Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 26

„Snúið aftur til mín“

„Snúið aftur til mín“

„Snúið aftur til mín, þá sný ég aftur til ykkar.“ – MAL. 3:7.

SÖNGUR 102 Önnumst óstyrka

YFIRLIT *

1. Hvernig líður Jehóva þegar einhver sem þjónaði honum áður snýr aftur til hans?

EINS og við ræddum um í síðustu grein líkir Jehóva sér við góðan fjárhirði sem annast hvern og einn af sauðum sínum blíðlega. Og hann leitar að hverjum þeim sem villist frá hjörðinni. Jehóva sagði við Ísraelsmennina sem höfðu hætt að þjóna honum: „Snúið aftur til mín, þá sný ég aftur til ykkar.“ Við vitum að hann hugsar enn eins vegna þess að hann segir: „Ég, Drottinn, er ekki breyttur.“ (Mal. 3:6, 7) Jesús sagði að Jehóva og englarnir gleðjist mjög þegar aðeins einn þjóna Guðs sem hefur villst snýr aftur til hans. – Lúk. 15:10, 32.

2. Hvað skoðum við í þessari grein?

2 Skoðum þrjár dæmisögur Jesú sem beina athyglinni að því að hjálpa þeim sem hafa fjarlægst Jehóva. Við ræðum um nokkra eiginleika sem við þurfum að sýna til að hjálpa þeim að snúa aftur til hans. Og við sjáum hvers vegna það er erfiðisins virði að styðja þá sem eru veikir í trúnni.

LEITIN AÐ TÝNDU DRÖKMUNNI

3, 4. Hvers vegna leitaði konan sem talað er um í Lúkasi 15:8–10 svona vandlega að týndu drökmunni?

3 Við þurfum að leggja ýmislegt á okkur til að finna þá sem vilja snúa aftur til Jehóva. Í dæmisögu í Lúkasarguðspjalli lýsir Jesús því hvernig kona leitar að verðmætri eign sem hún týndi – drökmu. Í þessari dæmisögu er athyglinni beint að leitinni sjálfri. – Lestu Lúkas 15:8–10.

4 Jesús lýsir því hvernig konu líður þegar hún finnur dýrmæta drökmu sem hún hafði týnt. Á dögum Jesú gáfu sumar mæður í Ísrael dóttur sinni tíu drökmur á brúðkaupsdegi hennar. Kannski var drakman úr þannig gjöf. Konan gerir ráð fyrir að drakman hafi dottið á gólfið. Hún kveikir því á lampa og leitar en sér ekkert. Olíulampinn lýsir kannski ekki nóg til að hún finni þennan litla silfurpening. Að lokum sópar hún vandlega allt húsið. Og þarna í rykhrúgunni sem hún hefur sópað saman sér hún í lampaljósinu hvar glampar á drökmuna sem er henni svo verðmæt. Hvílíkur léttir! Hún kallar saman vini sína og nágranna til að segja þeim góðu fréttirnar.

5. Af hverju gæti verið erfitt að finna þá sem hafa fjarlægst söfnuðinn?

5 Eins og við sjáum af dæmisögu Jesú kostar það vinnu að finna það sem hefur týnst. Við gætum á svipaðan hátt þurft að leggja ýmislegt á okkur til að finna þá sem hafa fjarlægst söfnuðinn. Þeir gætu hafa verið óvirkir í mörg ár. Þeir gætu jafnvel hafa flust á svæði þar sem söfnuðurinn þekkir þá ekki. En við getum verið viss um að einhverja óvirka langar virkilega að snúa aftur til Jehóva. Þeir vilja þjóna Jehóva aftur með trúsystkinum sínum en þeir þurfa á hjálp okkar að halda til þess.

6. Hvernig geta allir í söfnuðinum hjálpað til við að leita að óvirkum?

6 Hverjir geta hjálpað til við að leita að óvirkum? Við getum öll hjálpað til við það – öldungar, brautryðjendur, ættingjar og boðberar. Er vinur þinn eða ættingi óvirkur? Hefurðu hitt einhvern óvirkan í boðuninni hús úr húsi eða meðal almennings? Ef hann langar til að fá heimsókn geturðu sagt honum að þú myndir glaður láta öldungana í söfnuðinum fá heimilisfang hans eða símanúmer.

7. Hvað lærðir þú af því sem öldungur að nafni Thomas sagði?

7 Öldungar bera meginábyrgð á að finna þá sem vilja snúa aftur til Jehóva. Hvernig geta þeir gert það? Taktu eftir því sem öldungur að nafni Thomas * segir. Hann býr á Spáni og hefur hjálpað meira en 40 vottum að snúa aftur til safnaðarins. Hann segir: „Ég byrja á því að spyrja bræður og systur hvort þau viti hvar óvirku einstaklingarnir eigi heima núna. Eða stundum spyr ég boðbera hvort þeir muni eftir einhverjum sem sækja ekki lengur samkomur. Flestir í söfnuðinum eru meira en fúsir til að hjálpa vegna þess að þá finnst þeim þeir eiga þátt í leitinni. Seinna þegar ég heimsæki óvirka bræður og systur spyr ég um börnin þeirra og aðra ættingja. Sumir óvirkir voru vanir að koma með börnin sín á samkomur og þau gætu hafa verið boðberar á sínum tíma. Það er einnig hægt að hjálpa þeim að snúa aftur til Jehóva.“

HJÁLPUM TÝNDUM SONUM OG DÆTRUM JEHÓVA AÐ SNÚA AFTUR

8. Hvernig kom faðirinn fram við iðrunarfullan son sinn í dæmisögunni um týnda soninn í Lúkasi 15:17–24?

8 Hvaða eiginleika þurfum við að sýna til að geta hjálpað þeim sem vilja snúa aftur til Jehóva? Skoðum hvað við getum lært af dæmisögu Jesú um týnda soninn. (Lestu Lúkas 15:17–24.) Jesús lýsir því hvernig sonurinn kom loks til sjálfs sín og ákvað að snúa aftur heim. Faðirinn hljóp á móti syni sínum og faðmaði hann innilega til að sýna honum hversu heitt hann elskaði hann. Sonurinn hafði slæma samvisku og fannst hann ekki eiga skilið að vera kallaður sonur. Faðirinn fann til með syni sínum sem úthellti hjarta sínu fyrir honum. Hann gerði síðan ýmislegt til að fullvissa son sinn um að hann væri velkominn heim, ekki sem vinnumaður heldur sem mikils metinn sonur. Hann hélt veislu og gaf iðrunarfullum syni sínum glæsileg föt.

9. Hvaða eiginleika þurfum við að sýna til að hjálpa óvirkum að snúa aftur til Jehóva? (Sjá rammann „ Hvernig getum við hjálpað þeim sem vilja snúa aftur?“)

9 Jehóva er eins og faðirinn í þessari dæmisögu. Hann elskar óvirka bræður okkar og systur og vill að þau snúi aftur til sín. Við getum hjálpað þeim að snúa aftur með því að líkja eftir Jehóva. Við þurfum að sýna þolinmæði, samúð og kærleika. Af hverju eigum við að sýna þessa eiginleika og hvernig getum við gert það?

10. Hvaða hlutverki gegnir þolinmæði í að hjálpa einhverjum að eignast aftur gott samband við Jehóva?

10 Við þurfum að sýna þolinmæði vegna þess að það tekur tíma fyrir fólk að eignast aftur gott samband við Jehóva. Margir sem voru einu sinni óvirkir viðurkenna að þeir byrjuðu ekki að þjóna Jehóva aftur fyrr en öldungarnir og aðrir í söfnuðinum höfðu heimsótt þá oft. Systir sem heitir Nancy og er frá Suðaustur-Asíu segir: „Náin vinkona í söfnuðinum hjálpaði mér mikið. Hún elskaði mig eins og eldri systir. Hún minnti mig á góðu stundirnar sem við áttum saman áður. Hún hlustaði þolinmóð þegar ég sagði henni hvernig mér leið og hún var ekki feimin við að gefa mér ráð. Hún reyndist sannur vinur og var tilbúin að hjálpa hvenær sem var.“

11. Hvers vegna þurfum við að sýna samúð til að hjálpa einhverjum sem er særður?

11 Samúð er eins og áhrifamikið smyrsl. Hún getur haft græðandi áhrif á særðar tilfinningar. Sumir óvirkir móðguðust við einhvern í söfnuðinum fyrir mörgum árum og eru enn þá sárir og reiðir. Þessar tilfinningar hafa komið í veg fyrir að þá langi að snúa aftur. Sumum finnst kannski að komið hafi verið fram við sig af ósanngirni. Þeir gætu þurft á einhverjum að halda sem hlustar á þá og skilur tilfinningar þeirra. (Jak. 1:19) María var óvirk um tíma en hún segir: „Ég þurfti einhvern sem myndi hlusta á mig, hughreysta mig, hjálpa mér og gefa mér góð ráð.“

12. Hvernig dregur kærleikur Jehóva óvirka aftur til safnaðarins? Lýstu með dæmi.

12 Í Biblíunni er kærleika Jehóva til þjóna sinna lýst sem böndum, eða reipi. Á hvaða hátt er kærleikur Guðs eins og reipi? Lýsum því með dæmi: Ímyndaðu þér að þú sért við það að drukkna í ólgusjó og að einhver hendi til þín björgunarvesti. Þú ert vissulega þakklátur vegna þess að vestið hjálpar þér að halda þér á floti. En björgunarvesti dugar ekki til að halda þér á lífi. Sjórinn er kaldur og þú lifir ekki af nema þú komist í björgunarbát. Það þarf einhver að henda til þín reipi og draga þig að björgunarbátnum. Jehóva sagði um Ísraelsmennina sem höfðu hætt að þjóna honum: „Ég dró þá að mér með böndum eins og menn nota, með taugum kærleikans.“ (Hós. 11:4) Guð lítur eins á þá sem hafa hætt að þjóna honum nú á dögum og eru að drukkna í vandamálum og áhyggjum. Hann vill að þeir viti að hann elskar þá og vill draga þá til sín. Og Jehóva getur notað þig til að tjá kærleika sinn til þeirra.

13. Segðu frá reynslu sem sýnir mátt bróðurkærleikans.

13 Það er mikilvægt að fullvissa óvirka um að Jehóva elski þá og að við elskum þá líka. Pablo, sem minnst var á í síðustu grein, var óvirkur í meira en 30 ár. Hann segir: „Einn morgun þegar ég var á leiðinni út heima hitti ég elskulega eldri systur sem talaði vingjarnlega við mig. Ég byrjaði að gráta eins og lítið barn. Ég sagði henni að Jehóva hlyti að hafa sent hana til að tala við mig. Það var þá sem ég ákvað að snúa aftur til Jehóva.“

STYÐJUM ÓSTYRKA AF KÆRLEIKA

14. Hvað gerði fjárhirðirinn þegar hann fann týnda sauðinn samkvæmt líkingunni í Lúkasi 15:4, 5?

14 Óvirkir þurfa markvissan stuðning okkar. Þeir gætu verið með tilfinningaleg ör eins og týndi sonurinn í dæmisögu Jesú. Og þeir eru líklega veikir í trúnni vegna þess sem þeir hafa upplifað í heimi Satans. Við verðum að hjálpa þeim að styrkja trúna á Jehóva. Í líkingunni um týnda sauðinn lýsir Jesús því hvernig fjárhirðirinn leggur sauðinn á herðar sér og fer með hann aftur til hjarðarinnar. Fjárhirðirinn er nú þegar búinn að nota tíma og orku í að finna sauðinn. En hann gerir sér grein fyrir að hann þarf að halda á sauðnum til hjarðarinnar vegna þess að hann hefur ekki styrk til að snúa aftur sjálfur. – Lestu Lúkas 15:4, 5.

15. Hvernig getum við stutt óstyrka sem vilja snúa aftur til Jehóva? (Sjá rammann „ Ómetanlegt hjálpargagn“.)

15 Við gætum þurft að nota mikinn tíma og orku í að hjálpa óvirkum að sigrast á veikleikum sínum. En við getum hjálpað þeim að verða andlega sterkir aftur með hjálp anda Jehóva, orði hans og ritum safnaðarins. (Rómv. 15:1) Hvernig getum við farið að? Einn reyndur öldungur segir: „Flestir óvirkir þurfa á biblíunámskeiði að halda þegar þeir hafa ákveðið að þá langar í einlægni að snúa aftur til Jehóva.“ * Ef þú ert beðinn um að aðstoða óvirkan við biblíunám ættirðu að taka fúslega við verkefninu ef þú hefur tök á því. Öldungurinn bætir við: „Boðberinn sem sér um námið ætti að vera góður vinur sem sá óvirki getur treyst og talað opinskátt við.“

GLEÐI BÆÐI Á HIMNI OG JÖRÐ

16. Hvers vegna getum við treyst því að englarnir hjálpi okkur?

16 Mörg dæmi sýna að englarnir vinna með okkur og hjálpa okkur að finna óvirka sem þrá að snúa aftur til Jehóva. (Opinb. 14:6) Silvio frá Ekvador bað til dæmis innilega til Jehóva um hjálp til að snúa aftur til safnaðarins. Hann var enn að biðja þegar dyrabjallan hringdi. Tveir öldungar stóðu við dyrnar. Þeir voru fúsir til að byrja að hjálpa honum strax í þeirri heimsókn.

17. Hvernig líður okkur þegar við hjálpum þeim sem eru veikir í trúnni?

17 Það veitir okkur mikla gleði að hjálpa þeim sem eru veikir í trúnni að snúa aftur til Jehóva. Salvador er brautryðjandi sem leggur sig sérstaklega fram við að hjálpa óvirkum. Hann segir: „Stundum á ég erfitt með að halda aftur af gleðitárum. Ég gleðst svo þegar ég sé að Jehóva hefur bjargað dýrmætum sauði sínum frá heimi Satans og að ég hef mátt eiga þátt í því.“ – Post. 20:35.

18. Hvað máttu vera viss um ef þú ert óvirkur?

18 Þú mátt vera viss um að Jehóva elskar þig enn þó að þú hafir fjarlægst söfnuðinn. Hann vill að þú snúir aftur til sín. Þú þarft að leggja eitthvað á þig til að snúa aftur til hans. En eins og faðirinn í dæmisögu Jesú bíður Jehóva eftir að þú snúir aftur og hann mun taka vel á móti þér.

SÖNGUR 103 Hirðarnir eru gjafir frá Guði

^ gr. 5 Jehóva vill að þeir sem hafa fjarlægst söfnuðinn snúi aftur til sín. Hann býður þeim: „Snúið aftur til mín.“ Við getum gert margt til að hvetja þá sem vilja taka við boðinu. Í þessari grein er rætt um hvernig við getum hjálpað þeim að snúa aftur.

^ gr. 7 Sumum nöfnum er breytt.

^ gr. 15 Hægt væri að hjálpa sumum óvirkum með því að fara yfir hluta bókarinnar „Látið kærleika Guðs varðveita ykkur“. Aðrir hafa haft gagn af að rifja upp nokkra kafla úr bókinni Nálægðu þig Jehóva. Starfsnefnd safnaðarins ákveður hver sé best til þess fallinn að sjá um slíkt nám.

^ gr. 68 MYND: Þrír bræður hjálpa bróður sem langar að snúa aftur. Þeir gera það með því að halda sambandi við hann, fullvissa hann um að hann sé elskaður og sýna honum skilning þegar hann tjáir sig.