Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 26

Hjálpum öðrum að rísa undir álagi

Hjálpum öðrum að rísa undir álagi

„Verið öll samhuga, hluttekningarsöm og elskið hvert annað, verið miskunnsöm, auðmjúk.“ – 1. PÉT. 3:8.

SÖNGUR 107 Guð er fyrirmynd um kærleikann

YFIRLIT *

1. Hvernig getum við líkt eftir Jehóva, ástríkum föður okkar?

JEHÓVA elskar okkur heitt. (Jóh. 3:16) Við viljum líkja eftir ástríkum föður okkar og leggjum okkur því fram um að vera hluttekningarsöm, kærleiksrík og miskunnsöm við alla, sérstaklega við trúsystkini okkar. (1. Pét. 3:8; Gal. 6:10) Við viljum styðja við bakið á trúsystkinum okkar þegar þau glíma við álag og erfiðleika.

2. Um hvað er fjallað í þessari grein?

2 Allir sem vilja tilheyra fjölskyldu Jehóva þurfa að þola erfiðleika og álag. (Mark. 10:29, 30) Líklega eigum við eftir að þola fleiri prófraunir eftir því sem endir þessa heimskerfis færist nær. Hvernig getum við stutt hvert annað? Skoðum hvað við getum lært af frásögum Biblíunnar af Lot, Job og Naomí. Við ræðum líka um suma af þeim erfiðleikum sem bræður okkar og systur standa frammi fyrir nú á dögum og hvernig við getum stutt við bakið á þeim.

SÝNUM ÞOLINMÆÐI

3. Hvaða slæmu ákvörðun tók Lot eins og við getum lesið um í 2. Pétursbréfi 2:7, 8 og hvaða afleiðingar hafði sú ákvörðun?

3 Lot tók slæma ákvörðun þegar hann kaus að setjast að í Sódómu sem var þekkt fyrir gróft siðleysi. (Lestu 2. Pétursbréf 2:7, 8.) Svæðið var blómlegt en það var honum dýrkeypt að flytjast þangað. (1. Mós. 13:8–13; 14:12) Konan hans virðist hafa orðið svo hrifin af borginni eða einhverjum íbúum hennar að hún óhlýðnaðist Jehóva. Þegar Guð lét rigna eldi og brennisteini yfir borgina týndi kona Lots lífi. Og hugsaðu þér: Báðar dætur Lots voru trúlofaðar og misstu unnusta sína í Sódómu. Lot missti heimili sitt og eigur. En sárast af öllu var að hann missti konuna sína. (1. Mós. 19:12–14, 17, 26) Varð Jehóva óþolinmóður við Lot á þessum erfiðu tímum? Nei.

Jehóva sýndi samúð þegar hann sendi engla til að bjarga Lot og fjölskyldu hans. (Sjá 4. grein.)

4. Hvernig sýndi Jehóva Lot þolinmæði? (Sjá mynd á forsíðu.)

4 Þó að Lot hafi sjálfur kosið að búa í Sódómu sýndi Jehóva honum samúð og sendi engla til að bjarga honum og fjölskyldu hans. En í stað þess að hlýða englunum strax þegar þeir ráku á eftir honum að fara út úr Sódómu fór hann „hægt að öllu“. Englarnir þurftu að taka í hönd Lots til að hjálpa honum og fjölskyldunni að flýja borgina. (1. Mós. 19:15, 16) Síðan sögðu englarnir honum að hlaupa upp í fjöllin. En í stað þess að hlýða Jehóva bað Lot um að fá að flýja í nálægt þorp. (1. Mós. 19:17–20) Jehóva hlustaði þolinmóður á Lot og leyfði honum að fara þangað. Seinna varð Lot hræddur við að búa í þorpinu og fluttist upp í fjöllin – einmitt þangað sem Jehóva hafði sagt honum að fara til að byrja með. (1. Mós. 19:30) Hvílík þolinmæði sem Jehóva sýndi Lot! Hvernig getum við líkt eftir honum?

5, 6. Hvernig líkjum við eftir Guði þegar við tökum til okkar ráðin í 1. Þessaloníkubréfi 5:14?

5 Líkt og Lot gæti einhver í söfnuðinum tekið slæmar ákvarðanir og valdið sér miklum erfiðleikum. Hvernig myndum við bregðast við ef það gerðist? Það gæti verið freistandi að benda honum á að hann hafi uppskorið eins og hann sáði, sem væri alveg rétt. (Gal. 6:7) En við getum gert betur en það. Við getum líkt eftir því hvernig Jehóva hjálpaði Lot. Hvernig?

6 Jehóva sendi englana ekki aðeins til að vara Lot við heldur líka til að hjálpa honum að komast hjá þeim hörmungum sem Sódóma varð fyrir. Eins gætum við þurft að vara trúsystkini okkar við ef við sjáum að það er á hættulegri braut. En kannski getum við líka hjálpað. Jafnvel þó að trúsystkini okkar dragi að tileinka sér leiðbeiningarnar, sem eru byggðar á Biblíunni, þurfum við að vera þolinmóð. Tökum englana tvo til fyrirmyndar. Í stað þess að gefast upp á vini okkar og fjarlægjast hann ættum við að leita leiða til að hjálpa honum í orði og verki. (1. Jóh. 3:18) Við gætum þurft að bjóða honum að taka í hönd hans, ef svo má að orði komast, til að hjálpa honum að fylgja ráðunum sem hann fær. – Lestu 1. Þessaloníkubréf 5:14.

7. Hvernig getum við litið á aðra eins og Jehóva leit á Lot?

7 Jehóva hefði getað beint athyglinni að göllum Lots. En hann innblés Pétri postula síðar að tala um Lot sem réttlátan mann. Erum við ekki ánægð að Jehóva skuli fyrirgefa okkur þegar okkur verður á? (Sálmur 130:3) Getum við litið á aðra eins og Jehóva leit á Lot? Við verðum þolinmóðari við bræður okkar og systur ef við beinum athyglinni að því góða í fari þeirra. Þá verður líka auðveldara fyrir þau að þiggja aðstoð okkar.

SÝNUM SAMÚÐ

8. Hvað knýr samúð okkur til að gera?

8 Ólíkt Lot tók Job ekki slæma ákvörðun sem olli honum þjáningum. Samt sem áður varð hann fyrir hræðilegri ógæfu. Hann missti eigur sínar, stöðuna í samfélaginu og heilsuna. Og það sem verra var, hann og konan hans misstu öll börnin sín. Þar að auki ákærðu þrír falsvinir Job. Hvers vegna sýndu þessir þrír svokölluðu huggarar honum ekki samúð? Ein ástæðan var að þeir skildu ekki í raun og veru aðstæður Jobs. Þess vegna drógu þeir rangar ályktanir og dæmdu Job harðlega. Hvernig getum við varast að gera sömu mistök? Mundu að aðeins Jehóva þekkir aðstæður fólks til fulls. Hlustaðu af athygli á þann sem þjáist. Og hlustaðu ekki bara á orðin heldur reyndu að finna til með honum. Aðeins með því móti geturðu sýnt bróður þínum eða systur einlæga hluttekningu.

9. Hvað kemur samúð í veg fyrir að við gerum og hvers vegna?

9 Samúð kemur í veg fyrir að við breiðum út skaðlegt slúður um vandamál annarra. Sá sem ber út slúður byggir ekki upp söfnuðinn heldur rífur hann niður. (Orðskv. 20:19; Rómv. 14:19) Hann er ekki góðviljaður heldur tillitslaus og orð hans geta bætt gráu ofan á svart hjá þeim sem þjáist. (Orðskv. 12:18; Ef. 4:31, 32) Það er miklu betra að vera vakandi fyrir því góða í fari annarra og leita leiða til að hjálpa þeim að takast á við erfiðleikana.

Ef trúsystkini talar „í gáleysi“ skaltu hlusta með þolinmæði og finna rétta tímann til að veita hughreystingu. (Sjá 10. og 11. grein.) *

10. Hvað lærum við af Jobsbók 6:2, 3?

10 Lestu Jobsbók 6:2, 3Stundum talaði Job „í gáleysi“. En síðar sá hann líka eftir sumu af því sem hann sagði. (Job. 42:6) Sá sem glímir við erfið vandamál nú á dögum gæti líkt og Job talað af gáleysi og sagt ýmislegt sem hann sér síðan eftir. Hvernig ættum við að bregðast við? Við ættum að sýna honum samúð frekar en að gagnrýna hann. Hafðu í huga að Jehóva ætlaði engum okkar að þurfa að bera þær áhyggjur og erfiðleika sem við glímum við í dag. Það er því skiljanlegt að trúum þjóni Jehóva geti orðið á að tala í hugsunarleysi þegar hann er undir miklu álagi. Við ættum ekki að vera fljót að reiðast og dæma hann þó að hann segi eitthvað sem stenst ekki rök um Jehóva eða okkur sjálf. – Orðskv. 19:11.

11. Hvernig geta öldungar líkt eftir Elíhú þegar þeir gefa öðrum ráð?

11 Stundum þarf að leiðrétta þann sem glímir við erfitt vandamál eða gefa honum gagnleg ráð. (Gal. 6:1) Hvernig geta öldungar farið að því? Þeir ættu að líkja eftir Elíhú en hann hlustaði á Job með hluttekningu. (Job. 33:6, 7) Elíhú gaf Job ekki ráð fyrr en hann skildi hann til fulls. Öldungar sem líkja eftir Elíhú hlusta af athygli og reyna að skilja aðstæður annarra. Þá er líklegra að þeir nái til hjartans þegar þeir gefa ráð.

HUGHREYSTUM AÐRA

12. Hvaða áhrif hafði það á Naomí að missa eiginmanninn og báða syni sína?

12 Naomí var trú kona sem elskaði Jehóva. En þegar hún hafði misst eiginmanninn og báða synina vildi hún ekki lengur heita Naomí heldur „Mara“ en það þýðir „hin beiska“. (Rut. 1:3, 5, 20, neðanmáls, 21) Rut tengdadóttir Naomí studdi við bakið á henni í þrengingunum. Hún hjálpaði Naomí ekki bara efnislega heldur hughreysti hana. Rut sýndi Naomí með einlægum orðum hversu vænt henni þótti um hana. – Rut. 1:16, 17.

13. Hvers vegna þurfa þeir sem missa maka sinn á stuðningi okkar að halda?

13 Ef einhver í söfnuðinum missir maka sinn þarf hann á stuðningi okkar að halda. Hægt er að líkja hjónum við tvö tré sem vaxa saman hlið við hlið. Með tímanum fléttast rætur þeirra saman. Þegar annað tréð er rifið upp og deyr getur það haft alvarlegar afleiðingar fyrir hitt tréð. Eins er með þann sem missir maka sinn í dauðann. Það getur komið miklu róti á tilfinningarnar og tekið hann langan tíma að jafna sig. Paula * missti manninn sinn skyndilega. Hún segir: „Líf mitt fór algerlega á hvolf og ég var hjálparvana. Ég missti besta vin minn sem ég talaði við um allt. Við deildum saman gleði og sorgum. Ég gat alltaf hallað mér að honum til að gráta þegar mér leið illa. Mér fannst ég eins og hálf manneskja.“

Hvernig getum við stutt þá sem hafa misst maka sinn? (Sjá 14. og 15. grein.) *

14, 15. Hvernig getum við hughreyst þann sem hefur misst maka sinn?

14 Hvernig getum við hughreyst þann sem hefur misst maka sinn? Til að byrja með er mikilvægt að þú talir við hann, jafnvel þó að þér finnist það vandræðalegt og vitir ekki hvað þú eigir að segja. Paula, sem vitnað var í áður, segir: „Ég veit að fólk er oft vandræðalegt í kringum dauðann og óttast að segja eitthvað sem stuðar. En það er verra að fólk segi ekki neitt en að það segi eitthvað vandræðalegt.“ Sá sem syrgir reiknar líklega ekki með því að maður segi eitthvað mjög djúphugsað. Paula segir: „Ég kunni að meta það þegar vinirnir sögðu einfaldlega: ,Ég samhryggist þér.‘“

15 William missti konuna sína fyrir nokkrum árum. Hann segir: „Ég kann að meta það þegar aðrir rifja upp góðar minningar um konuna mína. Það fullvissar mig um að hún hafi verið mikils metin og að öðrum þótti vænt um hana. Slíkur stuðningur er mjög hughreystandi því að konan mín var mér svo mikils virði og hún var stór hluti af lífi mínu.“ Ekkja sem heitir Bianca segir: „Það er huggandi fyrir mig þegar aðrir biðja með mér og lesa með mér einn eða tvo ritningarstaði. Það hjálpar mér að þeir tali um manninn minn og hlusti á mig þegar ég tala um hann.“

16. (a) Hvað ættum við að gera fyrir þá sem missa ástvin? (b) Hvaða ábyrgð berum við samkvæmt Jakobsbréfinu 1:27?

16 Rétt eins og Rut studdi ekkjuna Naomí þurfum við að halda áfram að styðja við bakið á þeim sem missa ástvin í dauðann. Paula, sem minnst var á áður, segir: „Ég fékk heilmikinn stuðning rétt eftir að maðurinn minn lést. En með tímanum fór líf annarra aftur í sinn farveg. En mitt líf hafði gerbreyst. Það hjálpar mikið þegar fólk gerir sér grein fyrir að syrgjandinn þarf aðstoð í marga mánuði og jafnvel í einhver ár eftir missinn.“ Auðvitað eru engir tveir eins. Sumir virðast aðlagast nýjum aðstæðum frekar fljótt. En aðrir finna sárlega fyrir missinum í hvert sinn sem þeir gera eitthvað sem þeir voru vanir að gera með ástvini sínum. Það er einstaklingsbundið hvernig fólk syrgir. Við skulum muna að Jehóva veitir okkur þann heiður og ábyrgð að hugsa um þá sem missa maka sinn. – Lestu Jakobsbréfið 1:27.

17. Hvers vegna þurfum við að styðja þá sem makinn hefur yfirgefið?

17 Sumir þurfa að takast á við miklar áhyggjur og álag vegna þess að makinn yfirgefur þá. Eiginmaður Joyce fór frá henni vegna annarrar konu. Joyce segir: „Að ganga í gegnum skilnaðinn var næstum verra en ef ég hefði misst manninn minn í dauðann. Ef hann hefði dáið í slysi eða vegna veikinda hefði hann ekki átt um neitt að velja. En maðurinn minn valdi að fara frá mér. Mér fannst ég niðurlægð og smánuð.“

18. Hvernig getum við hjálpað þeim sem eiga ekki lengur maka?

18 Með því að gera ýmislegt smálegt fyrir þá sem eiga ekki lengur maka sýnum við þeim að okkur þyki vænt um þá. Þeir þurfa meira en nokkru sinni fyrr á góðum vinum að halda. (Orðskv. 17:17) Hvernig geturðu reynst góður vinur? Þú getur til dæmis boðið þeim í mat, boðist til að verja frítíma með þeim eða farið með þeim í boðunina. Þú gætir líka boðið þeim af og til að vera með í tilbeiðslustund fjölskyldunnar. Þá gleðurðu Jehóva því að hann er „nálægur þeim sem hafa sundurmarið hjarta“ og hann er „verndari ekkna“. – Sálm. 34:19; 68:6.

19. Hvað ert þú staðráðinn í að gera miðað við 1. Pétursbréf 3:8?

19 Bráðlega mun ríki Guðs fara með völd yfir jörðinni og allar ,þrengingar verða gleymdar‘. Við hlökkum til þess tíma því að „hins fyrra verður ekki minnst framar og það skal engum í hug koma“. (Jes. 65:16, 17) Þangað til skulum við styðja hvert annað og sýna bæði í orðum okkar og verkum að okkur er annt um alla sem tilheyra andlegri fjölskyldu okkar. – Lestu 1. Pétursbréf 3:8.

SÖNGUR 111 Gleðjumst og fögnum

^ gr. 5 Lot, Job og Naomí þjónuðu Jehóva trúföst. Samt þurftu þau að þola álag og erfiðleika. Í þessari grein er fjallað um hvað við getum lært af reynslu þeirra. Einnig er rætt um hvers vegna er mikilvægt að við séum þolinmóð, sýnum samúð og hughreystum trúsystkini okkar sem glíma við erfiðleika.

^ gr. 13 Nöfnum í þessari grein hefur verið breytt.

^ gr. 57 MYND: Bróðir er í miklu uppnámi og talar „í gáleysi“. Öldungur hlustar á hann þolinmóður. Seinna, þegar bróðirinn er orðinn rólegur, gefur öldungurinn honum góð ráð.

^ gr. 59 MYND: Ung hjón verja tíma með bróður sem hefur nýlega misst konuna sína. Þau rifja upp góðar minningar um hana.