NÁMSGREIN 25
,Ég ætla sjálfur að leita sauða minna‘
„Nú ætla ég sjálfur að leita sauða minna og líta eftir þeim.“ – ESEK. 34:11.
SÖNGUR 105 „Guð er kærleikur“
YFIRLIT *
1. Hvers vegna líkti Jehóva sér við móður með brjóstabarn?
„FÆR kona gleymt brjóstbarni sínu?“ Jehóva bar fram þessa spurningu á dögum Jesaja spámanns. „Og þó að þær gætu gleymt þá gleymi ég þér samt ekki,“ sagði hann þjóð sinni. (Jes. 49:15) Jehóva líkir sér ekki oft við móður en hann gerði það í þessu tilfelli. Hann notaði samband móður og barns til að sýna hversu vænt honum þykir um þjóna sína. Flestar mæður geta tekið undir með systur að nafni Jasmin: „Þegar maður gefur barninu sínu brjóst myndar maður mjög sérstök tengsl sem endast alla ævi.“
2. Hvaða áhrif hefur það á Jehóva að sjá aðeins eitt barna sinna fjarlægjast hann?
2 Jehóva tekur eftir því þegar aðeins eitt barna hans hættir að sækja samkomur og boða trúna. Hugsaðu þér þá hvað það hlýtur að taka hann sárt að sjá þúsundir þjóna sinna á hverju ári verða óvirka. *
3. Hver er vilji Jehóva?
3 Mörg þessara kæru trúsystkina sem hafa orðið óvirk snúa aftur til safnaðarins og við gleðjumst mjög yfir því. Jehóva vill að allir sem hafa orðið óvirkir snúi aftur og það viljum við líka. (1. Pét. 2:25) Hvernig getum við hjálpað þeim til þess? Áður en við fáum svar við því er gott að vita hvers vegna sumir hætta að sækja samkomur og taka þátt í boðuninni.
HVERS VEGNA HÆTTA SUMIR AÐ ÞJÓNA JEHÓVA?
4. Hvað hendir suma vegna vinnu?
4 Sumir sökkva sér í veraldlega vinnu. „Ég leyfði vinnunni minni að taka of mikinn tíma og orku,“ viðurkennir Hung * sem er bróðir í Suðaustur-Asíu. „Ég var svo vitlaus að telja mér trú um að ég ætti auðveldara með að þjóna Jehóva ef ég ætti meira efnislega. Ég bætti þess vegna við mig vinnu og fór að missa oftar og oftar af samkomum þar til ég hætti alveg að mæta. Heimurinn virðist vera hannaður til að fá fólk til að fjarlægjast Guð smátt og smátt.“
5. Hvaða áhrif hafði röð vandamála á eina systur?
5 Sumir bræður og systur glíma við vandamál sem fylla þau vonleysi. Anne frá Bretlandi er fimm barna móðir. „Eitt barnanna fæddist alvarlega fatlað,“ segir Anne. „Seinna var einni dóttur minni vikið úr söfnuðinum og annar sonur minn greindist með geðsjúkdóm. Ég varð svo niðurdregin að ég hætti að mæta á samkomur og fara í boðunina. Að lokum varð ég óvirk.“ Við finnum til með Anne og fjölskyldu hennar sem og öðrum í svipuðum sporum.
6. Hvers vegna gæti einhver fjarlægst söfnuð Jehóva ef hann fer ekki eftir því sem segir í Kólossubréfinu 3:13?
6 Lestu Kólossubréfið 3:13. Sumir þjónar Jehóva hafa móðgast við trúsystkini. Páll postuli nefndi að stundum gætum við haft „ástæðu til að kvarta undan“ bróður eða systur. Kannski hefur einhver verið ósanngjarn við okkur. Við gætum orðið gröm ef við pössum okkur ekki. Reiði getur orðið til þess að maður fjarlægist söfnuð Jehóva. Tökum sem dæmi bróður í Suður-Ameríku sem heitir Pablo. Hann var ranglega sakaður um að hafa brotið af sér og missti þess vegna þjónustuverkefni í söfnuðinum. Hvernig brást hann við? Hann segir: „Ég varð reiður og fjarlægðist söfnuðinn smám saman.“
7. Hvaða áhrif getur samviskubit haft á fólk?
7 Einnig getur samviskubit þjakað þann sem hefur brotið lög Guðs og látið honum finnast hann ekki verður þess að Jehóva elski sig og ekki nógu góður til að teljast þjónn Guðs þó að hann hafi iðrast og fengið fyrirgefningu. Bróður að nafni Francisco leið þannig. Hann segir: „Ég gerðist sekur um kynferðislegt siðleysi og var áminntur. Til að byrja með hélt ég áfram að sækja samkomur en varð samt svo niðurdreginn að mér fannst ég ekki verður þess að tilheyra söfnuði Jehóva. Samviskan nagaði mig og ég var sannfærður um að Jehóva hefði ekki fyrirgefið mér. Með tímanum hætti ég að boða trúna og sækja samkomur.“ Hvernig lítur þú á bræður og systur sem líður svipað og þeim í dæmunum hér að framan? Finnurðu til samúðar með þeim? Og það sem meira máli skiptir, hvernig lítur Jehóva á þau?
JEHÓVA ELSKAR SAUÐI SÍNA
8. Gleymir Jehóva þeim sem þjónuðu honum áður? Skýrðu svarið.
8 Jehóva gleymir ekki þeim sem þjónuðu honum áður en hafa hætt því um tíma. Hann gleymir ekki heldur því sem þeir gerðu í þjónustu hans. (Hebr. 6:10) Jesaja spámaður notaði fallega líkingu til að sýna hvernig Jehóva annast þjóna sína. Hann skrifaði: „Eins og hirðir mun hann halda hjörð sinni til haga, taka unglömbin í faðm sér og bera þau í fangi sínu.“ (Jes. 40:11) Hvernig líður hirðinum mikla þegar einn sauða hans villist frá hjörðinni? Við sjáum það af því sem Jesús sagði við lærisveina sína: „Hvað sýnist ykkur? Ef maður á 100 sauði og einn þeirra villist frá hjörðinni, skilur hann þá ekki hina 99 eftir á fjallinu og fer að leita að þeim týnda? Trúið mér, ef hann finnur hann gleðst hann meira yfir honum en yfir þeim 99 sem týndust ekki.“ – Matt. 18:12, 13.
9. Hvernig fóru góðir fjárhirðar á biblíutímanum með sauði sína? (Sjá mynd á forsíðu.)
9 Hvers vegna er viðeigandi að líkja Jehóva við fjárhirði? Vegna þess að á biblíutímanum var góðum fjárhirði innilega annt um sauði sína. Til dæmis barðist Davíð við ljón og björn til að vernda hjörðina. (1. Sam. 17:34, 35) Góður fjárhirðir tæki klárlega eftir því þó að aðeins einn sauð vantaði. (Jóh. 10:3, 14) Hann myndi skilja 99 sauðina eftir í öruggu byrgi eða í umsjá annars hirðis og leita að þeim eina sem væri týndur. Jesús notaði þetta myndmál til að kenna okkur mikilvægan sannleika: „Faðir minn á himnum vill ekki ... að einn einasti þessara minnstu glatist.“ – Matt. 18:14.
JEHÓVA LEITAR AÐ SAUÐUM SÍNUM
10. Hvað hefur Jehóva lofað að gera fyrir týnda sauði sína samkvæmt Esekíel 34:11–16?
10 Jehóva elskar hvert og eitt okkar, líka þá sauði sína sem hafa villst frá hjörðinni. Fyrir milligöngu Esekíels lofaði Guð að hann myndi leita að týndum sauðum sínum og hjálpa þeim að endurheimta gott samband við sig. Og hann útskýrði hvað hann myndi gera til að bjarga þeim. Hann færi svipað að og dæmigerður fjárhirðir á biblíutímanum gerði ef sauður týndist. (Lestu Esekíel 34:11–16.) Fjárhirðirinn leitaði fyrst að sauðnum en það gat kostað mikinn tíma og erfiði. Þegar hann fann sauðinn fór hann með hann til baka í hjörðina. Og ef sauðurinn var særður eða hungraður hjálpaði fjárhirðirinn honum á kærleiksríkan hátt með því að binda um sárin, bera hann og gefa honum mat. Öldungar eru hirðar „hjarðar Guðs“ og þurfa að fara eins að til að hjálpa hverjum þeim sem hefur villst frá söfnuðinum. (1. Pét. 5:2, 3) Öldungarnir leita að þeim, hjálpa þeim að snúa aftur til safnaðarins og sýna þeim kærleika með því að veita þeim þá hjálp sem þeir þurfa til að eignast aftur vináttu við Guð. *
11. Hverju gerði góður hirðir sér grein fyrir?
11 Góður hirðir gerði sér grein fyrir að sauðir gætu týnst. Og ef sauður ráfaði burt frá hjörðinni refsaði hirðirinn honum ekki fyrir það. Hugleiddu fordæmið sem Jehóva gaf okkur þegar hann hjálpaði þjónum sínum sem villtust af réttri leið um tíma.
12. Hvernig kom Jehóva fram við Jónas?
12 Jónas spámaður stakk af frá verkefni sem honum var falið. En Jehóva gafst ekki auðveldlega upp á honum. Eins og góður fjárhirðir bjargaði Jehóva honum og styrkti hann til að hann gæti tekist á við verkefnið. (Jónas 2:8; 3:1, 2) Síðar notaði Jehóva rísínusrunna til að hjálpa Jónasi að skilja að hvert mannslíf er mikils virði. (Jónas 4:10, 11) Hvað getum við lært af þessu? Öldungar mega ekki gefast auðveldlega upp á þeim sem verða óvirkir. Þeir reyna öllu heldur að skilja hvað varð til þess að boðberi fjarlægðist söfnuðinn. Og þegar hann snýr aftur til Jehóva halda öldungarnir áfram að sýna honum ást og umhyggju.
13. Hvað getum við lært af viðbrögðum Jehóva við því sem ritari 73. sálmsins sagði?
13 Ritari 73. sálmsins varð niðurdreginn þegar hann sá hve vel hinum guðlausu virtist vegna. Hann velti fyrir sér hvort það væri þess virði að gera vilja Guðs. (Sálm. 73:12, 13, 16) Hvernig brást Jehóva við? Hann sakfelldi hann ekki heldur lét skrá orð hans í Biblíuna. Sálmaritarinn gerði sér að lokum grein fyrir að gott samband við Jehóva er meira virði en nokkuð annað og gefur lífinu gildi. (Sálm. 73:23, 24, 26, 28) Hvað getum við lært af þessu? Öldungar ættu ekki að vera fljótir að dæma þá sem fara að efast um gagnið af því að þjóna Jehóva. Í stað þess að sakfella þá þurfa þeir að reyna að skilja hvers vegna þeir tala og hegða sér eins og raun ber vitni. Þá geta þeir notað Biblíuna til að uppörva þá og hvetja.
14. Hvers vegna þurfti Elía hjálp og hvernig hjálpaði Jehóva honum?
14 Elía spámaður flúði undan Jesebel drottningu. (1. Kon. 19:1–3) Hann hélt að hann væri eini spámaður Jehóva og fannst vinna sín til einskis. Elía varð svo niðurdreginn að hann langaði að deyja. (1. Kon. 19:4, 10) Í stað þess að sakfella Elía fullvissaði Jehóva hann um að hann væri ekki einn. Elía var líka fullvissaður um að hann gæti treyst á mátt Jehóva og að það væri enn mikið verk fyrir hann að vinna. Jehóva hlustaði vingjarnlega á Elía segja frá áhyggjum sínum og gaf honum ný verkefni. (1. Kon. 19:11–16, 18) Hvað getum við lært af þessu? Við ættum öll, sérstaklega öldungarnir, að koma vingjarnlega fram við þjóna Guðs. Hvort sem einhver tjáir reiði sína eða honum finnst að Jehóva geti aldrei fyrirgefið sér ættu öldungarnir að hlusta á hann þegar hann úthellir hjarta sínu. Síðan reyna þeir að fullvissa hinn óvirka um að Jehóva elski hann.
HVERNIG ÆTTUM VIÐ AÐ LÍTA Á TÝNDA SAUÐI GUÐS?
15. Hvernig leit Jesús á sauði föður síns eins og fram kemur í Jóhannesi 6:39?
15 Hvernig vill Jehóva að við lítum á týnda sauði hans? Jesús setti okkur fordæmi. Hann vissi að allir sauðir Jehóva eru honum mikils virði. Þess vegna gerði hann sitt besta til að leita „týndra sauða af ætt Ísraels“ og hjálpa þeim að snúa aftur til Jehóva. (Matt. 15:24; Lúk. 19:9, 10) Jesús er góði hirðirinn og gerði því allt sem hann gat til að enginn af sauðum Jehóva glataðist. – Lestu Jóhannes 6:39.
16, 17. Hvað ætti öldungum að finnast um að hjálpa þeim sem hafa fjarlægst söfnuðinn? (Sjá rammann „ Hvernig óvirkum getur liðið“.)
16 Páll postuli hvatti öldungana í söfnuðinum í Efesus til að fylgja fordæmi Jesú. Hann sagði þeim „að hjálpa þeim sem eru veikburða, og hafa í huga orð Drottins Jesú en hann sagði: ,Það er ánægjulegra að gefa en þiggja.‘“ (Post. 20:17, 35) Öldungar nú á dögum bera augljóslega sérstaka ábyrgð. Salvador er öldungur á Spáni. Hann segir: „Þegar ég hugsa um hve annt Jehóva er um týnda sauði sína langar mig að gera mitt besta til að hjálpa þeim. Ég er sannfærður um að Jehóva vill að ég annist þá.“
17 Allir sem höfðu fjarlægst söfnuðinn og eru nefndir í þessari grein fengu hjálp til að snúa aftur til Jehóva. Enn eru margir sem hafa fjarlægst söfnuðinn en langar að koma til baka. Í næstu grein er rætt nánar um hvað við getum gert til að hjálpa þeim að snúa aftur til Jehóva.
SÖNGUR 139 Sjáðu sjálfan þig í nýja heiminum
^ gr. 5 Hvers vegna fjarlægjast sumir söfnuðinn sem hafa þjónað Jehóva trúfastir árum saman? Hvaða tilfinningar ber Guð til þeirra? Þessum spurningum er svarað í greininni. Einnig er rætt um hvað við getum lært af því hvernig Jehóva hjálpaði nokkrum á biblíutímanum sem hættu að þjóna honum um tíma.
^ gr. 2 ORÐASKÝRING: Óvirkur boðberi hefur ekki gefið skýrslu um þátttöku í boðuninni í sex mánuði eða lengur. Óvirkir boðberar eru samt enn bræður okkar og systur sem við elskum.
^ gr. 4 Sumum nöfnum er breytt.
^ gr. 10 Í næstu grein er rætt um hvernig öldungarnir geta farið að.