaman. (Lúk. 4:25-27) Jesús prédikaði líka fyrir samverskri konu og dvaldi tvo daga í samverskum bæ vegna þess hve mikinn áhuga íbúarnir höfðu á boðskap hans. – Jóh. 4:21-24, 40.
FRUMKRISTNIR MENN ÞURFTU AÐ BERJAST GEGN FORDÓMUM
12, 13. (a) Hvernig brugðust postularnir við þegar Jesús kenndi samverskri konu? (Sjá mynd í upphafi greinar.) (b) Hvað bendir til þess að Jakob og Jóhannes hafi ekki skilið til fulls það sem Jesús vildi kenna þeim?
12 Það var ekki auðvelt fyrir postulana að sigrast á fordómum sínum. Þeir undruðust að Jesús skyldi vera fús til að kenna samverskri konu. (Jóh. 4:9, 27) Trúarleiðtogar Gyðinga töluðu ekki við konur á almannafæri, hvað þá samverska konu með vafasama fortíð. Þegar postularnir hvöttu Jesú til að fá sér að borða gaf svar hans til kynna að hann þyrfti þess ekki af því að hann var svo upptekinn af því að ræða um andleg mál. Guð vildi að hann boðaði trúna og að gera vilja hans var honum eins og matur – líka að vitna fyrir samverskri konu. – Jóh. 4:31-34.
13 Jakob og Jóhannes drógu ekki lærdóm af þessu. Þegar lærisveinarnir voru á ferð um Samaríu með Jesú leituðu þeir að gistingu í samversku þorpi. En Samverjarnir vildu ekki hýsa þá. Jakob og Jóhannes urðu svo reiðir að þeir vildu láta eld falla af himni til að tortíma öllu þorpinu. Jesús ávítaði þá harðlega. (Lúk. 9:51-56) Ætli Jakob og Jóhannes hefðu brugðist eins við ef þetta hefði gerst á heimaslóðum þeirra í Galíleu? Líklega bjuggu fordómar að baki reiði þeirra. Síðar fór Jóhannes í vel heppnaða boðunarferð um Samaríu og þá má vera að hann hafi skammast sín fyrir að hafa reiðst svona áður. – Post. 8:14, 25.
14. Hvaða vandamál kom upp hjá tveim málhópum og hvernig var það leyst?
14 Stuttu eftir hvítasunnu árið 33 kom upp mál í söfnuðinum varðandi mismunun. Þegar bræðurnir útbýttu mat til þurfandi ekkna skildu þeir grískumælandi ekkjur út undan. (Post. 6:1) Tungumálafordómar gætu hafa átt sinn þátt í því. Postularnir voru fljótir að leiðrétta málið með því að velja sjö hæfa bræður til að sjá um úthlutunina. Allir þessir bræður hétu grískum nöfnum en það var eflaust traustvekjandi fyrir ekkjurnar sem höfðu verið skildar út undan.
15. Hvernig lærði Pétur að fara ekki í manngreinarálit? (Sjá mynd í upphafi greinar.)
15 Árið 36 fóru lærisveinar Jesú að boða fólki af öllum þjóðum fagnaðarerindið. Fyrir þann tíma hafði Pétur postuli yfirleitt eingöngu umgengist Gyðinga. En þegar Guð hafði gert honum ljóst að kristnir menn ættu ekki að fara í manngreinarálit vitnaði Pétur fyrir Kornelíusi, rómverskum hundraðshöfðingja. (Lestu Postulasöguna 10:28, 34, 35.) Þaðan í frá umgekkst Pétur trúsystkini sín af hópi heiðingja og sat til borðs með þeim. En þó nokkrum árum síðar, í borginni Antíokkíu, hætti Pétur að sitja til borðs með kristnum mönnum sem voru ekki Gyðingar. (Gal. 2:11-14) Páll ávítaði Pétur sem tók leiðréttinguna til sín. Hvernig vitum við það? Þegar Pétur skrifaði fyrra bréf sitt til kristinna manna í Litlu-Asíu, bæði af hópi Gyðinga og heiðingja, talaði hann hlýlega um allt samfélag þeirra sem trúa. – 1. Pét. 1:1; 2:17.
16. Fyrir hvað urðu frumkristnir menn þekktir?
16 Ljóst er að postularnir lærðu af fordæmi Jesú að elska ,alla menn‘. (1. Tím. 4:10; Jóh. 12:32) Þeir breyttu hugsunarhætti sínum þótt það hafi tekið sinn tíma. Frumkristnir menn urðu þekktir fyrir að elska hver annan. Tertúllíanus, rithöfundur á annarri öld, vitnaði í ummæli annarra sem sögðu um kristna menn: „Þeir elska hver annan ... Þeir eru jafnvel fúsir til að deyja hver fyrir annan.“ Frumkristnir menn íklæddust ,hinum nýja manni‘ og lærðu að líta á alla sem jafna frammi fyrir Guði. – Kól. 3:10, 11.
17. Nefndu dæmi um hvernig við getum upprætt fordóma úr hjörtum okkar.
17 Við gætum sömuleiðis þurft tíma til að uppræta fordóma úr hjarta okkar. Systir í Frakklandi lýsir baráttu sinni: „Jehóva hefur kennt mér hvað felst í kærleika. Hann hefur kennt mér hvað felst í því að deila með öðrum og að elska alls konar fólk. En ég þarf enn að takast á við fordóma og það er ekki auðvelt að
sigrast á þeim. Þess vegna hef ég það stöðugt að bænarefni.“ Systir á Spáni á við svipaðan vanda að glíma. Hún segir: „Stundum finn ég fyrir gremju í garð fólks af ákveðnu þjóðerni þó að oftast nái ég að hafa hemil á henni. En það er stöðug barátta. Ég er þakklát Jehóva fyrir að fá að tilheyra sameinaðri fjölskyldu hans.“ Við þurfum öll að líta í eigin barm. Blunda í okkur einhverjir fordómar sem við þurfum að sigrast á?FORDÓMAR VÍKJA FYRIR KÆRLEIKA
18, 19. (a) Hvaða ástæður höfum við til að taka öllum opnum örmum? (b) Hvernig getum við gert það?
18 Það er gott fyrir okkur að muna að einu sinni vorum við öll útlendingar í þeim skilningi að við vorum fjarlæg Guði. (Ef. 2:12) En Jehóva dró okkur til sín „með taugum kærleikans“. (Hós. 11:4; Jóh. 6:44) Og Kristur tók okkur opnum örmum. Hann opnaði leiðina fyrir okkur svo að við gætum tilheyrt fjölskyldu Guðs. (Lestu Rómverjabréfið 15:7.) Þar sem Jesús tók okkur opnum örmum þrátt fyrir ófullkomleika okkar ætti það ekki einu sinni að hvarfla að okkur að hafna nokkrum manni.
19 Sundrung, fjandskapur og fordómar eiga eftir að aukast í heiminum eftir því sem endir þessa illa heimskerfis færist nær. (Gal. 5:19-21; 2. Tím. 3:13) En við sem þjónum Jehóva sækjumst eftir þeirri „speki sem að ofan er“. Hún er óhlutdræg og stuðlar að friði. (Jak. 3:17, 18) Það gleður okkur að eignast vini frá öðrum löndum. Við lærum að meta ólíka menningarheima og getum jafnvel lært ný tungumál. Þá verður friður okkar sem fljót og réttlæti okkar eins og öldur hafsins. – Jes. 48:17, 18.
20. Hvað gerist þegar kærleikurinn fær að móta hugi okkar og hjörtu?
20 „Sönn þekking opnaðist fyrir mér eins og flóðgáttir,“ segir ástralska systirin sem áður var minnst á. Hún lýsir því hvaða áhrif nám í Biblíunni hafði á hana: „Hugur minn og hjarta voru mótuð upp á nýtt. Hatrið og fordómarnir, sem voru svo rótgrónir í mér, hurfu smám saman.“ Og kanadíski bróðirinn segir að nú sé honum ljóst að „kynþáttafordómar séu yfirleitt sprottnir af vanþekkingu og að eiginleikar fólks ráðist ekki af því hvar það fæðist.“ Nú er hann kvæntur enskumælandi systur. Viðhorfsbreytingar sem þessar sanna að kristinn kærleikur er fordómum yfirsterkari. Hann tengir okkur órjúfandi böndum. – Kól. 3:14.